„Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna“
1. Hvers vegna er mikilvægt að framkoma okkar sé til fyrirmyndar á næsta umdæmismóti?
1 Á hverju ári vekjum við athygli almennings þegar við sækjum umdæmismót. Þess vegna er mikilvægt að með framkomu okkar séum við til fyrirmyndar og séum góðir fulltrúar þess Guðs sem við tilbiðjum. (3. Mós. 20:26) Góð framkoma ásamt snyrtilegum klæðnaði og útliti ætti að sýna að við erum sannir fylgjendur Krists. Hvernig getum við ,hegðað okkur vel meðal þjóðanna‘ á næsta umdæmis- eða alþjóðamóti og þannig verið Guði til sóma? – 1. Pét. 2:12.
2. Hvaða tækifæri fáum við á mótinu til að sýna kristilega eiginleika?
2 Sýnið kristilega eiginleika: Kærleikurinn, sem við sýnum hvert öðru og framkoma okkar við þá „sem fyrir utan eru“, er gerólík því sem almennt tíðkast í heiminum. (Kól. 3:10; 4:5; 2. Tím. 3:1-5) Við ættum að vera vingjarnleg og þolinmóð við starfsfólk á hótelum og veitingastöðum, sérstaklega ef vandamál koma upp.
3. Hvað eru foreldrar minntir á og hvers vegna?
3 Foreldrar ættu að hafa gott eftirlit með börnum sínum á mótsstaðnum, á veitingahúsum og þar sem fjölskyldan gistir. (Orðskv. 29:15) Yfirmanneskja á veitingastað á hóteli sagði við hjón sem eru vottar: „Við erum svo ánægð með ykkur. Fjölskyldur ykkar eru svo kurteisar og börnin svo vel upp alin. Allt starfsfólkið er sammála um að það væri frábært að hafa vottana hér um hverja helgi.“
4. Hvers vegna ættum við að gefa gaum að útliti okkar og klæðaburði þar sem mótið er haldið?
4 Snyrtilegur og siðlegur klæðnaður: Klæðnaður okkar á mótinu ætti að vera viðeigandi og siðlegur en ekki endurspegla þær tískuöfgar sem eru algengar í heiminum. (1. Tím. 2:9) Við ættum ekki að vera of hversdagsleg eða ósnyrtileg þegar við innritum okkur á hótel eða skráum okkur út og ekki heldur í frítíma fyrir og eftir mótsdagskrá. Þá getum við stolt borið barmmerki mótsins og þurfum ekki að fara hjá okkur þegar tækifæri gefst til að segja öðrum frá trú okkar. Snyrtilegt útlit og góð framkoma okkar á umdæmismótinu 2014 á bæði eftir að laða hjartahreint fólk að lífgandi boðskap Biblíunnar og gleðja Jehóva. – Sef. 3:17.