Árangursrík biblíunámskeið
8. hluti: Að leiða biblíunemandann til safnaðarins
1. Hvers vegna er gagnlegt að segja frá einhverju um söfnuð Jehóva í hverri námsstund?
1 Markmiðið með biblíunámskeiðum er ekki aðeins að veita fræðilegar upplýsingar heldur einnig að leiða nemandann til kristna safnaðarins. (Sak. 8:23) Þar kemur bæklingurinn Vottar Jehóva — Hverjir eru þeir? Hverju trúa þeir? að góðu gagni. Láttu nýja biblíunemendur hafa bæklinginn og hvettu þá til að lesa hann. Auk þess skaltu taka þér fáeinar mínútur í hverri námsstund til að segja frá einhverju um söfnuð Jehóva.
2. Hvernig getur þú hvatt biblíunemendur til að koma á samkomur?
2 Safnaðarsamkomur: Biblíunemendur læra fyrst og fremst að meta söfnuð Guðs með því að sækja samkomur. (1. Kor. 14:24, 25) Þú gætir því byrjað á að kynna samkomurnar fyrir nemandanum með því að lýsa öllum fimm samkomum vikunnar. Taktu fyrir eina í einu. Láttu hann vita hvað næsti opinberi fyrirlestur heitir. Sýndu honum bóknámsefnið og þá grein sem farið verður yfir í Varðturnsnáminu. Lýstu Boðunarskólanum og þjónustusamkomunni. Þegar þér er falið verkefni í skólanum gætirðu kannski æft það með honum. Segðu honum frá athyglisverðum upplýsingum sem komu fram á samkomunum. Notaðu myndir í ritum okkar svo að hann geti séð fyrir sér hvernig þær fara fram. Bjóddu honum á samkomu strax í fyrstu biblíunámsstund.
3. Um hvað gætum við rætt í sambandi við söfnuðinn?
3 Þegar kemur að minningarhátíð, móti eða farandhirðisheimsókn skaltu taka þér nokkrar mínútur til að tala um þessa viðburði og vekja áhuga fyrir þeim. Veittu smátt og smátt svör við spurningum eins og: Hvers vegna erum við kölluð vottar Jehóva? Hvers vegna köllum við samkomuhús okkar ríkissali? Hvaða skyldur hafa öldungar og safnaðarþjónar? Hvernig er starfssvæðið og boðunarstarfið skipulagt? Hvernig eru ritin framleidd? Hvernig er starfsemi okkar fjármögnuð? Með hvaða umsjón fer hið stjórnandi ráð og deildarskrifstofurnar?
4, 5. Hvernig geta myndböndin frætt fólk um söfnuðinn?
4 Fróðleg myndbönd: Myndböndin geta líka frætt biblíunemendur um söfnuð Jehóva. Myndbönd eins og To the Ends of the Earth, Our Whole Association of Brothers og United by Divine Teaching geta gefið þeim góða mynd af einingu okkar, bræðrafélagi og boðunarstarfi. Kona, sem hafði þegið blöðin og önnur rit okkar í fimm ár, táraðist þegar hún horfði á myndbandið Jehovah’s Witnesses — The Organization Behind the Name. Hún var farin að treysta vottunum sem heimsóttu hana en eftir að hafa horft á myndbandið fannst henni hún líka geta treyst öllum söfnuðinum. Biblíunámskeið var hafið hjá henni og viku seinna sótti hún samkomur í ríkissalnum.
5 Með því að taka frá nokkrar mínútur í hverri viku með biblíunemendum okkar og nota þau verkfæri sem við höfum getum við stig af stigi leitt þá til þess safnaðar sem Jehóva notar nú á tímum.