Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 48 bls. 251-bls. 254 gr. 2
  • Rökræddu við fólk

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Rökræddu við fólk
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Líktu eftir kennaranum mikla
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Ræktið með ykkur sanngirni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Líkjum eftir Jehóva og verum sanngjörn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Að beita spurningum
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 48 bls. 251-bls. 254 gr. 2

Námskafli 48

Rökræddu við fólk

Hvað þarftu að gera?

Notaðu ritningarstaði, líkingar og spurningar til að rökstyðja mál þitt og hvetja fólk til að hlusta og hugleiða röksemdir þínar.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Ef þú virkar kreddufastur og einstrengingslegur er hætta á að fólk taki ekki mark á þér. Með því að rökræða við fólk hveturðu til umræðna og hugleiðinga og stuðlar að því að hægt sé að halda umræðunum áfram síðar. Þessi aðferð getur verið mjög sannfærandi.

ORÐ GUÐS hefur breytt mörgu í lífi okkar. Við erum þakklát fyrir það og viljum gjarnan að aðrir njóti góðs af því líka. Og okkur er fullljóst að viðbrögð fólks við fagnaðarerindinu hafa áhrif á framtíðarhorfur þess. (Matt. 7:13, 14; Jóh. 12:48) Helst viljum við að fólk taki við sannleikanum. En til að hafa sem jákvæðust áhrif þurfum við að beita sannfæringu okkar og kostgæfni skynsamlega.

Það er hætt við því að viðbrögðin verði heldur neikvæð ef við afhjúpum umbúðalaust ranga trúarskoðun sem öðrum er kær, og gildir þá einu þótt við styðjum sannleikann með langri runu af ritningarstöðum. Það er óvíst að okkur takist að breyta afstöðu annarra til vinsælla hátíða með því að fordæma þær einfaldlega á þeirri forsendu að þær séu af heiðnum uppruna. Oftast skilar það betri árangri að vera sanngjarn og rökræða málið í rólegheitum. Hvað er sanngirni?

Biblían segir að ‚viskan að ofan sé friðsöm og sanngjörn.‘ (Jak. 3:17, NW) Gríska orðið, sem þýtt er ‚sanngjarn,‘ merkir bókstaflega ‚eftirgefanlegur.‘ Í sumum biblíuþýðingum er það þýtt ‚ljúflyndur,‘ ‚sannsýnn‘ eða ‚hóglátur.‘ Við tökum eftir að sanngirni er nátengd friðsemi. Títusarbréfið 3:2 nefnir hana samhliða hógværð og sem hliðstæðu þess að vera ódeilugjarn. Filippíbréfið 4:5 hvetur okkur til að vera kunn af „sanngirni.“ (NW) Sanngjarn maður tekur tillit til uppruna, aðstæðna og tilfinninga viðmælanda síns. Hann er tilbúinn til að láta undan þegar það á við. Slíkt viðmót stuðlar að því að fólk taki okkur með opnum huga og sé jákvætt þegar við rökræðum við það með hjálp Biblíunnar.

Hvar áttu að byrja? Söguritarinn Lúkas segir frá því að í Þessaloníku hafi Páll postuli ‚lagt út af ritningunum, lokið þeim upp fyrir fólki og sett því fyrir sjónir að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum.‘ (Post. 17:2, 3) Athygli vekur að Páll gerði þetta í samkunduhúsi Gyðinga. Áheyrendur hans litu á Hebresku ritningarnar sem áreiðanlega heimild og það var vel við hæfi að byrja á heimild sem þeir viðurkenndu.

Þegar Páll ræddi við Grikki á Areopagusarhæð byrjaði hann ekki á því að vitna í Ritninguna heldur talaði um hluti sem Grikkir þekktu og viðurkenndu, og notaði það síðan til að leiða talið að skaparanum og vilja hans. — Post. 17:22-31.

Milljarðar manna líta ekki á Biblíuna sem leiðarvísi í lífinu. Hins vegar finna nálega allir fyrir harðneskjulegum veruleika þess heimskerfis sem við búum í. Fólk þráir betri heim. Þú getur byrjað á því að sýna skilning á áhyggjum þess og síðan bent á hvernig Biblían varpar ljósi á ástandið. Þannig geturðu ef til vill fengið fólk til að hlusta á það sem Biblían segir um vilja Guðs með mannkynið.

Vera má að biblíunemandi hafi fengið ákveðnar trúarhugmyndir og trúarsiði í arf frá foreldrum sínum. Nú uppgötvar hann að hugmyndirnar og siðirnir eru ekki Guði að skapi svo að hann hafnar þeim og tileinkar sér það sem Biblían kennir. Hvernig á hann að skýra þessa ákvörðun fyrir foreldrum sínum? Þeim gæti fundist hann vera að hafna sér þegar hann hafnar trúararfinum sem þau gáfu honum. Biblíunemandinn telur sig því kannski þurfa að fullvissa foreldrana um ást sína og virðingu áður en hann reynir að skýra þeim frá biblíulegum forsendum ákvörðunar sinnar.

Hvenær á maður að láta undan? Jehóva er einstaklega sanngjarn og tillitssamur enda þótt hann hafi ótakmarkað vald til að skipa öðrum fyrir. Þegar englar Jehóva björguðu Lot og fjölskyldu hans frá Sódómu hvöttu þeir: „Forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi.“ En Lot bað Jehóva: „Æ nei, herra!“ og bað um að mega flýja til Sóar. Jehóva sýndi Lot þá tillitssemi að leyfa þetta þannig að Sóar var þyrmt þegar hinum borgunum var eytt. En seinna gerði Lot eins og Jehóva sagði honum í upphafi og fluttist til fjalla. (1. Mós. 19:17-30) Jehóva vissi auðvitað hvað væri rétt að gera en var þolinmóður og tillitssamur uns Lot áttaði sig á því.

Við þurfum líka að vera umburðarlynd til að eiga góð samskipti við aðra. Við erum kannski sannfærð um að hinn hafi rangt fyrir sér og lumum á sterkum rökum til að sanna það. En stundum er best að láta kyrrt liggja að sinni. Við erum ekki að sniðganga meginreglur Jehóva þó að við sýnum sanngirni. Ef til vill er best að þakka viðmælandanum fyrir að segja hug sinn eða láta það vera að andmæla honum þótt hann hafi rangt fyrir sér, til að geta beint samræðunum inn á jákvæðari brautir sem eru vænlegri til árangurs. Og það er ástæðulaust að bregðast ókvæða við þó að hann fordæmi trú þína. Þú gætir spurt hann hvers vegna hann sé þessarar skoðunar. Hlustaðu síðan vel á svarið. Þannig færðu innsýn í hugsunarhátt hans og býrð kannski í haginn fyrir uppbyggjandi samræður síðar. — Orðskv. 16:23; 19:11.

Jehóva gaf mönnunum hæfileika og frelsi til að velja, þó svo að þeir noti valfrelsið stundum óskynsamlega. Sem talsmaður Guðs gerði Jósúa grein fyrir samskiptum hans við Ísrael. Síðan sagði hann: „En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“ (Jós. 24:15) Það er verkefni okkar núna að ‚vitna‘ fyrir fólki og við gerum það með sannfæringarkrafti en við reynum ekki að þvinga fólk til að trúa. (Matt. 24:14) Hver og einn verður að velja sjálfur og við virðum þann rétt.

Spyrðu spurninga. Jesús rökræddi við fólk af mikilli snilld. Hann tók tillit til uppruna þess og brá upp líkingum sem það átti auðvelt með að skilja. Og hann var leikinn í að beita spurningum. Þannig fékk fólk tækifæri til að segja skoðun sína og opinberaði um leið hvað bjó í hjörtum þess. Og það var mönnum hvatning til að hugleiða það sem var til umræðu.

Lögfróður maður spurði Jesú einu sinni: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús hefði hæglega getað svarað spurningunni en gerði það ekki heldur hvatti manninn til að segja álit sitt: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ spurði hann. Maðurinn svaraði rétt. En var samtalinu þá lokið? Nei, Jesús lét manninn halda áfram og þá spurði hann sjálfur spurningar sem gaf til kynna að hann væri að reyna að réttlæta sjálfan sig. „Hver er þá náungi minn?“ spurði hann. Í stað þess að koma með skilgreiningu, sem maðurinn hefði getað véfengt sökum þess hvernig Gyðingar litu á heiðna menn og Samverja, sagði Jesús dæmisögu sem bauð manninum upp á að rökhugsa málið. Dæmisagan sagði frá umhyggjusömum Samverja sem hjálpaði ferðamanni er hafði verið rændur og honum misþyrmt. Prestur og levíti gengu hins vegar fram hjá án þess að liðsinna manninum. Jesús spurði síðan einfaldrar spurningar til að fullvissa sig um að lögfróði maðurinn hefði skilið inntak dæmisögunnar. Með rökfærslu sinni gaf Jesús manninum algerlega nýja sýn á merkingu hugtaksins „náungi.“ (Lúk. 10:25-37) Þetta er prýðisdæmi til eftirbreytni. Í stað þess að tala aðallega sjálfur, og hálfpartinn hugsa fyrir viðmælanda þinn, skaltu læra að beita spurningum og líkingum sem hvetja hann til að hugsa.

Tilgreindu rök og ástæður. Páll gerði meira en að lesa upp úr heimild sem áheyrendur viðurkenndu þegar hann talaði í samkunduhúsinu í Þessaloníku. Lúkas tekur fram að Páll hafi útskýrt, sannað og heimfært það sem hann las, með þeim árangri að „nokkrir þeirra létu sannfærast og gengu til fylgis við Pál og Sílas.“ — Post. 17:1-4, NW.

Hverjir sem áheyrendurnir eru getur verið mjög til góðs að rökræða við þá með þessum hætti, til dæmis þegar þú vitnar fyrir ættingjum, talar við vinnufélaga, skólafélaga eða ókunnuga, og þegar þú boðar trúna meðal almennings, kennir í heimahúsi eða flytur ræðu í söfnuðinum. Þú lest ritningarstað sem þú skilur sjálfur en einhver annar skilur ekki. Þú kemur með skýringu en hún getur hljómað eins og kreddukennd fullyrðing. Væri þá til bóta að útskýra valin orð í versinu? Gætirðu komið með stuðningsrök, til dæmis út frá samhenginu eða öðrum ritningarstað sem fjallar um sama efni? Gætirðu komið með líkingu til að skýra rökin? Gætu spurningar hjálpað áheyrendum að rökhugsa málið? Með því að rökræða við áheyrendur hefurðu jákvæð áhrif á þá og gefur þeim ýmislegt um að hugsa.

ÞANNIG FERÐU AÐ

  • Hafðu hliðsjón af uppruna og viðhorfum áheyrenda þegar þú ákveður hvernig þú hefur mál þitt.

  • Mótmæltu ekki í hvert sinn sem viðmælandinn hefur rangt fyrir sér.

  • Talaðu með sannfæringu en mundu að öðrum er frjálst að velja hverju þeir trúa, ekki síður en þér.

  • Í stað þess að svara öllum spurningum tafarlaust gætirðu varpað fram annarri spurningu eða brugðið upp líkingu til að hjálpa viðmælandanum að rökhugsa.

  • Vendu þig á að rökræða um ritningarstað með því að útskýra aðalorð, benda á hvernig samhengið eða aðrar ritningargreinar varpa ljósi á merkinguna eða með því að taka dæmi til að sýna fram á hvernig ber að skilja hann.

ÆFINGAR: (1) Veltu fyrir þér hvernig þér tókst til eftir að hafa vitnað fyrir skoðanaföstum manni. Hvaða rök komstu með? Hvaða líkingar notaðir þú? Hvaða spurninga spurðir þú? Hvernig tókstu tillit til uppruna hans eða tilfinninga? Ef þér tekst ekki að finna heppilegt dæmi úr boðunarstarfinu skaltu æfa þig með öðrum boðbera. (2) Æfðu hvernig þú myndir rökræða við einhvern (kunningja eða barn) sem ætlar að gera eitthvað rangt.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila