„Andinn rannsakar . . . djúp Guðs“
„Andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.“ — 1. KOR. 2:10, Biblían 1981.
1. Á hvaða hlutverk heilags anda bendir Páll í 1. Korintubréfi 2:10 og hvaða spurningar vakna?
VIÐ megum vera innilega þakklát fyrir það sem Jehóva gerir með heilögum anda sínum. Í Biblíunni er andinn kallaður hjálpari og gjöf, og talað um að hann vitni og biðji fyrir okkur. (Jóh. 14:16; Post. 2:38; Rómv. 8:16, 26, 27) Páll postuli benti á annað mikilvægt hlutverk heilags anda og sagði: „Andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.“ (1. Kor. 2:10, Biblían 1981) Jehóva beitir heilögum anda sínum til að opinbera djúpstæð andleg sannindi. Ekki væri skilningur okkar á fyrirætlun Jehóva burðugur ef heilagur andi hjálpaði okkur ekki. (Lestu 1. Korintubréf 2:9-12.) En ýmsar spurningar vakna, til dæmis: Hvernig ,rannsakar andinn djúp Guðs‘? Hverja notaði Jehóva til að opinbera þessi djúpu sannindi á fyrstu öld? Hvernig rannsakar andinn djúp sannindi á okkar tímum og hverjir eru notaðir til þess?
2. Með hvaða tvennum hætti átti andinn að starfa?
2 Jesús gaf til kynna að andinn myndi starfa með tvennum hætti. Skömmu áður en hann dó sagði hann við postulana: „Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður.“ (Jóh. 14:26) Heilagur andi átti því bæði að kenna kristnum mönnum og hjálpa þeim að muna. Annars vegar myndi hann hjálpa þeim að skilja hluti sem þeir skildu ekki áður. Hins vegar myndi hann hjálpa þeim að muna og heimfæra rétt það sem þeir höfðu heyrt áður.
Á fyrstu öld
3. Hvernig gaf Jesús til kynna að „djúp Guðs“ yrðu opinberuð smám saman?
3 Jesús kenndi lærisveinunum mörg sannindi sem voru þeim ný. En þeir áttu margt ólært. Jesús sagði við postulana: „Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann.“ (Jóh. 16:12, 13) Jesús benti þannig á að djúpstæð andleg sannindi yrðu opinberuð smám saman fyrir atbeina heilags anda.
4. Hvernig kenndi heilagur andi lærisveinunum á hvítasunnu árið 33 og hjálpaði þeim að muna?
4 „Andi sannleikans“ kom á hvítasunnu árið 33 þegar honum var úthellt yfir hér um bil 120 lærisveina Jesú sem voru saman komnir í Jerúsalem. Fólk bæði sá og heyrði að þetta hafði gerst því að lærisveinarnir töluðu á mörgum tungumálum um „stórmerki Guðs“. (Post. 1:4, 5, 15; 2:1-11) Nú var komið að nýrri opinberun. Jóel spámaður hafði sagt fyrir að heilögum anda yrði úthellt. (Jóel 3:1-5) Áhorfendur sáu þennan spádóm uppfyllast en með öðrum hætti en þeir höfðu búist við, og Pétur postuli skýrði fyrir þeim hvað væri að gerast. (Lestu Postulasöguna 2:14-18.) Heilagur andi birtist þarna sem kennari með því að skýra fyrir Pétri að það sem var að gerast hjá lærisveinunum væri uppfylling þessa forna spádóms. Heilagur andi minnti Pétur líka á önnur sannindi því að hann vitnaði ekki aðeins í Jóel heldur líka tvo af sálmum Davíðs. (Sálm. 16:8-11; 110:1; Post. 2:25-28, 34, 35) Það sem mannfjöldinn sá og heyrði voru sannarlega djúpstæð sannindi Guðs.
5, 6. (a) Hvaða alvarlegu spurningum um nýja sáttmálann þurfti að svara eftir hvítasunnu árið 33? (b) Hverjir tóku þessi mál til skoðunar og hvernig komust þeir að niðurstöðu?
5 En kristnir menn á fyrstu öld þurftu eftir sem áður að fá skýringar á mörgu. Til dæmis höfðu þeir ýmsar spurningar um nýja sáttmálann sem hafði tekið gildi á hvítasunnu. Náði hann aðeins til Gyðinga og þeirra sem höfðu tekið gyðingatrú? Gat fólk af þjóðunum líka fengið aðild að honum og hlotið smurningu heilags anda? (Post. 10:45) Þurftu karlar af þjóðunum fyrst að umskerast og gangast undir Móselögin? (Post. 15:1, 5) Þetta voru alvarlegar spurningar. Kristnir menn þurftu anda Jehóva til að rannsaka þessi djúpstæðu sannindi. En meðal hvaða hóps átti hann að starfa?
6 Það voru bræður í ábyrgðarstöðum sem tóku þessi mál til athugunar. Pétur, Páll og Barnabas voru viðstaddir þennan fund hins stjórnandi ráðs og greindu frá því hvernig Jehóva hefði beint athygli sinni að óumskornum heiðingjum. (Post. 15:7-12) Eftir að hafa hugleitt þessar vísbendingar með hliðsjón af ábendingum í Hebresku ritningunum tók hið stjórnandi ráð ákvörðun með hjálp heilags anda. Síðan kynnti ráðið úrskurð sinn bréflega fyrir söfnuðunum. — Lestu Postulasöguna 15:25-30; 16:4, 5; Ef. 3:5, 6.
7. Hvernig voru djúpstæð sannindi opinberuð?
7 Mörg önnur mál voru skýrð í innblásnum ritum Jóhannesar, Péturs, Jakobs og Páls. En einhvern tíma eftir að búið var að skrifa hin kristnu rit liðu undir lok náðargáfur eins og spádómsgáfa og það að fá þekkingu með undraverðum hætti. (1. Kor. 13:8) Myndi andinn halda áfram að kenna kristnum mönnum og minna þá á fyrri þekkingu? Myndi hann halda áfram að hjálpa þeim að rannsaka djúp Guðs? Spádómarnir gáfu til kynna að svo yrði.
Á endalokatímanum
8, 9. Hverjir áttu að vera vitrir og „skína“ á endalokatímanum?
8 Engill sagði í spádómi um tíma endalokanna: „Hinir vitru munu skína eins og björt himinhvelfing og þeir sem beina mörgum til réttlætis verða sem stjörnur um aldur og ævi . . . Menn munu leita víða og skilningur þeirra mun aukast.“ (Dan. 12:3, 4) Hverjir eru hinir vitru og hverjir áttu að skína? Jesús gaf vísbendingu um það í dæmisögunni um hveitið og illgresið. Hann sagði um ,endi veraldar‘: „Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól í ríki föður þeirra.“ (Matt. 13:39, 43) Jesús skýrði dæmisöguna og sagði að „þau sem hlýtt hafa Guði“ væru „börn ríkisins“, það er að segja andasmurðir kristnir menn. — Matt. 13:38.
9 Áttu allir andasmurðir kristnir menn að „skína“? Já, í vissum skilningi vegna þess að þeir myndu allir taka þátt í að boða trúna, gera fólk að lærisveinum og uppbyggja hvert annað á samkomum. Hinir andasmurðu yrðu til fyrirmyndar í því. (Sak. 8:23) En auk þessa átti að opinbera djúp sannindi á endalokatímanum. Spádómurinn, sem Daníel skrásetti, yrði ,innsiglaður‘ þangað til. (Dan. 12:9) Hvernig myndi andinn rannsaka þessi djúpu sannindi og fyrir atbeina hverra?
10. (a) Fyrir atbeina hverra birtir andinn djúpstæð sannindi á síðustu dögum? (b) Hvernig skýrðist ýmislegt varðandi hið mikla andlega musteri Jehóva?
10 Þegar tímabært er að skýra andleg efni á okkar dögum hjálpar heilagur andi fulltrúum ,hins trúa og hyggna þjóns‘ við aðalstöðvarnar að koma auga á djúpstæð sannindi sem menn skildu ekki áður. (Matt. 24:45; 1. Kor. 2:13) Hið stjórnandi ráð í heild hugleiðir nýju skýringarnar. (Post. 15:6) Þeir birta síðan það sem þeir uppgötva svo að allir njóti góðs af. (Matt. 10:27) Með tímanum getur þurft að skýra málin enn betur, og þá eru hreinlega birtar nýjar skýringar. — Sjá rammagreinina „Andinn opinberar hvað andlega musterið er“.
Njótum góðs af starfsemi heilags anda
11. Hvernig njóta allir kristnir menn góðs af því að heilagur andi opinberar djúp Guðs?
11 Allir trúir kristnir menn njóta góðs af því hvernig heilagur andi hjálpar þeim að opinbera djúp Guðs. Rétt eins og frumkristnir menn kynnum við okkur biblíutengd málefni sem heilagur andi hjálpar okkur síðan að skilja, muna og heimfæra. (Lúk. 12:11, 12) Við þurfum ekki að vera langskólagengin til að skilja þau djúpu andlegu sannindi sem birt hafa verið. (Post. 4:13) Hvað getum við gert til að skilja djúp Guðs enn betur? Lítum á nokkrar tillögur.
12. Hvenær ættum við að biðja um heilagan anda?
12 Biðjum um heilagan anda. Þegar við ætlum að fara að skoða eitthvert biblíulegt málefni ættum við að byrja á því að biðja um leiðsögn heilags anda. Það á líka við þó að við séum ein eða höfum lítinn tíma. Við gleðjum hjarta föðurins á himnum með auðmjúkri bæn af þessu tagi. Eins og Jesús sagði gefur Jehóva þeim fúslega heilagan anda sem biðja um hann í einlægni. — Lúk. 11:13.
13, 14. Hvernig getum við skilið djúp Guðs betur með því að búa okkur undir samkomur?
13 Búum okkur undir samkomur. Við fáum „mat á réttum tíma“ frá hinum trúa og hyggna þjóni. Hann gerir hlutverki sínu skil með því að láta í té biblíulegt námsefni og skipuleggja námsáætlanir og samkomur. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að biðja „samfélag þeirra sem trúa“ um að fara yfir ákveðið efni. (1. Pét. 2:17; Kól. 4:16; Júd. 3) Við vinnum með heilögum anda ef við leggjum okkur fram um að fara eftir tilmælum hins trúa og hyggna þjóns. — Opinb. 2:29.
14 Þegar við búum okkur undir safnaðarsamkomur ættum við að fletta upp ritningarstöðum sem vísað er til og reyna að glöggva okkur á því hvernig þeir tengjast námsefninu. Þannig fáum við smám saman dýpri skilning á Biblíunni. (Post. 17:11, 12) Ef við flettum þeim upp getur heilagur andi hjálpað okkur að muna eftir þeim síðar. Og ef við sjáum textann í Biblíunni sköpum við sjónræn áhrif sem geta auðveldað okkur að finna textann þegar við þurfum á honum að halda.
15. Af hverju ættum við að vera dugleg að lesa útgefið efni og hvernig er hægt að finna tíma til þess?
15 Verum dugleg að lesa. Það er ekki farið yfir allt útgefið efni á samkomum en það er engu að síður samið okkur til gagns. Blöðin, sem við bjóðum almenningi, eru líka samin með okkur í huga. Í öllu annríkinu, sem er í heiminum, þurfum við stundum að bíða eftir einhverju eða einhverjum. Ef við höfum meðferðis rit sem við erum ekki búin að lesa getum við ef til vill gripið niður í það meðan við bíðum. Sumir hlusta á hljóðupptökur af ritunum meðan þeir eru á gangi eða ferðast með farartæki. Allt þetta efni, sem er skrifað með venjulega lesendur í huga, er unnið af mikilli vandvirkni og getur stuðlað að því að við fáum meiri mætur á andlegum málum. — Hab. 2:2.
16. Af hverju er gott að punkta hjá sér spurningar sem koma upp í hugann og leita svara við þeim?
16 Hugleiddu. Gefðu þér tíma til að hugsa um efnið þegar þú lest í Biblíunni eða biblíutengdum ritum. Vera má að spurningar vakni þegar þú fylgir efnisþræðinum. Þú gætir punktað spurningarnar hjá þér og leitað svara við þeim síðar. Við köfum oft dýpst í efnið þegar við leitum svara við spurningum sem vekja forvitni okkar. Sá skilningur, sem við fáum, verður hluti af forðabúrinu sem við getum síðan leitað í eftir þörfum. — Matt. 13:52.
17. Hvernig hagar þú fjölskyldunáminu eða sjálfsnámi þínu?
17 Taktu frá tíma til fjölskyldunáms. Hið stjórnandi ráð hefur hvatt okkur öll til að taka frá eitt kvöld eða einhvern annan tíma í hverri viku til sjálfsnáms eða fjölskyldunáms. Breytingin á samkomum vikunnar auðveldar okkur að gera það. Hvað farið þið yfir í fjölskyldunáminu? Sumir lesa í Biblíunni, rannsaka einstök vers eftir því sem spurningar vakna og skrifa stuttar skýringar í biblíuna sína. Margar fjölskyldur ræða saman hvernig þær geti notfært sér námsefnið. Sumir, sem veita fjölskyldu forstöðu, velja efni sem þeir telja að fjölskyldan þurfi að fara yfir eða efni sem fjölskyldan hefur beðið um að fá að ræða. Þér dettur vafalaust í hug sitthvað fleira eftir því sem fram líða stundir.a
18. Af hverju ættum við ekki að veigra okkur við að rannsaka hin dýpri sannindi Biblíunnar?
18 Jesús sagði að andinn yrði eins og hjálpari. Við ættum því ekki að veigra okkur við að rannsaka hin dýpri sannindi Biblíunnar. Þau tilheyra hinni dýrmætu ,þekkingu á Guði‘ og við erum hvött til að leita þeirra. (Lestu Orðskviðina 2:1-5.) Þau segja okkur margt um það sem „Guð fyrirbjó þeim, er elska hann“. Þegar við leggjum okkur fram við að kynnast orði Jehóva betur hjálpar heilagur andi okkur því að „andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs“. — 1. Kor. 2:9, 10.
[Neðanmáls]
a Sjá einnig Ríkisþjónustu okkar, október 2008, bls. 8.
Hvert er svarið?
• Á hvaða tvo vegu hjálpar andinn okkur að rannsaka „djúp Guðs“?
• Hvaða hópur var notaður til að opinbera djúp sannindi á fyrstu öld?
• Hvernig skýrast mál nú á dögum fyrir atbeina heilags anda?
• Hvað geturðu gert til að hafa gagn af starfsemi heilags anda?
[Rammi á bls. 22]
Andinn opinberar hvað andlega musterið er
Meðal þeirra djúpu sanninda Guðs, sem voru opinberuð á fyrstu öld, var að tjaldbúðin og síðar musterin táknuðu stórfenglegan andlegan veruleika. Páll kallaði þennan veruleika hina „sönnu tjaldbúð sem Drottinn reisti en eigi maður“. (Hebr. 8:2) Þetta var mikið andlegt musteri, leið til að nálgast Guð byggð á fórn og prestdómi Jesú Krists.
,Hin sanna tjaldbúð‘ varð til árið 29 þegar Jesús var skírður og Jehóva samþykkti að hann ætti að vera fullkomin fórn. (Hebr. 10:5-10) Eftir að Jesús var dáinn og upprisinn gekk hann inn í hið allra helgasta í andlega musterinu og bar fram andvirði fórnar sinnar „fyrir augliti Guðs“. — Hebr. 9:11, 12, 24.
Annars staðar talar Páll postuli um að andasmurðir kristnir menn myndu verða „heilagt musteri í Drottni“. (Ef. 2:20-22) Var þetta sama musterið og ,hin sanna tjaldbúð‘ sem hann lýsti síðar í Hebreabréfinu? Áratugum saman héldu þjónar Jehóva að svo væri. Þeim virtist sem verið væri að búa hina andasmurðu undir að vera „steinar“ í himnesku musteri Jehóva. — 1. Pét. 2:5.
Um 1971 höfðu bræður í ábyrgðarstöðum innan þjónshópsins hins vegar vaknað til vitundar um að musterið, sem Páll talar um í Efesusbréfinu, gat ekki verið hið mikla andlega musteri Jehóva. Ef ,hin sanna tjaldbúð‘ væri gerð úr hinum andsmurðu þegar þeir væru upprisnir yrði hún ekki til fyrr en þeir byrjuðu að rísa upp „við komu Drottins“. (1. Þess. 4:15-17) Páll skrifaði hins vegar um tjaldbúðina: „Hún er ímynd þess tíma sem nú er.“ — Hebr. 9:9.
Með því að bera saman þessa ritningarstaði og fleiri varð ljóst að andlega musterið er ekki í byggingu og að hinir andasmurðu eru ekki „steinar“ sem verið er að móta á jörðinni til að nota við bygginguna. Hinir andasmurðu þjóna öllu heldur í forgarði andlega musterisins og í hinu heilaga og færa Guði daglega „lofgjörðarfórn“. — Hebr. 13:15.
[Mynd á bls. 23]
Hvernig getum við skilið „djúp Guðs“ betur?