Hvernig koma vottar Jehóva fram við þá sem hafa áður tilheyrt söfnuðinum?
Við reynum að koma vel fram við alla og sýna þeim kærleika og virðingu. Ef einhver stundar ekki trúna eins og áður eða hættir því alveg höfum við samband við hann, sýnum hve annt okkur er um hann og reynum að hjálpa honum að styrkja samband sitt við Guð á ný. – Lúkas 15:4–7.
Í sumum tilfellum gerir einstaklingurinn eitthvað sem getur orðið til þess að honum sé vísað úr söfnuðinum. (1. Korintubréf 5:13) En okkur þykir mjög vænt um trúsystkini okkar og reynum því að hjálpa viðkomandi svo að ekki þurfi að koma til þess. Ef honum er samt vísað úr söfnuðinum sýnum við honum kærleika og virðingu eins og Biblían hvetur til. – Markús 12:31; 1. Pétursbréf 2:17.
Hvað veldur því að einstaklingi er vísað úr söfnuðinum?
Í Biblíunni er skýrt tekið fram að ef kristinn maður drýgir alvarlega synd og vill ekki breyta hegðun sinni á að vísa honum úr söfnuðinum.a (1. Korintubréf 5:11–13) Biblían skilgreinir hvaða syndir teljast það alvarlegar að einstaklingi gæti verið vísað úr söfnuðinum fyrir þær. Meðal þessara synda eru framhjáhald, ofdrykkja, morð, þjófnaður og ofbeldi gegn maka eða börnum. – 1. Korintubréf 6:9, 10; Galatabréfið 5:19–21; 1. Tímóteusarbréf 1:9, 10.
Þeim sem hefur gerst sekur um alvarlega synd er þó ekki vísað úr söfnuðinum tafarlaust. Safnaðaröldungarb reyna fyrst að hjálpa honum að snúa við blaðinu. (Rómverjabréfið 2:4) Þeir eru góðviljaðir og reyna mildilega að höfða til hans. (Galatabréfið 6:1) Þeir vonast til að hann átti sig á alvöru málsins og iðrist. (2. Tímóteusarbréf 2:24–26) En ef hann leggur það í vana sinn að brjóta gegn siðferðisreglum Biblíunnar og iðrast þess ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að hjálpa honum er honum vísað úr söfnuðinum. Öldungarnir tilkynna þá söfnuðinum einfaldlega að hann sé ekki lengur vottur Jehóva.
Öldungar eru góðviljaðir og reyna mildilega að höfða til þess sem hefur syndgað alvarlega.
Hvað ávinnst með því að vísa þeim úr söfnuðinum sem syndga og vilja ekki breyta sér? Í fyrsta lagi hlýtur söfnuðurinn vernd gegn slæmum áhrifum einstaklingsins og getur haldið sig við siðferðisreglur Guðs. (1. Korintubréf 5:6; 15:33; 1. Pétursbréf 1:16) Í öðru lagi gæti hinn brotlegi fundið hjá sér hvöt til að hætta rangri hegðun sinni og reynt að bæta sig. – Hebreabréfið 12:11.
Hvernig koma vottar Jehóva fram við þá sem hefur verið vísað úr söfnuðinum?
Í Biblíunni segir að kristnir menn eigi að „hætta að umgangast“ þá sem hefur verið vísað úr söfnuðinum og „ekki einu sinni borða með slíkum manni“. (1. Korintubréf 5:11) Við umgöngumst því ekki þá sem eru ekki lengur í söfnuðinum. Við sniðgöngum þá samt ekki með öllu. Við sýnum þeim virðingu. Einstaklingnum er velkomið að sækja samkomur okkar og þar myndu sumir trúlega vilja heilsa honum.c Hann getur líka beðið öldungana um aðstoð til að snúa aftur til safnaðarins.
Þeim sem hefur verið vísað úr söfnuðinum er velkomið að sækja samkomur okkar.
Hvað gerist þá ef einhverjum er vísað úr söfnuðinum en makinn og börnin á heimilinu eru áfram vottar Jehóva? Þó að þau tilbiðji ekki Jehóva saman lengur rofna fjölskylduböndin ekki. Þau búa áfram undir sama þaki og elska hvert annað og eðlilegt fjölskyldulíf gengur sinn vanagang.
Sá sem vísað hefur verið úr söfnuðinum getur beðið um að öldungarnir heimsæki sig. Þeir geta þá bent honum á góð ráð í Biblíunni og hvatt hann hlýlega til að iðrast og snúa aftur til Guðs. (Sakaría 1:3) Ef hann hættir röngu líferni sínu og sýnir að hann vill lifa eftir siðferðisreglum Biblíunnar er honum velkomið að tilheyra söfnuðinum á ný. Söfnuðurinn ‚fyrirgefur honum þá fúslega og hughreystir hann‘, rétt eins og kristnir menn í Korintu gerðu þegar slíkur einstaklingur breytti líferni sínu. – 2. Korintubréf 2:6–8.
Hvernig líður þeim sem hafa snúið aftur til safnaðarins?
Lítum á hvað nokkrir vottar Jehóva segja sem vísað var úr söfnuðinum en ákváðu síðar að snúa aftur til Guðs.
„Þegar ég ákvað að snúa aftur til safnaðarins hélt ég að öldungarnir myndu spyrja mig út í allt sem ég hafði gert þá áratugi sem ég var í burtu. En þeir sögðu einfaldlega: ‚Við viljum að þú einbeitir þér að því sem er fram undan.‘ Mér létti svo mikið.“ – Maria, Bandaríkjunum.
„Fólkið í söfnuðinum hafði hlakkað til þess að ég kæmi til baka. Mér fannst ég vera einhvers virði. Bræður og systur hjálpuðu mér að finna að mér hafði verið fyrirgefið og gæti horft fram á veginn. Öldungarnir voru til staðar fyrir mig og hjálpuðu mér að styrkja tengslin við Jehóva. Þeir hughreystu mig og sýndu mér fram á að ég væri enn verðmætur í augum Jehóva og að hann elskaði mig.“ – Malcom, Síerra Leóne.
„Ég er ánægð með að Jehóva elskar þjóna sína svo mikið að hann sér til þess að söfnuðurinn haldist hreinn. Utanaðkomandi finnst það kannski harðneskjulegt en það er nauðsynlegt og í rauninni kærleiksríkt. Ég er þakklát fyrir að himneskur faðir okkar skuli vera svona kærleiksríkur og fús til að fyrirgefa.“ – Sandi, Bandaríkjunum.
a Við tölum ekki um brottrekstur. Í samræmi við orðalag Biblíunnar tölum við um að vísa úr söfnuðinum.
b Öldungar eru reyndir kristnir menn sem veita biblíufræðslu og annast þjóna Jehóva með því að aðstoða þá og hvetja. Þeir fá ekki greitt fyrir störf sín. – 1. Pétursbréf 5:1–3.
c Í sjaldgæfum tilfellum kemur fyrir að einstaklingur segir skilið við söfnuðinn og vinnur síðan meðvitað gegn honum eða ýtir gagngert undir ranga hegðun. Þegar svo er fylgjum við fyrirmælum Biblíunnar um að ‚heilsa honum ekki‘. – 2. Jóhannesarbréf 9–11.