Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 júní bls. 8-13
  • Lærum af spádómi á dánarbeði – seinni hluti

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Lærum af spádómi á dánarbeði – seinni hluti
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • SEBÚLON
  • ÍSSAKAR
  • DAN
  • GAÐ
  • ASSER
  • NAFTALÍ
  • JÓSEF
  • BENJAMÍN
  • Lærum af spádómi á dánarbeði – fyrri hluti
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Jakob og Esaú verða aftur vinir
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • Mundu að Jehóva er „lifandi Guð“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 júní bls. 8-13

NÁMSGREIN 25

SÖNGUR 96 Bók Guðs er fjársjóður

Lærum af spádómi á dánarbeði – seinni hluti

„Hann blessaði hvern og einn þeirra með þeirri blessun sem honum bar.“ – 1. MÓS. 49:28.

Í HNOTSKURN

Við skoðum það sem við getum lært af spádómi Jakobs á dánarbeðinu varðandi átta af sonum hans.

1. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

SYNIR Jakobs söfnuðust í kringum hann og hlustuðu af athygli á það sem hann sagði við hvern og einn þeirra. Eins og rætt var í námsgreininni á undan vakti það sem hann sagði við Rúben, Símeon, Leví og Júda áhuga þeirra og jafnvel undrun. Þeir hafa því eflaust beðið fullir eftirvæntingar eftir að heyra hvað hann segði við hina syni sína. Skoðum hvað við getum lært af því sem hann sagði við Sebúlon, Íssakar, Dan, Gað, Asser, Naftalí, Jósef og Benjamín.a

SEBÚLON

2. Hvað sagði Jakob við Sebúlon og hvernig rættust orð hans? (1. Mósebók 49:13) (Sjá einnig ramma.)

2 Lestu 1. Mósebók 49:13. Jakob segir fyrir að afkomendur Sebúlons muni búa við sjávarsíðuna, í norðurhluta fyrirheitna landsins. Sebúlonítar fengu í hendur land meira en 200 árum síðar en það lá á milli Galíleuvatns og Miðjarðarhafsins. Móse sagði í spádómi: „Gleðstu, Sebúlon, þegar þú ferð út.“ (5. Mós. 33:18) Þetta gæti hafa verið vísun í að Sebúlon hefði greiðan aðgang að verslun og viðskiptum vegna staðsetningar sinnar. Hver svo sem ástæðan var höfðu afkomendur Sebúlons ástæðu til að vera glaðir.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Sebúlon.

Sonur

Sebúlon

Spádómur

„Sebúlon mun búa við sjávarsíðuna … ystu mörk hans snúa að Sídon.“ – 1. Mós. 49:13.

Uppfylling

Sebúlon settist að í norðri milli Galíleuvatns og Miðjarðarhafsins. – Jós. 19:10–16.

3. Hvað getur hjálpað okkur að vera ánægð með það sem við höfum?

3 Hvað lærum við? Við höfum ástæðu til að vera ánægð hvar sem við búum og hverjar sem aðstæður okkar eru. Við þurfum að vera sátt við það sem við höfum svo að við getum verið ánægð. (Sálm. 16:6; 24:5) Stundum er auðveldara að hugsa um það sem við höfum ekki heldur en það góða sem við höfum. Reyndu að horfa á það jákvæða hverjar sem aðstæður þínar eru. – Gal. 6:4.

ÍSSAKAR

4. Hvað sagði Jakob við Íssakar og hvernig rættust orð hans? (1. Mósebók 49:14, 15) (Sjá einnig ramma.)

4 Lestu 1. Mósebók 49:14, 15. Jakob hrósar Íssakar fyrir vinnusemi og líkir honum við sterkt burðardýr. Hann segir einnig að Íssakar fái gott land. Í samræmi við orð Jakobs var afkomendum hans úthlutað frjósömu landi við ána Jórdan sem gaf vel af sér. (Jós. 19:22) Þeir unnu vafalaust hörðum höndum að því að rækta landið en þeir kappkostuðu líka að koma öðrum til hjálpar. (1. Kon. 4:7, 17) Ættkvísl Íssakars lagði til dæmis sitt af mörkum þegar þjóðin átti í stríði við óvinaþjóðir, eins og á tímum Baraks dómara og spákonunnar Debóru. – Dóm. 5:15.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Íssakar.

Sonur

Íssakar

Spádómur

„Hann beygir herðar sínar undir byrðina.“ – 1. Mós. 49:14, 15.

Uppfylling

Íssakar vann hörðum höndum í þágu þjóðarinnar. – Dóm. 5:15; 1. Kon. 4:1, 7, 17.

5. Hvers vegna ættum við að vera vinnusöm?

5 Hvað lærum við? Jehóva kann að meta það þegar við leggjum hart að okkur í þjónustu hans, alveg eins og hann kunni að meta vinnusemi ættkvíslar Íssakars. (Préd. 2:24) Hugsaðu til dæmis um bræðurna sem leggja hart að sér til að annast söfnuðinn. (1. Tím. 3:1) Þeir þurfa ekki að berjast bókstaflega en þeir kappkosta að vernda þjóna Guðs gegn því sem getur skaðað samband þeirra við Jehóva. (1. Kor. 5:1, 5; Júd. 17–23) Þeir leggja líka mikið á sig við að undirbúa og flytja uppörvandi ræður sem styrkja söfnuðinn. – 1. Tím. 5:17.

DAN

6. Hvaða verkefni fékk ættkvísl Dans? (1. Mósebók 49:17, 18) (Sjá einnig ramma.)

6 Lestu 1. Mósebók 49:17, 18. Jakob líkir Dan við höggorm sem ræðst á sér langtum stærra dýr eins og stríðshest. Dan myndi reynast óvinum Ísraels hættulegur. Á ferð Ísraelsmanna til fyrirheitna landsins verndaði ættkvísl Dans þá með því að vera „bakvarðasveit“. (4. Mós. 10:25) Þetta var mikilvægt hlutverk þótt hinir af þjóðinni gætu ekki fylgst með öllu sem Danítar gerðu.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Dan.

Sonur

Dan

Spádómur

„Dan … bítur hestinn í hælinn.“ – 1. Mós. 49:16–18.

Uppfylling

Dan var „bakvarðasveit“ á leiðinni til fyrirheitna landsins. – 4. Mós. 10:25.

7. Hvernig ættum við að líta á öll verkefni sem við fáum í þjónustu Jehóva?

7 Hvað lærum við? Hefur þú einhvern tíma unnið verkefni sem aðrir virtust ekki taka eftir? Þú hefur kannski hjálpað til við þrif eða viðhald á ríkissalnum, tekið þátt í að undirbúa mót eða sinnt öðru verkefni. Þá áttu hrós skilið. Gleymdu ekki að Jehóva tekur eftir og kann að meta allt sem þú gerir fyrir hann. Hann kann sérstaklega að meta að þú þjónir honum af því að þú elskar hann innilega en ekki til að fá hrós frá öðrum. – Matt. 6:1–4.

GAÐ

8. Hvers vegna var Gað berskjaldaður fyrir árásum í fyrirheitna landinu? (1. Mósebók 49:19) (Sjá einnig ramma.)

8 Lestu 1. Mósebók 49:19. Jakob sagði fyrir að ræningjar myndu ráðast á Gað. Meira en tveim öldum síðar hafði ættkvísl Gaðs til umráða land austan Jórdanar sem lá að landamærum óvinaþjóða. Þetta gerði ættkvíslina berskjaldaða fyrir árásum. Gaðítar kusu samt að dvelja þar því að þetta var gott beitiland fyrir búfé þeirra. (4. Mós. 32:1, 5) Gaðítar voru augljóslega hugrakkir en þeir treystu fyrst og fremst að Jehóva myndi hjálpa þeim að verja fyrir ræningjum landið sem hann hafði gefið þeim. Svo árum skipti sendu þeir jafnvel hersveitir sínar burt til að aðstoða hinar ættkvíslirnar við að sigra það sem eftir var af fyrirheitna landinu vestan Jórdanar. (4. Mós. 32:16–19) Þeir treystu því að Jehóva myndi vernda eiginkonur þeirra og börn meðan mennirnir voru fjarverandi. Jehóva blessaði þá fyrir hugrekki þeirra og fórnfýsi. – Jós. 22:1–4.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Gað.

Sonur

Gað

Spádómur

„Ræningjar ráðast á Gað.“ – 1. Mós. 49:19.

Uppfylling

Gað bjó austur af Jórdan á svæði sem var berskjaldað fyrir árásum. – Jós. 13:24–28.

9. Hvernig notum við líf okkar ef við treystum Jehóva?

9 Hvað lærum við? Til að halda áfram að þjóna Jehóva þegar erfiðleikar verða á vegi okkar verðum við að treysta honum. (Sálm. 37:3) Margir nú á dögum sýna að þeir treysta Jehóva með því að færa fórnir til að styðja byggingarverkefni á vegum safnaðarins, starfa þar sem er meiri þörf á boðberum eða sinna öðrum verkefnum. Þeir gera það í trausti þess að Jehóva muni alltaf annast þarfir þeirra. – Sálm. 23:1.

ASSER

10. Hvað vanrækti kynkvísl Assers? (1. Mósebók 49:20) (Sjá einnig ramma.)

10 Lestu 1. Mósebók 49:20. Jakob sagði fyrir að ættkvísl Assers yrði vel efnuð og það rættist. Ættkvísl Assers fékk eitt frjósamasta erfðalandið í Ísrael. (5. Mós. 33:24) Hin auðuga hafnarborg Sídon í Fönikíu var hluti af landinu og það lá auk þess að Miðjarðarhafinu. En ættkvísl Assers hrakti ekki Kanverjana burt úr landinu. (Dóm. 1:31, 32) Ef til vill voru það slæm áhrif Kanverja auk velmegunar ættkvíslarinnar sem varð til þess að tilbeiðslan á Jehóva fór að skipta Asser minna máli. Asser bauð ekki fram hjálp þegar Barak dómari kallaði eftir sjálfboðaliðum til að berjast gegn bandalagi Kanverja. Fyrir vikið missti ættkvíslin af að sjá þann stórkostlega sigur sem Jehóva veitti þeim „hjá Megiddóvötnum“. (Dóm. 5:19–21) Það hlýtur að hafa verið vandræðalegt fyrir ættkvísl Assers að heyra innblásinn sigursöng Baraks og Debóru: „Asser sat iðjulaus við sjávarströndina.“ – Dóm. 5:17.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Asser.

Sonur

Asser

Spádómur

„Asser mun veita ríkulega fæðu.“ – 1. Mós. 49:20.

Uppfylling

Asser naut hagsældar í fyrirheitna landinu. – 5. Mós. 33:24.

11. Hvers vegna þurfum við að hafa rétt viðhorf til efnislegra hluta?

11 Hvað lærum við? Við viljum gefa Jehóva okkar besta. Til að gera það verðum við að hafna viðhorfi heimsins til efnislegra hluta og þæginda. (Orðskv. 18:11) Við kappkostum að hafa rétt viðhorf til peninga. (Préd. 7:12; Hebr. 13:5) Við látum ekki eftirsókn eftir efnislegum hlutum trufla okkur í þjónustu okkar við Guð. Þess í stað reynum við að gefa Jehóva okkar besta, bæði af tíma okkar og kröftum, vitandi að okkar bíður dásamlegt líf í framtíðinni. – Sálm. 4:8.

NAFTALÍ

12. Hvernig rættust orð Jakobs til Naftalí ef til vill? (1. Mósebók 49:21) (Sjá einnig ramma.)

12 Lestu 1. Mósebók 49:21. Þegar Jakob talar um „fögur orð“ getur það vel átt við um kennslu Jesú þegar hann þjónaði á jörð. Jesús var þekktur fyrir áhrifaríka kennslu og gerði Kapernaúm í Naftalí að ‚borg sinni‘. (Matt. 4:13; 9:1; Jóh. 7:46) Og Jesaja spáði því að íbúar Sebúlons og Naftalí myndu sjá „mikið ljós“. (Jes. 9:1, 2) Jesús var með kennslu sinni „hið sanna ljós, sem lýsir alls kyns fólki“. – Jóh. 1:9.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Naftalí.

Sonur

Naftalí

Spádómur

„Hann talar fögur orð.“ – 1. Mós. 49:21.

Uppfylling

Jesús varði miklum tíma þjónustu sinnar á svæði Naftalí. – Matt. 4:13; 9:1.

13. Hvernig getum við gengið úr skugga um að tal okkar sé Guði að skapi?

13 Hvað lærum við? Það skiptir Jehóva máli hvað við segjum og hvernig við segjum það. Hvernig getum við talað „fögur orð“ sem gleðja Jehóva? Við tölum sannleika. (Sálm. 15:1, 2) Við getum verið uppbyggjandi í tali með því að vera fljót til að hrósa en sein til að gagnrýna eða kvarta. (Ef. 4:29) Og við getum sett okkur það markmið að verða leiknari í að hefja samræður sem gætu orðið til þess að við segðum frá fagnaðarboðskapnum.

JÓSEF

14. Hvernig rættist spádómurinn um Jósef? (1. Mósebók 49:22, 26) (Sjá einnig ramma.)

14 Lestu 1. Mósebók 49:22, 26. Jakob hlýtur að hafa verið mjög stoltur af Jósef – hann var „valinn úr hópi bræðra sinna“. Jakob kallaði hann „grein á frjósömu tré“. Jakob sjálfur var tréð og Jósef var grein á því. Jósef var frumburður Rakelar, eiginkonunnar sem Jakob elskaði. Hann sagði að Jósef myndi fá tvöfaldan erfðahlut sem Rúben, frumburður Leu eiginkonu Jakobs, hafði fyrirgert. (1. Mós. 48:5, 6; 1. Kron. 5:1, 2) Þetta uppfylltist þegar tveir synir Jósefs, Efraím og Manasse, urðu að tveim ættkvíslum í Ísrael og fengu hvor sitt landið. – 1. Mós. 49:25; Jós. 14:4.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Jósef.

Sonur

Jósef

Spádómur

Blessunin mun „dvelja yfir höfði … hans sem er valinn úr hópi bræðra sinna.“ – 1. Mós. 49:22–26.

Uppfylling

Jósef fékk frumburðarréttinn og tvær ættkvíslir komu af tveim sonum hans. – Jós. 14:4; 1. Kron. 5:1, 2.

15. Hvernig brást Jósef við óréttlæti?

15 Jakob talar líka um bogaskyttur sem „skutu að [Jósef] og hötuðust við hann“. (1. Mós. 49:23) Þetta voru bræður hans sem höfðu eitt sinn verið öfundsjúkir út í hann og báru ábyrgð á margs konar óréttlæti sem hann varð fyrir. En Jósef varð ekki bitur í garð bræðra sinna eða Jehóva. Eða eins og Jakob orðaði það: „Samt var bogi [Jósefs] stöðugur og hendur hans sterkar og fimar.“ (1. Mós. 49:24) Jósef setti traust sitt á Jehóva í prófraunum sínum og hann fyrirgaf ekki bara bræðrum sínum heldur sýndi þeim líka góðvild. (1. Mós. 47:11, 12) Jósef leyfði prófraununum að gera sig að betri manni. (Sálm. 105:17–19) Fyrir vikið gat Jehóva notað hann til að gera mikla hluti.

16. Hvernig getum við líkt eftir Jósef þegar við verðum fyrir prófraunum?

16 Hvað lærum við? Látum prófraunir aldrei verða til þess að við fjarlægjumst Jehóva eða trúsystkini okkar. Gleymum ekki að Jehóva leyfir ef til vill að trú okkar sé reynd til að veita okkur þjálfun. (Hebr. 12:7) Þessi þjálfun getur hjálpað okkur að þroska með okkur og fínpússa kristna eiginleika eins og miskunnsemi og fúsleika til að fyrirgefa. (Hebr. 12:11) Jehóva mun launa okkur þolgæðið rétt eins og hann launaði Jósef.

BENJAMÍN

17. Hvernig rættist spádómurinn um Benjamín? (1. Mósebók 49:27) (Sjá einnig ramma.)

17 Lestu 1. Mósebók 49:27. Jakob spáði því að Benjamínítar yrðu eins og úlfar og miklir bardagamenn. (Dóm. 20:15, 16; 1. Kron. 12:2) Það var „að morgni“ í sögu Ísraels sem ættkvísl Benjamíns sá fyrir fyrsta konunginum, Sál. Hann reyndist hugrakkur hermaður í stríði gegn Filisteum. (1. Sam. 9:15–17, 21) „Að kvöldi“ í sögu konunganna björguðu Ester drottning og Mordekaí forsætisráðherra Ísraelsmönnum frá því að vera útrýmt af hendi persneska heimsveldisins, en þau voru bæði Benjamínítar. – Est. 2:5–7; 8:3; 10:3.

Spádómur Jakobs á dánarbeðinu

Benjamín.

Sonur

Benjamín

Spádómur

„Að morgni étur hann bráðina og að kvöldi skiptir hann herfangi.“ – 1. Mós. 49:27.

Uppfylling

Sál var fyrsti konungurinn í Ísrael. (1. Sam. 9:15–17) Síðar björguðu Ester og Mordekaí þjóð Jehóva. – Est. 2:5–7; 8:3; 10:3.

18. Hvernig getum við líkt eftir hollustu Benjamíns?

18 Hvað lærum við? Benjamínítar voru eflaust stoltir að sjá einn af þeim verða konung og uppfylla þannig spádóminn. En síðar studdu Benjamínítar ákvörðun Jehóva þegar hann gerði Davíð af ættkvísl Júda að konungi. (2. Sam. 3:17–19) Áratugum síðar þegar aðrar ættkvíslir gerðu uppreisn stóðu Benjamínítar trúfastir með Júda og smurðum konungi Jehóva. (1. Kon. 11:31, 32; 12:19, 21) Sýnum sömuleiðis Guði hollustu og styðjum þá sem hann hefur valið til að fara með forystu í söfnuði sínum nú á dögum. – 1. Þess. 5:12.

19. Hvað getum við lært af spádómi Jakobs á dánarbeðinu?

19 Spádómur Jakobs á dánarbeðinu á líka erindi til okkar. Þegar við ígrundum hvernig hann uppfylltist styrkir það trú okkar á spádómsorð Jehóva. Og þegar við íhugum hvernig synir Jakobs fengu blessun áttum við okkur betur á því hvernig við getum glatt Jehóva.

HVAÐ HEFURÐU LÆRT AF ÞVÍ SEM JAKOB SAGÐI VIÐ …

  • Sebúlon, Íssakar og Dan?

  • Gað, Asser og Naftalí?

  • Jósef og Benjamín?

SÖNGUR 128 Verum þolgóð allt til enda

a Jakob blessaði fjóra fyrstu syni sína í aldursröð og byrjaði á þeim elsta. En hann gerði það ekki þegar hann blessaði þá átta sem eftir voru.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila