NÁMSGREIN 30
SÖNGUR 97 Lífið er háð orði Guðs
Höldum áfram að læra af grundvallarkenningum Biblíunnar
‚Ég ætla mér að minna ykkur stöðugt á þetta þó að þið vitið það og hafið góða fótfestu í sannleikanum.‘ – 2. PÉT. 1:12.
Í HNOTSKURN
Við skoðum hvernig við getum enn haft gagn af grundvallarkenningum Biblíunnar sem við lærðum þegar við kynntumst sannleikanum.
1. Hvaða áhrif höfðu kenningar Biblíunnar á þig þegar þú kynntist sannleikanum?
GRUNDVALLARKENNINGAR Biblíunnar hafa breytt lífi okkar. Þegar við lærðum að Guð heitir Jehóva var það fyrsta skrefið í áttina að vináttu við hann. (Jes. 42:8) Þegar við fengum að vita hvert eðli dauðans er þurftum við ekki lengur að velta því fyrir okkur hvort dánir ástvinir okkar þjáist. (Préd. 9:10) Og þegar við kynntumst loforði Guðs um paradís á jörð höfðum við ekki lengur áhyggjur af framtíðinni. Við vorum sannfærð um að líf okkar myndi ekki vara aðeins 70 eða 80 ár heldur að eilífu. – Sálm. 37:29; 90:10.
2. Hvernig bendir 2. Pétursbréf 1:12, 13 á að jafnvel þroskaðir kristnir menn þurfa að halda áfram að hugleiða grundvallarkenningar Biblíunnar?
2 Við megum aldrei taka grundvallarkenningar Biblíunnar sem sjálfsagðan hlut. Pétur postuli skrifaði síðara bréf sitt til kristinna manna sem höfðu „góða fótfestu í sannleikanum“. (Lestu 2. Pétursbréf 1:12, 13.) En nú var hætta á ferðum í söfnuðinum. Þar var að finna falskennara og óguðlegt fólk. (2. Pét. 2:1–3) Pétur vildi styrkja bræður og systur til að hjálpa þeim að varast lygar þessa fólks. Til að gera það rifjaði hann upp sumar af þeim kenningum sem þau höfðu þegar lært. Þær gætu hjálpað þeim að vera trúföst allt til enda.
3. Lýstu með dæmi hvers vegna allir þjónar Jehóva ættu að ígrunda biblíusannindi sem þeir lærðu í upphafi.
3 Við getum dýpkað skilning okkar á grundvallarkenningum Biblíunnar þótt við höfum þjónað Jehóva um langan tíma. Tökum dæmi: Fær kokkur og sá sem er nýbyrjaður að læra nota kannski sömu hráefnin við matargerð. En sá reynslumeiri hefur með tímanum lært að fá sem mest út úr hráefnunum og matreiða þau á nýjan og spennandi máta. Á svipaðan hátt er hugsanlegt að þeir sem hafa þjónað Jehóva um langan tíma og þeir sem er nýfarnir að kynna sér Biblíuna horfi á grundvallarkenningar Biblíunnar frá ólíku sjónarhorni. Aðstæður okkar eða verkefni í þjónustu Jehóva hafa trúlega breyst frá því að við létum skírast. Þegar við hugsum um biblíusannindi sem við lærðum áður fyrr sjáum við kannski eitthvað nýtt sem á við aðstæður okkar núna. Skoðum hvað þroskaðir kristnir einstaklingar geta lært af þrem grundvallarkenningum Biblíunnar.
JEHÓVA ER SKAPARINN
4. Hvaða áhrif hefur það haft á okkur að læra að Jehóva er skaparinn?
4 „Guð er sá sem hefur gert allt.“ (Hebr. 3:4) Við vitum að plánetan okkar og lífið á henni er verk alviturs og almáttugs skapara. Hann bjó okkur til og þekkir okkur út og inn. Og það sem meira er, honum er innilega annt um okkur. Hann veit hvað okkur er fyrir bestu. Að vita að Jehóva er skaparinn hefur gjörbreytt lífi okkar og gefið því tilgang.
5. Hvaða sannindi geta auðveldað okkur að tileinka okkur auðmýkt? (Jesaja 45:9–12)
5 Sú vitneskja að Jehóva er skaparinn getur líka kennt okkur að vera auðmjúk. Um tíma lét Job í ljós rangt viðhorf til Jehóva. Hann gleymdi hvað skipti mestu máli og varð of upptekinn af sjálfum sér og að sanna að hann hefði rétt fyrir sér. En Jehóva minnti hann á hver væri hinn almáttugi skapari. (Job. 38:1–4) Þetta hjálpaði Job að skilja að allt sem Jehóva gerir er réttmætt. Jesaja spámaður skrifaði síðar: „Á leirinn að segja við leirkerasmiðinn: ‚Hvað ertu að gera?‘“ – Lestu Jesaja 45:9–12.
6. Hvenær er sérstaklega mikilvægt að hugsa um hversu vitur og máttugur skapari okkar er? (Sjá einnig myndir.)
6 Þegar þjónn Jehóva fær reynslu gæti hann farið að reiða sig of mikið á eigin skoðanir í stað þess að leita leiðsagnar hjá Jehóva og í orði hans. (Job. 37:23, 24) Hvernig hjálpar það honum að hugleiða vandlega visku og mátt skapara síns, Jehóva? (Jes. 40:22; 55:8, 9) Þessi grundvallarsannindi munu hjálpa honum að halda áfram að vera auðmjúkur og sjá eigin hugmyndir í réttu ljósi.
Hvað getur hjálpað okkur að muna að okkar hugmyndir eru ekki betri en skoðanir Jehóva? (Sjá 6. grein.)d
7. Hvað gerði Rahela til að sætta sig við nýjar leiðbeiningar?
7 Rahela býr í Slóveníu. Að hugsa um skapara sinn hefur hjálpað henni að sætta sig við breyttar áherslur í söfnuðinum. Hún viðurkennir: „Stundum hefur verið erfitt fyrir mig að sætta mig við ákvarðanir þeirra sem fara með forystuna. Jafnvel eftir að ég horfði á Skilaboð frá stjórnandi ráði nr. 8 2023 var ég hneyksluð að sjá bræður með skegg flytja ræðu. Ég bað því til Jehóva um hjálp til að aðlagast þessum breytingum.“ Rahela áttaði sig á að skapari himins og jarðar, Jehóva, er fullfær um að leiða söfnuð sinn í rétta átt. Ef þú átt erfitt með að sætta þig við nýjan skilning eða fara eftir nýjum leiðbeiningum, hvers vegna ekki að hugleiða af auðmýkt hversu miklu æðri viska og máttur skaparans er en viska mannsins? – Rómv. 11:33–36.
ÁSTÆÐAN FYRIR ÞVÍ AÐ GUÐ LEYFIR ÞJÁNINGAR
8. Hvernig hefur það verið okkur til góðs að komast að því hvers vegna Guð leyfir þjáningar?
8 Hvers vegna leyfir Guð þjáningar? Sumir sem hafa ekki fengið svar við því hafa orðið reiðir út í Guð eða dregið þá ályktun að hann sé alls ekki til. (Orðskv. 19:3) En þú hefur komist að raun um að við fengum synd og ófullkomleika í arf sem veldur því að við þjáumst og deyjum en það er ekki Jehóva að kenna. Þú hefur líka lært að þolinmæði hans hefur gert milljónum manna kleift að kynnast honum og að hann ætlar að binda enda á þjáningar. (2. Pét. 3:9, 15) Þessi sannindi hafa veitt þér hughreystingu og þú hefur orðið nánari Jehóva.
9. Hvenær gætum við sérstaklega þurft að rifja upp hvers vegna Jehóva leyfir þjáningar?
9 Við skiljum að við þurfum að vera þolinmóð á meðan við bíðum eftir að Jehóva bindi enda á þjáningar. En þegar við eða ástvinir okkar verða fyrir ógæfu, óréttlæti eða missi veltum við kannski fyrir okkur hvers vegna Jehóva taki ekki fyrr í taumana. (Hab. 1:2, 3) Þegar okkur líður þannig er gott að rifja upp ástæðurnar fyrir því að Guð leyfir þjáningar.a (Sálm. 34:19) Við getum líka hugsað um þá fyrirætlun hans að binda enda á þjáningar í eitt skipti fyrir öll.
10. Hvernig hefur Anne tekist á við móðurmissinn?
10 Að vita hvers vegna Guð leyfir þjáningar getur hjálpað okkur að halda út í prófraunum. Anne býr á eyjunni Mayotte í Indlandshafi. Hún segir: „Ég missti mömmu mína fyrir nokkrum árum og það gerði mig mjög dapra. En ég minnti sjálfa mig reglulega á að Jehóva ber ekki ábyrgð á þjáningum. Honum er mikið í mun að losa okkur við allar þjáningar og reisa upp látna ástvini okkar. Það kemur mér oft á óvart hversu mikinn hugarfrið það gefur mér að hugleiða þessi sannindi.“
11. Hvernig getur það að vita hvers vegna Jehóva leyfir þjáningar hvatt okkur til að halda áfram að boða trúna?
11 Að vita sannleikann um það hvers vegna Guð leyfir þjáningar getur verið hvatning til að halda áfram að boða trúna. Eftir að hafa útskýrt að þolinmæði Jehóva þýði björgun fyrir þá sem iðrast skrifaði Pétur: „Hugsið þá um hvers konar manneskjur þið eigið að vera. Þið eigið að vera guðrækin og heilög í hegðun.“ (2. Pét. 3:11) „Heilög hegðun“ felur meðal annars í sér að boða trúna. Við elskum fólk, rétt eins og faðir okkar. Við óskum þess að það fái að lifa í réttlátum nýjum heimi. Jehóva sýnir fólki á þínu svæði þolinmæði og gefur því tækifæri til að tilbiðja hann. Þú hefur þann einstaka heiður að vera samstarfsmaður Guðs og hjálpa eins mörgum og kostur er að læra um hann áður en endirinn kemur. – 1. Kor. 3:9.
VIÐ LIFUM Á „SÍÐUSTU DÖGUM“
12. Hvernig styrkir það okkur að vita að við lifum á „síðustu dögum“?
12 Í Biblíunni er því vel lýst hvernig fólk yrði á „síðustu dögum“. (2. Tím. 3:1–5) Við þurfum ekki að leita lengi til að sjá að þessi spádómur er að uppfyllast. Við sjáum viðhorf og verk fólks fara á stöðugt lægra plan en það sannfærir okkur um að orð Guðs sé áreiðanlegt. – 2. Tím. 3:13–15.
13. Hvernig gætum við notað dæmisöguna í Lúkasi 12:15–21 til að skoða viðhorf okkar?
13 Að vita að við lifum á síðustu dögum hjálpar okkur líka að einbeita okkur að því sem mestu máli skiptir. Skoðum hvað við getum lært um það af dæmisögu Jesú í Lúkasi 12:15–21. (Lestu.) Hvers vegna var ríki maðurinn sagður óskynsamur? Það var ekki vegna þess að maðurinn var ríkur heldur vegna þess að hann var með rangar áherslur. Hann ‚safnaði sér auði en var ekki ríkur í augum Guðs‘. Hvers vegna var það svona alvarlegt? Guð sagði við hann: „Í nótt deyrðu.“ Hvað kennir þetta okkur? Það er ekki mikill tími eftir þangað til endirinn kemur. Það er gott að spyrja sig: Hvað gefa markmið mín til kynna um það hvað mér finnst mikilvægast? Hvað með þau markmið sem ég hvet börnin mín til að setja sér? Hvort nota ég krafta mína, tíma og fjármuni fyrst og fremst til að safna sjóðum handa sjálfum mér eða til að safna fjársjóðum á himni?
14. Hvers vegna er skynsamlegt að ígrunda sannanirnar fyrir því að við lifum á síðustu dögum eins og reynsla Miki sýnir?
14 Viðhorf okkar til lífsins getur breyst þegar við ígrundum sannanirnar fyrir því að við lifum á síðustu dögum. Systir sem heitir Miki gerði þetta. Hún segir: „Þegar ég útskrifaðist úr framhaldsskóla langaði mig í vinnu tengda dýrafræði. Ég hafði líka það markmið að verða brautryðjandi og starfa þar sem þörfin er meiri. Þroskaðir vinir hvöttu mig til að hugleiða málið vandlega, hvort það væri raunhæft að sækjast eftir slíku starfi og líka ná andlegum markmiðum mínum. Þeir minntu mig á að fljótlega verði endi bundinn á þennan heim. Í nýja heiminum hef ég hins vegar eilífðina til að skoða og rannsaka dýr. Ég ákvað því að velja styttra og hagnýtara nám. Það gerði mér kleift að fá vinnu til að sjá fyrir mér sem brautryðjandi og síðar flytja til Ekvador þar sem er meiri þörf fyrir boðbera.“ Miki og eiginmaður hennar eru nú í farandstarfi þar í landi.
15. Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp á fólki sem hefur ekki enn sýnt fagnaðarboðskapnum áhuga? (Sjá einnig myndir.)
15 Við ættum ekki að láta það draga úr okkur kjark þótt fólk sýni fagnaðarboðskapnum ekki áhuga. Fólk getur breyst. Tökum sem dæmi Jakob, hálfbróður Jesú. Hann ólst upp með Jesú, sá sannanir fyrir því að hann var Messías og heyrði hann kenna á þann hátt sem enginn maður hafði áður gert. En samt liðu ár áður en Jakob gerðist fylgjandi Jesú. Það var eftir að Jesús fékk upprisu sem bróðir hans varð lærisveinn – og það mjög kappsamur.b (Jóh. 7:5; Gal. 2:9) Ekki vanmeta það að reyna að ná til ættingja sem hafa ekki fram að þessu sýnt áhuga eða heimsækja aftur þá sem hafa hingað til hafnað boðskapnum um Guðsríki. Mundu að við lifum á síðustu dögum og að boðunin er því áríðandi. Það sem þú segir fólki í dag gæti haft áhrif jafnvel eftir að þrengingin mikla hefst.c
Hvað getur hjálpað okkur að gefast ekki upp á ættingjum sem eru ekki í söfnuðinum? (Sjá 15. grein.)e
VERUM ÞAKKLÁT FYRIR AÐ VERA MINNT Á GRUNDVALLARSANNINDI
16. Hvernig hefur þú haft gagn af því að rifja upp biblíusannindi? (Sjá einni rammagreinina „Notum biblíusannindi til að hjálpa öðrum“.)
16 Sumt af því efni sem söfnuður Jehóva gefur út er hugsað fyrir fólk sem hefur mjög litla biblíuþekkingu. Vikulegir fyrirlestrar, ýmsar greinar og myndbönd á jw.org og almennu blöðin eru fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem eru ekki vottar. En við höfum líka gagn af þessu efni. Það styrkir kærleika okkar til Jehóva og trú á orð hans og gerir okkur hæfari til að kenna öðrum grundvallarsannindin. – Sálm. 19:7.
17. Við hvaða aðstæður geturðu hugleitt grundvallarsannindi Biblíunnar?
17 Við sem höfum þjónað Jehóva lengi erum mjög spennt að heyra gleggri skilning á biblíusannindum. En við erum að sama skapi ákaflega þakklát fyrir þau grundvallarsannindi sem löðuðu okkur að sannleikanum í upphafi. Við getum enn þá lært af þeim. Þegar við fáum leiðbeiningar frá söfnuðinum en finnst okkar eigin skoðun betri er gott að minna sig auðmjúkur á hver leiðir söfnuðinn – Jehóva, okkar vitri og almáttugi skapari. Þegar við eða ástvinur okkar gengur í gegnum prófraun er best að vera þolinmóður og rifja upp hvers vegna Jehóva leyfir þjáningar. Og þegar við ákveðum hvernig við notum tíma okkar og krafta getum við minnt okkur á hvað er mikilvægast á þessum síðustu dögum. Megi biblíusannindin halda áfram að styrkja, hvetja og hjálpa okkur að þjóna Jehóva af trúfesti.
SÖNGUR 95 Ljósið verður bjartara
a Sjá greinina „Allar þjáningar eru brátt á enda“ í Varðturninum 1. júlí 2007, bls. 21–25.
c Sjá greinina „Hvað vitum við um dóma Jehóva í framtíðinni?“ í Varðturninum maí 2024, bls. 8–13.
d MYND: Öldungur kemur með hugmynd sem hinir öldungarnir samþykkja ekki. Síðar, meðan hann horfir á stjörnubjartan himininn, hugleiðir hann vandlega hversu vitur og máttugur skaparinn er og áttar sig á að vilji Jehóva er mikilvægari en hans eigin hugmyndir.
e MYND: Systir kannar sannanir fyrir því að við lifum á síðustu dögum. Það fær hana til að hringja í systur sína til að segja henni frá sannleikanum.