Esekíel
31 Á 11. árinu, á fyrsta degi þriðja mánaðarins, kom orð Jehóva aftur til mín: 2 „Mannssonur, segðu við faraó Egyptalandskonung og fjöldann sem fylgir honum:+
‚Hver er eins mikill og þú?
3 Einu sinni var Assýringur, sedrustré í Líbanon,
með fallegar og þéttar greinar sem veittu skugga.
Það var svo hátt að toppurinn náði upp í skýin.
4 Vatnið jók vöxt þess og djúpar lindir gerðu það hávaxið.
Ár runnu þar sem það var gróðursett
og lækir þeirra vökvuðu öll tré merkurinnar.
5 Þess vegna varð það hærra en öll hin trén.
Greinunum fjölgaði og limið breiddi úr sér
þar sem nóg var af vatni í ánum.
6 Allir fuglar himins gerðu sér hreiður í greinunum,
öll dýr merkurinnar ólu afkvæmi undir liminu
og allar hinar fjölmennu þjóðir bjuggu í skugga þess.
7 Það varð tignarlegt og fagurt með löngum greinum sínum
því að ræturnar teygðu sig þangað sem nóg var af vatni.
8 Ekkert annað sedrustré í garði Guðs+ jafnaðist á við það.
Engin einitré báru greinar eins og það
og engin platantré voru með sambærilegt lim.
Ekkert tré í garði Guðs var eins fagurt.
9 Ég gerði það fallegt með sínu mikla laufskrúði
og öll hin trén í Eden, garði hins sanna Guðs, öfunduðu það.‘
10 Þess vegna segir alvaldur Drottinn Jehóva: ‚Þar sem það varð svo hávaxið að toppurinn náði upp í skýin og það hrokaðist upp í hjarta sínu vegna hæðar sinnar 11 sel ég það í hendur voldugasta valdhafa þjóðanna.+ Hann mun taka það föstum tökum og ég hafna því vegna illsku þess. 12 Og útlendingar, þeir grimmustu meðal þjóðanna, fella það og láta það liggja á fjöllunum. Laufskrúðið fellur niður í alla dalina og greinarnar liggja brotnar í öllum ám landsins.+ Allir þjóðflokkar jarðar hverfa úr skugga þess og yfirgefa það. 13 Allir fuglar himins búa um sig á föllnum stofninum og öll dýr merkurinnar innan um greinarnar.+ 14 Þetta gerist til þess að ekkert tré nálægt vatni verði jafn hávaxið eða teygi sig upp í skýin og engin tré sem fá nóg vatn nái upp til þeirra. Þau verða öll gefin dauðanum á vald, landinu fyrir neðan, ásamt mönnunum sem fara ofan í gröfina.‘
15 Alvaldur Drottinn Jehóva segir: ‚Daginn sem sedrusinn fer niður í gröfina* læt ég menn syrgja. Ég hyl vatnsdjúpin og held aftur af ánum svo að vatnsflaumurinn stöðvast. Ég myrkva Líbanon vegna sedrusins og öll tré merkurinnar visna. 16 Ég læt þjóðir nötra við dynkinn af falli hans þegar ég steypi honum niður í gröfina* ásamt þeim sem fara niður í djúp grafarinnar. Öll trén í Eden,+ fallegustu og bestu trén í Líbanon sem fengu nóg af vatni, láta huggast í landinu fyrir neðan. 17 Þau eru farin ofan í gröfina* með honum til þeirra sem féllu fyrir sverði,+ ásamt þeim sem studdu hann og bjuggu í skugga hans meðal þjóðanna.‘+
18 ‚Hvaða tré í Eden var eins dýrlegt og mikið og þú?+ Samt verður þér steypt niður til landsins fyrir neðan ásamt trjánum í Eden. Þú munt liggja meðal hinna óumskornu, þeirra sem féllu fyrir sverði. Þannig fer fyrir faraó og fjöldanum sem fylgir honum,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva.“