Fyrri Konungabók
13 Á meðan Jeróbóam stóð við altarið+ og lét fórnarreyk stíga upp kom guðsmaður nokkur+ frá Júda til Betel að boði Jehóva. 2 Hann hrópaði að altarinu eins og Jehóva hafði skipað honum að gera. „Altari, altari!“ sagði hann. „Jehóva segir: ‚Sonur að nafni Jósía+ mun fæðast í ætt Davíðs. Hann mun fórna á þér prestum fórnarhæðanna, þeim sem láta fórnarreyk stíga upp af þér, og hann mun brenna mannabein á þér.‘“+ 3 Hann gaf tákn* þennan dag og sagði: „Þetta er tákn þess að Jehóva hefur talað: Altarið mun rifna og askan* á því steypast niður.“
4 Þegar Jeróbóam konungur heyrði hvað maður hins sanna Guðs hrópaði gegn altarinu í Betel rétti hann út höndina frá altarinu og sagði: „Grípið hann!“+ En höndin sem hann rétti út visnaði* þegar í stað og hann gat ekki dregið hana aftur að sér.+ 5 Síðan rifnaði altarið og askan á því steyptist niður í samræmi við táknið sem maður hins sanna Guðs hafði boðað eftir skipun Jehóva.
6 Þá sagði konungur við mann hins sanna Guðs: „Biddu Jehóva Guð þinn að sýna mér miskunn.* Biddu fyrir mér svo að höndin verði aftur heil.“+ Guðsmaðurinn bað þá Jehóva að sýna honum miskunn og hönd konungs varð jafn góð og áður. 7 Síðan sagði konungurinn við mann hins sanna Guðs: „Komdu heim með mér og fáðu þér að borða. Ég ætla líka að gefa þér gjöf.“ 8 En maður hins sanna Guðs svaraði konungi: „Þótt þú gæfir mér helminginn af eigum þínum kæmi ég ekki með þér og fengi mér hvorki brauð að borða né vatn að drekka á þessum stað 9 því að Jehóva gaf mér þessi fyrirmæli: ‚Þú mátt hvorki fá þér brauð að borða né vatn að drekka og þú mátt ekki fara heim sömu leið og þú komst.‘“ 10 Hann fór því annan veg og sneri ekki aftur sömu leið og hann hafði komið til Betel.
11 Í Betel bjó gamall spámaður. Synir hans komu heim og sögðu honum frá öllu sem maður hins sanna Guðs hafði gert þann dag í Betel og frá því sem hann hafði sagt við konunginn. Þegar þeir höfðu sagt föður sínum þetta 12 spurði hann þá: „Hvaða leið fór hann?“ Synir hans sýndu honum leiðina sem guðsmaðurinn frá Júda hafði farið. 13 Þá sagði hann við syni sína. „Leggið á asnann fyrir mig.“ Þeir lögðu á asnann fyrir hann og hann steig á bak.
14 Hann fór á eftir manni hins sanna Guðs og fann hann þar sem hann sat undir stóru tré. Hann spurði: „Ert þú maður hins sanna Guðs sem kom frá Júda?“+ Hann svaraði: „Já, ég er hann.“ 15 Spámaðurinn sagði þá við hann: „Komdu heim með mér og fáðu þér að borða.“ 16 En hann svaraði: „Ég get ekki þegið boð þitt og snúið við með þér og ég get hvorki borðað né drukkið með þér á þessum stað 17 því að Jehóva sagði við mig: ‚Þar máttu hvorki fá þér brauð að borða né vatn að drekka. Þú mátt ekki fara heim sömu leið og þú komst.‘“ 18 Hann svaraði honum: „Ég er spámaður eins og þú. Engill gaf mér þessi fyrirmæli frá Jehóva: ‚Farðu með hann heim til þín svo að hann geti fengið brauð að borða og vatn að drekka.‘“ (Hann laug að honum.) 19 Hann sneri þá við með honum og át og drakk í húsi hans.
20 Meðan þeir sátu til borðs kom orð Jehóva til spámannsins sem hafði fengið hann til að snúa við. 21 Hann hrópaði til guðsmannsins frá Júda: „Jehóva segir: ‚Þú hefur risið gegn skipun Jehóva og óhlýðnast fyrirmælunum sem Jehóva Guð þinn gaf þér. 22 Þú snerir við og fékkst þér brauð að borða og vatn að drekka á staðnum þar sem hann hafði bannað þér að borða og drekka. Þess vegna verður lík þitt ekki lagt í gröf forfeðra þinna.‘“+
23 Eftir máltíðina lagði gamli spámaðurinn á asnann fyrir spámanninn sem hann hafði fengið til að snúa við. 24 Síðan lagði hann af stað. En ljón varð á vegi hans og drap hann.+ Lík hans lá á veginum og asninn stóð hjá því. Ljónið stóð líka hjá því. 25 Menn sem áttu þar leið hjá sáu líkið liggja á veginum og ljónið standa hjá því. Þeir fóru inn í borgina þar sem gamli spámaðurinn bjó og sögðu frá þessu.
26 Um leið og spámaðurinn sem hafði fengið guðsmanninn til að snúa við heyrði þetta sagði hann: „Þetta er maður hins sanna Guðs sem reis gegn skipun Jehóva.+ Jehóva hefur gefið hann ljóninu svo að það gæti rifið hann sundur og drepið hann. Það sem Jehóva sagði við hann hefur ræst.“+ 27 Síðan sagði hann við syni sína: „Leggið á asnann fyrir mig.“ Og þeir gerðu það. 28 Hann lagði af stað og fann líkið þar sem það lá á veginum. Asninn og ljónið stóðu hjá því, en ljónið hafði hvorki étið líkið né drepið asnann. 29 Spámaðurinn tók lík guðsmannsins og lagði það á asnann. Hann fór með hann aftur til borgar sinnar til að jarða hann og syrgja. 30 Hann lagði líkið í sína eigin gröf og menn grétu yfir honum og hrópuðu: „En hræðilegt, bróðir minn!“ 31 Þegar hann hafði jarðað hann sagði hann við syni sína: „Þegar ég dey skuluð þið jarða mig í gröfinni þar sem maður hins sanna Guðs er grafinn. Leggið bein mín við hliðina á beinum hans.+ 32 Það sem hann hrópaði að boði Jehóva gegn altarinu í Betel og gegn öllum hofunum á fórnarhæðunum+ í borgum Samaríu mun vissulega rætast.“+
33 Þrátt fyrir þetta sneri Jeróbóam ekki af sínum vonda vegi heldur hélt áfram að skipa presta á fórnarhæðirnar úr hópi almennings.+ Hann vígði til prestsþjónustu* hvern þann sem vildi og sagði: „Hann skal gegna prestsþjónustu á fórnarhæðunum.“+ 34 Þessi synd leiddi til þess að ætt Jeróbóams+ var þurrkuð út og afmáð af yfirborði jarðar.+