HAGGAÍ
1 Á öðru stjórnarári Daríusar konungs, fyrsta dag sjötta mánaðarins, kom orð Jehóva fyrir milligöngu Haggaí*+ spámanns til Serúbabels+ Sealtíelssonar, landstjórans í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðstaprests:
2 „Þetta segir Jehóva hersveitanna: ‚Fólkið segir: „Enn er ekki kominn tími til að reisa* hús* Jehóva.“‘“+
3 Jehóva talaði aftur fyrir milligöngu Haggaí+ spámanns og sagði: 4 „Er þetta rétti tíminn fyrir ykkur að búa í þiljuðum húsum, nú meðan þetta hús er í rústum?+ 5 Jehóva hersveitanna segir: ‚Hugsið ykkar gang. 6 Þið hafið sáð miklu en uppskeran er lítil.+ Þið borðið en verðið ekki södd og drekkið en svalið ekki þorstanum. Þið klæðið ykkur en engum er hlýtt. Sá sem vinnur setur launin í götótta pyngju.‘“
7 „Jehóva hersveitanna segir: ‚Hugsið ykkar gang.‘
8 ‚Farið upp í fjöllin og sækið timbur.+ Byggið húsið+ svo að ég geti glaðst yfir því og hlotið heiður,‘+ segir Jehóva.“
9 „‚Þið væntuð mikils en fenguð lítið og því sem þið söfnuðuð í hús ykkar blés ég burt.+ Af hverju?‘ spyr Jehóva hersveitanna. ‚Af því að mitt hús er í rústum á meðan þið eruð önnum kafin við að hugsa um eigin hús.+ 10 Þess vegna hélt himinninn aftur af dögginni og jörðin af ávexti sínum. 11 Og ég lét þurrk koma yfir landið og fjöllin, yfir kornið, nýja vínið, olíuna og það sem vex á jörðinni, yfir menn og búfé og yfir allt sem þið hafið unnið hörðum höndum að.‘“
12 Serúbabel+ Sealtíelsson,+ Jósúa Jósadaksson+ æðstiprestur og allt fólkið hlustaði á Jehóva Guð sinn og orð Haggaí spámanns því að Jehóva Guð þeirra hafði sent hann. Og fólkið fór að óttast Jehóva.
13 Haggaí sendiboði Jehóva flutti fólkinu síðan þennan boðskap eins og Jehóva hafði falið honum: „‚Ég er með ykkur,‘+ segir Jehóva.“
14 Þannig hvatti Jehóva+ Serúbabel Sealtíelsson, landstjórann í Júda,+ til dáða og sömuleiðis Jósúa+ Jósadaksson æðstaprest og allt fólkið. Allir komu og hófust handa við að byggja hús Jehóva hersveitanna, Guðs síns.+ 15 Þeir byrjuðu 24. dag sjötta mánaðarins á öðru stjórnarári Daríusar konungs.+
2 Á 21. degi sjöunda mánaðarins talaði Jehóva fyrir milligöngu Haggaí+ spámanns og sagði: 2 „Spyrðu Serúbabel+ Sealtíelsson, landstjórann í Júda,+ Jósúa+ Jósadaksson+ æðstaprest og allt fólkið: 3 ‚Hverjir muna eftir þessu húsi* í sinni fyrri dýrð?+ Hvað finnst ykkur um það núna? Er það ekki ómerkilegt í samanburði við það sem var?‘+
4 ‚En vertu hugrakkur, Serúbabel,‘ segir Jehóva, ‚vertu hugrakkur, Jósúa Jósadaksson æðstiprestur,
og verið hugrökk, þið öll sem búið í landinu,‘+ segir Jehóva, ‚og farið að vinna.‘
‚Ég er með ykkur,‘+ segir Jehóva hersveitanna. 5 ‚Munið hverju ég lofaði ykkur þegar þið fóruð út úr Egyptalandi+ og treystið að andi minn verði áfram með ykkur.*+ Verið ekki hrædd.‘“+
6 „Þetta segir Jehóva hersveitanna: ‚Innan skamms mun ég enn einu sinni láta himininn og jörðina skjálfa og sömuleiðis hafið og þurrlendið.‘+
7 ‚Ég ætla að hrista allar þjóðir svo að gersemar allra þjóða koma hingað inn+ og ég fylli þetta hús dýrð,‘+ segir Jehóva hersveitanna.
8 ‚Mitt er silfrið og mitt er gullið,‘ segir Jehóva hersveitanna.
9 ‚Dýrð þessa húss verður meiri en hins fyrra,‘+ segir Jehóva hersveitanna,
‚og á þessum stað veiti ég frið,‘+ segir Jehóva hersveitanna.“
10 Á 24. degi níunda mánaðarins, á öðru stjórnarári Daríusar, kom orð Jehóva til Haggaí+ spámanns: 11 „Jehóva hersveitanna segir: ‚Spyrðu prestana hvað lögin segja:+ 12 „Segjum að maður sé með heilagt kjöt í skikkjufaldi sínum og skikkjan snerti brauð, soðinn mat, vín, olíu eða einhvern annan mat. Verður þetta þá heilagt?“‘“
„Nei,“ svöruðu prestarnir.
13 Haggaí spurði síðan: „Ef einhver er óhreinn af því að hann hefur snert lík* og snertir síðan eitthvað af þessu, verður það þá óhreint?“+
„Já, það verður óhreint,“ svöruðu prestarnir.
14 Haggaí sagði þá: „‚Þannig er þetta fólk, þannig er þessi þjóð í mínum augum,‘ segir Jehóva, ‚og þannig eru öll verk handa þeirra. Allar fórnir sem fólkið ber fram eru óhreinar.‘
15 ‚Íhugið þetta vandlega héðan í frá: Áður en steinn var lagður á stein í musteri Jehóva,+ 16 hvernig var ástandið þá? Þegar maður fór að kornbing og bjóst við 20 mælum af korni voru aðeins til 10. Og þegar einhver kom að vínþró til að ausa 50 mælum af víni voru aðeins til 20.+ 17 Ég eyðilagði öll verk handa ykkar. Ég lét gróður ykkar sviðna og mjölsvepp+ og hagl koma yfir ykkur en ekkert ykkar sneri sér til mín,‘ segir Jehóva.
18 ‚Íhugið þetta vandlega héðan í frá, frá 24. degi níunda mánaðarins, þeim degi sem grunnurinn að musteri Jehóva var lagður,+ já, íhugið þetta: 19 Er enn til korn í hlöðunni?*+ Eru vínviðurinn, fíkjutréð, granateplatréð og ólívutréð nokkuð farin að bera ávöxt? Frá og með deginum í dag mun ég blessa ykkur.‘“+
20 Orð Jehóva kom í annað sinn til Haggaí 24. dag mánaðarins:+ 21 „Segðu við Serúbabel, landstjórann í Júda: ‚Ég ætla að láta himininn og jörðina skjálfa.+ 22 Ég steypi konungum úr hásætum og svipti ríki þjóðanna valdi þeirra.+ Ég velti vögnunum með þeim sem keyra þá og hestar og riddarar falla, hver fyrir sverði bróður síns.‘“+
23 „‚Þann dag,‘ segir Jehóva hersveitanna, ‚tek ég þig, þjón minn, Serúbabel+ Sealtíelsson,‘+ segir Jehóva, ‚og geri þig að innsiglishring því að þú ert sá sem ég hef valið,‘ segir Jehóva hersveitanna.“
Sem þýðir ‚fæddur á hátíð‘.
Eða „endurreisa“.
Eða „musteri“.
Eða „musteri“.
Eða hugsanl. „og andi minn var á meðal ykkar“.
Eða „vegna sálar“. Sjá orðaskýringar.
Eða „korngryfjunni“.