Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.4. bls. 20-23
  • Aðvörun! — þetta vatn getur verið heilsuspillandi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Aðvörun! — þetta vatn getur verið heilsuspillandi
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Bændum til gagns en böl fyrir vatnið
  • „Tímasprengja sem tifar hægt“
  • Nóg er til af vatninu . . .
    Vaknið! – 1987
  • Ferskvatnið
    Vaknið! – 2023
  • Hvað segir Biblían um vatnsskortinn í heiminum?
    Fleiri viðfangsefni
  • Vatnskreppan — erum við að komast í þrot?
    Vaknið! – 1987
Sjá meira
Vaknið! – 1987
g87 8.4. bls. 20-23

Aðvörun! — þetta vatn getur verið heilsuspillandi

GETUR þú ímyndað þér að þú skrúfir frá eldhúskrananum, berir logandi eldspýtu að bununni og að það kvikni í henni? Getur þú ímyndað þér að eldur brjótist út við það að logandi sígarettustubbi sé hent í á? Brygði þér ekki í brún ef baðvatnið hjá þér væri þykkt eins og grautur og hrúgaðist upp undir krananum?

Trúir þú að hægt sé að framkalla ljósmynd eða filmu í vatni teknu beint úr á? Hvernig yrði þér við ef kranavatnið væri dökkt á litinn og freyddi eins og bjór? Getur þú hugsað þér að þurfa að opna eldhúsgluggann til að húsið fylltist ekki af óþef af kranavatninu? Getur þú ímyndað þér kranavatnið svo dökkt á litinn að ekki sé hægt að gera greinarmun á því og kaffi?

Sums staðar er vatnið kristaltært og ferskt á bragðið en fólk fær höfuðverk, svima, blóðkreppusótt eða útbrot eftir að hafa drukkið það. Stundum verður vart skjálfta, blindu og truflana í miðtaugakerfi eftir vatnsdrykkju.

Vissir þú að skammt er síðan þriðjungur mannkyns var stöðugt veikur af völdum óhreins vatns og að tíu milljónir manna dóu ár hvert, ekki úr vatnsskorti heldur af völdum vatns? Víst getur allt þetta hljómað eins og heilaspuni eða sem væri það tekið úr vísindaskáldsögu, en því miður eru lýsingarnar hér á undan dagsannar.

Augljóst er orðið að maðurinn býr yfir ægilegri snilligáfu til að eitra allt sem lifir á yfirborði jarðar og vatnið niðri í jörðinni. Að mestu leyti má rekja það til viðleitni hans í þá átt að gera lífið þægilegra — að draga úr sársauka og sjúkdómum, færa heiminn nær stofunni heima hjá okkur með fjarskiptatækni, að kanna himingeiminn og búa til glæpsamleg stríðstól.

Mest orsakast þessi vandi af því að maðurinn hefur búið til ný en banvæn efnasambönd. Fyrir sex árum voru liðlega 60.000 slík efni á markaðinum — þar af 35.000 sem töldust annaðhvort banvæn eða afar hættuleg heilsu manna. Þúsundir nýrra efna verða til ár hvert. Tilurð þeirra efna hefur gefið af sér önnur jafnhættuleg og baneitruð úrgangsefni sem menn losa sig við með því að henda þeim á sorphauga, í ár, læki eða vötn án þess að gefa teljandi gaum þeim afleiðingum sem það kann að hafa á menn eða umhverfi.

Bændum til gagns en böl fyrir vatnið

Skordýraeyðar, illgresiseyðar og tilbúinn áburður hafa verið bændum til mikils gagns, en að sama skapi böl fyrir vatnið á jörðinni. Í áraraðir úðuðu bændur í San Joaquin-dal í Kaliforníu vínber sín, ávexti og tómata með plágueyðinum DBCP, en fyrir nokkrum árum kom í ljós að það getur valdið krabbameini og ófrjósemi hjá mönnum. Þótt nú sé hætt að nota þetta eitur er það ekki hætt að síast í gegnum jarðlögin niður í vatnakerfið neðanjarðar. „DBCP er að finna í 35 af hundraði borhola í dalnum,“ segir talsmaður heilbrigðisráðuneytisins. Í einu héraði í Kaliforníu eiga 250.000 manns á hættu að fá í sig þetta eiturefni, að sögn tímaritsins Newsweek. Sum eiturefni hafa áhrif á taugakerfið. Önnur eru talin geta valdið ýmsum öðrum sjúkdómum. Komið hefur í ljós að sumir illgresiseyðar hafa alvarleg áhrif á heilann og geta valdið lömun. Á ýmsum akuryrkjusvæðum er nítratmagn í neysluvatni (til komið vegna tilbúins áburðar) komið yfir þau mörk sem talið er óhætt í sumum löndum. Þessi efni hafa líka borist í jarðvatn.

Þvottaefni, leysiefni, þurrhreinsiefni og hreinsiefni fyrir rotþrær, svo nokkur séu nefnd, hafa verið þróuð mjög fyrir atbeina efnavísindanna. Mannkynið hefur notið góðs af á marga vegu. En þegar þessi efni síast í gegnum jörðina spilla þau hinu hreina vatni jarðarinnar fyrir komandi kynslóðum. „Við erum að eitra fyrir sjálfum okkur og afkomendum okkar,“ sagði umhverfisverndarmaður.

Skýrslur sýna að margir af þeim milljónum bensíngeyma, sem eru grafnir í jörð hjá bensínafgreiðslustöðvum í þéttbýli og meðfram þjóðvegum, leka, og hið eldfima innihald seytlar niður í jörðina og hafnar að lokum í grunnvatninu. Það kemur síðan upp á yfirborðið með vatni sem dregið er úr brunnum og borholum. Gufa frá bensíninu getur valdið því að kvikni í húsum ef kveikt er á eldspýtu. Allt of algengt er að logar teygi sig frá vatnskrananum af völdum þessara eiturefna sem borist hafa í vatnakerfið.

Haldið var að jörðin sjálf myndi hreinsa þessi efni, þegar þau seytluðu í gegnum jarðlögin, og gera þau skaðlaus. Á síðasta áratug hefur hins vegar komið í ljós að mörg þessara hættulegu efna hafa ekki síast úr heldur borist rakleiðis í jarðvatnslögin og mengað þau fyrir komandi kynslóðum. „Grunnvatnsmengun er afleiðing synda sem drýgðar voru fyrir löngu,“ segir James Groff við bandarísku vatnsveitusamtökin. „Enginn var nægilega framsýnn til að sjá hana fyrir.“

Enn er þó haldið áfram að drýgja syndirnar. Bandaríska umhverfisverndarstofnunin áætlar að þar í landi leki 5,7 milljón milljónir lítra hættulegra úrgangsefna niður í grunnvatnskerfið ár hvert, og er þá aðeins um Bandaríkin ein að ræða. Mikið af þessum úrgangsefnum eru komin frá ófyrirleitnum og ágjörnum mönnum og hent hvar sem þeir komast upp með það, án tillits til hins skelfilega tjóns sem það veldur neysluvatni manna og heilsu þeirra. „Aðeins eitt gallon af leysiefni þarf til að menga 20 milljón gallon af jarðvatni umfram þau öryggismörk sem flest ríki setja,“ er haft eftir vísindamanni. Þegar hugsað er um 5,7 milljón milljónir lítra af úrgangsefnum virðast orðin ‚nóg er til af vatninu en ekki dropi drykkjarhæfur‘ yfirvofandi og ógnvekjandi veruleiki.

„Tímasprengja sem tifar hægt“

„Jarðvatn og mengunarefni þess,“ sagði formaður bandarískrar þingnefndar sem fjallar um umhverfis- og orkumál og náttúruauðlindir, „er eins og tímasprengja sem tifar hægt. Menn hallast æ meira að því að þetta vandamál verði næsta stóra kreppa níunda áratugarins.“ Dagblaðið The New York Times sagði svo frá: „Menn eru hins vegar almennt sammála um að mengun jarðvatns sé langsamlega alvarlegasta og erfiðasta vandamálið varðandi gæði drykkjarvatns og sé nú tímasprengja undir yfirborði jarðar.“ „Enginn vafi leikur á að við sitjum uppi með tímasprengju,“ aðvaraði vísindamaður við University of Arizona. „Spurningin er sú hve stór sprengingin verður.“

Menn þurfa ekki að leggja eyrað við jörð til að heyra „hve stór sprengingin verður.“ Nú þegar skelfur heimurinn af ótta við þá sprengingu sem yfirvofandi er. Til dæmis hefur verið áætlað að árið 2000 kunni fjórðungur vatnsbirgða veraldar að vera óhæfur til drykkjar.

Þriðjungur vatns í stærstu ám Kína er mengaðri en svo að það sé neysluhæft, að sögn Worldwatch-stofnunarinnar. Að sögn Thane Gustavson, sem er sérfræðingur í málefnum Sovétríkjanna, mun vatnsþörfin þar í landi árið 2000 vera orðin meiri en hægt er að fullnægja, vegna núverandi vatnsmengunar. Suður-Ameríka stendur frammi fyrir svipaðri kreppu — vatnið er of mengað til neyslu. „Annaðhvort tekst okkur að takmarka bruðl með vatn eða við verðum að deyja úr þorsta árið 2000,“ var sagt í ályktun heimsráðstefnu um vatn á vegum Sameinuðu þjóðanna. „Án þess að ýkja er auðséð að í mjög náinni framtíð verður heimurinn bókstaflega að deyja úr þorsta, annaðhvort vegna mengunar eða vegna núverandi sóunar á vatni,“ sagði einnig í ályktun sem ráðstefnan lét frá sér fara.

Í öllum heimshornum finna menn fyrir tortímingarmætti tímasprengjunnar sem virðist nú þegar hafa sprungið á heimsmælikvarða. Þegar haft er í huga að 70 af hundraði drykkjarvatns á Indlandi er mengað og að til þess má rekja töluverðan hluta sjúkdóma og veikinda þar í landi, eru engar ýkjur að segja að vatnið þar í landi og allt líf, sem er því háð, hrópi á hjálp og lækningu. Og hvað má segja um lönd þriðja heimsins og hið deyjandi fólk sem leitar í örvæntingu að hreinu vatni? Augljóst er að heimurinn er kominn í magnaðri ógöngur en hann hefur ratað í áður.

Sjúkdómar, sem berast með vatni, verða 30.000 manns að bana á dag, að því er svissneskur sérfræðingur um vatnsbætur, dr. Martin Schalekamp að nafni, segir. Aðeins þriðjungur mannkyns býr að því sem hann kallaði „óaðfinnanlegt“ drykkjarvatn, og þriðjungur jarðarbúa býr við mengað vatn. Síðasti þriðjungurinn hefur lítinn aðgang að vatni af nokkru tagi.

Og þannig gengur það. Vatn hlaðið eiturefnum seytlar gegnum jarðlögin, rennur um árnar, hoppar og skoppar um lækina, steypist niður fossana og stór hluti mannkyns drekkur það sér til dauða. Það má sannarlega kalla þetta vítisvél sem maðurinn hefur gert sjálfum sér til fjörtjóns!

Jehóva Guð, skapari jarðarinnar, mannsins og allra hinna lífgefandi vatna hefur sett af stað sína eigin tímasprengju sem hann mun nota til að „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Hún er stillt til að springa á ákveðnum tíma, sem hann hefur sett, og þeir sem hafa stórskaddað jörðina, spillt andrúmsloftinu og vatninu munu ekki geta gert hana óvirka né forðað sér undan eyðingarafli hennar. Menn benda stöðugt á næstu aldamót sem mikla örlagatíma. Hvort hinir seku munu lifa til að sjá það ár á eftir að koma í ljós. Jehóva einn veit það. Eftir að tortímt hefur verið þeim sem Guð dæmir seka mun jörðin verða endurreist sem paradís og fljót lífsvatnsins, sem er hreint og tært, munu streyma fram til frjálsra nota handa öllum lífverum.

Þá verður hægt að segja um vatnið: ‚Nóg er til af vatninu — og sérhver dropi drykkjarhæfur.‘

[Innskot á blaðsíðu 22]

‚Nóg er til af vatninu en ekki dropi drykkjarhæfur‘ er nú yfirvofandi og ógnvekjandi veruleiki.

[Mynd á blaðsíðu 21]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðínu)

ÞVOTTAEFNI

ILLGRESISEITUR

ÁBURÐUR

LEYSIEFNI

DBCP

SKORDÝRAEITUR

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila