Vatnskreppan — erum við að komast í þrot?
ÞÓTT 70 af hundraði yfirborðs jarðar séu hulin vatni er það ekki allt hæft til drykkjar. Höfin telja um 97 af hundraði þessa vatns. Þá eru eftir 3 af hundraði sem kalla má ferskt vatn.
Yfir þrír fjórðu þessa vatns eru hins vegar bundnir í jöklum og heimskautaís jarðar. Fjórtán af hundraði þess eru í of djúpum jarðlögum til að hægt sé að ná því með góðu móti. Það sem þá er eftir, aðeins 0,027 af hundraði, er í fljótum, vötnum, ám og jarðlögum þar sem hægt er að nýta það. Regn og önnur úrkoma heldur yfirborðsvatninu við, en sum þeirra jarðlaga, sem vatn rennur hlutfallslega greitt um (nefnd veitir), liggja svo djúpt að vatnið í þeim endurnýjar sig ekki.
Ólíkt rafmagninu, sem hægt er að framleiða með risahverflum til heimilis- og iðnaðarnota, er ekki hægt að framleiða nýtt vatn. Þegar opnað er fyrir vatnskrana til að laga megi te eða kaffi, eða fara í hressandi steypibað eða leggjast í heita kerlaug, eða þegar opnað er fyrir stóru lokana hjá iðjuverunum, þarf vatnið að koma úr nálægum ám, vötnum, borholum eða brunnum sem fá vatn úr jarðlögum.
Þótt ársúrkoma á jörðinni sé nægileg er henni misskipt. Sums staðar er úrkoma meiri en nóg en annars staðar rignir ekki svo árum skiptir. Þar sem lítið rignir þarf umfangsmikil áveitukerfi til ræktunar, og þar þarf að dæla upp jarðvatni án þess að á móti komi nokkur eða í það minnsta nægileg endurnýjun. Þar sem svo háttar til hafa brunnar þornað upp.
Jarðlög þorna upp
Af jarðlögum, sem vatn á greiða leið um, eru Ogallala þau stærstu í heimi. Þau liggja undir sex ríkjum í miðvesturhluta Bandaríkjanna, og bæði heimili, iðnaður og landbúnaður á allt sitt undir þeim. Þar stefnir nú í óefni fyrir tugmilljónir manna. Nú eru um 200.000 borholur sem dæla vatni úr Ogallala og vatnsborðið hefur lækkað um 3 til 4,5 metra á 156.000 ferkílómetra svæði. Ástandinu hefur verið líkt við það að hópur lítilla stráka styngi drykkjarrörum í eitt gosdrykkjarglas og tæmdu það á augabragði.
Sumir finna nú þegar fyrir byrjun þessa kreppuástands. „Vatnsborðið er komið niður í aðeins nokkur fet frá botni í mínum 11 borholum,“ sagði bóndi. „Og það hefur verið þannig í fimm ár. Ef ég dæli of skart þorna brunnarnir.“ „Að því kemur að vatnið verður búið,“ sagði rithöfundur, „og sums staðar getur það gerst á dögum þessarar kynslóðar.“ Sumir sérfræðingar áætla að Ogallala-jarðlögin verði þurrausin eftir 40 ár.
Svipað er uppi á teningnum víða annars staðar í Ameríku. Eitthvert alvarlegasta dæmið eru jarðlögin undir borginni Tucson í Arizona — stærstu borginni í Bandaríkjunum sem er að öllu leyti háð jarðvatni. Er þá talið vatn bæði til heimilis- og iðnaðarnota, landbúnaðar og starfrækslu koparnáma. Þar hefur vatnsborðið lækkað um hvorki meira né minna en 45 metra frá því á sjöunda áratugnum. Endurnýjun vatnsins á móti því sem upp er dælt nemur aðeins um 35 af hundraði.
Sums staðar hefur vatnsborð þessara neðanjarðarforðabúra lækkað um meira en 48 metra. Í El Paso í Texas og Ciudad Juáres í Mexíkó hefur grunnvatnsborð lækkað verulega vegna ofnýtingar, og á borgarsvæði Dallas og Fort Worth hefur vatnsborðið lækkað um meira en 117 metra síðastliðin 25 ár. Þessi stöðugi yfirdráttur úr grunnvatnsforðarbúrinu hlýtur að enda með gjaldþroti.
Ofnotkun jarðvatns hefur í för með sér ýmsar alvarlegar hliðarverkanir auk þess að lækka svo vatnsborðið að horfi til þurrðar. Borgin Houston í Texas er til dæmis að sökkva niður í jörðina sem hún stendur á, að sögn The New York Times þann 26. september 1982. „Orsökin er vatn. Dregið hefur verið of mikið vatn úr hinum umfangsmikla veiti undir borginni til að halda í við hinn öra vöxt síðasta áratugar,“ sagði blaðið. „Hún gæti sokkið um 14 fet [4,2 metra] í viðbót fram til ársins 2020 ef ekkert nema jarðvatnið er notað til að fullnægja þörfum framtíðarinnar.“
Það sama ár skýrði The New York Times frá viðlíka ástandi í Arizonafylki í Bandaríkjunum. Sagt var frá stórum jarðsprungum, sums staðar allt að 120 metra djúpum og 11 kílómetra löngum. Sprungurnar voru afleiðing stórfellds vatnsdráttar úr jarðlögum til að sjá bæði bændum og borgarbúum fyrir vatni. Þegar vatnsborðið lækkar verulega sígur jarðmassinn fyrir ofan hann, og sums staðar myndast miklar sprungur allt að 120 metra djúpar, alla leið niður í bergmassann fyrir neðan. Í Flórída hefur ofnýting jarðvatns einnig hlotið mikla athygli í fjölmiðlum. Vegna þessarar ofnotkunar hefur sums staðar orðið mikið landsig sem gleypt hefur hús og bifreiðir.
Fjölmiðlarnir í Bandaríkjunum klifa nánast stöðugt á því hve alvarlegt kreppuástand sé orðið í sambandi við nýtingu jarðvatns. Menn hafa verulegar áhyggjur af ástandinu. „Viðurkennt er að stöðug ofnýting jarðvatns ógnar þjóð vorri, efnahagslegum vexti og lífsgæðum,“ sagði John P. Hammerschmidt sem á sæti í fulltrúadeild bandaríska þingsins. „Land nægtanna hefur skapað óseðjandi þörf fyrir vatn þar sem ekkert vatn er,“ sagði bandarískur öldungadeildarþingmaður. „Þegar jarðvatnið er á þrotum,“ sagði þingmaðurinn Robert Roe, „þá er allt búið. Það gæti tekið þúsund ár að endurnýja það.“
‚Phoenix horfin eftir 50 ár‘
Öldungadeildarþingmaðurinn Daniel Moynihan sagði: „Ég sagði einu sinni í öldungadeildinni að hægt sé að lifa án olíu og jafnvel án kærleika, en það er ekki hægt að lifa án vatns . . . Ef við þurrausum jarðlögin undir suðvesturríkjunum verður Phoenix [borg í Arizona] ekki til eftir 50 ár. Því miður, vinir, vatnið er búið. Þetta er raunverulegt kreppuástand sem ekki er hægt að snúa við.“ Tímaritið U.S. News & World Report bætti við þann 18. mars 1985: „Flestum Bandaríkjamönnum kann að þykja það langsótt að þjóðin sé að verða uppiskroppa með vatn. Vaxandi fjöldi vatnsfræðinga, verkfræðinga og umhverfisfræðinga heldur því samt fram að tímar hins sjálfumglaða trúartrausts til vatnsbirgða ‚nægtalandsins‘ séu runnir á enda.“
Hringinn í kringum hnöttinn reka þjóðir upp ramakvein yfir því hve ört gengur á jarðvatn þeirra. Á síðasta áratug uppgötvuðu menn í suðurhluta Indlands að jarðvatnsborðið hafði fallið um nálega 30 metra af völdum of mikils vatnsdráttar til áveitu. Í norðurhéruðum Kína eiga tíu stórborgir, sem taka mestan hluta neysluvatns síns neðan úr jörðinni, við að glíma alvarleg vandamál af völdum jarðsigs sem rekja má til ofnýtingar á jarðvatni. Sumar þessara borga hafa sokkið um 20 til 30 sentimetra á ári frá 1950 vegna þess að jarðvatn er að ganga til þurrðar og jarðlögin, sem veita því, skreppa saman. Mexíkóborg er líka í hættu af sömu orsökum.
Á svæðum þar sem jarðvatnslög liggja nálægt sjó bætast við ný vandamál. Þegar jarðvatnsborðið lækkar kemur að því að sjór þrengir sér inn í þau og ferskvatnið mengast. Ísrael, Sýrland og lönd við Arabaflóa hafa þurft að glíma við þessa styrjöld vatnanna niðri í jarðlögunum.
Þótt minni vitneskja liggi fyrir um ástandið í Sovétríkjunum og baráttu þeirra fyrir vatni er við svipuð vandamál að glíma þar í landi. Lönd þriðja heimsins, þar sem mannfjölgun er mjög mikil, hafa þó sér í lagi komist í kynni við þessa baráttu upp á líf og dauða fyrir vatni. Vatnskreppan er ört að herða tökin hvert sem litið er í heiminum.
Jafnvel þar sem vatn virðist nægjanlegt er víða við önnur vandamál að etja eins og fjallað er um í greininni á eftir.
[Innskot á blaðsíðu 18]
„Það er hægt að lifa án olíu og jafnvel án kærleika, en það er ekki hægt að lifa án vatns.“
[Línurit/mynd á blaðsíðu 19]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
97% af vatni jarðar er saltvatn í höfunum.
2,973% ferskvatns er bundið í jöklum, heimskautaís og djúpum jarðlögum.
0,027% ferskvatns er aðgengilegt í vötnum, ám og jarðlögum nálægt yfirborði.