Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.4. bls. 15-16
  • Nóg er til af vatninu . . .

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Nóg er til af vatninu . . .
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Er vatnsskortur á næsta leiti?
  • Hvað segir Biblían um vatnsskortinn í heiminum?
    Fleiri viðfangsefni
  • Lífsvökvinn dýrmæti — vatnið
    Vaknið! – 2003
  • Betri heilsa í glasi af vatni!
    Vaknið! – 1986
  • Aðvörun! — þetta vatn getur verið heilsuspillandi
    Vaknið! – 1987
Sjá meira
Vaknið! – 1987
g87 8.4. bls. 15-16

Nóg er til af vatninu . . .

DAGUR rís. Fólk vaknar af værum nætursvefni hvílt og endurnært. Skrúfað er frá krönum og látið renna í baðker eða menn bregða sér í steypibað til að lauga líkamann. Skola þarf svefndrunganum af augum manna með kaldri vatnsgusu og sumir þurfa heitt vatn til raksturs. Fylla þarf tekatla og kaffivélar til að menn geti fengið sinn ómissandi te- eða kaffibolla í morgunsárið. Óhreint leirtau og föt bíða þvottar í hreinu vatni.

Þegar morgunsólin fetar sig upp á himininn byrja hjól atvinnulífsins að snúast. Lokar eru opnaðir til að vatn, lífsblóð hitunar, kælingar, raforkuframleiðslu, efnabreytinga og margs annars, geti runnið sinn veg um rör og pípur.

Án vatns myndu hjól atvinnulífsins stöðvast jafnörugglega og ljós fer af þegar kló er kippt úr tengli. Til að gera þau þúsund kílógrömm af stáli, sem fóru í bílinn þinn, þurfti 230.000 lítra vatns, og 4 lítra af vatni þurfti til að hreinsa hvern lítra af bensíni í eldsneytistanknum. Kaffi- og veitingahús búa sig undir annasaman dag og vatnsmælarnir eru á fleygiferð. Þar sem úrkoma er lítil liggja leiðslur í kílómetratali og úðarar í þúsundatali vökva akrana þar sem til verða matvæli handa borgarbúum.

Já, nóg er til af vatninu, svo mikið að það virðist nánast óþrjótandi. Þar eð sá hugsunarháttur virðist allsráðandi er vatn misnotað, sólundað og skoðað sem sjálfsagður hlutur. Lítið er hugsað um hvaðan það er komið. Með því að vatn er alls staðar auðfengið getur jafnvel efnalítið fólk búið betur að þessu leyti en konungar fortíðar í allri sinni dýrð. Með því að opna fyrir krana í eldhúsinu eða baðherberginu er hægt að fá heitt eða kalt vatn. (Hérlendis er notkun á höfuðborgarsvæðinu um 250 lítrar af köldu vatni á íbúa á sólarhring og um 1000 lítrar af heitu vatni.)

Vatn er nauðsynlegt öllu sem lifir. Næst lofti er það nauðsynlegast til að viðhalda lífi mannsins. Án matar getur maðurinn lifað í meira en mánuð. Án vatns eða matar og drykkjar, sem inniheldur vatn, deyr hann á um það bil viku. Ef líkami hans tapar meira en 20 af hundraði síns venjulega vatnsinnihalds deyr hann kvalafullum dauða.

Í gegnum sögu mannsins hefur leit hans að vatni oft kostað mannslíf. Styrjaldir hafa verið háðar um yfirráð yfir því. Menn hafa drepið hvern annan út af forarvin í eyðimörk. Bæir, borgir og heimsveldi hafa risið þar sem nóg var af vatni og lagst í eyði þegar vatn gekk til þurrðar. Menn hafa gert skurðgoð til heiðurs vatninu og dýrkað þau sem guði. Þeir hafa beðið til þeirra og viðhaft alls kyns helgisiði og fært fórnir þegar vatn var af skornum skammti, og gefið þeim dýrðina þegar vatn fannst.

Er vatnsskortur á næsta leiti?

Eftir því sem jarðarbúum hefur fjölgað hefur vatnsþörfin aukist. Endalaust lesmál hefur birst í dagblöðum og tímaritum út um heim allan helgað þörfinni fyrir meira vatn. Sérfræðingar tala sumir hverjir um „hinn komandi vatnsskort“ og „næstu auðlindakreppu.“ Aðrir taka dýpra í árinni. „Það er vatnsskortur hjá þjóð okkar nú þegar,“ sagði bandarískur öldungadeildarþingmaður. „Fólk talar um kreppu sem eigi eftir að koma. Kreppan er nú þegar hafin,“ sagði formaður nefndar sem fjallar um neysluvatn til heimilisnota. „Dýrmætasta auðlind Ameríku í hættu,“ sagði U.S. News & World Report í mars 1985. „Kreppa tíunda áratugarins á innlendum vettvangi verður vatnsskortur til innanlandsnota,“ sagði þáverandi innanríkisráðherra Bandaríkjanna. „Allar tilraunir til að stuðla að vexti og atvinnu, auka akuryrkju, vernda umhverfið og gæða borgir okkar lífi á ný verða til einskis nema við getum fullnægt þörf þjóðfélagsins fyrir vatn,“ aðvaraði hann.

Því miður er vatnskreppan ekki eingöngu vandamál Bandaríkjanna heldur alls heimsins. „Vatnskreppa veraldar er miklum mun alvarlegri en olíukreppan,“ sagði greinarhöfundur einn. „Á næstu 20 árum blasir alvarlegur skortur við meira en 30 löndum. Þegar fólki fjölgar og vatn verður knappara er ekki hægt að útiloka þann möguleika að þjóðir fari í stríð út af því,“ bætti hann við. Allt bendir til að sérfræðingar og skipulagsfrömuðir séu á einu máli um að framtíð mannkyns sé mjög tvísýn að því er vatn varðar.

En hvers vegna skyldu menn gera sér áhyggjur út af vatni? Það er feikinóg til af því á jörðinni. Yfir 70 af hundraði yfirborðs jarðar eru hulin vatni. Til að gera þér grein fyrir hversu gífurlegt magn þetta er skalt þú leika þér ögn af tölum. Ímyndaðu þér gryfju sem er einn kílómetri á kant og einn kílómetri á dýpt — einn rúmkílómetri að rúmmáli. Til að fylla gryfjuna vatni þyrftir þú milljón milljón lítra. Margfaldaðu það síðan með 1359 milljónum; þá hefur þú hér um bil það vatnsmagn sem á jörðinni er. Það er í endalausri hringrás frá úthöfum, ám, vötnum og lækjum upp í andrúmsloftið, sökum varma sólarinnar, og fellur síðan aftur til jarðar sem regn eða snjór. — Prédikarinn 1:7.

Sé á þetta litið mætti ætla að meira en nóg vatn sé á jörðinni til að fullnægja þörfum alls sem lifir, allt frá sköpun mannsins um ókomna eilífð. (Sálmur 145:16) Hvers vegna er þá vatnskreppa í heiminum?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila