„Hvað ungur nemur . . . “
Mæður, gerið þið ykkur ljóst hve auðvelt börnin ykkar eiga með að leggja ritningarstaði á minnið?
„SÖGU vil ég segja stutta, sem að ég hef nýskeð frétt. Reyndar þekkið þið hann Gutta . . . “ Hvernig er framhaldið? Trúlega kannt þú „Guttavísur“ því að flestir hafa lært þær á barnsaldri. Hið athyglisverða er að við skulum enn muna eftir þessari barnavísu þótt langt sé liðið frá barnsárunum. Kannski erum við sjálf að kenna börnunum okkar hver það var sem datt „ofan af háum vegg í dag“ svo að „stutta nefið það varð alveg flatt, eins og pönnukaka.“
Það eru tvær nauðaeinfaldar ástæður fyrir því að þú kannt enn þessa vísu og margar fleiri barnavísur: Það var auðvelt að læra þær utan að og þær voru skemmtilegar. En það að þjálfa minnisgáfu barna er ekki bara gert til skemmtunar.
Kennarar mæla eindregið með því
Kennari, sem kennir mjög vel gefnum börnum í sjötta bekk, er eindreginn talsmaður þess að börnum sé kennt að þjálfa minnisgáfu sína. Hann segir með sannfæringarkrafti: „Við skulum horfast í augu við það að krakkar læra heil ósköp utan að. Jafnvel ungir krakkar læra utanbókar tugi kvæða, endalausar runur íþróttakappa og úrslita og annað þvílíkt. Slíkur utanbókarlærdómur er oft gagnslaus og stundum skaðlegur. Það að leggja á minnið heilnæma, göfgandi hluti gefur börnum heilnæman hugsunarhátt. Það er afbragðsgóð ögun. Það kveikir hugmyndir og örvar sköpunargáfuna. Það er undirstaða sem hægt er að byggja á síðar.“
Enskukennari í gagnfræðaskóla bætir við: „Ég hef veitt athygli að skólanemar, sem fá hvorki örvun né þurfa að takast á við áskoranir á unga aldri, hafa tilhneigingu til að vera einhæfir og hneigðir til líkamlegra athafna þegar þeir koma fram á sjöunda skólaár. Þeir eiga oft erfitt með að tjá sig og eiga á hættu að dragast aftur úr.“
Börnin þín munu vafalaust, eins og þú sjálfur, muna ævilangt sumt af því sem þau leggja á minnið. Hví ekki að kenna þeim eitthvað sem þau geta notað og verður þeim til hjálpar svo lengi sem þau lifa? Hví ekki að velja nokkur biblíuvers og kenna þeim þau utan að? Sumar kristnar fjölskyldur gera það og hafa bæði gagn og gleði af.
Börnin geta það og þú líka
Þegar Andrew var sex ára var móðir hans búin að hjálpa honum að leggja á minnið rúmlega 80 biblíuvers orð fyrir orð.
„Það var ekkert kapphlaup,“ segir hún. „Það fór ósköp rólega og eðlilega fram. Þegar ég var að því spurð hve mörg vers hann kynni þurfti ég meira að segja að telja þau saman í huga mér áður en ég gat svarað. Andrew hafði mikla ánægju af að læra ný vers utanað, svo að þeim fjölgaði stöðugt.“
En hvernig fór hún að því? Í hvaða bókum las hún sér til? Þarf að beita einhverjum sérstökum brögðum?
„Nei, nei,“ svarar hún. „Það er ekkert auðveldara. Ég les bara fyrir hann ákveðið vers tvisvar til þrisvar og síðan endurtekur hann það eftir mér orð fyrir orð. Svo endurtökum við þetta tvisvar til þrisvar í viku þar til hann man það. Það kom mér á óvart hve gaman hann hafði af að læra þau og hve fljótur hann var að því!“
„Er þetta allt og sumt?“
„Já, reyndar er það svona einfalt. Þegar fólk fer að hrósa mér fyrir að vera svona góður kennari verð ég að játa að ég hef ekki gert neitt sérstakt. Ég held bara áfram að stinga að honum nýjum og nýjum versum og hann gleypir við þeim eins og smákökum.“
„Áttu við að sonur þinn hafi raunverulega gaman af að læra ritningarstaði utan að?“
„Nei, ég held ekki að hann hafi gaman að því — hann hefur yndi af því! Við hjónin erum jávæð, áhugasöm og hvetjum Andrew og hann er mjög stoltur af afrekum sínum. Önnur börn geta lært hraðar eða hægar en drengurinn okkar, en ég er viss um að öll börn myndu hafa gaman af að eiga svona stundir með pabba eða mömmu.“
Hugsaðu um hvaða gagn barnið hefur af
Þegar þú kennir barninu þínu það sem Biblían segir ert þú að ‚ala það upp með aga og umvöndun Jehóva.‘ (Efesusbréfið 6:4) Þú ert að gróðursetja hugsanir Guðs í barnshuganum, þannig að það tileinkar sér smám saman hugarfar Guðs. Við skulum sjá hvernig það gæti gengið fyrir sig:
Við skulum segja að þú byrjir á því að kenna barninu Matteus 24:14 utan að. Mörgum hefur reynst það vel því að þetta er ritningarstaður sem börnin heyra trúlega oft. Í nokkur fyrstu skiptin getur þú einfaldlega lesið versið og hjálpað síðan barninu að hafa það eftir. Síðan getur þú smám saman hjálpað barninu að skilja inntak textans.
Eftir að barnið hefur þulið upp Matteus 24:14 gætir þú til dæmis skýrt í einum til tveim málsgreinum hvað ‚fagnaðarerindið‘ er. Síðar gætir þú skilgreint í stuttu máli hvað Guðsríki er. Enn síðar getur þú lýst hinum mismunandi heimshlutum þar sem sannkristnir menn prédika og hvernig þetta starf gengur fyrir sig þar. Þessar stundir ættu að vera stuttar, óformlegar og skemmtilegar. Það er engin ástæða til að þú berir þig að eins og sért þú að þjálfa herlið. Gættu þess að andrúmsloftið sé létt og þægilegt. Kannski finnur þú upp nýja fjölskylduleiki í leiðinni.
Farðu þolinmóður yfir versin með barninu nokkrum sinnum í viku þar til það kann þau vel. Kannski kemur að því að það vill ekki lengur fara með fyrstu versin, sem það lærði, því það kann þau reiprennandi. Það er ágætt — og haltu athygli barnsins vakandi með því að bæta við einu til tveim nýjum versum. Kannski kann það orðið uppáhaldsversið sitt svo vel að það notar það fúslega til að svara á safnaðarsamkomu. Vera má að það hafi líka gaman af að fara með versið í áheyrn einhvers sem þið hittið saman úti í boðunarstarfinu hús úr húsi.
En gættu þess að reyna ekki að þvinga barnið eða ýta á að það læri. Börn vaxa hvert með sínum hraða. Sum kunna versin ágætlega utanbókar en eru feimin að fara með þau utan veggja heimilisins. Aðalatriðið er ekki að barnið sýni öðrum hvað það kann, heldur að þið eigið saman uppbyggjandi ánægjustundir við að læra það sem orð Guðs segir.
Við önnur tækifæri getur þú kennt því vers sem veitir því nauðsynlega leiðréttingu og aga, vers sem til dæmis leggur áherslu á virðingu fyrir foreldrum eða það að vera friðsamur í samskiptum við aðra. Ritningarstaðir, sem fjalla um meginkenningar Biblíunnar, svo sem 1. Mósebók 1:1 eða Opinberunarbókin 21:3, 4, eru líka vel við hæfi.
Sannleikurinn er sá að það er ekkert vers í Biblíunni sem þú og barnið þitt hefur ekki gagn og gaman af, því að „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Slík þjálfun minnisgáfunnar er barni þínu mjög gagnleg og gerir hóflegar kröfur til sjálfs þín, auk þess að vera báðum til gagnkvæmrar ánægju. Hví ekki að hefjast handa nú þegar?