Horft á heiminn
Skemmdarverk í gegnum tölvu
„Ný tegund skemmdarvarga, sem starfa í stóru tölvuneti sem starfrækir eins konar ‚tilkynningatöflu,‘ hefur komið þangað inn flóknum hugbúnaði sem þurrkar út eða ruglar tölvuskrám grunlausra notenda,“ segir The New York Times. „Ég býst við að þeir sem finna upp á slíku hafi eitthvert gaman af því að eyðileggja verk annarra,“ segir tölvuráðgjafinn Ross M. Greenberg. Sum þessara forrita er þannig úr garði gerð að þau geta starfað eðlilega svo mánuðum skiptir en svo skyndilega valdið tjóni.
Of lík veruleikanum
Ýmsir halda því fram að Lazer Tag-leikfangabyssan, sem hægt er að skjóta úr innrauðum ljósgeisla, sé einum of lík alvörubyssum. Í það minnsta kostaði þetta leikfang nítján ára pilt lífið. Hann var í bardagaleik síðla kvölds við þrjá unga vini sína og skaut af plastbyssunni á mannveru sem hann trúlega hélt vera einn félaga sinna. Þarna var hins vegar á ferðinni lögregluþjónn sem hafði verið kallaður á vettvang vegna fregna af vopnuðum mönnum er væru að læðast þar um. Í myrkrinu hélt hann ljósið frá leikfangabyssu drengsins vera alvöruskot, greip til byssunnar og skaut tveim skotum með þeim afleiðingum að pilturinn lá örendur. Faðir drengsins lýsti áhyggjum sínum yfir því að hið sama kynni að henda fleiri sökum þess hve leikfangabyssan er lík alvörubyssum. Hann sagði: „Eitthvað verður að gera til að aðvara fólk.“
Mengun er dýrkeypt
„Í Sviss, þar sem helmingur lands er skógur eða fjöll, hefur súrt regn að meðaltali valdið tjóni á helmingi trjáa,“ segir í International Herald Tribune, en „á sumum svæðum . . . eru um 65 af hundraði trjáa dauð eða deyjandi.“ Slíkar tölur eru umhverfisfræðingum mikið áhyggjuefni, en þeir telja mikla hættu stafa af súru regni um allan norðurhluta Evrópu. Í Vestur-Þýskalandi er rúmlega helmingur trjáa dauður eða deyjandi og eins á Vosges-svæðinu í Frakklandi. Ætlað er að eins sé komið fyrir allt að 40 af hundraði trjáa í Póllandi. Samkvæmt upplýsingum frá pólsku félagsvísindaakademíunni, sem franska vikublaðið L’Express vitnaði í, er loft- og vatnsmengun í Póllandi á alvarlegu stigi. Þrátt fyrir hin alvarlegu mengunarvandamál í Evrópu segir dr. Claude Martin, sem er sérfræðingur um súrt regn: „Það gætir vissrar tregðu til að takast á við þau og gera það af nægilegu afli.“
Ný hætta af blóði
Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa af því áhyggjur að sjaldgæf veira, sem veldur krabbameini, kunni að vera að breiðast út með svipuðum hætti og sú sem veldur eyðni. „Við höfum nú sannanir fyrir því að veiran berst með blóði og er tengd mjög alvarlegum sjúkdómi sem fundist hefur í Bandaríkjunum,“ segir S. Gerald Sandler sem starfar hjá Rauða krossinum. Veiran, sem nefnd er HTLV-I, er fyrsta veiran sem vitað er að valdi krabbameini í mönnum. Auk þess að valda vissri tegund hvítblæðis hjá fullorðnum hefur fundist samband milli veirunnar og taugasjúkdóms nefndur TSP, sem er líkur sjúkdómnum mænusigg. „Óvenjuleg hætta stafar af veirunni sökum hins langa dvalartíma hennar,“ segir The Wall Street Journal. „Fólk, sem sýkt er af veirunni, fær ef til vill ekki hvítblæði fyrr en mörgum árum síðar.“ Þegar sjúkdómurinn er hins vegar kominn fram dregur hann sjúklinginn oftast til dauða á aðeins þrem mánuðum.
‚Neyðaraðgerðir‘
Ekki er vitað með vissu hve til eru margar tegundir jurta og dýra. Nefndar eru tölur allt frá 5 til 30 milljóna, en þar af eru aðeins um 1,6 milljónir þekktar núna. Þar eð svona tiltölulega fáar tegundir hafa enn verið rannsakaðar með vísindaleg eða efnahagsleg not í huga, vilja líffræðingar að gert verði stórátak í náttúrufræðirannsóknum, gripið til „neyðaraðgerða til að finna og rannsaka milljónir tegunda áður en þær verða þurrkaðar út,“ að því er segir í The New York Times. Flestar þessara tegunda lifa í regnskógum hitabeltisins sem verið er að eyðileggja, ýmist með skógarhöggi eða með því að ryðja land til akuryrku og kvikfjárræktar. Þótt smádýr og jurtir njóti ekki samúðar almennings líkt og hvalir eða pandabirnir, „eru þær undirstaða flókins vefjar sem er forsenda alls lífs, einnig manna,“ segir Times.
Sameiginlegur þráður krabbameins
Eftir að hafa gert grein fyrir uppgötvunum, sem kynntar voru á 14. alþjóðaþinginu um krabbamein, haldið í Budapest í Ungverjalandi á síðasta ári, sagði Laszlo Dosa sem skrifar um vísindi í tímaritið Voice: „Þegar litið er á heildarmynd krabbameins í heiminum er það óumdeilanleg staðreynd að tóbaksreykingar eru stærsti krabbameinsvaldur sem hægt væri að ráða niðurlögum á.“ Að því er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir stafa 90 prósent allra krabbameina í lungum af reykingum. Þar að auki er um helmingur allra, sem fá krabbamein í nýrum, gamalgrónir stórreykingarmenn. Sum lönd hafa þegar gripið til aðgerða til að reyna að draga úr reykingum. Tímaritið Voice segir að egypska stjórnin hvetji nú trúarleiðtoga, lækna, kennara og hermenn til að hætta reykingum og „setja þar með öðrum landsmönnum fordæmi til eftirbreytni.“ Svipaðar aðgerðir til að draga úr reykingum eru í undirbúningi í ýmsum öðrum Miðausturlöndum. Hver eru viðbrögð almennings? Fréttir herma að sígarettureykingari hafi aukist!
Tæknilegt prófsvindl
Það er ekkert nýtt að skólafólk reyni að svindla í prófum. En nú er hægt að beita við það nýjustu tækni, það er að segja nýju armbandsúri sem getur geymt í minni allt að 500 orð. Að sögn dagblaðsins The Australian sagði kennari einn: „Úrið gæti verið áhyggjuefni. Ef kennurum væri ekki kunnugt um tilvist þess eða umsjónarmenn í prófum ekki vakandi á verðinum myndi það örugglega stofna prófum í hættu.“ Úrin, sem eru framleidd í Japan, kosta 230 ástralska dollara og voru hugsuð til að minna önnum kafið fólk á mikilvæg atriði. Hvað finnst skólanemum um þau? Sextán ára skólanemi sagði: „Það væri stórkostleg ef kennararnir vissu ekki um þau.“
Of nákvæm lýsing
Brandon Brooks, bandarískur sjónvarpsfréttamaður, leyfði lögreglunni að nota heimilið sitt til að sýna sjónvarpsáhorfendum þjófaaðvörunarbúnað sem gæti fælt frá þjófa. Í vikunni á eftir, meðan hann var í kvöldútsendingu, var brotist inn á heimili hans og fjölmörgu stolið, þar á meðal húsgögnum, sjónvarpstæki og myndbandstæki. Rannsóknarlögreglan álítur að þjófarnir hafi notað sjónvarpsmyndina til að gera sér kort af heimili hans svo að þeir gætu sniðgengið aðvörunartækin.
Góðir upplýsingamiðlar
Í bréfi, sem birt var nýverið í ritinu Life and Work, er skoska kirkjan gefur út, fengu tímaritin Varðturninn og Vaknið! mjög góða einkunn. Í bréfinu fjallaði Russell Moffatt, sem er einn af prestum kirkjunnar, um vöxt votta Jehóva og sagði hann stafa að hluta til af því hve „ritin þeirra væru í háum gæðaflokki.“ Hann sagði að bæði Varðturninn og Vaknið! væru „aðlaðandi (með litmyndum), birtu greinar um málefni sem eru ofarlega á baugi hverju sinni, tækju eindregna afstöðu í siðferðismálum og gæfu skýra og auðskilda kennslu og heilræði (t.d. birtist nýlega í Varðturninum grein um ‚Konur á vinnustað‘ sem fjallar um kynferðislega áreitni og gefur kristnum konum góð ráð til að berjast gegn henni) og það sem mestu máli skiptir, greinir frá trúarskoðunum sértrúarflokksins á einfaldan, auðskilinn hátt með Biblíuna að bakhjarli. Í stuttu máli sagt,“ bætti hann við, „er þau mjög góðir upplýsingamiðlar.“
„Æskubrunnur“
Að sögn vísindamanna við háskólann í Toronto í Kanada vinnur hófleg líkamsæfing gegn mörgum af áhrifum ellihrörnunnar — jafnvel hjá fólki yfir áttrætt. „Það þarf að leita lengi til að finna jafngóðan æskubrunn og líkamsæfingu,“ sagði dr. Roy J. Shepherd í frétt í The New York Times, en hann tilheyrir þeim hópi sem fæst við þessar rannsóknir. „Og það þarf engin maraþonhlaup til að ná þeim árangri. Fyrir venjulegan aldraðan mann þarf lítið meira en hálftíma rösklega göngu þrisvar til fjórum sinnum á viku til að yngja hann um tíu ár.“ Afraksturinn er meðal annars bætt starfsemi hjarta og öndunarfæra, lægri blóðþrýstingur, styrkari vöðvar, þéttari bein og skýrari hugsun.