Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.1. bls. 17-18
  • Höndin — lagleg og lipur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Höndin — lagleg og lipur
  • Vaknið! – 1989
  • Svipað efni
  • Maðurinn er alveg einstakur!
    Er til skapari sem er annt um okkur?
  • Undraveröld smábókanna
    Vaknið! – 1998
  • Maðurinn – hið mikla kraftaverk
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
Vaknið! – 1989
g89 8.1. bls. 17-18

Höndin — lagleg og lipur

ÞETTA var neyðartilfelli. Ung stúlka hafði lent í slysi á vélhjóli og aðalslagæðin í hægri fæti rifnað í sundur. Þegar komið var með hana inn í anddyri spítalans voru engin verkfæri við hendina til að stöðva blóðið sem gusaðist úr sárinu. Hvað gat læknirinn gert?

„Ég notaði höndina sem klemmu,“ segir prófessor Napier í bók sinni Hands, „og klemmdi æðina saman með þumal- og vísifingri eins fast og ég gat. Að lokum tókst mér að binda fyrir æðina með spotta — það var það eina sem nærtækt var — og stöðva blæðinguna. . . . Ekkert nema hendur hefðu getað ráðið svona fljótt og vel við þetta neyðarástand. Fáir sjúklingar . . . gera sér nokkru sinni grein fyrir því hvernig fingur á réttum stað við skurðaðgerð hefur bjargað lífi þeirra.“

Þær fingrastellingar, sem þarf til þessa, væru ógerlegar ef ekki kæmi til söðulliður þumalfingursins (sjá mynd). Lögun söðulliðarins er þannig að hann leyfir næstum jafnmikinn hreyfanleika og kúluliður axlarinnar, en ólík að því leyti að hann þarfnast ekki stuðnings vöðvanna umhverfis eins og axlarliðurinn. Þumalfingurinn getur því mætt fingurgómunum með mikilli nákvæmni.

Reyndu að taka upp smáan hlut eða fletta þessu blaði án þess að beita þumalfingrinum. Suður-afrískur læknir sagði: „Ég hef sett býsna marga þumalfingur í spelkur, og þegar sjúklingarnir koma aftur segja þeir mér oftast að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir að þeir þyrftu svona mikið að nota þumalfingurinn.“

Mannshöndin, með þumal sem grípur á móti hinum fingrunum, er einstaklega fjölhæft verkfæri. Hvernig gætir þú skrifað bréf, tekið ljósmynd, neglt nagla, notað síma eða þrætt saumnál án handarinnar? Svo er höndinni fyrir að þakka að píanóleikarar geta leikið blæbrigðarík tónverk, listmálarar málað fagrar myndir og skurðlæknar gert flóknar aðgerðir. „Hvað fingrafimi áhrærir eru aparnir, með langa fingur en stuttan þumal, fatlaðir,“ segir The New Encyclopædia Britannica.

Annar veigamikill munur er á hönd manns og apa. Um fjórðungur hreyfistöðva mannsheilans er helgaður handarvöðvunum. Prófessor Guyton segir í kennslubók sinni Textbook of Medical Physiology að hreyfistöðvar mannsheilans ‚séu mjög ólíkar hreyfistöðvunum í heila hinna óæðri dýra‘ og að þessi munur gefi manninum „einstæða hæfni til að beita hendinni, fingrunum og þumlinum til að leysa verkefni sem krefjast mikillar fingrafimi.“

Taugaskurðlæknar hafa auk þess uppgötvað annað svæði í mannsheilanum sem tengt er lipurð handarinnar. Til að höndin geti leyst flókin verkefni þarf hún að vera vel búin snertinemum. Þetta eru smásæir taugaendar sem eru sérstaklega margir í þumalfingrinum. Læknir, sem Vaknið! átti viðtal við, sagði: „Þegar fólk missir jafnvel smáhluta tilfinningarinnar úr þumalfingurgómnum á það erfitt með að stilla af smáhluti svo sem skrúfur.“ Handleggirnir eru búnir annars konar nemum sem gera okkur fært að stilla hendurnar rétt af jafnvel í svartamyrkri. Þess vegna getum við klórað okkur á nefbroddinum í rúminu að næturlagi án þess að slá okkur í andlitið.

Jafnvel sáraeinföld athöfn eins og að teygja sig eftir vatnsglasi er við nánari íhugun undraverð. Ef við grípum ekki nægilega fast um glasið getur það runnið úr greip okkar en ef við tökum of fast um það getum við brotið það og skorið okkur. Hvernig förum við að því að halda mátulega fast á glasinu? Þrýstinemar í hendinni senda boð til heilans sem sendir um hæl viðeigandi fyrirmæli til vöðvanna í útréttum handlegg og hendi.

Á augnabliki berð þú glasið upp að munninum og leggur það mjúklega að vörunum, án þess að þú þurfir að horfa á það. Á meðan getur athygli þín beinst að sjónvarpstæki eða samræðum við vini þína. „Sú staðreynd að hægt skuli vera að bera glasið upp að munninum án þess að slá því í andlitið,“ segir dr. Miller í bók sinni The Body in Question, „ber vitni um hæfni útrétts handleggs til að mæla þyngd af mikilli nákvæmni. Og sú staðreynd að glasið skuli haldast í réttri hæð um leið og það léttist þegar það er tæmt, sýnir hve fljótt upplýsingarnar eru endurnýjaðar.“

Það er engin furða að mannshöndin skuli hafa fyllt menn mikilli undrun. „Þótt engin önnur sönnun lægi fyrir,“ skrifaði hinn nafntogaði vísindamaður Sir Isaac Newton, „myndi þumalfingurinn einn sannfæra mig um tilvist Guðs.“ „Við getum sent menn til tunglsins,“ segir prófessor Napier, „en með allri vél- og rafeindatækni okkar getum við ekki búið til gervivísifingur sem hefur bæði snertiskyn og getur gefið bendingu.“ Uppsláttarritið The New Encyclopædia Britannica segir að mannshöndin sé sennilega ‚laglegasta og liprasta líffærið sem til er,‘ líffæri sem „greinir manninn frá öllum öðrum lifandi prímötum.“

[Myndir á blaðsíðu 18]

Söðulliður þumalfingursins býður upp á meiri hreyfanleika en samsvarandi liður hinna fingranna.

[Myndir]

Mannshöndin, með þumlinum sem getur gripið á móti hinum fingrunum, er einstaklega fjölhæft verkfæri.

[Mynd]

Skyntaugar í hendi og handlegg gera heilanum kleift að samstilla flóknar hreyfingar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila