Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.1. bls. 19-20
  • Augað — „Öfundarefni tölvusérfræðinga“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Augað — „Öfundarefni tölvusérfræðinga“
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Undravert samstarf‘
  • Sjónhimna augans
    Vaknið! – 2011
  • Þjarkahönnuður skýrir frá trú sinni
    Vaknið! – 2013
  • Litblinda — sérkennilegur galli
    Vaknið! – 1991
  • Heilinn — „Meira en tölva“
    Vaknið! – 1989
Sjá meira
Vaknið! – 1989
g89 8.1. bls. 19-20

Augað — „Öfundarefni tölvusérfræðinga“

SJÓNHIMNAN er þunn himna sem þekur innanverðan afturvegg augans. Hún er þunn eins og pappír og samsett úr hundruðum milljóna lagskiptra taugafrumna. Að sögn bókarinnar The Living Body er sjónhimnan, sem einnig er nefnd nethimna, „einhver athyglisverðasti vefur mannslíkamans.“ Hún er „öfundarefni tölvusérfræðinga því að hún framkvæmir um 10 milljarða útreikninga á sekúndu,“ segir Sandra Sinclair í bók sinni How Animals See.

Líkt og myndavélarlinsa skilar skarpri mynd á filmu skarpstillir linsa mannsaugans myndina sem fellur á sjónhimnuna. En eins og dr. Miller nefnir á ljósmyndafilman „langt í land með að nálgast hið alhliða næmi sjónhimnunnar.“ Með sömu „filmu“ getum við séð bæði í tunglskini og sólskini sem er 30.000 sinnum sterkara. Auk þess getur sjónhimnan greint fína drætti hlutar sem er að nokkru leyti baðaður ljósi en að nokkru leyti í skugga. „Þetta getur ljósmyndavél ekki,“ segir prófessor Guyton í bók sinni Textbook of Medical Physiology, „vegna hins þrönga ljósnæmissviðs filmunnar.“ Ljósmyndarar þurfa því oft að nota leifturljós.

Sjónhimnan á hið alhliða næmi sitt meðal annars að þakka 125 milljónum stafa, en það eru taugafrumur sem eru mjög næmar fyrir ljósi og gera mönnum þar með kleift að sjá að næturlagi. Þá eru í sjónhimnunni um 5,5 milljónir keilna sem eru næmar fyrir sterkara ljósi og gera okkur kleift að skynja fjölbreytt litbrigði. Hluti keilnanna er næmastur fyrir rauðu ljósi, annar hluti fyrir grænu og enn einn fyrir bláu. Saman gera þær okkur kleift að sjá alla þá fjölbreyttu liti sem eru umhverfis okkur. Þegar allar þrjár tegundirnar verða fyrir jafnsterkum áhrifum skynjum við það sem hvítt.

Flest dýr hafa takmarkað litaskyn eða alls ekkert. „Litaskyn eykur gífurlega ánægju okkar af lífinu,“ segir skurðlæknirinn Rendle Short og bætir við: „Af öllum þeim líffærum, sem eru ekki algerlega lífsnauðsynleg, má telja augað hið stórkostlegasta.“

‚Undravert samstarf‘

Myndin, sem fellur á sjónhimnu augans, er á hvolfi alveg eins og mynd á ljósmyndafilmu. „Hvers vegna sjáum við þá ekki heiminn á hvolfi?“ spyr dr. Short. „Vegna þess að heilinn hefur vanið sig á að snúa myndinni við,“ svarar hann.

Með sérstökum gleraugum er hægt að snúa við myndinni sem fellur á sjónhimnuna. Tilraunir hafa verið gerðar að láta fólk ganga með slík gleraugu til að sjá hvað gerðist. Í fyrstu sá það allt á hvolfi en eftir fáeina daga gerðist nokkuð undarlegt. Fólkið fór að sjá eðlilega á ný! „Hið undraverða samstarf auga og heila birtist á fjölmarga vegu,“ segir The Body Book.

Þegar þú rennir augunum yfir þessa línu skynja keilurnar muninn á prentsvertunni og hvítum pappírnum. En sjónhimnan getur ekki borið skynbragð á letur og tákn sem maðurinn hefur búið sér til. Við lærum að túlka og skilja myndir og tákn í heilanum, en þangað þurfa að berast boð frá auganu.

Sjónhimnan sendir rafboð eftir milljón taugaþráðum til sjónstöðvanna aftarlega í heilanum. „Þau boð, sem berast frá sjónhimnunni til heilabarkarins, eru afar skipuleg og regluföst,“ segir í bókinni The Brain. „Ef smáljósgeislar falla á mismunandi hluta sjónhimnunnar framkallar það viðbrögð í samsvarandi hlutum sjónstöðvanna [í heilanum].“

[Mynd á blaðsíðu 19]

Ljósnæmi sjónhimnunnar spannar mjög breitt svið og augað þarf því ekki hjálparljós líkt og ljósmyndavél.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Í sjónhimnunni eru milljónir taugafrumna, nefndar keilur, sem eru næmar fyrir grænu ljósi, rauðu eða bláu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila