Horft á heiminn
Vatn er best
Hvað er best að drekka við þorsta? Vatn er best, svara sérfræðingar. Sykraðir drykkir og ávaxtasafar auka vatnsþörf líkamans sökum sykursins sem í er (hvort heldur hann er náttúrlegur eða ekki). Mjólk og aðrir drykkir unnir úr mjólk eru í raun fæða og innihalda oftast of mikið af sykri, próteinum og fitu til að slökkva þorsta. Og drykkir, sem innihalda áfengi eða koffín, eru þvagörvandi og hafa þar af leiðandi þau áhrif að líkaminn missir vatn. Af hverju má ráða hvort líkaminn þarfnast vatns? Liturinn á þvaginu segir til um það. Ef það er ekki litað af vissum matvælum, vítamínum eða lyfjum ætti það að vera fölgult. Sé það dökkt gefur það til kynna að líkaminn þarfnist vatns til að draga úr álagi á nýrun.
Hugvitssamleg drápstæki
Bandarískir vísindamenn hafa smíðað fleyglaga kjarnorkuflugskeyti, um einn og hálfan metra á lengd, sem getur stungist niður í jörðina áður en það springur. Við sprenginguna myndast höggbylgja neðanjarðar sem er tífalt áhrifameiri en væri sprengja sömu stærðar sprengd í andrúmsloftinu. Lundúnablaðið The Observer segir um þessa nýju uppfinningu: „Veraldarleiðtogar, sem hafa áformað að sitja af sér kjarnorkustyrjöld í neðanjarðarbyrgjum langt fyrir neðan yfirborð jarðar, eiga eftir að skjálfa.“ Þannig halda menn áfram að beita hugviti sínu til að finna upp ný drápstól, allt þangað til Guð bindur enda á þessa heimsskipan og „stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ — Sálmur 46:10.
Spurningunni enn ósvarað
Sú spurning hvernig hinar mörgu milljónir núlifandi tegunda urðu til hefur lengi þjakað þróunarsinna. Til að tegund geti verið tegund getur hún ekki tímgast með öðrum tegundum — ekki einu sinni þeirri sem hún á að hafa þróast af. Ef þær eignast afkvæmi saman er það annaðhvort ófrjótt (eins og til dæmis múldýrið) eða deyr áður en það kemst til þroska. Að sögn vísindatímaritsins Discover segja erfðafræðingar nú að þeir hafi fundið „bjargargen, agnarsmáan galla í tegundarþröskuldinum“ sem leyfði stökkbreyttum karldýrum ávaxtaflugunnar að lifa þótt hann veiklaði þær nokkuð. „Genið braust þó ekki fullkomlega í gegnum tegundarmörkin; það gat ekki gert karldýrin frjó,“ segir í greininni. Þetta vekur „erfiða spurningu,“ segir Discover. „Ef foreldrarnir, sem bera það, hafa ekki gagn af því og afkvæmin, sem erfa það, geta ekki látið það ganga í arf, hvernig getur þá hugsast að genið hafi þróast?“
‚Glæpur gegn framtíðinni‘
„Við lifum á lánsauðlindum: lánslofti, lánsvatni — allt sem við höfum er tekið að láni,“ segir prófessor Keith Cole við áströlsku vísindaakademíuna. „Það er nánast enginn iðnaður til sem ekki hefur í för með sér verulegan úrgang, og fyrr eða síðar mun þurfa að bæta það tjón sem unnið er á umhverfinu.“ Í dagblaðinu The Sydney Morning Herald benti Cole á að mannkynið sé að komast í tímaþröng með að skilja hvaða áhrif taumlaus mengun hafi á umhverfið. Prófessor Cole er ekki einn um þetta. Í janúar síðastliðnum fordæmdu 75 nóbelsverðlaunahafar, sem funduðu í París, í sameiginlegri yfirlýsingu það að menn skuli „eyða og fara ránshendi um umhverfið“ og kölluðu það „glæp gegn framtíðinni.“ Að sögn svissneska dagblaðsins Basler Zeitung var höfðað til vísindamanna um allan heim að sýna siðferðilega ábyrgðartilfinningu í því hvernig þeir hagnýttu uppgötvanir sínar.
Er hægt að bæta það tjón sem orðið er á umhverfi okkar? World Watch-stofnunin, rannsóknastofnun með aðsetur í Washington, svarar játandi, en bætir við að það sé aðeins með samstarfi þjóða í milli og umtalsverðri fjárfestingu þeirra. Hins vegar benti forstöðumaður stofnunarinnar, Lester R. Brown, á: „Það verður ekki auðvelt að koma heiminum á réttan kjöl í ljósi þeirra umhverfisspjalla sem orðin eru og ríkjandi efnahagsglundroða.“
Unglingur í hefndarhug
Ótti hefur gripið marga af íbúum eyjarinnar Guernsey á Ermasundi. Samkvæmt frétt í South China Morning Post hefur 18 ára frönsk stúlka, sýkt af eyðni, játað að hafa haft mök við tugi karlmanna, að því er virðist í hefndarhug yfir því að hún skyldi fá veiruna. Stúlkan er sögð hafa haft kynmök við „grunlausa skóladrengi, fiskimenn og kvænta menn“ án þess að gefa til kynna að hún væri sýkt af eyðni. Sagt er að fjórir af hinum 51.000 eyjarskeggjum hafi nú þegar fengið þennan banvæna sjúkdóm.
„Þekktasta trúartímaritið“
Í því skyni að ganga úr skugga um hvaða trúartímarit Finnar þekktu best gekkst dagblaðið Kotimaa, helsta dagblað lútersku kirkjunnar í Finnlandi, fyrir skoðanakönnun. Niðurstöðurnar voru birtar í forsíðugrein sem bar heitið „Varðturninn er þekktasta trúartímaritið.“ Í ritstjórnargrein var síðan fjallað um velgengni Varðturnsins í samanburði við önnur trúartímarit og þar sagði: „Ástæðan fyrir því að [Varðturninn] er þekktastur er hið trúfasta og þrotlausa starf þeirra sem dreifa honum; allir þekkja blaðasalana á götuhornunum sem standa þar óháð veðri og vindum.“
Árangurslaust erfiði
Bresk yfirvöld hafa ákveðið að leggja niður stofnun sem var helguð læknisfræðilegum rannsóknum á kvefi. Stofnunin var staðsett í Wiltshire í suðurhluta Englands og hefur starfað í um fjóra áratugi. Markmiðið með starfi stofnunarinnar hefur verið það að finna áhrifaríka lækningu á kvefi. En sökum þess að „árangur hefur ekki náðst telja yfirvöld að hinni árlegu 500.000 sterlingspunda fjárveitingu stofnunarinnar sé betur varið til annarra verkefna,“ að sögn franska dagblaðsins Le Monde. Forstöðumaður stofnunarinnar, David Tyrell, segir að „heitt bað“ sé enn talið besta ráðið við venjulegu kvefi.
Heilsusamlegt að hjálpa öðrum
„Fáðu reglulega hreyfingu, borðaðu mat sem tryggir nauðsynleg næringarefni í réttum hlutföllum og gerðu eitthvað gott fyrir aðra. Þetta eru þau ráð sem þú mátt búast við að fá frá lækninum þínum í náinni framtíð,“ segir tímaritið American Health. Hvers vegna? Vaxandi rök eru fyrir því að það sé heilsusamlegt að láta sér annt um hag annarra. „Vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að regluleg þátttaka í sjálfboðastarfi auki, meira en nokkurt annað starf, verulega lífslíkur manna (og sennilega lífsþrótt),“ segir í greininni. „Allmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk þarfnast annarra manna heilsunnar vegna.“ Hjartað, taugakerfið og ónæmiskerfið njóta góðs af því að gera öðrum gott. Fjandskapur, á hinn bóginn — sem slítur fólk úr tengslum hvert við annað — margfaldar hættuna á hjartasjúkdómum. „Það viðhorf að umhyggja fyrir öðrum sé góð fyrir menn gæti haft gífurleg þjóðfélagsleg áhrif,“ segir tímaritið. „Miskunnsamir Samverjar gætu hætt að vera fágæt tegund.“
Aldrei of gamall
Það er alltaf krefjandi viðfangsefni að læra nýtt tungumál. En vísindamenn við ýmsar Max Plank-stofnanir í Vestur-Þýskalandi véfengja þá skoðun að hæfnin til að læra fari dvínandi með aldrinum. Að sögn Lundúnablaðsins The Times segir prófessor Wolfgang Klein að ‚engin vísindaleg rök séu fyrir því að fullvaxta fólk, sem vill ná góðum tökum á erlendu tungumáli, eigi neitt erfiðara með það en börn.“ Enda þótt fullorðnir eigi yfirleitt erfiðara með að ná góðum framburði standa þeir börnunum framar í hæfni sinni til að ná tökum á stórum orðaforða. Prófessor Paul Baltes við stofnun er fæst við fræðslurannsóknir segir jafnvel að „margt aldrað fólk ráði yfir töluverðu varaminni sem hægt sé að nota til að nema og hugsa.“ The Times hefur eftir öðrum vísindamanni að sá missir á hæfni mannshugans, sem talinn er verða „á gamalsaldri, geti stafað af líferni manna en ekki getu: í mörgum tilvikum hafa menn einfaldlega ekki notað þann hugsunarkraft sem þeir bjuggu yfir.“