Frá lesendum
Öruggur akstur
Þið eigið mikið hrós skilið fyrir greinarnar um „Öruggan akstur.“ (Apríl-júní 1988) Ég hef um langt árabil verið mikill áhugamaður um öruggan akstur og mér þóttu kaflarnir „Er bifreiðin í ökuhæfu ástandi?“ „Lestu veginn“ og „Ráð sérfræðinga“ sérstaklega góðir og skýrir. Lesendum blaðsins kann að þykja athyglisvert eitt ráð sem tengdafaðir minn kenndi mér, en hann hefur verið mér hjálparhella í gegnum árin. Hann sagði mér að í hvert sinn sem ég stigi upp í bifreiðina skyldi ég muna að ég væri að aka fjórum bifreiðum: minni eigin, bifreiðinni á undan, bifreiðinni á eftir og bifreiðinni sem ég sé ekki.
S.J.D., Bandaríkjunum
Ég hafði mikla ánægju af lestri greinanna um „Öruggan akstur.“ Mér fannst þær þó ekki gefa alls kostar rétta mynd þar eð athyglin beindist eingöngu að ungu fólki. Hrakandi sjón og heyrn aldraðra og hægari viðbrögð valda því að öðrum vegfarendum stafar oft hætta af þeim. Mér er vel ljóst hve þægilegt það er að skjótast í búð á bílnum. Ég þekki hins vegar nokkur gamalmenni sem hafa mjög hættulegt aksturslag. Mér hefði þótt vænt um að sjá nokkrar háttvíslegar áminningar til aldraðra um ábyrgan akstur nú á dögum.
E.D., Vestur-Þýskalandi
Við töldum efnið veita ökumönnum á öllum aldri góð ráð, en trúlega hefur aðvörunin gegn hraðakstri og frekju gefið ýmsum lesendum þá hugmynd að aðallega væri verið að tala til ungra ökumanna. Grein í „New York Times,“ sem fjallaði um vandamál aldraðra ökumanna, sagði: „Ólíkt ungum ökumönnum, sem gerast oft brotlegir við lög með hraðakstri eða glannaskap, lenda aldraðir ökumenn oftar í slysum með því að víkja ekki fyrir þeim sem eru í rétti eða hlýða ekki umferðarljósum og umferðarmerkjum. Oft má rekja það til hrakandi sjónar eða skorts á athygli.“ Það er fólki mikill hægðarauki, ekki síst öldruðum, að geta ekið bifreið, en við viljum alltaf að þeir komist heilir á leiðarenda. — ÚTG.
Gagnrýni á önnur trúarbrögð
Ég hef verið tryggur lesandi Vaknið! um nokkurt árabil og ég tel ykkur vera á réttri braut. Ég get þó ekki annað en hneykslast á stöðugri gagnrýni ykkar á öðrum trúarbrögðum, sem stundum er ekkert annað en last og svívirðingar og jaðrar jafnvel við rógburð. Það er óvinsamlegt, að ekki sé meira sagt, og dregur athyglina frá því ætlunarverki sem þið segist hafa, sem ég tel vera að boða fagnaðarerindið.
B.P., Frakklandi
Við berum ósvikna umhyggju fyrir fóki allra trúarbragða, en séu trúarskoðanir þess og -athafnir rangar og verðskuldi vanþóknun Guðs er það kærleiksríkt að vekja athygli þeirra á því með því að afhjúpa villuna. Jesús fletti ofan af trúvillu hinna skriftlærðu og faríseanna í sinni samtíð og sagði að trú þeirra væri til einskis. (Matteus 15:1-14; 23:2-32) Það er orð Guðs sem afhjúpar og fordæmir rangar trúarathafnir sem gerðar eru í hans nafni. Við fetum í fótspor Jesú með því að vekja athygli á því sem orð Guðs segir, en það getur orðið til eilífs hagnaðar þeim sem vilja heyra. — ÚTG.