Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.4. bls. 7-11
  • Temdu þér varúð í umferðinni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Temdu þér varúð í umferðinni
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Er bifreiðin ökuhæf?
  • Ökuprófið
  • Bættu aksturstækni þína
  • Umferðaröryggi er viðhorfsatriði
  • Öruggur akstur — aðkallandi nauðsyn
    Vaknið! – 1988
  • Frá lesendum
    Vaknið! – 1988
  • Hvernig tekstu á við ökubræði?
    Vaknið! – 1998
  • Forðastu frekju og hraðakstur!
    Vaknið! – 1988
Sjá meira
Vaknið! – 1988
g88 8.4. bls. 7-11

Temdu þér varúð í umferðinni

HVERNIG myndir þú lýsa sjálfum þér sem ökumanni? Myndir þú segja að þú værir traustur, varkár, aðgætinn, fumlaus, óöruggur, gálaus, glannalegur eða jafnvel hættulegur? Flestir gera sér nokkuð háar hugmyndir og telja sjálfa sig trausta og aðgætna ökumenn, en farþegar þeirra og aðrir vegfarendur myndu ef til vill leggja annað mat á ökulag þeirra.

Ein forsenda öryggis í umferðinni er sú að bifreiðin sé í ökuhæfu ástandi.

Er bifreiðin ökuhæf?

Víða um heim er mönnum skylt að mæta með bifreiðar sínar í reglubundna skoðun. Árangurinn kemur oft á óvart. Nýleg skoðun á fimm ára gömlum bifreiðum í Frakklandi leiddi til dæmis í ljós að 73 af hundraði voru annaðhvort í miðlungsgóðu, mjög slæmu eða hættulegu ástandi.

Þegar þú kannar ástand bifreiðar þinnar er vafalaust gott fyrir þig að skoða kerfisbundið ákveðin atriði, líkt og flugmaður fer yfir ákveðinn gátlista til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi áður en hann hefur vélina til flugs. Á næstu blaðsíðu er tillaga að slíkum gátlista.

Landslög krefjast þess að bifreiðin sé í ökuhæfu ástandi og ábyrgðartryggð, auk þess að þú þarft að hafa ökuréttindi áður en þú mátt aka af stað.

Ökuprófið

Flestir ökunemendur eru fremur taugaóstyrkir þegar ökuprófið blasir við. Þeir tala varla um annað. En ökupróf eru æði breytileg frá landi til lands.

Í Frakklandi, eins og víðast hvar í heiminum, eru ökunemendur prófaðir bæði í bóklegum fræðum og verklegum. Í Vestur-Þýskalandi er einnig veitt kennsla í neyðarhjálp á slysstað. Þar er þess einnig krafist að ökunemendur fái minnst einnar og hálfrar stundar æfingu í akstri að næturlagi og rúmlega tveggja stunda akstri á hraðbraut. Standist ökuneminn prófið fær hann bráðabirgðaökuleyfi til tveggja ára. Valdi hann ekki slysi á því tímabili er honum veitt varanlegt ökuleyfi.

Í Japan er krafist á bilinu 30 til 60 klukkustunda verklegrar kennslu hjá löggiltum ökukennara og ökuprófið skiptist síðan í læknisrannsókn (þar sem könnuð er sjón, litaskyn og heyrn), verklegt ökupróf og skriflegt próf (í umferðarreglum).

Að sögn Lundúnablaðsins The Times „falla hundruð reiðra Bandaríkjamanna [búsettir á Englandi] á hinu erfiða ökuprófi“ þar í landi. Breska ökuprófið er talið „eitthvert hið strangasta í heiminum“ og fallhlutfallið nemur 51 af hundraði (samanborið við 15 af hundraði í Bandaríkjunum).

Munurinn á ökuprófum í mismunandi löndum er margvíslegur. Ben Yoshida, sem starfrækir ökuskóla í New York, bendir á: „Í Tokyo dæmir prófdómarinn [ökunemendurna] eftir því hve vel þeir geta ekið bifreið tæknilega, en í Bandaríkjunum er fylgst með því hve aðgætnir þeir eru.“

En óháð því hvaða munur er á ökuprófum frá einu landi til annars þurfa ökumenn alls staðar að leggja sig fram um að vera traustir og aðgætnir. Hvernig geta þeir gert það?

Ensk kona, sem þreytti ökupróf og stóðst það liðlega fimmtug að aldri, undirbjó sig meðal annars með því að lesa bresku umferðarlögin vel og rækilega.a En eins og með allan annan lærdóm komst hún að raun um að lestur námsbóka nægir ekki einn sér.

Æfing er algjör nauðsyn. Ef þú ert nýbúinn að fá ökuréttindi skalt þú æfa þig í akstri við mismunandi skilyrði. Akstursskilyrði eru breytileg eftir veðri. Veggrip hjólbarðanna er ekki hið sama á blautum vegi og þurrum, jafnvel þótt úrkoma sé sáralítil. Við þau skilyrði er nauðsynlegt að aka hægar og vera betur vakandi fyrir hættum í umferðinni en endranær. Akstursskilyrðin versna enn í úrhellisrigningu, til dæmis við það að bifreiðin á undan þér eys upp vatni sem takmarkar útsýnið. Og ekki má gleyma hálku, dimmviðri og snjó sem allt hefur í för með sér sín sérstöku vandamál. Æfðu þig í að aka við ólík skilyrði og hagaðu akstri eftir veðri og ástandi vegar.

Trúlega ert þú ekki útlærður bifvélavirki. Sannleikurinn er sá að „innan við einn af hverjum fimm ökumönnum veit hve hár loftþrýstingur á að vera í hjólbörðum bifreiðarinnar eða með hvaða millibili bifreiðin á að fá reglubundið eftirlit,“ segir Lundúnablaðið Daily Mail. Það heldur áfram: „Einn af hverjum þrem les aldrei handbók bifreiðarinnar og nánast allir hrista höfuðið yfir hreyflum nútímabifreiða.“ Hvað um þig?

Þótt ekki sé nauðsynlegt að þekkja til hlítar hinn flókna vélbúnað nútímaökutækja er gagnlegt að skilja grundvallaratriðin. Við það færð þú betri tilfinningu fyrir bifreiðinni sem þú ekur.

Bættu aksturstækni þína

Þú ert ánægður og stoltur af árangrinum þegar þú hefur staðist ökuprófið. En hvað gerist svo? Slakar þú þá á kröfunum? „Margir ökumenn verða fremur glannafengnir eftir að hafa staðist ökuprófið,“ segir ökukennari. Hann gefur eftirfarandi ráð: „Þekktu takmörk þín og ökutækisins við mismunandi skilyrði. Líklegt er að þú verðir fyrir slysi þar til þú hefur lært að þekkja þau.“ Ökumaður einn játar: „Ef ég æki núna eins og ég ók fyrstu vikurnar eftir ökuprófið væri ég betri ökumaður.“ Hvers vegna? „Ég tek oftar áhættu núna,“ segir hann.

Með því að standast ökuprófið sýnir þú að þú sért í meginatriðum varkár ökumaður. Viljir þú verða góður ökumaður verður þú að halda áfram að þjálfa hæfni þína. Það er nánast öruggt að þú getir orðið betri ökumaður með reynslunni og með því að gefa gaum að ökutækni þinni.

Hafðu athyglina alltaf vakandi fyrir hugsanlegum hættum. „Stærsti ágalli ökumanna núna er ónóg framsýni og athygli fyrir því sem er að gerast fyrir framan, aftan og til hliðar við bifreiðina,“ segir breski ökuprófdómarinn Alex Miller. Reyndu að vera viðbúinn hinu óvænta. Lærðu að ‚lesa veginn‘; það mun hjálpa þér. — Sjá rammann hér til hliðar.

Umferðaröryggi er viðhorfsatriði

„Lundernið skiptir mestu máli,“ segir Alex Miller. Bifreiðarstjóri með 30 ára reynslu að baki, bæði í Afríku og Evrópu, metur málið þannig: „Það er nátengt skapgerð manna hve góðir ökumenn þeir eru. Hegðun ökumanns í umferðinni endurspeglar það hvernig hann kemur fram við aðra í venjulegum samskiptum.“

Kanadískur ökumaður beinir athyglinni að mikilvægi réttra viðhorfa og segir: „Ef menn litu á ökuleyfið sem ‚hlunnindi‘ en ekki ‚réttindi‘ myndi fólk sýna miklu betri mannasiði í umferðinni og auka öryggið á þjóðvegunum verulega.“

„Ef öryggi er viðhorfsatriði er hæverska einn mikilvægasti efnisþátturinn,“ segir í umferðarhandbók frá breska samgönguráðuneytinu. Fyrir marga kallar slíkt á skapgerðarbreytingu. Er slík breyting gerleg? Já, hún byggist meðal annars á því að bera umhyggju fyrir öðrum, vera óeigingjarn. Hin svonefnda ‚gullna regla‘ í Biblíunni orðar þetta vel: „Vertu við aðra eins og þú vilt að þeir séu við þig.“ — Matteus 7:12, Lifandi orð.

En hvernig er hægt að fara eftir þessu í alvöru lífsins? „Þegar eitthvað fer í skapið á mönnum úti í umferðinni er afar erfitt að sýna góða eiginleika,“ segir enskur ökumaður. Vafalaust ert þú honum sammála. Löngunin til að gjalda öðrum í sömu mynt getur verið afar sterk. „Ég hef notað tónlistarsnældur mér til hjálpar. Það er ótrúlegt hve róandi það getur verið að hlusta á þær.“ — Sjá rammann á blaðsíðu 9.

Reyndur japanskur ökumaður ráðleggur þetta: „Reyndu af öllum kröftum að hafa stjórn á tilfinningum þínum og gremju, ef einhver er. Ef eitthvað kemur þér í uppnám skalt þú raula eða syngja.“

Ætlastu ekki til of mikils af öðrum. Slysatölur úr umferðinni eru skýr aðvörun um þá hættu sem stafar af gálausum ökumönnum. Vertu staðráðinn í að vera sífellt í varnarstöðu, eða eins og einn ökumaður orðaði það: „Aktu eins og þér geti stafað hætta af öllum hinum á götunni.“

Hafðu líka hugfast að þú getur lært af öðrum. Reyndu að brjóta til mergjar hve góðir ökumenn þeir eru. — Sjá leiðbeiningarnar hér til hliðar.

„Það er enginn galdur að verða úrvals ökumaður,“ fullyrðir Jim Kenzie í dagblaðinu The Toronto Star. „Það eina sem þú þarft er ákveðin kunnátta og þekking, dálítil heilbrigð skynsemi og viss tillitssemi við aðra.“ Hvort sem þú ert reyndur eða óreyndur ökumaður skaltu hafa í huga að gatan er ekki staður til að sýna sig fyrir öðrum; hún er ekki staður til að sýna óþolinmæði eða eigingirni.

Með því að rækta með þér tilfinningu fyrir bifreiðinni, ‚lesa veginn,‘ einbeita þér að akstrinum og vera framsýnn, svo og með því að rækta með þér hógværð, getur þú stuðlað að jákvæðri og góðri umferðarmenningu og öryggi á götum úti.

[Neðanmáls]

a Bresku umferðarlögin, nefnd Highway Code þar í landi, hafa verið endurskoðuð margsinnis frá fyrstu útgáfu sinni árið 1931. Þetta er „næstútbreiddasta bók á eftir Biblíunni“ á Bretlandseyjum og gefur öllum vegfarendum meðal annars skýrar leiðbeiningar um öryggi í umferðinni.

[Rammi/Myndir á blaðsíðu 8]

Er bifreiðin í ökuhæfu ástandi?

Fyrir hverja ökuferð skyldi athuga eftirfarandi:

Eru rúðurnar hreinar? Er nóg vatn á rúðusprautukútnum? Eru þurrkublöðin í góðu ástandi?

Eru ökuljós, hemlaljós og stefnuljós í lagi?

Eru sjáanlegar nokkar skemmdir á hjólbörðum?

Reyndu hemlana eins fljótt og þú getur eftir að þú leggur af stað.

Reglubundið eftirlit í samræmi við handbók bílsins.

Sýnir smurolíukvarðinn að næg olía sé á vélinni? Ekki offylla.

Er nóg kælivatn á vélinni? Er nægur frostlögur í vatninu?

Er réttur loftþrýstingur í hjólbörðum, mynstrið nægilega djúpt og slitið jafnt?

Er nægur vökvi í öllum hólfum rafgeymisins? Offylltu hann ekki.

[Rammi á blaðsíðu 9]

Verða menn úti að aka?

Útvarps- og segulbandstæki gefa ökumönnum aðgang að tónlist, fréttum og öðru útvarpsefni. Hafa þau slæm áhrif á einbeitingu ökumanna? Á því eru skiptar skoðanir. Sumir ökumenn staðhæfa að þeir einbeiti sér vel að akstrinum óháð útvarpsefninu. Aðrir láta sér nægja lágværa tónlist þegar þeir aka í mikilli umferð. Það er í samræmi við aðvörun handbókarinnar Driving (Akstur): „Ef þú hlustar af mikilli athygli getur það haft áhrif á einbeitingu þína.“ Um notkun bílsíma ráðleggur bókin: „Stöðvaðu bifreiðina áður en þú notar símann.“b

[Neðanmáls]

b Breskum ökumönnum hefur verið ráðlagt að nota einungis símtæki sem ekki þarf að halda á ef þeir tala í símann við akstur, og þá aðeins ef það dregur ekki athygli þeirra frá akstrinum.

[Rammi á blaðsíðu 10]

Lestu veginn

Hið konunglega breska slysavarnafélag hefur gefið út bæklingaröð sem ætlað er að hjálpa bæði reyndum og óreyndum ökumönnum. Í byrjun er bifreiðaframleiðendum hrósað fyrir að framleiða ökutæki sem standast háar öryggiskröfur. Síðan eru ökumenn minntir á að „bifreiðin sé aldrei öruggari en ökumaður hennar.“ Öllum ökumönnum er ráðlagt að ‚lesa veginn.‘ Hvernig á að gera það og hvað er í því fólgið?

1. Vertu vakandi fyrir vísbendingum um hættur framundan. Ökumanni ber að horfa fram veginn og vera vakandi fyrir vísbendingum um hugsanlegar hættur framundan. Honum ber þó einnig að fylgjast með því sem er að gerast við vegarbrúnina.

2. Fylgstu með stað, stund, veðri og öðrum vegfarendum. Þér ber að haga akstrinum eftir aðstæðum á hverjum stað, eftir því hvort þú ert úti á þjóðvegi eða innanbæjar. Bleyta, ísing eða snjór krefst aukinnar aðgæslu. Þoka eða súld er sérlega varhugarverð. Sterkur hliðarvindur getur feykt bifreiðinni út af vegi eða á öfugan vegarhelming. Sólin eða ökuljós bifreiðar, sem á móti kemur, getur blindað þig um stund eða skert sjón þína verulega. Á sumarleyfistímum eru margir óreyndir ökumenn á vegum úti. Hafðu augun með gangandi vegfarendum og dýrum. Taktu eftir skuggum sem gætu verið aðvörun um að gangandi vegfarendur séu að fara yfir veginn fyrir framan strætisvagn sem þú ert að fara fram úr.

3. Reyndu að sjá fyrir hvaða áhrif það sem þú veitir athygli mun hafa á akstur þinn. Hugleiddu vandlega hvernig þú munir bregðast við og bregstu við með þeim hætti sem tryggir best öryggi þitt og annarra.

„Úrvalsökumenn bera sig þannig að,“ segir hið konunglega breska slysavarnafélag, „og með því að gera það getur þú orðið betri ökumaður.“ Það sem meira er, „reynslan sýnir að það dregur úr slysahættu.“

[Rammi á blaðsíðu 11]

Ráð sérfræðinga

Legðu metnað þinn í að láta farþegum þínum líða vel.

Líttu á akstur sem kunnáttu er þú getur alltaf bætt.

Gakktu alltaf úr skugga um að ökutækið sé í fullkomnu lagi.

Fylgstu bæði með því sem er að gerast langt framundan og rétt fyrir framan bifreiðina.

Notaðu speglana til að fylgjast með því sem er að gerast fyrir aftan bifreiðina og meðfram henni.

Gættu þín á blindblettinum í sjón þinni.

Líttu í spegilinn og gefðu stefnumerki með nægum fyrirvara áður en þú skiptir um akrein.

Ef ekki nægir að líta í spegilinn skaltu snúa þér svo að þú getir horft til hliðar og aftur fyrir áður en þú skiptir um akrein.

Vertu þolinmóður og rólegur.

Öruggur akstur er háður því að fylgja umferðarlögum.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Ökunámið á að kenna þér að vera varkár ökumaður.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila