Forðastu frekju og hraðakstur!
„EF bifreiðin væri fundin upp núna yrði hún bönnuð,“ staðhæfir Geoff Large, sem er aðstoðarframkvæmdastjóri umferðaröryggisdeildar konunglega breska slysavarnafélagsins. „Menn fengju aldrei leyfi til að selja nokkuð sem myndi drepa og slasa þriðjung úr milljón manna ár hvert í þessu landi einu.“
Bifreiðaframleiðendur gera sér grein fyrir því hve hættulega vöru þeir framleiða og verja gífurlegum fjármunum og erfiði í að gera bifreiðar sínar sem öruggastar. En Lundúnablaðið Sunday Express Magazine segir: „Ökumenn, sem láta sér annt um öryggi bifreiðarinnar og farþeganna, vita að öryggið kostar skildinginn.“ Þótt oft sé lögð áhersla á öryggi bifreiða í auglýsingum er það oft og einatt tæknibúnaðurinn sem kaupandinn einblínir á, hröðunartölurnar, vélaraflið og glæsilegt útlit.
Richard Spiegel, sem er fyrrverandi dómari, telur að þýskir ökumenn séu „haldnir sjúklegri hraðaástríðu . . . og hraður akstur er enn algengasti slysavaldurinn.“ Hann heldur því fram að bílaiðnaðurinn notfæri sér það í auglýsingum sínum.
Margt fleira, svo sem aukin bifreiðaeign og umferð og hrakandi vegakerfi, gerir umferðina sífellt hættulegri víða um lönd. Í fregnum brasilískra blaða beinist athyglin að hættunni af ómerktum gatnamótum. Blaðið Brazil Herald segir: „Við þær aðstæður er algengt að einn eða fleiri ökumenn verði skyndilega ráðvilltir og hikandi sem getur haft slys í för með sér.“
Í ljósi þess hve margar hættur blasa við í umferðinni er þýðingarmikið að stjórnendur hinna aflmiklu og hraðskreiðu bifreiða okkar tíma sýni ríka ábyrgðartilfinningu og tillitssemi og séu í góðri þjálfun. Sænska ritið Trygg i Traffiken? leggur þetta mat á málið: „Að kosningarétti undanskildum er ökuleyfið það þýðingarmesta sem samfélagið getur trúað mönnum fyrir.“
Forðastu frekju og ágengni!
Of hraður akstur er lífshættulegur. Þeir sem aka bifreið undir áhrifum áfengis eru lífshættulegir. ‚En ég held mig innan við löglegan hámarkshraða,‘ segir þú, ‚og ég bragða aldrei áfengi áður en ég sest undir stýri. Ég geri mér grein fyrir að það er lífsnauðsynlegt að aka varlega, en hvað fleira get ég gert?
„Bifreiðin eflir hæfileika mannsins og gerir honum kleift að komast langar vegalengdir á miklu skemmri tíma en hann gæti af eigin rammleik,“ segir sálfræðingurinn Zulnara Port Brasil, og bætir við: „Í sjálfu sér er ekkert rangt við það.“ Í hverju er vandinn þá fólginn? Að sögn Zulnara í því „hvernig hver einstakur ökumaður beitir þessu valdi.“
Vafalaust getur þú tekið undir með franska dagblaðinu Le Monde þegar það sagði: „Útbreitt og ríkjandi viðhorf fær okkur til að líta á . . . stýrishjólið sem tákn valds . . . Þótt við getum ekki forðast flónsku annarra . . . getum við að minnsta kosti stjórnað okkar eigin ökulagi.“ — Leturbreyting okkar.
Dagblaðið Glasgow Herald segir að umferðin sé erfiðari og hættulegri nú en fyrr sökum „vaxandi frekju og umburðarleysis ökumanna.“ Við þetta bætist það tíða háttarlag manna að tefla á tæpasta vað og vera eins ágengir í umferðinni og þeir frekast þora, og þá er komin uppskriftin að umferðarslysi. Kanadískur aðstoðaryfirlögregluþjónn að nafni Ken Cocke segir: „Fólk er hreinlega búið að steingleyma öllum reglum — og allir eru að flýta sér. Við skynjum að við þurfum að vera frekari og ágengari; allir ryðjast áfram og enginn bíður í röð.“
Þessi árásartilhneiging, sem einkennir ökumenn okkar daga, hefur margvísleg vandamál í för með sér. Í dagblaðinu Rheinischer Merkur segir: „Alvarlegasta ávirðingin er sú að aka of nálægt næstu bifreið á undan. . . . Fæstir vegfarendur setja sig í spor annarra. Ökumönnum aflmikilla bifreiða finnst oft að ökumenn mótorhjóla séu stórhættulegir. Þeim finnst sér ógnað, eru öfundsjúkir, og öfund getur auðveldlega vakið upp árásargirni.“ Svo algengt er þetta einkenni að „einn af hverjum þrem aðspurðra játaði að honum væri stundum skapraun að því að ekið væri fram úr sér og þætti það jafnvel móðgandi.“
Láttu öryggið ganga fyrir
Hið vaxndi ofbeldi á bandarískum þjóðvegum virðist endurspegla þessa árásarhneigð. Undir fyrirsögninni „ofbeldisverk ökumanna fara vaxandi“ sagði The Wall Street Journal þann 3. ágúst 1987: „Lögreglan um landið þvert og endilangt hefur veitt því athygli að skotbardagar, slagsmál og aðrar líkamsmeiðingar á þjóðvegum hafa færst í aukana og margar byrjað með smávægilegum árekstrum. Í fáeinum tilvikum hafa ökumenn verið drepnir.“ The New York Times sagði þann 6. ágúst 1987: „Síðan í miðjum júní hafa fjórir verið drepnir á hraðbrautum í suðurhluta Kaliforníu . . . og fimmtán særst.“
Það leikur því enginn vafi á að það er afar mikilvægt fyrir sjálfan þig og aðra að þú akir varlega. Eftir að hafa harmað hve margir týna lífi ár hvert í umferðinni á Bretlandseyjum segir John Moore, fyrrum samgönguráðherra Breta: „Öruggur akstur . . . verður að vera forgangsatriði allra vegfarenda.“
En hvað er hægt að gera til að tryggja öryggi sitt og annarra í umferðinni? Hverju ber þér að gæta að? Hvaða ráð gefa varkárir og reyndir ökumenn? Greinin „Temdu þér varúð í umferðinni,“ sem hér fer á eftir, tekur þessar spurningar til meðferðar.