Hvernig tekstu á við ökubræði?
Eftir fréttaritara Vaknið! á Bretlandi
REIÐIKÖST og ofsinn þeim samfara ber æ oftar á góma í heimspressunni. Talað er um „kerrubræði“ (þegar viðskiptavinir nota innkaupakerrur til að skeyta skapi sínu hver á öðrum í stórmörkuðum) og „símabræði“ (þegar sá sem hringt er í stöðvar samtalið og lætur mann bíða til að svara upphringingu annars). En það er ökubræði sem vakið hefur athygli manna á Bretlandi.
Ökubræði er svo útbreidd að í frétt einni árið 1996 um ökuvenjur var því haldið fram að á Bretlandi væri hún „faraldri líkust því að nærri helmingur allra ökumanna hafi orðið fyrir árásum eða svívirðingum í einhverri mynd á árinu“! Athugun Félags breskra bifreiðaeigenda (AA) gaf til kynna að vandinn væri enn víðtækari, að „níu af hverjum tíu ökumönnum sögðust hafa orðið fyrir barðinu á ökubræði.“ Það vekur athygli að í sömu könnun viðurkenndu „aðeins sex af hverjum tíu [ökumönnum] að þeir misstu stjórn á skapi sínu undir stýri.“
Hvað ýtir undir ökubræði? Hvað geturðu gert til að vernda þig ef þú verður fyrir barðinu á henni? Hvað ættirðu að gera ef aksturslag einhvers reitir þig til reiði? Já, hvernig tekstu á við ökubræði þar sem hún færist í aukana um allan heim?
Orsakir og afleiðingar
Bráðir ökumenn eru engin nýlunda. Enska skáldið Byron lávarður var með þeim fyrstu. Í bréfi frá árinu 1817 greindi hann frá deilu sem hann lenti í á þjóðvegi. Að sögn Byrons hafði annar vegfarandi verið „ósvífinn“ við hestinn hans þannig að hann löðrungaði manninn.
Umferðarþunginn eykst í flestum löndum og gremja ökumanna að sama skapi. Á níunda áratugnum bjuggu bandarísk dagblöð til nýyrðið „ökubræði“ til að lýsa undirrót ofsaviðbragða í umferðinni. Hugtakið lýsir vel þeim tilfinningum sem eru kveikja fjölda ofbeldisverka meðal ökumanna er láta aksturslag annarra egna sig til reiði.
Eigingirnin tröllríður nú umferðarmenningunni. Að sögn Lundúnarblaðsins The Times hafa þeir sem rannsaka ökuvenjur komist að þeirri niðurstöðu að „ofstopamenn og yfirgangsseggir séu nánast alltaf þeirrar skoðunar að þeir séu saklaus fórnarlömb andfélagslegrar hegðunar annarra.“ Ökumaður telur sig í fullum rétti sama hve glannalega hann ekur. En þegar annar ökumaður sýnir minnstu ókurteisi í umferðinni blossar ökubræðin upp.
Vaxandi fíkniefnaneysla, sem er svo útbreidd meðal ungs fólks, stuðlar einnig að ökubræði. Að sögn sjúkrahússráðgjafa nokkurs er kókaínneysla undir stýri „sambærileg við akstur undir áhrifum áfengis.“ Ökumenn undir áhrifum fíkniefna hafa iðulega oftrú á akstursgetu sinni. Fyrir vikið aka sumir þeirra hættulega hratt. Aðrir aka afbrigðilega af því að dómgreindin er brengluð.
Og þá er að nefna áhrif streitu á ökumenn. Prófessor Cary Cooper við Manchester-háskóla kennir streitu og óvissu daglegs lífs á tíunda áratugnum um megnið af ökubræðinni. „Ökumenn eru að verða stressaðri og ofbeldisbrotum fjölgar,“ segir talsmaður Hins konunglega breska bílaklúbbs (RoAC). Önnum kafinn almannatengslafulltrúi, sem ekur marga klukkutíma til og frá vinnu, viðurkennir að hún sé ekki jafnumburðarlynd og áður fyrr. „Núna er ég fljót að hreyta einhverju út úr mér og verða afundin yfir smámunum sem aldrei fóru í taugarnar á mér áður,“ hefur dagblaðið The Sunday Times eftir henni. Kannski er þér eins innanbrjósts. Ef svo er, hvað geturðu gert?
Forðastu að vekja ökubræði
Gerðu þér grein fyrir að aðrir ökumenn eru ekki fullkomnir. Þeim hættir endrum og eins til að brjóta umferðarreglurnar. Taktu tillit til þess þegar þú ekur. Hugsaðu fram í tímann. Tökum dæmi: Þú ert kannski að aka á ystu akrein á fjölakreina hraðbraut. Framundan er aðrein fyrir umferð inn á hraðbrautina. Þú sérð bíl nálgast hraðbrautina á aðreininni. Hugsarðu sem svo að þú sért á undan, að þú hafir fullan rétt til að vera á þinni akrein? Af hverju ættirðu að víkja fyrir hliðarumferð? Af hverju ættirðu að skipta um akrein ef hægt er, til að leyfa hinum ökumanninum að komast inn á hraðbrautina? En hugsaðu málið. Hvað gerist ef þú situr fast við þinn keip og heldur þig á þinni akrein án þess að draga úr hraðanum? Kannski hugsar ökumaðurinn á aðreininni eins. Annar hvor verður óhjákvæmilega að víkja, annars verður árekstur.
Vitur ökumaður, sem vill forðast að vekja bræði annarra, fylgist með því sem er framundan og sýnir tillitssemi í umferðinni. Hann víkur fyrir öðrum þegar hann getur og hann reiðist ekki þótt aðrir virði hann ekki viðlits fyrir kurteisina. Fulltrúi bresku bíleigendasamtakanna Institute of Advanced Motorists áætlar að einn af hverjum þrem ökumönnum hafi hættulegt viðhorf til aksturs. Þeir kunna að stjórna bifreið af leikni en skortir kurteisi. Hann kallar þá „góða bílstjóra en afleita ökumenn.“
Það hendir flesta ökumenn af og til að gefa öðrum bílstjórum og vegfarendum engan gaum. En það réttlætir ekki að þú hegðir þér eins. Hugleiddu hverjar afleiðingarnar gætu hugsanlega orðið. Þú vilt vissulega ekki valda fjöldaárekstri vegna þrákelkni þinnar. Láttu ekki tilfinningarnar hlaupa með þig í gönur. Umferðarsérfræðingur segir: „Þú mátt aldrei bregðast við frekju og offorsi í umferðinni með því að gjalda líku líkt.“ Neitaðu að ganga í félag skapbráðra ökumanna!
Ertu fórnarlamb?
Nánast allir ökumenn hafa einhvern tíma orðið fyrir barðinu á ökubræði. Steyttur hnefi, svívirðingarorð og frekjulegt aksturslag getur skotið mönnum skelk í bringu og gerir það. Besta vörnin er auðvitað að forðast átök og árekstra. Ökumanni nokkrum leist ekki á blikuna þegar annar bílstjóri vildi komast fram úr honum. Loks ók hinn ökumaðurinn reiðilega fram úr, tróð sér inn í bílaröðina fyrir framan hann og hægði svo mikið á sér að við lá að bílarnir lentu saman. Þessu hélt fram um hríð og linnti ekki fyrr en þolandinn sveigði inn á annan veg.
Ef þú sérð að aðrir ökumenn vilja komast fram úr þér skaltu reyna eftir bestu getu að leyfa þeim það. Forðastu að standa fast á rétti þínum að vera þar sem þú ert á veginum. Ef þú veist að þú hefur skapraunað einhverjum skaltu biðjast afsökunar. Gefðu merki um að þér þyki leitt að hafa móðgað hann, jafnvel þó að það hafi verið óafvitandi. Mundu að mild orð geta sefað reiði.
En ef þú verður með einhverjum hætti fyrir barðinu á bræði annarra ökumanna skaltu ekki svara í sömu mynt. „Ekki gjalda líku líkt,“ ráðleggur tímaritið Focus. „Hafðu ekkert í bílnum sem hægt er að nota fyrir vopn.“ Fleiri ábendingar: Hafðu dyrnar á bílnum læstar og gluggana lokaða. Forðastu augnasamband við hinn herskáa.
Ofangreindar tillögur um viðbrögð við bræði í umferðinni eru ekki nýjar af nálinni. Þær koma heim og saman við heilræði Davíðs Ísraelskonungs endur fyrir löngu: „Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,“ ráðlagði hann. „Lát af reiði og slepp heiftinni.“ — Sálmur 37:1, 8.
Þótt ökubræði fari víðast hvar vaxandi skaltu ekki láta hana ná tökum á þér!
[Rammi á blaðsíðu 24]
Að hafa hemil á ökubræði
Félag breskra bifreiðaeigenda segir að til að uppræta ökubræði „sé ekki síður mikilvægt að breyta viðhorfum fólks en að upphugsa gagnráðstafanir.“ Það skiptir sköpum að hafa raunsætt mat bæði á eigin ökuleikni og annarra í baráttunni við ökubræði. Vertu ekki blindur á eigin akstursgalla þótt mistök annarra blasi við þér. Gerðu þér grein fyrir þeirri staðreynd að sumir ökumenn virða umferðarreglurnar að vettugi. Vertu vel vakandi undir stýri. Þreyta stuðlar að álagi og streitu. Augnabliks einbeitingarskortur getur haft örlagaríkar afleiðingar. Hugleiddu líka eftirfarandi heilræði og taktu eftir hvernig þau tengjast orðskviðum Salómons konungs.
• Taka farþegarnir eftir því að þú sért reiður? Kannski stinga þeir upp á að þú stillir þig. Vísaðu ekki ráðleggingum þeirra bara á bug með því að skipa þeim að skipta sér ekki af akstrinum. Mundu að yfirveguð framkoma er heilnæmari og getur bókstaflega lengt líf þitt! „Rósamt hjarta er líf líkamans.“ — Orðskviðirnir 14:30.
• Taktu tillit til hins ökumannsins og forðastu vandamál. „Vitur maður óttast hið illa og forðast það, en heimskinginn er framhleypinn og ugglaus.“ — Orðskviðirnir 14:16.
• Sefaðu reiði með því að biðjast afsökunar í orði eða með látbragði. „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði.“ — Orðskviðirnir 15:1.
• Öðrum hættir kannski til skapbræði undir stýri en þú þarft ekki að líkjast þeim. „Legg eigi lag þitt við reiðigjarnan mann.“ — Orðskviðirnir 22:24.
• Blandaðu þér ekki í deilur annarra. „Forðaðu þér . . . áður en rifrildið brýst út.“ — Orðskviðirnir 17:14, NW.