Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.10. bls. 18-19
  • Ert þú hættulegur ökumaður?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ert þú hættulegur ökumaður?
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Félagslega utanveltu
  • Tilfinningalega utanveltu
  • Hinn skynsami ökumaður
  • Temdu þér varúð í umferðinni
    Vaknið! – 1988
  • Hvernig tekstu á við ökubræði?
    Vaknið! – 1998
  • Öruggur akstur — aðkallandi nauðsyn
    Vaknið! – 1988
  • Forðastu frekju og hraðakstur!
    Vaknið! – 1988
Sjá meira
Vaknið! – 1990
g90 8.10. bls. 18-19

Ert þú hættulegur ökumaður?

Eftir fréttaritara Vaknið! í Japan

„VIÐ vitum hvers konar ökumenn eru líklegir til að valda slysum,“ segir Hiroyasu Ohtsuka, aðalumsjónarmaður umferðaröryggismála við japanska lögregluskólann. „Við neitum þeim þó ekki um ökuleyfi, en við viljum að fólk þekki skapgerðargalla sína og reyni að vinna bug á þeim.“

Ekki er algengt að þessar manngerðir líti á sjálfa sig sem hættulega ökumenn. Sérfræðingar benda hins vegar á sex skapgerðargalla sem sýna sig mjög gjarnan þegar menn setjast undir stýri. Lestu um þessar sex manngerðir og reyndu að leggja mat á hversu góður ökumaður þú sért.

Félagslega utanveltu

Þeir sem aðlagast illa sínu félagslega umhverfi og eiga erfitt með að umgangast aðra geta verið hættulegir ökumenn. Þeim má skipta í eftirfarandi manngerðir:

Hinn eigingjarni. Þetta er sá maður sem heimtar að fá að gera allt eftir eigin höfði. Honum finnst hann ‚eiga veginn‘ þegar hann situr undir stýri. Honum finnst hann mega ákveða ökuhraðann sjálfur, virða að vettugi hverjar þær reglur sem hann telur óþarfar og sýna listir sínar hvenær sem honum dettur í hug. Hann gleymir að allir hinir ökumennirnir þurfa líka að nota veginn. Hann er gerræðislegur, tekur áhættu og veldur slysum vegna þess að hann tekur ekki tillit til síbreytilegra kringumstæðna í umferðinni.

Hinn ósamvinnuþýði. Ósamvinnuþýður ökumaður hefur litla tilfinningu fyrir öðru fólk og skilur ekki hvernig það hugsar og hvernig því líður. Hann hefur tilhneigingu til að forðast fólk vegna þess að hann á erfitt með að umgangast aðra. Þetta birtist í slæmum mannasiðum úti í umferðinni og ókurteisi við aðra ökumenn — sem hvort tveggja er hættulegt í umferðinni. Það getur tekið suma mörg ár að læra að umgangast aðra og sýna tillitssemi, og það er ein ástæðan fyrir tíðum umferðarslysum meðal unglinga.

Hinn árásarhneigði. Eitt af einkennum hins árásarhneigða ökumanns er, samkvæmt bókinni Driving Instruction According to Aptitude, það „að hann neitar með öllu að víkja fyrir öðrum þegar hann telur sig eiga réttinn. Ekki kemur til greina að hann horfi fram hjá smávægilegum yfirsjónum annarra ökumanna eða gangandi vegfarenda, og það fær hann til að hrópa, flauta og trufla aðra . . . er hann reynir að standa á rétti sínum fram í rauðan dauðann.“ Hann getur jafnvel æst sig upp út af ímynduðum misgjörðum annarra. Ef hann er uppstökkur að auki fer hann oft út fyrir mörk skynseminnar í aksturslagi sínu.

Tilfinningalega utanveltu

Þá eru það þeir sem eiga erfitt með að aðlagast umhverfi sínu tilfinningalega. Þeirra á meðal eru:

Hinn óstöðuglyndi. Tilfinningalegar öfgar einkenna hinn óstöðuglynda. Hann er ýmist hress og kátur eða langt niðri. Ef hann ekur bifreið meðan hann er í þunglyndiskasti tekur hann ekki eftir hættum í umferðinni og viðbrögð hans geta verið of hæg til að hann fái afstýrt slysi. Ef hann ekur meðan tilfinningalífið er við suðupunkt á hann til að vera gálaus og glannafenginn. Ef hann er aðvaraður í þessu hugarástandi er hætta á að hann komist í uppreisnarhug. Vera má að hann telji tilfinningalíf sitt óeðlilegt aðeins þegar hann er í þunglyndiskasti.

Hinn taugaóstyrki. Þessi manngerð er oft hæglát, sekkur sér niður í eigin hugsanir og hefur áhyggjur af öllu. Við akstur er hugur hans „uppfullur öllu mögulegu sem er umferðinni óviðkomandi“ þannig að „honum hættir til að láta sér yfirsjást mikilvæg atriði eða mistúlka þau,“ að sögn vísindamannanna Richards E. Mayers og Johns R. Treats sem hafa rannsakað hátterni hættulegra ökumanna. Það þarf ekki hættuástand í umferðinni til að taugaóstyrkur ökumaður missi stjórn á sér, til dæmis þarf stundum ekki meira til en að vörubifreið aki upp að hlið hans. Hann býst við hinu versta.

Hinn hvatvísi. Þessi ökumaður er fljótfær. Í stað þess að taka sér tíma til að ganga úr skugga um staðreyndir og dæma rétt um aðstæður hættir honum til að bregðast við af eðlisávísun. Ólíkt venjulegu fólki finnst honum tíminn, sem hann þarf að bíða eftir grænu ljósi eða því að gangandi vegfarandi komist yfir götuna, vera heil eilífð. Hann verður argur og missir fljótt þolinmæðina. Hann er hættulegur ökumaður fyrir þá sök að hann dæmir ekki rétt um aðstæður áður en hann bregst við þeim.

Sérð þú sjálfan þig í einhverri af þessum manngerðum sem hér hefur verið lýst? Hvernig bregst þú við þegar tillitslaus ökumaður reynir á þolinmæði þína? „Hver veit best hvar að honum kreppir skórinn,“ segir máltækið. Taktu til þín aðvörunina sjálfs þín vegna og reyndu að vinna bug á veikleikum þínum. Góður ökumaður verður að hafa stjórn á tilfinningum sínum og viðhorfum.

Hinn skynsami ökumaður

Hvað gerir mann að góðum ökumanni? Í viðtölum við Vaknið! lögðu rannsóknarmenn við japönsku lögregluna áherslu á tillitssemi, það að hugsa áður en framkvæmt er, hæfni til að bera skynbragð á aðstæðurnar í heild, góða dómgreind, árvekni, friðsemd, sjálfstjórn og það að leitast við að vernda aðra vegfarendur.

Skýrsla útgefin af héraðsháskólanum í Osaka í Japan lýsir góðum ökumönnum þannig: „Þeir eru í mjög góðu tilfinningajafnvægi, glöggskyggnir, hugurinn starfar hraðar en viðbrögð líkamans; dómgreind þeirra er nákvæm og þeir hafa góða stjórn á tilfinningum sínum.“ Á þessi lýsing við þig?

Um árþúsundir hefur Biblían kennt fólki að þroska með sér visku, skilning og dómgreind. (Orðskviðirnir 2:1-6) Hún sýnir okkur hvernig ófullkomnir menn geta látið „reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð“ víkja fyrir ‚kærleika, gleði, friði, langlyndi, gæsku, trúmennsku, hógværð og sjálfstjórn.‘ Já, Biblían getur jafnvel hjálpað þér að vera betri ökumaður! — Kólossubréfið 3:8-10; Galatabréfið 5:22, 23.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila