Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.7. bls. 30-31
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Nýtt um líkamsrækt
  • Keppt um flugrými
  • Ósamræmi
  • Frystir sjóðir
  • Lífshættuleg viðhorf
  • Græðgin er dýrkeypt
  • Rangar aldursákvarðanir
  • „Valdsmannslegir“ foreldrir bestir
  • Eyðimörkin blómgast
  • Hryggilegt ástand
Vaknið! – 1990
g90 8.7. bls. 30-31

Horft á heiminn

Nýtt um líkamsrækt

Jafnvel lítils háttar hreyfing getur, ef hún er reglubundin, dregið stórlega úr líkunum á dauða af völdum hjartasjúkdóma, krabbameins og öðrum orsökum. Þetta kemur í ljós í niðurstöðum rannsóknar sem staðið hefur í átta ár. Þetta er umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið til þessa á líkamshreysti fólks og náði til 13.000 karla og kvenna, en markmiðið var að kanna tengsl líkamshreysti og dánartíðni. Í stað þess að láta sér nægja orð þátttakenda fyrir því hve mikið þeir hreyfðu sig var fylgst stöðugt með líkamsástandi þeirra. Niðurstaðan var sú að stærsti ávinningurinn fælist í því að komast úr kyrrsetuhópnum en ekki hinu að stunda líkamsrækt af ákafa. „Það er ekki nauðsynlegt að vera maraþonhlaupari,“ segir dr. Carl Caspersen við bandarísku sóttvarnastöðina í Atlanta í Georgíu. „Maður hefur miklu meira gagn af því að hreyfa sig bara örlítið meira. Það dregur til dæmis stórlega úr hættunni fyrir kyrrsetumann að venja sig á að ganga rösklega í hálfa klukkustund nokkrum sinnum í viku.“

Keppt um flugrými

„Þotur í áætlunarflugi lenda sífellt oftar í árekstrum við fugla og talsmenn flugfélaga segja að skemmdirnar, sem af hljótast, eigi sinn þátt í sífellt tíðari seinkunum í flugi,“ að sögn The Wall Street Journal. „Á heimsmælikvarða ollu um 6 af hundraði árekstra við fugla neyðarástandi svo sem skertu útsýni eða því að hætt var við flugtak.“ Í einu tilviki braut gæs rúðu í flugstjórnarklefa og blindaði flugstjórann á öðru auga. Sérfræðingar telja að „árekstrar við fugla séu það öryggismál flugfélaga sem mest er vanmetið og sjaldnast skýrt frá.“ Algengast er að sprengdar séu skaðlausar sprengihleðslur í grennd við flugbrautir eða leikin af segulbandi aðvörunarhljóð fugla, í því skyni að fæla þá frá. Við Lester B. Pearson alþjóðaflugvöllinn í Toronto hefur verið gengið skrefi lengra, að sögn tímaritsins National Geographic, en þar eru fálkar notaðir til að fæla fugla frá. Fálkarnir „drepa sjaldan fugla en eru nógu ógnvekjandi til að fæla aðra fugla frá svo klukkutímum skiptir,“ segir tímaritið.

Ósamræmi

„Fyrir þrem árum, þegar Jóhannes Páll páfi II sótti Kólumbíu heim, var hann greinilega snortinn af þeirri hlýju og þeim trúarhita sem mætti honum í Medellín, og hann hét því að hann myndi flytja Páfagarð þangað ef hann þyrfti einhvern tíma að flytja hann,“ segir Lundúnablaðið Times. En Medellín er líka aðsetur eiturlyfjahrings sem sagður er ráða yfir um 80 af hundraði allrar kókaínsölu í heiminum. Og það er þar sem mörg kaþólsk ungmenni sækja reglulega messu en sjá fyrir sér sem leigumorðingjar, enda eru hlutfallslega hvergi fleiri manndráp í heiminum en þar: yfir 4000 á ári af 2,5 milljónum íbúa. „Eftir að hafa lokið gróðavænlegu verkefni greiða morðingjarnir oft fyrir sérstaka messu þar sem þeir færa þakkir, á sama tíma og útför fórnarlambsins fer fram annars staðar.“ Times segir að þeir sjái ekkert ósamræmi milli trúar sinnar og starfs.

Frystir sjóðir

Tímaritið New Scientist greinir frá því að nú sé verið að vinna að áætlun um að geyma fræ mikilvægustu nytjajurta mannkyns handa komandi kynslóðum í sífrera norðan heimskautsbaugs. Ætlunin er að geyma „fræ aðalfæðujurta og tegunda sem hafa mikla, efnahagslega þýðingu“ fyrir hvert land djúpt í jörð í ónotuðum námugöngum norður á Svalbarða, til tryggingar gegn náttúruhamförum. Sífrerinn þar tryggir að hitastig sé alltaf undir −3°C. Áætlunin gerir ráð fyrir að alþjóðasáttmáli veiti sérhverri þjóð rétt til aðgangs að eynni, en aðeins í forðageymslu sjálfrar sín. Kuldinn ætti að tryggja að eplafræ haldist lífvænleg í 100 ár, bygg í 300 ár og kúabaunir í um það bil 800 ár.

Lífshættuleg viðhorf

Meðal iðnríkja heims er tíðni banaslysa í umferðinni óvíða algengari en í Frakklandi — 330 banaslys fyrir hverjar milljón bifreiðar. Til samanburðar má nefna að fyrir Bandaríkin er talan 185, Ítalíu 182, Japan 163, Vestur-Þýskaland 162 og Bretland 127. Mæld á sama kvarða er tíðni banaslysa í umferðinni á Íslandi 176 samkvæmt tölum Umferðarráðs. Blaðið International Herald Tribune, gefið út í París, skýrir frá því að sálfræðingar hafi á málþingi, sem haldið var nýlega um hátterni ökumanna, skellt skuldinni á óþolinmæði, gremju og árásarhneigð. Þeir sögðu að margir notuðu bíla sína til að láta í ljós hve mikils þeir mætu sjálfa sig og hve lítils þeir mætu aðra.

Græðgin er dýrkeypt

Þótt sumir vísindamenn mótmæli því að mengun af mannavöldum hafi þau áhrif að andrúmsloftið fari hitnandi vegna gróðurhúsaáhrifa, fullyrðir franski jarðræktarfræðingurinn Rene Dumont að mengunin valdi manntjóni nú þegar — hún hafi kostað eina milljón mannslífa aðeins á síðasta ári. Hann segir að gróðurhúsaáhrifin valdi þurrkum sem síðan valda hungursneyð. Dumont, sem hefur um langt árabil getið sér orð fyrir að geta sagt hungursneyðir fyrir, varar við því að „við römbum á barmi mestu hungursneyðar í mannkynssögunni.“ Hann kennir um óstjórnlegri orkunotkun iðnríkja heims. „Tveir milljarðar manna í heiminum búa við fátækt og þeir eru gíslar ágirndar okkar, orkusóunar okkar.“ — Torontoblaðið The Globe and Mail.

Rangar aldursákvarðanir

Fjölmargar rannsóknarstofur, sem aldursgreina mannvistarleifar með kolefnismælingum, skila töluvert ónákvæmari niðurstöðum en þær vilja vera láta, að því er segir í niðurstöðum rannsóknar á vegum breska Vísinda- og verkfræðiráðsins. Send voru sýni, sem vitað var um aldur á, til 38 rannsóknarstofa víða um heim til aldursgreiningar. Aðeins 7 rannsóknarstofur skiluðu niðurstöðum sem dæmdar voru „viðunandi.“ Breska tímaritið New Scientist segir: „Skekkjumörkin . . . kunna að vera tvö- til þreföld þau sem atvinnumenn á sviði mælitækninnar hafa haldið fram.“ Þetta stór frávik grafa mjög undan þeim kreddukenndu fullyrðingum sem oft heyrast um aldur fornra muna, einkum ef þær stangast á við tímatal Biblíunnar.

„Valdsmannslegir“ foreldrir bestir

„Verulega meiri líkur eru á að börn standi sig vel og eigi gott með að umgangast annað fólk ef foreldrar þeirra setja þeim skýr takmörk og framfylgja þeim en eru ekki refsiglaðir,“ segir tímaritið U.S. News & World Report. Slíkir foreldrar eru sagðir beita „valdsmannslegum“ aga („Gerðu þetta vegna þess að . . . “), en hvorki „valdfrekum“ („Gerðu þetta vegna þess að ég er foreldri þitt“) eða „undanlátsömum“ („Gerðu hvað sem þig langar til“), aga og hegðunareinkenni barna þeirra eru sögð verulega ólík hegðunareinkennum barna sem fengið hafa annars konar uppeldi. Rannsóknirnar, sem spönnuðu tvo áratugi, sýndu að börn valdsmannslegra foreldra voru oftar stöðuglynd, ánægð, öguð og sjálfsörugg en börn annarra, og síður líkleg til að reyna fíkniefni. „Valdsmannslegir foreldrar eru ekki ráðríkir,“ segir sálfræðingurinn Diana Baumrind við University of California, en hún stýrði rannsóknunum. „Þeir ganga fram í því að þekkja börnin sín, fylgjast með hvernig þeim gengur í skóla og hverjir vinir þeirra eru. Umsjón þeirra endurspeglar ríka ábyrgðartilfinningu gagnvart barninu og þeir eru ekki feimnir við að standa á móti barninu.“

Eyðimörkin blómgast

Saudi Arabía leggur metnað sinn í að vera sjálfri sér nóg um matvæli. Í þeim tilgangi er nú verið að rækta upp eyðimerkurnar. Á víð og dreif um eyðimörk Saudi Arabíu má sjá græna hringi í hundraðatali, hvern allt að 80 hektara að stærð, vökvaða með vatni sem dælt er langt neðan úr jörðini. En það kostar sitt að breyta eyðimörkinni í frjósamt akurlendi. Stjórnvöld hafa nú þegar eytt jafnvirði milljarða dollara til verksins. „Hveitirækt í Saudi Arabíu er jafndýr og melónurækt í gróðurhúsi á Norðurpólnum,“ segir tímaritið The Economist. Og jafnvel þótt tekjurnar af olíuvinnslu virðist óþrjótandi eru vatnsbirgðirnar það ekki. Vatnið kemur að mestu leyti úr jarðlögum þar sem það er innilokað og endurnýjast ekki. Haldi vatnsnotkunin áfram að vaxa jafnhratt og nú óttast menn að jarðlögin verði þurrausin eftir 10 til 20 ár.

Hryggilegt ástand

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) spáir börnum ekki bjartri framtíð. Í árlegri skýrslu sinni um stöðu barna í heiminum segir að um hundrað milljónir barna muni deyja á þessum áratug af völdum sjúkdóma og vannæringar, nema því aðeins að eytt verði 2,5 milljörðum bandaríkjadala á ári til ódýrra lækningalyfja sem nú eru fáanleg. The Wall Street Journal skýrir frá því að þessi upphæð svari til þess sem bandarísk fyrirtæki eyða ár hvert í sígarettuauglýsingar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila