Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.7. bls. 32
  • Rostungurinn og fíkniefni

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Rostungurinn og fíkniefni
  • Vaknið! – 1990
  • Svipað efni
  • Fíkniefni — er einhver von?
    Vaknið! – 1989
Vaknið! – 1990
g90 8.7. bls. 32

Rostungurinn og fíkniefni

ÞAÐ ER erfitt að ímynda sér jafnólík spendýr og rostunginn og fílinn. En hinir letilegu rostungar á ísjökunum í Beringshafi eiga eitt sameiginlegt með tignarlegum flökkurum gresjanna í Afríku: dýrmætasta eign þeirra verður þeim oft að aldurtila. Þeir eru báðir með skögultennur.

Sennilega er líf rostungsins enn háðara skögultönnunum en fílsins. Þegar hann kafar niður á sjávarbotninn í fæðuleit rennir hann sér áfram á skögultönnunum og sýgur upp í sig ostrur og annan skelfisk. Þegar hann klöngrast upp á ísjaka til að baða sig í sólinni notar hann skögultennurnar sem gripkróka til að hífa 1000 til 1500 kílógramma skrokkinn upp úr sjónum. Rostungsmamma notar skögultennurnar til að berjast upp á líf og dauða við hvert það rándýr sem ógnar unga hennar.

Því miður fyrir rostunginn sækjast mennirnir líka eftir skögultönnum hans. Maðurinn er haldinn óseðjandi græðgi í fílabein og rostungstennur. Þriggja til fjögurra metra langur rostungur, sem dormar í sólinni, er auðvelt skotmark fyrir mann með hálfsjálfvirkan riffil. Það er því ekki óalgengt að Alaskabúar sigli um Beringshaf á smábátum, drepi dýrin hvar sem til þeirra næst og snúi aftur heim með fullfermi af rostungshausum, söguðum af með keðjusög.

Þetta hljómar eins og gamla sagan, sem við þekkjum allt of vel, sé að endurtaka sig, en nú býr þó annað undir og miklu fáránlegra en fyrr: fíkniefni. Ungir Alaskaeskimóar virðast nota rostungstennurnar til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína. Tímaritið Newsweek segir: „Skiptagengið er óhugnanlega lágt.“ Sérstakur fulltrúi Bandarísku náttúruverndarstofnunarinnar (U.S. Fish and Wildlife Service) sagði í sama tímariti að svartamarkaðskaupendur gætu keypt tvær skögultennur — jafnvirði allt að 50.000 króna — fyrir sex maríjúanavindlinga.

Lögin taka meira mið af hag veiðimannanna en veiðidýranna. Innfæddir Alaskabúar hafa, samkvæmt þeim, leyfi til að veiða rostung sér til matar og mega nota skögultennurnar til listiðnaðar heima fyrir. Lögin virðast sanngjörn en þau eru einnig skálkaskjól manna sem ekki eru vandir að virðingu sinni. Þess eru dæmi að utanaðkomandi fílabeinssalar hafi flutt inn til eskimóakvenna til þess eins að geta fullyrt að birgðirnar, sem þeir eiga af skögultönnum, séu ætlaðar til listiðnaðar heima fyrir.

Veiðarnar halda áfram og áhyggjurnar aukast. Þeim sem veiða rostung með löglegum hætti og nota í raun skögultennurnar til listiðnaðar finnst lífsafkomu sinni ógnað. Eskimóar af eldri kynslóðinni eru mjög uggandi út af vaxandi fíkniefnaánauð hinna ungu sín á meðal. Og rostungurinn? Enn eru um 250.000 rostungar á Kyrrahafi þannig að þeir eru ekki taldir í útrýmingarhættu. En hauslaus hræin af þeim rekur á land í hundraðatali. Svo mörgum hefur skolað upp á strendur Síberíu að Sovétmenn hafa hvatt Bandaríkjamenn til að binda enda á drápin. En hversu lengi er rostungurinn óhultur fyrir útrýmingu meðan skögultennurnar skila peningum í vasa hinna ágjörnu og fíkniefnum í hönd hinna gjálífu?

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 32]

H. Armstrong Roberts

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila