Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.7. bls. 28-29
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Ofbeldi sekkur dýpra í foraðið
  • Um eitt eru þeir sammála
  • Förulir ferðalangar
  • Koffínkrakkar
  • Vökvaðu heilann
  • Undratré
  • Nýjar biblíuþýðingar
  • Náttúrleg hreinsitæki
  • Stjörnuspekingum mistekst
  • Ósvikið bros er smitandi
Vaknið! – 1996
g96 8.7. bls. 28-29

Horft á heiminn

Ofbeldi sekkur dýpra í foraðið

Fyrir þá sem þykir íþróttir á borð við hnefaleika eða sjálfsvarnarlist ekki nógu ofbeldisfullar er nú boðið upp á nýja ofbeldisgrein í Bandaríkjunum sem kalla mætti „barist til þrautar.“ Samkvæmt fregn dagblaðsins The New York Times er hugmyndin einföld: „Tveir menn lúberja hvor annan uns annar gefst upp eða er sleginn í rot.“ Þeir nota enga hanska til að mýkja höggin; það eru engar lotur eða hlé, og fáar reglur aðrar en þær að ekki megi bíta andstæðinginn eða krækja úr honum augun. Öllum brögðum er beitt; hnúum og hnefum, júdó-, karate- og glímubrögðum og öllu þar á milli — og oft verður útkoman allblóðug. Keppnin er haldin frammi fyrir trylltum aðdáendaskara sem borgar allt að 13.000 krónur fyrir aðgöngumiðann. Keppnin er líka sýnd við mikið áhorf í kapalsjónvarpi og hægt er að leigja myndbönd með henni. Mörg ríki hafa þó bannað þessa „íþrótt.“

Um eitt eru þeir sammála

„Rússneska rétttrúnaðarkirkjan og múslímaleiðtogar frá fjórum lýðveldum Sovétríkjanna fyrrverandi þar sem íbúar eru aðallega múhameðstrúar — Kasakstan, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan — hafa náð samkirkjulegu samkomulagi sem á sér ekkert fordæmi í sögunni. Samkomulagið er á þá lund að reynt verði að halda í skefjum sértrúarsöfnuðum og afbrigðilegum trúarsöfnuðum sem eru að hasla sér völl í miðhluta Asíu,“ að sögn tímaritsins Christianity Today. Trúarleiðtogarnir komu saman í Tashkent, höfuðborg Úsbekistans, og „strengdu þess heit að vinna saman að því að stemma stigu við áhrifum evangelískra kristinna manna, baptista, mormóna og votta Jehóva,“ að sögn blaðsins.

Förulir ferðalangar

Albatrosi á flækingi flaug 26.000 kílómetra á 72 dögum og útselur synti 5000 kílómetra á þrem mánuðum. Þessi ferðagleði dýranna kom í ljós eftir að vísindamenn, sem vinna að dýravernd, höfðu fest agnarsmáa útvarpssenda á valda alba­trosa og seli til að fylgjast með ferðum þeirra með hjálp gervitungls. Einu sinni flaug albatrosinn næstum 3000 kílómetra yfir Suður-Kyrrahafi á fjórum dögum. Selurinn synti allt að 100 kílómetra á dag milli Skotlands og Færeyja og sýndi undraverða ratvísi um reginhaf, segir Lundúnablaðið The Times. Hvað hvetur dýrin til þessara maraþonferða? Fæðuleit, segir í frétt blaðsins.

Koffínkrakkar

Eftirtektarleysi, eirðarleysi, hvatvísi og fjarhygli barna gæti stafað af of mikilli koffínneyslu, að sögn blaðsins Tufts University Diet & Nutrition Letter. „Dós af kóladrykk og aðeins hálfur bolli af ístei fyrir 18 kílógramma barn jafngildir þrem kaffibollum“ fyrir fullorðna manneskju. Blaðið vitnaði í rannsóknir Mitchell Schares, sálfræðiprófessors við Hofstra háskóla í New York-ríki, sem sýndu að „mörg af einkennum mikillar koffínneyslu barna líkjast einkennum eftirtektarveilla/ofvirkra barna.“ „Áður en þú ályktar að eirðarlaust eða taugaveiklað barn sé haldið slíkum kvilla ættirðu að kanna hvort ráðið við taugaveikluninni sé ekki einfaldlega að draga úr kóla- og tedrykkju þess,“ bætir blaðið við.

Vökvaðu heilann

Áttu erfitt með að einbeita þér? Kannski þarftu bara að drekka meira vatn, að sögn tímaritsins Asiaweek. Tímaritið segir að kennurum og foreldrum sumra skólabarna í Hong Kong hafi nýlega verið ráðlagt að láta nemendur drekka mikið af vatni til að berjast gegn deyfð og áhugaleysi. Foreldrum var tjáð að börnin ættu að drekka 8 til 15 glös af vatni á dag. Blaðið vitnar í bókina The Learning Brain og bendir á rannsóknir sem gefa til kynna að vatnsskortur geti leitt til námserfiðleika. Hreint, ómengað vatn er betra en gosdrykkir, kaffi, te eða jafnvel ávaxtasafar sem geta hreinlega örvað líkamann til að losa sig við vökva, að sögn Asiaweek.

Undratré

Breskir vísindamenn hafa fundið leið til að hreinsa drykkjarvatn án þessa að nota dýr efnasambönd. Mulin fræ trés af tegundinni Moringa oleifera, sem vex á Norður-Indlandi, draga til sín og festast við gerla og veirur og síðan er hægt að fleyta þeim ofan af vatninu eða sía frá, að sögn Lundúnablaðsins The Times. Að auki er hægt að vinna matarolíu, sápu, snyrtivörur, lampaolíu og smyrsl við húðsýkingum úr þessu nytsama fræi. Tréð er auðræktað, þolir vel þurrka, má nota sem skjólbelti og jafnvel sem eldsneyti og til pappírsgerðar. Rannsóknarmenn hafa því mælt með að tréð sé ræktað til fræöflunar sem geti síðan bjargað milljónum manna á ári er ella myndu deyja af völdum mengaðs vatns.

Nýjar biblíuþýðingar

„Nýjar biblíuþýðingar á ensku birtast nú hver á fætur annarri á hillum bókaverslana,“ segir tímaritið U.S.News & World Report. Gerðar hafa verið biblíur fyrir börn, íþróttamenn, aldraða, heimavinnandi mæður, feður og aðra hópa. Ein þeirra, nefnd Black Bible Chronicles, „notar slanguryrði og leikritastíl til að lífga upp á biblíusögurnar fyrir bandaríska táninga af afrískum uppruna.“ Önnur, The New Testament and Psalms: An Inclusive Version, reynir að forðast kyngreiningu í textanum. Guð er kallaður „faðir-móðir“ og Mannssonurinn verður „hinn mennski.“ Til að móðga ekki örvhenta kalla þýðendurnir hægri hönd Guðs „máttuga hönd“ hans, og til að forðast kynþáttafordóma er myrkur ekki lengur lagt að jöfnu við illsku. Og útgefandi þeirrar þriðju, New International Reader’s Version New Testament, lýsir henni svo að hún sé „fyrsta biblían sem miðuð er við annars bekkjar leskunnáttu, sem er það einfaldasta á markaðinum.“ Greinin segir að lokum: „Alls eru nú til yfir 450 biblíuþýðingar á ensku. Miðað við allar nýju útgáfurnar, sem eru á boðstólum í bókaverslunum, eru litlar líkur á að Biblían falli úr fyrsta sætinu sem metsölubók allra tíma.“

Náttúrleg hreinsitæki

Sumar blómjurtir sýna undraverða hæfni til að hreinsa og endurnýja olíumengaðan eyðimerkurjarðveg að sögn Lundúnablaðsins The Times. Vísindamenn hafa uppgötvað að þar sem olían er innan við 10 af hundraði sandsins miðað við þyngd, geta þessar jurtir dafnað og haldið rótunum algerlega hreinum. Ástæðan er milljónir af bakteríum sem lifa umhverfis rætur jurtanna og nærast á olíunni og brjóta hana niður í skaðlaus efni. Plönturnar eru af einni stærstu plöntuættinni, körfublómaætt, en í henni eru meðal annars fíflar, baldursbrár og margs konar illgresi. Vísindamenn mæla með að þessar jurtir séu gróðursettar í Kúveit til að flýta fyrir hreinsun eyðimarkanna þar. Fjórum árum eftir stríðið við Írak eru um 50 ferkílómetrar eyðimerkurinnar enn mengaðir.

Stjörnuspekingum mistekst

Að sögn þýska dagblaðsins Die Zeit gengust 44 stjörnuspekingar í Hollandi fyrir nokkru fúslega undir próf sem undirbúið var af Hollenska efahyggjufélaginu. Stjörnuspekingarnir fengu í hendur tvo lista. Á öðrum var tilgreindur fæðingarstaður og fæðingardagur sjö manna. Á hinum voru ítarlegar persónuupplýsingar um mennina sjö. Stjörnuspekingarnir áttu að beita kunnáttu sinni í stjörnuspáfræði til að flokka saman nöfnin á fyrri listanum og lýsinguna á þeim síðari. Hvernig tókst þeim til? Helmingur stjörnuspekinganna náði ekki einu sinni einu réttu svari, og enginn fékk meira en þrjá rétta. Fyrri tilraunir höfðu gefið svipaðar niðurstöður, en stjörnuspekingarnir höfðu þá fullyrt að þeim hefðu verið gefnar rangar upplýsingar. Í þetta sinn settu stjörnuspekingarnir sjálfir skilmála prófsins.

Ósvikið bros er smitandi

Finnsku vísindamennirnir dr. Jari Hietanen við Tampareháskóla og dr. Veikko Surakka við Líf- og læknisfræðistofnun Helsinkiháskóla segja að til séu tvenns konar bros. Sérfræðingar kalla annan brosflokkinn félagslegt bros. Það er sprottið af skyldukvöð og nær aðeins til kinnvöðvanna. Ósvikið bros túlkar hins vegar sanna ánægjukennd og nær ekki aðeins til kinnvöðvanna heldur líka vöðvanna kringum augun. Nýleg rannsókn í Finnlandi bendir til að ósvikin bros séu smitandi. Með því að nema og skrá smæstu vöðvahreyfingar komust vísindamennirnir að þeirri niðurstöðu að þátttakendur í tilrauninni brostu við það eitt að horfa á ljósmynd af manneskju með ósvikið bros. Þessi viðbrögð mældust ekki þegar þátttakendur horfðu á myndir af fólki með félagslegt bros.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila