Tvískipt sjóngler — hver var fyrstur?
Fyrir tveim öldum tók Benjamin Franklin tvenn gleraugu, fjarsýnisgleraugu og nærsýnisgleraugu, og skar glerið í þeim í tvennt. Síðan setti hann efri helming fjarsýnisglersins og neðri helming nærsýnisglersins saman í eina umgjörð og þannig urðu fyrstu tvískiptu gleraugun til.
Nú gerir háþróuð tækni mönnum kleift að búa til tvískipt sjóngler úr aðeins einni glerþynnu með mismunandi styrkleik að ofan og neðan. Og það er jafnvel hægt að fá tvískiptar augnlinsur. En vissirðu að löngu áður en sjónvísindin þróuðu gleraugu með tvískiptum glerjum notaði lítt þekktur ferskvatnsfiskur tvískiptar linsur af nýjustu gerð?
Vísindamenn kalla þennan fisk Anableps. Hann er 30 sentimetra langur og er að finna í vötnum allt frá suðurhluta Mexíkó til norðurhluta Suður-Ameríku. Hann er líkur vatnakarfa í lögun og er sviplítill frá sporði að tálknum. En það sem við tekur þegar þeim sleppir fær margan til að reka upp stór augu.
Við fyrstu sýn virðist fiskurinn hafa fjögur augu — tvö sem horfa upp og tvö sem horfa niður — og er því stundum kallaður fjórglyrna eða fjóreygur. En þetta er í rauninni sjónvilla. Fiskurinn hefur tvö stór kringlótt augu sem er skipt í tvennt af láréttri bandvefsræmu. Þegar hann syndir í vatnsborðinu skagar efri hluti augnanna upp úr líkt og sjónpípa og grannskoðar himininn, en neðri hlutinn er í kafi og rýnir niður í vatnið. Fjórglyrnan leitar sér þannig ætis undir vatnsborðinu og hefur samtímis vakandi auga — eða réttara sagt augu — með hungruðum vatnafuglum fyrir ofan.
Til að sjá í vatni þarf þykkari augastein eða linsu en til að sjá í lofti. Hvernig er vandamálið leyst? Með tvískiptri linsu! Í báðum augum er sporöskjulaga linsa sem er þykkari að neðan en ofan. Það sem horft er á undir vatnsborðinu sést því gegnum þykkari helming linsunnar meðan horft er á himininn gegnum efri og þynnri helming hennar.
En tvískipt sjón fisksins helst ekki skýr nema linsunum sé haldið hreinum. Hvernig hreinsar hann þær? Þegar linsurnar þorna stingur hann hausnum einfaldlega í kaf og kemur með þær glansandi upp aftur. Þessar gljáfægðu linsur bera svo sannarlega merki um visku skapara síns!
[Rétthafar á blaðsíðu 31]
Málverk eftir Charles Willson Peale/Dictionary of American Portraits/Dover
©Dr. Paul A. Zahl, The National Audubon Society Collection/PR
©William E. Townsend yngri, The National Audubon Society Collection/PR