Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.7. bls. 29-30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Ofbeldi gegn konum
  • Ísjakanytjar
  • Aspirín við plöntuverk?
  • „Nornir“ fái sakaruppgjöf eftir dauða
  • Jangtsefljót hamið
  • Asmi færist í aukana
  • Mettjón af völdum veðurs
  • Fjölskyldur undir álagi
  • Árþúsundaæði
  • Ólæsi í heiminum eykst
Vaknið! – 1999
g99 8.7. bls. 29-30

Horft á heiminn

Ofbeldi gegn konum

„Í Brasilíu á 63 prósent alls ofbeldis gegn konum sér stað á heimilinu og aðeins er kært í þriðjungi þeirra,“ að sögn dagblaðsins O Globo sem bætir við: „Heimilisofbeldi bitnar aðallega á fátækum konum, en það eru þær sem kæra ofbeldið oftast til lögreglunnar. Ofbeldi gegn ríkum konum sést varla í talnaskýrslum.“ Svipaða sögu er að segja í öðrum löndum. Til dæmis kemur fram í könnun sem bandaríska dómsmálaráðuneytið birti að „meira en helmingur kvenna í Bandaríkjunum hefur orðið fyrir líkamlegu ofbeldi einhvern tíma á ævinni og nærri ein af hverjum fimm hefur orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun,“ segir í frétt Reuters. „Hver tala í þessari könnun stendur fyrir dætur okkar, mæður og nágranna,“ segir Donna Shalala, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra Bandaríkjanna.sjá gIC90 7.-9. 10

Ísjakanytjar

„Íbúar Nýfundnalands hafa lengi vitað að vatn úr borgarísjökum er sérlega hreint,“ segir Lundúnablaðið Financial Times, en nú er verið að nytja þessa „óþrjótandi auðlind sem rekur með ströndum þeirra.“ Netum er vafið um fljótandi borgarísjaka og hann dreginn að landi á háflóði með dráttarbáti. Dráttarbáturinn siglir á fullri ferð og tekur krappa beygju þegar hann nálgast land þannig að ísjakinn slengist upp í fjöruna. Þegar fjarar er jakinn landfastur. Ísinn er síðan brotinn í klumpa af stórum krana og honum hlaðið á pramma „þar sem hann er mulinn, bræddur og síaður áður en hann er lýstur með útfjólubláu ljósi“ til hreinsunar.

Aspirín við plöntuverk?

Plöntur skynja ekki sársauka á sama hátt og menn en þær bregðast við áverkum með því að framleiða jasmónsýru. Sumar gefa jafnvel frá sér jasmínkenndar gufur sem geta framkallað svörun í öðrum plöntum. „Rannsóknarmönnum hefur verið kunnugt í mörg ár að aspirín stöðvar með einhverju móti jasmónsýruframleiðslu plantna,“ segir tímaritið Science News. Nú hafa vísindamenn við Arizónaháskóla ráðið fram úr hluta þessa dularfulla ferlis. Aspirín aftengir lykilensím í plöntum með sams konar efnahvarfi og það aftengir annars konar ensím í mönnum. En sambandið milli verkunar aspiríns í plöntum og mönnum er enn óljóst þar eð ensímin tvö eiga nánast ekkert sameiginlegt.

„Nornir“ fái sakaruppgjöf eftir dauða

Árið 1994 hvatti páfinn rómversk-kaþólsku kirkjuna til að ‚rannsaka samvisku sína í sögulegu tilliti.‘ Í Tékklandi hefur verið sett á laggirnar kaþólsk nefnd — sú fyrsta sinnar tegundar — til að íhuga hvort gefa eigi hundruðum manna sakaruppgjöf sem brenndir voru lifandi fyrir galdra. Þúsundir Evrópubúa voru brenndar á báli eða dóu af völdum pyndinga frá 12. öld til 18. aldar í nornaveiðum sem kirkjan samþykkti. Eftir að Innócentíus páfi 8. gaf út tilskipun um galdra árið 1484 færðust nornaveiðar í aukana og meira en 30 mismunandi pyndingaraðferðum var beitt til að koma upp um grunaðar galdranornir. Ungum börnum var jafnvel ekki hlíft þegar reynt var að þvinga fram sannanir gegn foreldrum þeirra. Galdrabrennur voru algengastar í Þýskalandi en nornaveiðar voru einnig mikið stundaðar í Frakklandi og Bretlandi. Kirkjan kann að ljá máls á sakaruppgjöf eftir dauða, að sögn Lundúnablaðsins The Sunday Telegraph.

Jangtsefljót hamið

Þegar lokið verður við að reisa Þriggjagljúfrastífluna í Jangstefljóti í Kína verður hún stærsta vatnsaflsvirkjun veraldar. Stíflan verður 185 metra há, 2,3 kílómetra breið og virkjunin mun framleiða 18,2 milljónir kílóvatta af raforku. En megintilgangur stíflunnar er ekki raforkuframleiðsla heldur sá að draga úr flóðahættu í Jangstefljóti. Framkvæmdir hófust árið 1994 og er áætlað að þeim ljúki árið 2009. Verkefnið er risavaxið. Fjarlægja þarf 147 milljónir rúmmetra af jarðvegi og grjóti, og rösklega 25 milljónir rúmmetra af steypu og tvær milljónir tonna af stáli fara í stíflugerðina. „En erfiðast verður að finna ný heimili handa 1,1 milljón manna sem búa á stíflusvæðinu,“ að sögn dagblaðsins China Today.

Asmi færist í aukana

Skýrslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gefa til kynna að asmatilfellum og innlögnum af völdum þeirra á síðasta áratug hafi fjölgað um 40 af hundraði um heim allan. Hvað veldur aukningunni? Samtök bandarískra brjóstholslækna benda á gríðarlega fjölgun gæludýraeigenda og hve algengt sé að fólk búi í þéttum, illa loftræstum húsakynnum. Asmaköst orsakast af „dýraflösu (úr feldum, húð og fjöðrum), rykmaurum, myglusveppum, sígarettureyk, frjódufti, umhverfismengun og sterkum lyktarefnum,“ að sögn dagblaðsins The Toronto Star. En mesti ofnæmisvaldurinn er kattaflasa. Dagblaðið segir að asmi sé sérstakt áhyggjuefni þar eð afstýra megi flestum dauðsföllum af völdum hans. Um 1,5 milljón asmasjúklinga er nú í Kanada og sjúkdómurinn dregur rúmlega 500 manns til dauða á hverju ári.

Mettjón af völdum veðurs

Fyrstu 11 mánuði ársins 1998 nam tjón af völdum veðurs 6500 milljörðum króna sem er met. Tjónið var „miklu meira en þeir 55 milljarðar dollara [jafnvirði 4015 milljarða króna] sem töpuðust allan níunda áratuginn,“ segir frétt Associated Press og bætir við: „Jafnvel þegar verðbólga er tekin inn í myndina nam tjón níunda áratugarins 82,7 milljörðum dollara [jafnvirði 6037 milljarða króna] og nær ekki tjónatölu fyrstu 11 mánaða“ ársins 1998. Auk eignatjóns urðu náttúruhamfarir, svo sem óveður, flóð, eldsvoðar og þurrkar, 32.000 manns að bana. „Náttúruhamfarir eru í síauknum mæli mönnum að kenna,“ segir Seth Dunn hjá Worldwatch Institute. Hvernig? Að sögn Dunns hefur eyðing skóga og votlendis, sem eru ‚svampar náttúrunnar,‘ stuðlað að þessum vanda.

Fjölskyldur undir álagi

Nýleg könnun meðal Kanadamanna gefur til kynna að fjölskyldur nú til dags telji sig vera undir meira fjárhagslegu og tilfinningalegu álagi en fjölskyldur eftir síðari heimsstyrjöldina fyrir hálfri öld. Dagblaðið National Post segir að efst á streitulistanum séu hjónaskilnaðir og sundruð heimili. Aðrir streituvaldar í fjölskyldum eru, í lækkandi tíðniröð, „of erfið vinna foreldra og of langur vinnutími, ótrygg atvinna, of háir skattar og virðingarleysi fyrir viðleitni foreldra við barnauppeldið.“ Samkvæmt könnuninni eru þessir streituvaldar jafnvel enn meiri hjá þorra einstæðra foreldra.

Árþúsundaæði

„[Ísraelska] stjórnin hefur úthlutað 12 milljónum dollara [jafnvirði 870 milljóna króna] til að endurbæta öryggisgæslu á musterishæðinni“ til að vera viðbúin ofbeldi um árþúsundamótin, að sögn dagblaðsins Nando Times. Lögreglan óttast að ofstækisfullir Gyðingar eða „kristnir“ menn reyni að eyðileggja moskur á musterishæðinni til að endurreisa musteri Gyðinga. Sumar „kristnar“ trúarreglur telja að þetta flýti fyrir heimsendi og síðari komu Krists. Í fréttinni kemur fram að musterishæðin, sem múslimar kalla al-Haram al-Sharif, sé „talin langviðkvæmasti staðurinn í átökum í Miðausturlöndum.“ Hún er staðsett „í gamla borgarhluta Jerúsalem sem Ísraelar náðu af Jórdönum í sexdagastríðinu árið 1967.“ Fjöldi „kristinna“ manna hefur þegar leigt sér pláss á Olíufjallinu til að bíða endurkomu Krists.

Ólæsi í heiminum eykst

„Næstum einn sjötti af þeim 5,9 milljörðum, sem búa í heiminum, er hvorki læs né skrifandi,“ segir dagblaðið The New York Times. Að sögn Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) er gert ráð fyrir að ólæsi aukist. Hvers vegna? Vegna þess að þrjú af hverjum fjórum börnum í fátækustu löndum heims sækja ekki skóla. Átök þjóðarbrota hafa komið í veg fyrir að milljónir barna fái menntun, að ekki sé minnst á efnahagsörðugleikana sem átökin valda um heim allan. Stríð bæði eyða skólum og gera fjölda barna að hermönnum í stað nemenda. Ólæsi stuðlar að sjálfsögðu líka að þjóðfélagsvandamálum. Skýrsla UNICEF, The State of the World’s Children 1999, segir að bein tengsl séu milli ólæsis og fæðingartölu. Í landi einu í Suður-Ameríku „eignast ólæsar mæður 6,5 börn að meðaltali en mæður með framhaldsskólamenntun 2,5 börn að meðaltali,“ segir Times.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila