Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • my saga 33
  • Förin yfir Rauðahaf

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Förin yfir Rauðahaf
  • Biblíusögubókin mín
  • Svipað efni
  • Kraftaverkið við Rauðahafið
    Lærum af sögum Biblíunnar
  • Vondur konungur í Egyptalandi
    Biblíusögubókin mín
  • „Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins“
    Námsgreinar úr Varðturninum
  • Guð frelsar Ísraelsmenn
    Biblían — hver er boðskapur hennar?
Sjá meira
Biblíusögubókin mín
my saga 33

KAFLI 33

Förin yfir Rauðahaf

LÍTTU á hvað er að gerast! Móse réttir hér staf sinn út yfir Rauðahafið. Ísraelsmenn eru komnir óhultir yfir hafið ásamt honum. En Faraó og allur her hans drukknar í hafinu. Heyrum nú hvernig það atvikaðist.

Eins og við höfum lært sagði Faraó Ísraelsmönnum að fara út úr Egyptalandi eftir að Guð lét plágurnar 10 koma yfir Egypta. Um það bil 600.000 ísraelskir karlmenn fóru og einnig fjöldi kvenna og barna. Stór hópur fólks, sem farið var að trúa á Jehóva, fór einnig með Ísraelsmönnum. Allir tóku með sér sauðfé sitt, geitur og nautgripi.

Áður en Ísraelsmenn fóru báðu þeir Egypta um fatnað og gull- og silfurmuni. Síðasta plágan hafði gert Egypta mjög óttaslegna. Þess vegna gáfu þeir Ísraelsmönnum allt sem þeir báðu um.

Nokkrum dögum síðar komu Ísraelsmenn að Rauðahafinu. Þar hvíldu þeir sig. Á meðan fóru Faraó og menn hans að sjá eftir því að hafa sent Ísraelsmenn burt. ‚Hvers vegna slepptum við þrælum okkar?‘ sögðu þeir.

Faraó skipti þess vegna enn aftur um skoðun. Í snatri lét hann undirbúa hervagna sína og hermenn til brottfarar. Síðan veitti hann Ísraelsmönnum eftirför með 600 völdum vögnum og þar að auki öllum öðrum vögnum Egyptalands.

Ísraelsmenn urðu mjög hræddir þegar þeir sáu Faraó og her hans koma á eftir sér. Þeir höfðu enga undankomuleið. Öðrum megin við þá var Rauðahafið og nú komu Egyptar að þeim hinum megin frá. En Jehóva setti ský á milli fólks síns og Egypta þannig að Egyptar gátu ekki séð Ísraelsmenn til að ráðast á þá.

Jehóva sagði þá Móse að rétta staf sinn út yfir Rauðahafið. Þegar hann gerði það lét Jehóva sterkan austanvind blása. Hafið klofnaði í tvennt og stóð eins og veggur til beggja handa.

Ísraelsmenn lögðu núna gangandi af stað yfir hafið eftir þurrum sjávarbotninum. Það tók marga klukkutíma fyrir allar þessar milljónir manna og skepna að komast heilu og höldnu yfir á ströndina hinum megin. Loks komu Egyptar auga á Ísraelsmenn aftur. Þrælar þeirra voru alveg að komast undan! Þeir þustu út á sjávarbotninn á eftir þeim.

En þegar þeir voru komnir út þangað lét Guð hjólin detta af vögnum þeirra. Egyptar urðu óskaplega hræddir og hrópuðu upp yfir sig: ‚Jehóva berst fyrir Ísraelsmenn á móti okkur. Forðum okkur burt héðan!‘ En það var um seinan.

Það var þá sem Jehóva sagði Móse að rétta staf sinn út yfir Rauðahafið eins og þú sást á myndinni. Og þegar Móse gerði það steyptust vatnsveggirnir yfir Egyptana og vagna þeirra. Allur herinn hafði elt Ísraelsmennina út á hafsbotninn og ekki einn einasti Egypti slapp lifandi þaðan!

Mikið var fólk Guðs hamingjusamt. Því var borgið! Mennirnir sungu Jehóva þakkarsöng og sögðu: ‚Jehóva hefur unnið dýrlegan sigur. Hann hefur steypt hestunum og riddurum þeirra í hafið.‘ Mirjam, systir Móse, tók fram bjöllutrommuna sína og allar konurnar eltu hana með sínar bjöllutrommur. Og þær dönsuðu af gleði og sungu sama sönginn og mennirnir: ‚Jehóva hefur unnið dýrlegan sigur. Hann hefur steypt hestunum og riddurum þeirra í hafið.‘

2. Mósebók, kaflar 12 til 15.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila