Horft fram yfir brúðkaupið
1, 2. Hvaða andstæður hafa sést í sambandi við brúðkaup í Japan?
TÍMARITIÐ Tíme (þann 6. desember 1982) greindi frá því að í Japan ‚velti brúðkaupsiðnaðurinn 17.000.000.000 bandaríkjadollara á ári‘ sem svaraði til „hvorki meira né minna en 22.000 dollara [um 700.000 krónur] á hver brúðhjón.“ Þó er „tíðni hjónaskilnaða í Japan hærri en nokkru sinni fyrr, og þrenn af hverjum tíu hjónum slíta samvistum.“
2 Dagblaðið Hokuu Shimbun sagði frá ólíku brúðkaupi haldið í Noshiro af brúðhjónum sem voru vottar Jehóva: „Þau eru bæði kostgæfir kristnir menn og á þeim kenningargrunni hugsa þau: ‚Brúðkaup getur verið einfalt en þó notið blessunar allra.‘“ Í samanburði við hin dýru og íburðarmiklu brúðkaup, sem eru algeng, var þetta brúðkaup fréttnæmt vegna þess hversu einfalt það var í sniðum. „Þrátt fyrir það,“ benti dagblaðið á, „var brúðkaupið þrungið hamingju og heillaóskum til brúðhjónanna.“
3. Hvernig getur brúðkaupsdagur þinn haft áhrif á hamingju þína?
3 Viðhorf brúðhjóna til brúðkaupsins og kröfur þar að lútandi geta haft bein áhrif á hamingju þeirra í framtíðinni. Hvers vegna? Að sögn sálfræðingsins Dr. Sally Witte „sýna rannsóknir að streituálag er samfara ekki aðeins slæmum atburðum í lífinu heldur líka góðum.“ Sérfræðingar á sviði geðheilbrigðismála gefa í skyn að meira streituálag sé samfara því að ganga í hjónaband en að missa atvinnuna. Augljóst hlýtur því að vera að þegar brúðkaup er risastórt í sniðum í stað þess að vera innan hóflegra marka, íburðarmikið í stað þess að vera einfalt hlýtur streitan samfara því að vera enn meiri.
4. Hvað gerist oft eftir íburðarmikið brúðkaup?
4 Þar við bætist að margir sem ganga í hjónaband nú á dögum beina svo mikilli athygli að brúðkaupinu — og gera sér svo óraunhæfar hugmyndir um það — að þeir verða fyrir miklum vonbrigðum eftir á. Nýgift kona sagði: „Í marga mánuði virtust allir sem ég þekkti vera svo spenntir, ekki bara ég. En síðan var brúðkaupið afstaðið á augabragði, og þegar við komum heim úr veislunni var ég yfirtekin af hryggð.“ Haft var eftir ungum manni í bókinni Getting Married:
Tíminn sem þú ert trúlofaður á að vera óskaplega dásamlegur og spennandi. Síðan á að halda stórt og flott brúðkaup. Það er æði. Síðan á að fara í brúðkaupsferð og hún er algert æði. Menn eru að byggja upp með sér eftirvæntingu um að eitthvað yfirnáttúrlegt og stórkostlegt gerist jafnskjótt og þeir ganga í hjónaband. En þá er skyndilega þessi þögn. Skyndilega ert þú aleinn með þessari konu og hún er ein með þér.
5. Hvaða viðhorf ættu kristnir menn að hafa í sambandi við brúðkaup sitt?
5 Öll hljótum við að fallast á að brúðhjón ættu að hlakka til brúðkaupsdags síns sem hamingjuríks, sérstaks tímamótadags, því að þau eru að stíga eitt af stærstu skrefum ævinnar. Samt sem áður mun það stuðla að hamingju þeirra ef þau varast að leggja svo mikla áherslu á brúðkaupið að það skyggi á það sem raunverulega skiptir meira máli, áframhaldandi líf þeirra sem giftir kristnir menn.
Að búa sig undir hamingjuríkt hjónaband
6. Hvað er ráðlegt að gera fyrir brúðkaupsdaginn?
6 Jesús mælti fram mikilvæg sannindi sem ógift fólk getur tekið til sín: „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ (Lúkas 14:28) Það er viturlegt að hugleiða vel það sem menn ætlast fyrir, áður en hafist er handa. Það gildir einnig um hjónaband. Margir hjúskaparráðgjafar ráðleggja skjólstæðingum sínum að þeir sem ætla að ganga í hjónaband sæki námskeið í því að aðlaga sig fjölskyldulífi og takast á við vandamál sem upp geta komið. Einn ráðgjafi sagði: „Ef krakkar, sem útskrifast úr menntaskóla, vissu einn hundraðasta um samskipti hjóna á við það sem þeir vita um tölvur, yrði hjónabandið miklu ánægjulegri reynsla.“
7. Hvar má finna gagnlegar upplýsingar um hjónaband?
7 Vottar Jehóva hafa séð fyrir hollri leiðsögn á þessu sviði, leiðsögn sem byggist ekki á síbreytilegum hugmyndum manna heldur á fullkomnum heilræðum höfundar hjónabandsins. (Sálmur 119:98-105) Tímaritin Varðturninn og Vaknið! birta bæði fjölbreyttar greinar um hjonaband. Þú getur gert þér gleggri hugmynd um hversu mikið hefur verið birt af slíku efni, með því að renna augunum yfir hinar mörgu tilvísanir undir yfirskriftinni „hjónaband“ í efnisskrám yfir rit Varðturnsfélagsins, svo sem efnisskránni fyrir árið 1976-1980. Margar greinar um hjónaband eru námsefni í söfnuðinum, og þá hafa þeir sem hyggjast ganga í hjónaband tækifæri til að heyra góðar athugasemdir kristinna karla og kvenna sem hafa sjálf reynslu af hjónabandi og eru áhugasamir nemendur í orði Guðs.
8. Hvaða jákvæð skref getur þú stigið ef þú áformar að giftast?
8 Ef þú hyggst ganga í hjónaband ættir þú líka að skoða efni þar að lútandi sem birst hefur í öðrum biblíunámsritum. Til dæmis eru í bókinni Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkta gefin hagnyt ráð frá fullkomnu orði Guðs. Þar eru kaflar sem nefnast til dæmis „Góður grundvöllur lagður að hjónabandi þínu,“ „Eftir brúðkaupsdaginn,“ „Eiginmaður sem ávinnur sér djúpa virðingu,“ „Eiginkona sem elskuð er heitt“ og „Kærleikur, fullkomið einingarband.“ Þú ættir að einsetja þér að fara yfir þetta efni með væntanlegum maka þínum fyrir brúðkaupið. Það væri ykkur líka til mikils gagns að ræða þetta efni að viðstöddum þroskuðum kristnum bróður sem þið berið virðingu fyrir og getur gefið gagnleg ráð. (Orðskviðirnir 4:1-9) Það mun hjálpa ykkur báðum að skipuleggja brúðkaup ykkar þannig að það sé í réttu hlutfalli við það sem meira máli skiptir, sambúð ykkar sem hjón.
Verið fús til að vinna
9, 10. (a) Hvers vegna eru raunsæ viðhorf til hjónabands mikilvæg? (b) Hvaða hjálp fá kristnir menn til að vera raunsæir?
9 Við tókum eftir því áður að margir búast við að á brúðkaupsdeginum gerist ‚eitthvað yfirnáttúrlegt og stórkostlegt jafnskjótt og þeir ganga í hjónaband.‘ Fólk sem hefur þessa óraunhæfu skoðun á í vændum vonbrigði og óhamingju. Reyndin er sú að hamingjuríkt hjónaband kostar vinnu, langtum meiri vinnu heldur en fór í undirbúning og framkvæmd brúðkaupsins, hversu stórt og fjölmennt sem það var. Á meðferðarnámskeiði fyrir hjón, sem haldið var að tilhlutan prófessors E. M. Pattison, sagði ung kona að nafni Betty: „Ég hafði gert mér stórkostlega hugaróra um hjónaband sem jukust aðeins við það að búa í óvígðri sambúð. En það var ekkert yfirnáttúrlegt í hjónabandinu — bara fullt af erfiðri vinnu.“
10 Nám í orði Guðs ætti að hjálpa kristnum mönnum að bua sig undir raunveruleika hjónabandsins. Hvers vegna? Vegna þess að við vitum að allir menn hafa tekið í arf ófullkomleika frá Adam. Rómverjabréfið 3:23 fullvissar okkur: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ Jafn-fullvíst er að sú ófullkomna manneskja, sem á eftir að verða maki þinn, mun ekki ná að uppfylla allar þær vonir sem þú hefur gert þér. Þegar amstur hins daglega lífs byrjar kann maðurinn þinn að vera óþolinmóður, svolítið uppstökkur, ögn latur eða reyna að koma sér undan sínum biblíulegu skyldum sem höfuð fjölskyuldunnar. Eða, þegar þú ferð að búa með konu þinni, gæti hin nána sambúð hjónabandsins leitt í ljós að hún væri örlítið hégómagjörn, ögn ráðrík, stundum gagnrýnin eða furðulega áhugasöm um veraldlegar eigur.
11, 12. Hvernig getur það að þú ert kristinn maður átt þátt í að auka gæði hjónabandsins?
11 Að þið eruð bæði kristnir menn og trúið að heilræði Guðs séu fullkomin er góður grundvöllur til að bæta sig. Þið kunnið að geta rætt saman af háttvísi en hreinskilni um þau svið þar sem þið bæði mynduð vilja sjá ráðum Guðs fylgt betur. Sýnið visku og góða dómgreind þegar þið veljið tímann til að ræða slík mál, og gerið það ekki þegar annað ykkar er greinilega taugaspennt eða í uppnámi. Mestu er áorkað ef þið reynið í einlægni, þegar þessi mál eru rædd, að varast að hrekja sjónarmið hvors annars. Betra er að hlusta á og samþykkja mótbárur eða beiðni maka þíns. — Orðskviðirnir 15:28; 18:13.
12 Stundum koma slík mál eðlilega til umræðu þegar hjónin nema Ritninguna saman. Sú umgjörð getur reynst hjálpleg, því að hún undirstrikar að bæði hjónanna þrá í einlægni að viðurkenna heilræði Guðs og langar til að þóknast maka sínum. Þessi biblíulegi áhugi á að þóknast maka sínum samræmist því sem Páll postuli skrifaði: „Þér [eiginmenn] skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ — Efesusbréfið 5:33; samanber 1. Korintubréf 13:4-7.
Ræktið gagnkvæmt traust í hjónabandinu
13. Hversu mikilvægt er gagnkvæmt traust milli hjóna?
13 Ykkur mun reynast það mikil hjálp til að leysa sérhver vandamál eða deilur í hjónabandinu ef þið bæði ræktið með ykkur eiginleika sem skortir í mörgum hjónaböndum í heiminum — traust. Hið hörmulega ástand, sem algengt er í hjónaböndum fólks í heiminum, er svipað því sem var um tíma í Ísrael: „Trúið eigi kunningja yðar, treystið eigi vini, gæt dyra munns þíns fyrir henni, sem hvílir í faðmi þínum.“ (Míka 7:5; Jeremía 9:4, 5) Hjón báru ekkert traust hvort til annars og bæði óttuðust að jafnvel einkamál yrðu á kærelikslausan hátt borin á torg eða misnotuð. Þegar slíkt vantraust ríkir, hvaða von er þá um að hjónin muni geta unnið saman að því að leysa ágreiningsmál og efla hjúskapartengslin eftir að brúðkaupsdagur þeirra er hjá?
14. Hvers vegna er traust í hjónabandi svona þýðingarmikið og hvernig má sjá það af Ritningunni?
14 Um mikilvægi hins gagnkvæma trausts segir prófessor Ned L. Gaylinb: „Það eru tveir hornsteinar til að byggja á nothæft, ánægjulegt og varanlegt hjónaband: Ást og traust. . . . Án trausts er hjónaband í besta lagi ótryggur samningur sem óvíst er að verði haldinn.“ Taktu eftir hvernig Orðskviðirnir 31:11 lýsa góðri eiginkonu: „Hjarta manns hennar treystir henni, og ekki vantar að honum fénist.“ Að sjálfsögðu hlýtur eiginmaður hennar, öldungur í borginni, að hafa annast einhver safnaðarmálefni sem ekki var rétt af honum að ræða við konu sína. Það var góðvild af hans hálfu því að konu hans var þá ekki íþyngt með málum sem hún átti ekki að vita um. (Orðskviðirnir 31:23; 20:19) Að öðru leyti hlýtur samband þeirra að hafa verið opinskátt og byggt á gagnkvæmu trausti. Þau treystu bæði kærleika hvors annars og því að þau gætu tjáð sínar innstu tilfinningar án þess að gert væri lítið úr þeim eða að slík einkamál væru borin á torg.
15. Hvað lærum við um traust í hjónabandi af samskiptum Jesú við fylgjendur sína?
15 Traust ríkir einnig milli Jesú og táknrænnar brúðar hans mynduð af smurðum kristnum mönnum. (Efesusbréfið 5:22-32; 2. Korintubréf 11:2) Fáein atriði sagði hann ekki postulunum meðan þeir ekki voru færir um að bera þau. Jesús sagði ekki heldur daginn né stundina þegar hinn mikli dagur Guðs rynni upp; meira að segja hafði Jehóva ekki opinberað það syninum. (Jóhannes 16:12; Matteus 24:36) En að frátöldum slíkum fáeinum atriðum var Jesús opinskár við þá. Hann var ekki kunnur fyrir að leyna þá sem áttu eftir að mynda andlega brúði hans meiru en þurfti né vantreysta þeim. Hann átti fúslega langar samræður við þá, og sagði þeim jafnvel frá ýmsu sem þeir áttu ekki eftir að skilja fyrr en síðar. — Jóhannes 13:7; Markús 8:17.
16. Hvernig getur traust stuðlað að betra hjónaband?
16 Þegar þú og maki þinn ræktið með ykkur gagnkvæmt traust mun þaÐ styrkja hjónabandið. Þú munt treysta að þú getir tjáð maka þínum þínar innstu tilfinningar. Og þegar þú ræðir einhvern skoðanaágreining eða eitthvert svið, þar sem maki þinn gæti bætt sig, eru minni líkur á að því sem þú segir sé hafnað umsvifalaust eða kalli fram varnarviðbrögð og gremju. Þess í stað munt þú treysta og trúa að maki þinn elski þig og sé í einlægni að leggja fram sjónarmið eða tillögu sem verðskuldar að þú íhugir hana. — Orðskviðirnir 27:6.
17. Hvað er æskilegt í sambandi við brúðkaup okkar, hvort sem það er afstaðið eða framundan?
17 Þetta traust má líka efla með því að rifja upp hinar blíðu og rómantísku tilfinningar frá því er þið voruð að draga ykkur saman eða frá þeim degi þegar þið giftuð ykkur. Að rifja upp slíkar ljúfar endurminningar mun hjálpa ykkur að bæla niður sérhverja gremju eða taugaspennu. Ef þú ert núna að stofna til nánari kynna við væntanlegan maka eða leggja drög að brúðkaupinu, þá skaltu gera það á þann hátt að þú munir eiga ánægjulegar, friðsælar og jákvæðar endurminningar sem glæða munu ástúðlegar kenndir löngu eftir að brúðkaupsdagurinn er liðinn. — Ljóðaljóðin 3:11.
[Neðanmáls]
a Útgefin af Watchtower Biblie and Tract Society of New York.
b Forstöðumaður deildar við University of Maryland í Bandaríkjunum sem fæst við fjölskyldufræðslu og ráðgjöf.