Hve nálægur er Guð þér?
ÞRIGGJA ára gamall drengur, Raphael að nafni hóf bæn sína ósköp blátt áfram: „Komdu sæll, Jehóva.“ Þótt þessi orð væru ekki við hæfi hjá fullorðnu fólki getum við tæplega varist brosi yfir barnslegri einlægni þessa litla drengs. Greinilega finnst Raphael hann vera nálægur Guði. Í hans huga er Guð meira en einhver óhlutlægur kraftur. Hann er raunveruleg persóna. Er Guð þér svona raunverulegur, svona nálægur?
Svo undarlegt sem það er reyna margir, sem segjast trúa á Guð aldrei að kynnast honum betur eða náið! Hjá sumum stendur dramb og stolt í vegi fyrir að þeir nálægi sig Guði. Davið konungur sagði að ‚augu Jehóva væru gegn hinum hrokafullu.‘ (2. Samúelsbók 22:28) Aðrir eru of hógværir og hæverskir til að láta sér detta í hug að hægt sé að eiga samband við Guð. Það sem hinir hrokafullu þurfa að gera er að rækta með sér næmleika barnanna. Jesús sagði: „Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.“ (Matteus 18:2-4) Og hinir ofurhæversku hefðu kannski gott af svolitlu af því barnslega hugarfari sem kemur Raphael til að nálgast Guð svona óhikað.
Þótt rétt viðhorf séu góð byrjun þarf meira til að finna til náinna tengsla við Guð. Í fyrsta lagi þarft þú að vera þér meðvitandi um tilvist hans. Þegar þú lítur á hin mikilfenglegu sköpunarverk Guðs, finnur þú þá hvöt innra með þér til að hugsa um hann, lofa hann og þakka eins og sálmaritarinn Davíð? Hann spurði: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ (Sálmur 8:4, 5) Öruggt er að það styrkir kærleiksböndin milli þín og Guðs ef þú tekur þér tíma til að hugleiða þakklátur sköpunarverk Guðs.
„Nálægið yður Guði“
Tveir seglar draga hvorn annan að sér ef gagnstæðum skautum er snúið saman. Því nær sem þeir eru hvor öðrum, því sterkara er aðdráttaraflið. Eitthvað svipað getur gerst varðandi samband okkar við Guð, því að lærisveinninn Jakob segir: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ — Jakobsbréfið 4:8.
Að læra um Guð er ein leið til að ‚nálægja sig‘ honum. (Jóhannes 17:3) Aðeins með því að nema orð Guðs, Biblíuna, getum við lært hvert er nafn hans, Jehóva, og hver er sannleikurinn um tilgang hans með jörðina og hverjir eiginleikar hans svo sem kærleikur, viska, réttvísi og máttur. (Sálmur 83:19; Heimilisútgáfan, 1908) ‚En‘ svarar þú kannski, ‚ég veit nú þegar að Guð er almáttugur, alréttlátur, alvitur og kærleiksríkur.‘ En er það sem slíkt vísbending um sanna og fullnægjandi þekkingu á Guði? Það er ekki víst.
Fullyrðingar einar saman um Guð og eiginleikar hans geta virst fremur merkingarlausar, einkum ef þú getur ekki tengt þær eigin reynslu. Hvernig getur til dæmis maður, sem hefur verið heyrnarlaus frá fæðingu, skilið hvað hugtökin „hávær“ og „lágvær“ merkja? Hvernig getur hann þekkt muninn á kvaki spörfuglans og kurri dúfunnar ef hann hefur ekkert til að miða við til samanburðar? Sú fullyrðing ein út af fyrir sig að ‚Guð sé kærleikur‘ getur hljómað eins og köld staðreynd og ekkert annað. (1. Jóhannesbréf 4:8) En til að skynja til fullnustu kærleika Guðs, bæði með huganum og tilfinningunum, verðum við að hugleiða hvernig þessi kærleikur hefur birst gagnvart mannkyninu. (Jóhannes 3:16) Við þurfum líka að geta tengt kærleika Guðs við okkar eigin reynslu. „Finnið og sjáið að [Jehóva] er góður,“ sagði sálmaritarinn. (Sálmur 34:9) Sá sem gerir það getur ekki annað en laðast að Guði.
Larri litli horfði einu sinni stórum augum á föður sinn og spurði: „Ég veit að ég ætti að elska Jehóva meira en nokkuð annað, en hvernig get ég elskað hann meira en þig? Ég get séð þig og elskað þig, en ég get ekki séð Jehóva.“ Faðirinn róaði drenginn með því að útskýra fyrir honum að slík tilfinning sé fullkomlega eðlileg hjá dreng á hans aldri. Og drengurinn var fullvissaður um að þegar hann hafði lært það sem Biblían segir um hina miklu eiginleika Jehóva og verk, og kynnst ást og umhyggju Guðs af eigin raun gæti hann bundist Jehóva sterkari böndum en nokkrum öðrum! (Matteus 22:37, 38) Hið sama getur sérhvert okkar gert sem tekur sér tíma til að læra um Jehóva Guð.
Hvað það þýðir að „þekkja“ Guð
Við notum oft orðið „að þekkja“ um að vera lítillega kunnug eða kannast við einhvern. ‚Ég held að ég þekki þennan mann,‘ segjum við kannski, jafnvel þótt við höfum ekki nema rétt séð honum bregða fyrir eða verið kynnt stuttlega fyrir honum.
Postulinn Jóhannes hjálpar okkur að skilja að það að þekkja Guð sé meira en aðeins smávægilegur kunningsskapur. Við skulum athuga nokkur atriði sem nefnd eru í hinu fyrsta innblásna bréfi Jóhannesar. Í stuttu máli er þar sagt: Að þekkja Guð er að elska Guð. Að þekkja og elska Guð er að halda boðorð hans. Það felur í sér að hætta að ganga í myrkri og að iðka sannleikann. Það er að fylgja leiðsögn orðs Guðs og anda og halda fast við sannleikann. Ef við þekkjum Guð nálgumst við hann frjálsmannlega í bæn í þeirri fullvissu að hann heyri okkur, og að hann muni svara bæninni með því að gefa okkur allt sem við þurfum til að gera vilja hans. — 1. Jóhannesarbréf 1:5-7; 2:3, 4, 13, 14; 3:19-24; 4:6-8, 13; 5:3, 14, 15.
Augljóst er því að þekking á Guði er ekki aðgerðarlaus. Mikillar vinnu er þörf til að kynnast Jehóva Guði og eiga náið samband við hann. Ljóst er að meira þarf að gera en aðeins að viðhafa einhverja ákveðna helgisiði. Það að þekkja Guð er ekki heldur einhver skyndileg tilfinningareynsla eins og margir „endurfæddir kristnir menn“ segjast hafa orðið fyrir. Sálmaritarinn sagði: „Vísa mér vegu þína, [Jehóva], kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.“ (Sálmur 25:4, 5) Að „þekkja“ Guð er því heill lífsvegur!
Því má bæta við að eftir að sálmaritarinn hefur hvatt okkur til að ‚finna og sjá að Jehóva er góður‘ segir hann: „Forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.“ (Sálmur 34:9, 15) Í sumum tilvikum er róttækra breytinga þörf til að ‚snúa burt frá því sem er illt.‘
Tökum sem dæmi Mari. Hún var „hippi“ á sjöunda áratugnum og djupt sokkin í fíkniefnaneyslu. Síðan leiddi hvað af öðru, þjófnaður, siðleysi, fóstureyðing — meira að segja vændi. Síðar komst hún í samband við votta Jehóva og varð smám saman ljóst að hún yrði að gera breytingar á lífi sínu ef hún ætti að vera nálæg Guði. „Ég hætti að reykja tvo til þrjá pakka af sígarettum á dag og taka öll eiturlyfin, og ég afréð í hjarta mér að fylgja boði Jehóva um siðferði. Ég henti öllum bókunum mínum um drauma, stjörnuspár og spíritisma og losaði mig við allar styttur, kerti og myndir sem tengdust skurðgoðadýrkun.“ Síðar vígði hún líf sitt Guði og þjónar honum enn í dag.
Munt þú leggja á þig það sem þarf til að kynnast Guði? Þótt líferni þitt kalli ekki á jafnmiklar breytingar og Mari varð að gera má samt vera að þú þurfir að gera verulegar breytingar. Þú getur þó verið þess fullviss að Guð bregðist ekki þeim sem í einlægni og auðmýkt og barnslegum ákafa leita hans, til að læra vilja hans og gera hann.
[Myndir á blaðsíðu 4]
Löngun til að kynnast Guði hefur fengið marga til að gera róttækar breytingar á líferni sínu.