Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.5. bls. 29-32
  • Láttu Jósúabók hjálpa þér — þjónaðu Jehóva af hugrekki

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Láttu Jósúabók hjálpa þér — þjónaðu Jehóva af hugrekki
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Maður hugrekkis
  • Hugrekki í trú og verki
  • Ákveðinn en þó sanngjarn
  • Fleira sem læra má af Jósúabók
  • Höfuðþættir Jósúabókar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • ‚Jehóva Guði vorum viljum vér þjóna‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • ‚Vertu hughraustur og harla öruggur‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Hann efnir loforð sín
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.5. bls. 29-32

Láttu Jósúabók hjálpa þér — þjónaðu Jehóva af hugrekki

„Í HEIMINUM hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ Vera má að þú kannist við þessi orð sem sögð voru af manni að nafni Jesús. Ef þú hins vegar talaðir hebresku gæti nafnið Jósúa komið upp í huga þér, því að Jesús er grísk útgáfa af hebreska nafninu Jósúa. — Jóhannes 16:33.

Það á vel við að hugrekki er líka lykilhugmyndin í bók sem skrifuð var af forvera Jesú, Jósúa Núnssyni. En hvernig sérstaklega getum við haft gagn af Jósúabók? Við skulum byrja á að skoða hvatningu hennar um hugrekki.

Maður hugrekkis

Þegar ævi Móse var öll valdi Jehóva Jósúa sem eftirmann hans. Jósúa var enginn nýgræðingur eða óreyndur unglingur. Hann fæddist sem þræll í Egyptalandi en eftir burtförina sýndi hann sig vera hugdjarfan leiðtoga þegar hann braut á bak aftur tilefnislausa árás Amalekíta. (2. Mósebók 17:8-16) Jósúa sýndi hugdirfsku sína og trú þegar hann og Kaleb einir af njósnamönnunum tólf, sem sendir voru til að kanna Kanaanland, skýrðu óttalausir frá því að með hjálp Jehóva væri hægt að sigra hina siðlausu Kanverja og leggja undir sig fyrirheitna landið. — 4. Mósebók 13:1-14:9.

Með því að Móse var ekki leyft að ganga inn í fyrirheitna landið sagði hann Jósúa: „Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða þetta fólk inn í landið, sem [Jehóva] sór feðrum þeirra að gefa þeim, og þú munt skipta því milli þeirra.“ — 5. Mósebók 31:7, 23.

Þú sérð því hvers vegna við megum vænta þess að læra af Jósúabók hvernig hann var hugrakkur og hvernig við getum verið það. Af þeim skiptum sem orðin „hugrakkur“ og „sterkur“ standa saman í versi í Biblíunni er helmingurinn í Jósúabók eða athugasemdum um hann. Þegar við til dæmis hefjum lestur þessarar bókar lesum við heilræði Jehóva til Jósúa: „Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né til vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur.“ (Jósúa 1:7) Við skulum athuga nokkur atvik þegar Jósúa sýndi glögg merki þess að hafa trúarhugrekki innra með sér og vera hugrakkur í verkum. Síðan getum við séð hvaða lærdóm við getum dregið af því.

Hugrekki í trú og verki

Strax eftir að Jehóva hvatti Jósúa til að vera „hughraustur og harla öruggur“ hóf hann undirbúning að því að leiða Ísraelsmenn yfir Jórdan og inn í Kanaanland. Jósúa mælti svo fyrir: „Búið yður veganesti, því að þrem dögum liðnum skuluð þér fara yfir ána Jórdan, svo að þér komist inn í og fáið til eignar landið, sem [Jehóva], Guð yðar, gefur yður til eignar.“ (Jósúa 1:11) Trúarhugrekki Jósúa kom honum því ekki til að láta sér finnast að þeir gætu bara tekið lífinu með ró og beðið eftir að Jehóva gerði allt. Þeir þurftu sjálfir að leggja sig fram. Á svipaðan hátt þurfum við á að halda trú og hugrekki til að fylgja heilræðum Jesú og treysta að Guð hjálpi okkur um nægilegt fæði og klæði. Loforðið fyrir slíkri hjálp þýðir þó ekki að við getum búist við að fá það upp í hendurnar án þess að vinna fyrir okkur. — Matteus 6:25-33.

Vandamálið, sem Jósúa stóð núna frammi fyrir, var að vaða Jórdanána að vorlagi þegar hún var vatnsmikil og mjög hættulegt var að fara yfir um. (Jósúa 5:10) Jósúa hugsaði ekki með sér: ‚Kannski er best að bíða fram á miðsumar þegar minnkar í ánni.‘ Guð sagði að núna ætti að láta til skarar skríða og Jósúa gerði það fullur hugrekkis. Getur þú dregið einhvern lærdóm af þessu? Þegar tíminn kemur til að gera eitthvað sem tengt er sannri guðsdýrun þurfum við að gera það full hugrekkis í stað þess að vilja heldur bíða þar til aðstæður virðast betri eða þægilegri. Já, láttu til skarar skríða eins og Jósúa gerði. — Prédikarinn 11:4; Jakobsbréfið 4:13, 14.

Guð sýndi að hann var með Jósúa og gaf honum fyrirmæli um að láta prestana bera sáttmálsörkina út í vatnsmikla ána. Þegar þeir stigu út í vatnið stöðvaðist rennsli hennar. Þjóðin gat þá gengið yfir eins og á þurru landi væri. Í stað þess að eigna sér nokkurn heiður af þessu fylgdi Jósúa fyrirmælum Jehóva og reisti í Gilgal (þegar þjóðin var óhult á vesturbakkanum) minningarsteina tekna úr árfarveginum. Það var gert til að undirstrika að ‚hönd Jehóva er sterk svo að menn mættu alltaf óttast hann.‘ (Jósúa 3:5-4:24) Þótt við höfum ekki aðstöðu til að sjá þessa minningarsteina ætti það sem Jehóva gerði fyrir milligöngu Jósúa að byggja upp trúartraust okkar á getu Guðs til að gera það sem þörf er á í þágu þjóna sinna. Minningin um þetta átti sannarlega eftir að skipta Ísraelsmenn miklu þegar þeir stóðu frammi fyrir hinni víggirtu Jeríkóborg Kanverja.

Myndi Jósúa, þessi óttalausi herforingi, leiða Ísraelsmenn í fjöldaárás á þessa víggirtu borg? Þú veist kannski að í staðinn fór Jósúa eftir fyrirmælum Guðs. Hvað átti hann að gera? Að láta vopnaða menn sína ganga þegjandi dag hvern í kringum borgina og prestana á eftir, sem sumir áttu að blása í hrútshorn en aðrir að bera örkina. Sjöunda daginn gengu þeir sjö sinnum í kringum borgina og síðan „æpti lýðurinn heróp, og þeir þeyttu lúðrana. . . . Hrundi þá múrinn til grunna.“ Þá gátu menn Jósúa brotist inn í borgina og unnið hana. Já, alger sigur. — Jósúa 6:20.

Ákveðinn en þó sanngjarn

Við kynnumst hugrekki Jósúa frá annarri hlið af tveim atburðum sem síðan gerðust. Sá fyrri var tengdur borginni Aí sem var þar í grenndinni. Þegar Ísraelsmenn réðust gegn borginni biðu þeir ósigur. Hvers vegna? Vegna þess að þvert gegn fyrirmælum Guðs hafði Akan tekið sér herfang í Jeríkó. Sumir kynnu að afsaka verknað hans með því að það sem hann tók hafi verið nytsamlegt og ekki neinum til tjóns að því er virtist. Þú kannt að hafa heyrt svipuð rök um smáþjófnað frá vinnuveitanda eða um önnur „minniháttar“ afbrot. Hvernig brást Jósúa við?

Með hjálp Guðs einangraði Jósúa hinn seka og staðfesti sekt hans með því að finna hina stolnu muni. Þessir hlutir hljóta að hafa virst ómerkilegir að sjá! En Jósúa kom að kjarna málsins og sagði við Akan: „Hví hefir þú stofnað oss í ógæfu? [Jehóva] stofni þér í ógæfu í dag.“ (Jósúa 7:25) Jósúa, einarður stuðningsmaður réttlætisins, lét taka syndarann af lífi og gerði þar með mögulegt að vinna Aí. Með það í huga hvernig Jósúa tók á máli Akans gætir þú spurt þig: ‚Er ég jafnstaðfastur þegar vinnu- eða skólafélagar gera lítið úr löglausum eða siðlausum verknaði?‘

Nú skulum við líta á annan atburð sem tengdur var Kanverjum í Gíbeon. Þegar Gíbeonítar fréttu hvernig Jósúa hafði sigrað Jeríkó og Aí gerðu þeir í kænska sinni út menn sem létust vera ferðamenn úr fjarlægu landi er vildu gera friðarsáttmála við Ísrael, hvað þeir og gerðu. Þá kom í ljós að mennirnir voru í reyndinni frá Gíbeon þar í grenndinni og margir Ísraelsmenn fóru að mögla yfir því hvernig tekið hefði verið á málinu. Skyldu Jósúa hafa reiðst brögðum þeirra og látið gereyða Gíbeon?

Sáttmáli hafði verið gerður og Jósúa virti hann. Hann mælti svo fyrir að Gíbeonítar skyldu þaðan í frá hafa það verkefni að bera vatn og safna eldiviði fyrir hús Guðs. Gíbeonítar samþykktu að virða þessa skipan og brátt kom í ljós að Jósúa virti hana líka. Hvernig? Fimm kanverskir konungar af þessu svæði bundust samtökum og fóru í herferð gegn Gíbeon. Jósúa lét engan tíma fara til spillis og eftir að her hans hafði gengið alla nóttina gerði hann árás á sameinaðan her þeirra. Jehóva lagði Ísraelsmönnum lið með því að láta rigna banvænum haglsteinum yfir her Kanverja og síðan að láta sólina standa með undraverðum hætti hreyfingarlausa á himninum í heilan dag til þess að Ísraelsmenn gætu fullnað sigur sinn. Með Gíbeonítana í huga, munum við vera jafnákveðin og Jósúa að halda samkomulag eða loforð sem við höfum gert og er ekki andstætt meginreglum Guðs? Höldum við orð okkar jafnvel þótt það sé erfitt eða óþægilegt? — Sálmur 15:4.

Eftir bardagann, sem hér er getið, þegar að því kom að taka óvinakonungana fimm af lífi, hvatti Jósúa þjóð sína: „Óttist ekki og látið ekki hugfallast, verið hughraustir og öruggir, því að svo mun [Jehóva] fara með alla óvini yðar, er þér berjist við.“ (Jósúa 10:25) Það myndi koma sér vel fyrir Ísraelsmenn að vera hughraustir og öruggir þegar þeir legðu undir sig landið, eins og Guð hafði boðið, fyrst til suðurs og síðan til norðurs þar sem konungurinn í Hasór gerði líka bandalag við aðra konunga gegn Ísrael, án árangurs. Þótt Ísraelsmenn væru ekki jafn vel búnir og Kanverjar, sem bjuggu í víggirtum borgum og áttu vopnbúna hervagna, gerðu Ísraelsmenn hugrakkir vilja Jehóva.

Fleira sem læra má af Jósúabók

Við höfum sérstaklega gefið gaum því sem læra má af Jósúabók um hugrekki. Þegar þú lest bókina munt þú sjá að læra má margt annað nytsamlegt af henni.

Margar konur hafa til dæmis verið snortnar af viðhorfum Rahab sem faldi tvo Ísraelsmenn sem komu til Jeríkó til að njósna. Flestir Kanverjar, sem heyrðu af stórverkum Guðs í þágu Ísraelsmanna, risu upp til varnar og voru andsnúnir og jafnvel hræddir við Ísraelsmenn. Ekki þó Rahab. Hún var fús til að vera á annarri skoðun en samlandar hennar og hætta lífi sínu til að verða miskunnar Jehóva aðnjótandi. Hún gerði líka það sem hún gat til að hjálpa ættingjum sínum að læra hvað þeir þyrftu að gera til að bjarga lífi sínu. Við getum vissulega notað þá frásögu til að hjálpa konum nú á tímum að gera sér grein fyrir að sönn guðsdýrkun skuli ganga fyrir sambandi við nágranna eða jafnvel þjóð sína. — Jósúa 2:8-14.

Við getum lært af Jósúabók að varast að dæma ranglega tilefni og hvatir annarra. Þar er um að ræða þá tíma eftir að búið var að sigra stóran hluta Kanaanlands og Jósúa hafði skipt landinu milli ættkvíslanna. Karlmenn frá tveim og hálfri ættkvísl voru á heimleið til svæða sinna austanmegin Jórdanar. Á leiðinni reistu þeir altari. Hinar ættkvíslirnar hröpuðu að ályktun — rangri — um hvað altarið merkti. Horfur voru á styrjöld milli ættkvísla. Þegar þú lest frásöguna í 22. kafla Jósúabókar skaltu taka eftir þeim lærdómi, sem þar er að finna, um að ætla öðrum ekki illar hvatir. Og taktu líka eftir hvað gott væri fyrir þig að gera ef þér fyndist einhver annar hafa gert lítið úr þér eða komið illa fram við þig.

Í yfirlit um Jósúabók ætti aldrei að vanta að geta þeirrar áherslu sem hún leggur á að læra um og halda sér fast við sanna guðsdýrkun sem byggist á orði Guðs. Guð ráðlagði Jósúa að lesa orð sitt reglulega og víkja ekki frá því. (Jósúa 1:8) Eftir sigurinn í Aí leiddi Jósúa alla þjóðina norður til Síkem sem lá milli Ebalfjalls og Garísímfjalls. Þar reisti hann fórnaraltari og „skrifaði þar á steinana eftirrit af lögmáli Móse.“ (Jósúa 8:32) Enn fremur las hann lögmálið fyrir þjóðina. „Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.“ — Jósúa 8:35.

Síðar, eftir að Jósúa hafði búið um hríð í bænum sem hann hafði hógværlega beðið um sem erfðahlut, kallaði hann þjóðina saman á ný. Hann sagði: „Ég gjörist nú gamall og aldurhniginn. Þér hafið sjálfir séð allt það, sem [Jehóva] Guð yðar hefir gjört öllum þessum þjóðum yðar vegna, því að [Jehóva] Guð yðar hefir sjálfur barist fyrir yður. Síðan hvatti hann þjóðina: „Reynist nú mjög staðfastir í því að halda og gjöra allt það sem ritað er í lögmálsbók Móse, án þess að víkja frá því til hægri né vinstri. . . . Haldið yður fast við [Jehóva] Guð yðar.“ Þjóðinni til hvatningar minnti hann á þetta: „Þér skuluð vita . . . að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er [Jehóva] Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau ræst.“ — Jósúa 23:2-8, 14.

Að síðustu kallaði hann þjóðina saman til að veita henni sínar hinstu áminningar og hann sárbændi hana: „Kjósið . . . í dag, hverjum þér viljið þjóna [Jehóva].“ Þegar þjóðin fullvissaði hann um að hún myndi líka gera það gerði hann sáttmála við hana. Frásagan segir: „Eftir þessa atburði andaðist Jósúa Núnsson, þjónn [Jehóva], hundrað og tíu ára gamall.“ Þessi drottinholli tilbiðjandi Jehóva er okkur sannarlega mikil hvatning til að vera hugrökk og sterk í því að ‚óttast Jehóva og þjóna honum einlæglega og dyggilega.‘ — Jósúa 24:14, 15, 29.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila