Beindu nýjum til skipulags Guðs
„Elskið bræðrafélagið.“ — 1. Pétursbréf 2:17.
1, 2. (a) Hverju miðla kristnir kennarar auk kenninga?
HLUTVERK kennara er að miðla staðreyndum. En góður kennari gerir meira en það. Hann miðlar nemendum sínum siðferðis- og verðmætamati, hjálpar þeim að glöggva sig á mikilvægi þess sem þeir eru að læra og hvernig best megi nota það. Ekki síst á þetta við um kristinn kennara. Hann þarf að vísu að kenna nemendunum „sannleika Guðs“ en það felur í sér langtum meira en aðeins þekkingu á kennisetningum. (Rómverjabréfið 1:25) Biblían hvetur til þess að kenndur sé ótti Jehóva, góð hyggindi og skynsemi. — Sálmur 34:12; 119:66.
2 Jesús nefndi fleira sem kenna þyrfti: „Gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) ‚Allt sem boðið er‘ felur í sér þátttöku í þeirri prédikun sem spáð var að yrði um allan heim á okkar dögum. (Matteus 24:14) Og við þurfum að koma biblíunemendum okkar í skilning um eitt enn. Hvað er það? Til svars við því skulum við skoða þjónustu Páls postula og gefa gaum nokkru sem var veigamikill þáttur í kennslu hans.
Páll sem skipuleggjandi
3. Hvernig bar Páll sig að þegar hann var að kenna þeim sem nýlega höfðu fengið áhuga í Korintu?
3 Þegar Páll heimsótti Korintu fyrsta sinni fann hann mörg heyrandi eyru þrátt fyrir andstöðu gyðingsamfélagsins. Páll kenndi þeim sem áhuga sýndu þó ekki aðeins á einstaklingsgrundvelli. Við lesum: „Hann fór þaðan [úr samkunduhúsi Gyðinganna] og kom í hús manns nokkurs, er hét Títus Jústus og dýrkaði Guð. Hús hans var hjá samkunduhúsinu.“ (Postulasagan 18:7) Í þessu húsi fóru hinir nýju lærisveinar að koma saman og dýrka Guð saman. Fljótlega kom Páll á safnaðarskipulagi með þeim. — 1. Korintubréf 1:2.
4. Hvað kom fljótlega fram í Efesus eftir að Páll byrjaði að kenna þar?
4 Síðar ferðaðist Páll til Efesus þar sem fór á svipaðan veg. Hann kenndi áhugasömum hverjum fyrir sig, „í heimahúsum.“ (Postulasagan 20:20) En hann gerði líka fljótt ráðstafanir til að nýju lærisveinarnir gætu haft samfélag hver við annan. Hann „greindi lærisveinana frá þeim [Gyðingunum], og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar.“ (Postulasagan 19:9) Ekki leið á löngu að einnig væri komið á safnaðarskipulagi með öldungum hjá þessum hópi kristinna manna. — Postulasagan 20:17, 18.
5. Hvað gerðu kristnir kennarar á þeim tíma fyrir hina nýju eins fljótt og hægt var?
5 Ljóst er að þegar nýir tóku við sannleikanum á fyrstu öld voru þeir ekki látnir sjá um sig sjálfir. Þeim var safnað í söfnuði. Þeir glöddust yfir því að fá hvatningu frá hinu stjórnandi ráði þess tíma. Þroskaðir bræður, svo sem Páll og Barnabas, vörðu miklum tíma í að kenna í þessum nýstofnuðu söfnuðum og „kenndu og boðuðu ásamt mörgum öðrum orð [Jehóva].“ (Postulasagan 15:30-35) Hvers vegna? Hvers vegna voru hinir nýju ekki látnir sjá um sig sjálfir og reiða sig á sína nýþjálfuðu samvisku um að leiðbeina sér til að gera það sem rétt væri?
Hvers vegna söfnuðir?
6. Hvers vegna var komið á safnaðarskipulagi hjá frumkristnum mönnum?
6 Fyrir því liggja margar ástæður sem sumar skulu nefndar hér. Í fyrsta lagi hætti einstaklingurinn að eiga mikið sameiginlegt með umheiminum þegar hann varð kristinn. (Jóhannes 17:14, 15) Hefði hann verið eftir skilinn einn og einangraður hefði hann verið afskaplega einmana. En með því að hafa félagsskap við kristna bræður sína í söfnuði þar á staðnum fengi hann styrk til að halda sér aðgreindum frá heiminum. Auk þess sagði Jesús að fylgjendur hans myndu vera „eitt.“ (Jóhannes 17:11) Sú eining var sérstaklega sjáanleg í söfnuðunum. Jesús sagði líka: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Til að kristnir menn gætu sýnt þennan kærleika á slíkan hátt að það væri þeim sem fyrir utan stæðu til tákns yrðu þeir að mynda sín eigin samfélög. Þessi samfélög voru kristnu söfnuðirnir á hverjum stað þar sem kristnir menn gáfu gætur að andlegri og líkamlegri velferð hvers annars. (Filippíbréfið 2:4) Hjálpin til ekknanna, sem Páll ræddi við Tímóteus, átti til dæmis greinilega að veitast í gegnum söfnuðina. — 1. Tímóteusarbréf 5:3-10.
7. (a) Hvað er fólgið í orðum Páls í Hebreabréfinu 10:24, 25? (b) Hvert var hlutverk safnaðanna á fyrstu öld í prédikunarstarfinu?
7 Eftirfarandi orð Páls voru því bein hvatning um að styðja söfnuðinn á staðnum: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er síður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10: 24, 25) Prédikun fagnaðarerindisins um ríkið, sem var gerð með svo einstökum hætti á fyrstu öldinni, fór líka greinilega fram með skipulegum hætti á vegum safnaðanna. (Rómverjabréfið 10:11-15) Þannig leiðbeindi heilagur andi öldungunum í söfnuðinum í Antíokkíu um að senda Pál og Barnabas sem trúboða til óúthlutaðra starfssvæða, og Páll viðurkenndi yfirvald öldunganna í söfnuðinum í Jerúsalem til að gefa sér fyrirmæli um hvar hann skyldi prédika. — Postulasagan 13:1-3; Galatabréfið 2:8-10.
Söfnuðir nú á dögum
8, 9. Nefnið nokkrar ástæður fyrir því að við ættum líka að beina þeim sem sýna áhuga til safnaðarins.
8 Hvað getum við lært af þessum sögulega bakgrunni? Að við ættum líka að beina þeim sem nýlega hafa sýnt áhuga til kristna safnaðarins á staðnum. Kristnin er ekki trú einangrunarsinna núna frekar en var á dögum Páls. „Sá sem einangrar sig mun leita sinnar eigingjörnu þrár,“ aðvara Orðskviðirnir. (Orðskviðirnir 18:1, NW) Á hinn bóginn ‚verður sá vitur sem hefur umgengni við vitra menn.‘ (Orðskviðirnir 13:20) Nýir þurfa að fá þann andlega, siðferðilega og tilfinningalega stuðning sem kristni söfnuðurinn býður upp á. Þeir þurfa að finna ást kristinna bræðra sinna, þjónustu og aðstoð öldunganna og þá notalegu einingu sem gerir það að svo gleðilegri og sérstæðri lífsreynslu að vera kristinn maður. — Sálmur 133:1.
9 Prédikun fagnaðarerindisins um ríkið um allan heim núna er líka að verulegu leyti gerð á skipulegan hátt í gegnum hina kristnu söfnuði á hverjum stað. (Matteus 24:14) Þegar við því kennum hinum nýju um skyldur þeirra að taka þátt í því starfi verðum við að beina þeim til safnaðarins á staðnum og sýna hvernig eigi að starfa með honum.
Alþjóðlegt bræðrafélag
10. Nefnið nokkra ritningarstaði sem benda á alþjóðlega einingu kristinna manna á fyrstu öld.
10 En Páll postuli leiddi hina nýju inn í meira en aðeins söfnuð á einum stað. Hann sagði Efesusmönnum: „Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar.“ (Efesusbréfið 4:4) Um allan heim var aðeins einn „líkami,“ ekki fjöldi dreifðra, staðbundinna, óháðra safnaða. Jesús átti líka við lifandi meðlimi þessa „líkama“ á jörðinni þegar hann talaði um ‚trúan og hygginn þjón‘ sem fengi umboð til að ‚gefa hjúunum mat.‘ (Matteus 24:45-47) Hinir einstöku kristnu menn um allan heim yrðu að viðurkenna yfirvald þessa ‚þjóns‘ ef þeir ættu að fá „mat“ hjá honum. Úr því yrði alþjóðlegt bræðarfélag kristinna manna.
11. (a) Hvað kallaði Pétur þetta alþjóðaskipulagi kristinna manna? (b) Hvaða tilhögun varðveitti einingu kristinna manna á fyrstu öld í kenningalegum efnum? Hvernig sýndi Páll að hann virti þetta fyrirkomulag?
11 Pétur postuli talaði því um alla kristna menn síns tíma sem „allt bræðrafélagið.“ (1. Pétursbréf 2:17, NW) Þeir voru alþjóðlegt ‚félag‘ (á grísku adelfótes, „bræðralag“). Nýir urðu hluti af ekki aðeins söfnuðinum á staðnum heldur þessu alþjóðlega bræðrafélagi í heild sinni. Söfnuðir höfðu tengsl hver við annan. (Kólossubréfið 4:15, 16) Þegar upp komu spurningar um kenningar skáru menn ekki úr þeim upp á eigin spýtur. Til að fá áreiðanlegt svar sneru þeir sér til öldunganna í söfnuðinum í Jerúsalem sem voru hið stjórnandi ráð safnaðanna um allan heim á þeim tíma. (Postulasagan 15:2, 6-22) Sjálfur virti Páll yfirvald þess ráðs í kenningalegum efnum. Þótt han hefði fengið sannleikann í gegnum sérstaka opinberun frá Jesú Kristi fór hann eigi að síður til Jerúsalem og útskýrði fyrir þeim fagnaðarerindið sem hann var að prédika, ‚því að eigi mátti henda að hann hlypi og hefði hlaupið til einskis.‘ — Galatabréfið 1:11, 12; 2:1, 2, 7-10.
12. Hvað annað tengdi ‚allt bræðrafélagið‘ enn nánari böndum?
12 Til að tryggja að einingu ‚alls bræðrafélagsins‘ í hugsun og verki voru sendir bræður svo sem Tímóteus, Títus og Epafródítus til safnaðanna til að uppbyggja þá, og bréf frá Páli, Pétri, Jakobi, Jóhannesi og Júdasi voru látin berast milli þeirra. Með því að til var slíkt bræðrafélag fréttu efnaðir kristnir menn í öðrum löndum af þörfum bræðra sinna í Júdeu, þegar erfiðleikar voru þar, og Páll gat — í gegnum söfnuðina — skipulagt hjálparstarf meðal hinna þurfandi. (1. Korintubréf 16:1-4) Það var einstökum kristnum mönnum einnig hvatning að frétta af þolgæði og trú ‚bræðra sinna um allan heim.‘ — 1. Pétursbréf 5:9.
Kynntu nýja fyrir ‚öllu bræðrafélaginu‘
13. Hvað er líkt með ‚öllu bræðrafélaginu‘ um allan heim á fyrstu öld og nú?
13 Er til svipað „bræðrafélag“ nú á dögum? Svo sannarlega. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ er enn til og hefur enn þá ábyrgð að ‚gefa hjúunum mat.‘ (Matteus 24:45-47) Eins og á dögum Páls er stjórnandi ráð fulltrúi þessa ‚þjóns‘ og stýrir prédikun ‚fagnaðarerindisins‘ um allan heim. Hin alþjóðlega eining er einnig styrkt nú á dögum með hjálp bréfa og rita frá þessu stjórnandi ráði, svo og með hjálp þroskaðra kennara sem þjóna í söfnuðinum. Þegar einhver lærir sannleikann lærir hann því að vera hluti af söfnuði í sínu byggðarlagi, en einnig að finna að hann er hluti af ‚öllu bræðrafélaginu‘ um allan heim. Það er ábyrgð kristins kennara að hjálpa biblíunemanda sínum að gera það. Hverngi getur hann farið að því?
Öðrum hjálpað að elska ‚allt bræðrafélagið‘
14. Hvernig hefur þér reynst best að segja biblíunemendum frá söfnuðinum á staðnum, svo og alþjóðaskipulagi þjóna Guðs?
14 Kristinn kennari getur sagt nemanda sínum frá söfnuðinum og hinu alþjóðlega bræðrafélagi og hann getur síðan sýnt honum það. Hvernig getur hann sagt frá því? Hér skulu nefndar nokkrar leiðir sem verið hafa reyndum kennurum gagnlegar: Taktu þér tíma fyrir eða eftir biblíunámið til að ræða um söfnuðinn og mikilvægi hans í ljósi Biblíunnar, svo og um hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ og hvernig hann þjónar okkur núna. Lýstu Ríkissalnum og samkomunum. Talaðu um áhugaverð atriði sem þú hefur lært á samkomum. Í bænum þínum fyrir og eftir námið skalt þú minnast á söfnuðinn á staðnum, svo og hið alþjóðlega bræðrafélag.
15. Nefnið dæmi um góðar leiðir til að sýna hinum áhugasömu söfnuðinn og alþjóðaskipulagið.
15 En hvernig getur þú sýnt þetta? Við nefnum hér nokkrar leiðir sem reynst hafa vel: Eins fljótt og hægt er skalt þú bjóða öðrum úr söfnuðinum með þér í námið til að nemandinn byrji að eignast nýja vini eins fljótt og auðið er. Mikilvægt er að hann geri sér ljóst að hvað sem hann kann að missa af vinum í gamla heiminum mun hann fá meira en bætt með nýjum vináttuböndum innan ‚alls bræðrafélagsins um allan heim.‘ (1. Pétursbréf 5:9; Matteus 19:27-29) Notaðu þér til fulls bæklinginn um votta Jehóva á tuttugustu öldinni (Jehovah’s Witnesses in the Twentieth Century). Þar er lýst alþjóðaskipulagi votta Jehóva nú á tímum og nokkrar góðar myndir eru frá fjölmennu móti, dæmigerðum Ríkissal, samkomu, prédikunarstarfinu og svo framvegis. Það mun gefa nemandanum myndræna hugmynd um umfang ‚alls bræðrafélagsins.‘ Á sama hátt gefur 23. kafla bókarinnar Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð litríka og myndræna lýsingu á skipulagi Guðs núna.
16. (a) Hvað ættum við að gera fyrir biblíunemendur okkar eins fljótt og hægt er? Af hvaða biblíulegum ástæðum? (b) Hvernig getum við haft hag af heimsókn farand- eða umdæmishirða til að hjálpa biblíunemendum okkar að verða hluti af fólki Guðs?
16 Mundu líka að Páll skipulagði samkomur í Efesus næstum strax eftir að hann fann þar áhuga. (Postulasagan 19:9, 10) Hann sagði söfnuðinum í Korintu að þegar „einhver vantrúaður eða fáfróður“ komi á kristna samkomu, þar sem góð regla ríkir, ‚verði leyndardómur hjarta hans opinberir og hann falli fram á ásjónu sína og tilbiðji Guð og lýsi því yfir að Guðs sé sannarlega hjá okkur.‘ (1. Korintubréf 14:24, 25) Eins er það nú að því fyrr sem nemandinn byrjar að hafa samfélag við söfnuðinn á staðnum, því fyrr mun hann gera sér ljóst hvar sannleikann er raunverulega að finna. Af þessari ástæðu bjóða kristnir kennarar nemendum sínum að sækja safnaðarsamkomur og fjölmenn mót jafnskjótt og auðið er. Ef þess er þörf leggja þeir lykkju á leið sína til að heimsækja hinn áhugasama og taka hann persónulega með sér á samkomurnar. Þegar „Títus“ eða „Epafrodítus“ nútímans, farands- eða umdæmishirðir, heimsækir söfnuðinn kynna þeir biblíunemanda sinn fyrir honum og konu hans og bjóða kannski jafnvel gestunum að vera með í hinu reglulega biblíunámi.
17. Hvað er því mikilvægur þáttur í því að kenna og gera menn að lærisveinum? (Matteus 28:19, 20) Hvernig er það nemendum okkar ávinningur?
17 Skipulag Jehóva um allan heiminn, myndað af hinum smurðu, er „stólpi og grundvöllur sannleikans.“ (1. Tímóteusarbréf 3:15) Til að þeir sem nýlega hafa fengið áhuga njóti góðs af þeim ‚grundvelli‘ verða þeir að slást í lið með hundruðum þúsunda auðmjúkra manna sem streyma inn til samfélags við hina smurðu. (Sakaría 8:23) Nú mynda þessir auðmjúku menn alþjóðlegt bræðrafélag sem í eru yfir 2,8 milljónir manna, og það að taka við sannleikanum felur í sér að hafa samfélag við þetta alþjóðlega bræðrafélag. Þegar hinir áhugasömu verða hluti af því njóta þeir alls þess stuðnings og verndar sem það hefur upp á að bjóða. Þeir gleðjast yfir bróðurkærleika kristinna bræðra sinna og fá tækifæri til að endurgjalda hann. (Hebreabréfið 13:1) Það þýðir einnig að þeir verða hluti af hinum ótalda, alþjóðlega múgi sem mun lifa af hina komandi miklu þrengingu og eiga fyrir sér ánægjulega samveru um eilífð. (Opinberunarbókin 7:9-17) Þótt þú sért að kenna biblíunemendum þínum kennisetningar skalt þú því ekki gleyma að beina þeim til og kenna þeim að elska ‚allt bræðrafélagið.‘ — 1. Pétursbréf 2:17.
Manst þú?
◻ Hvað gerði Páll í sambandi við áhugann sem hann fann í Efesus og Korintu?
◻ Hvernig var Páll hinum nýju til hjálpar?
◻ Hvert ættum við að leiða biblíunemendur okkar, auk þess að kenna þeim kenningarnar?
◻ Nefnið dæmi um hentugar leiðir til þess.
[Myndir á blaðsíðu 26, 27]
Nýir eru boðnir innilega velkomnir í ‚allt bræðrafélagið.‘