Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.5. bls. 20-24
  • ‚Þið ættuð að vera kennarar‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • ‚Þið ættuð að vera kennarar‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Kennarinn . . .
  • . . . og kennsla hans
  • Vertu hygginn og sannfærandi kennari
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Líktu eftir kennaranum mikla
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Hann talaði ekki til þeirra án dæmisagna
    „Komið og fylgið mér“
  • Hafðu gát á sjálfum þér og kennslunni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.5. bls. 20-24

‚Þið ættuð að vera kennarar‘

‚Þjónn Drottins á að vera góður fræðari.‘ — 2. Tímóteusarbréf 2:24.

1, 2. Á hvaða sérstakan hátt eiga kristnir menn að líkja eftir Jesú?

VORDAG einn árið 31 flutti Jesús ræðu undir opnum himni að viðstöddum miklum mannfjölda sem hafði safnast saman til að heyra hann kenna. Hann talaði án hljóðnema og magnara en notfærði sér hljómburð af náttúrunnar hendi utan í fjallshlíð til að gera sig heyranlegan. Og það sem hann sagði var undravert. Eftir að hann lauk máli sínu voru áheyrendur hans sammála um að þeir hefðu aldrei heyrt nokkuð þvílíkt áður. Frásagan segir okkur: „Undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans.“ (Matteus 7:28) Við þetta tækifæri og mörg önnur færði Jesús sönnur á að hann væri afburðakennari.

2 Hann sagði fylgjendum sínum enn fremur að þeir ættu líka að vera kennarar. Hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Páll postuli lagði einnig áherslu á að sú skylda hvíldi á kristnum mönnum að kenna. ‚Tímans vegna ættuð þið að vera kennarar,‘ sagði hann kristnum Hebreum. (Hebreabréfið 5:12) Hann sagði Tímóteusi líka: „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:24.

3. Við hvaða aðstæður getur kristinn maður þurft að kenna?

3 Hvers vegna er lögð þessi áhersla á að kenna? Nú, kristnir menn þurfa að kunna að kenna þegar þeir prédika hús úr húsi eða á götum úti, eða þegar þeir heimsækja aftur þá sem áhuga hafa og nema Biblíuna með þeim. Þeir reyna að nota öll sín sambönd við aðra til að kenna. (Sjá Jóhannes 4:7-15.) Enn fremur þarf kristinn þjónn orðsins að kenna þegar hann ávarpar söfnuðinn í Ríkissalnum eða gefur ráð á einstaklingsgrundvelli. Og þroskuðum konum er ráðlagt að kenna yngri konum „gott frá sér.“ (Títusarbréfið 2:3-5) Kristnir foreldrar reyna að ala börnin sín upp í „aga og umvöndun [Jehóva]“ — og það krefst stundum mikillar leikni í kennslu. (Efesusbréfið 6:4; 5. Mósebók 6:6-8) Ekki er að undra að Páll skyldi segja að kristinn maður yrði að vera „góður fræðari“!

4, 5. Hvaða hjálp fáum við til að verða góðir kennarar?

4 Það er ekki auðvelt að kenna. Það er list. (2. Tímóteusarbréf 4:2) Hvernig geta kristnir menn, sem ekki eru margir „vitrir að manna dómi,“ þroskað þá list? (1. Korintubréf 1:26) Það er aðeins gerlegt með hjálp Jehóva. (Matteus 19:26) Jehóva gefur þeim visku sem biðja um hana. (Jakobsbréfið 1:5) Heilagur andi hans styður þá sem leitast við að gera vilja hans, og hann hefur gefið okkur Biblíuna sem er „nýtsöm til fræðslu“ og getur hjálpað okkur að vera ‚albúin og hæf til sérhvers góðs verks,‘ þar á meðal að kenna. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

5 Biblían hjálpar okkur að verða betri kennarar. Hún gerir það einkanlega með því að skýra nákvæmlega frá þjónustu Jesú sem kenndi af slíkri snilli að samtíðarmenn hans furðaði. (Markús 1:22) Ef við komumst að því hvað gerði hann að svona góðum kennara getum við reynt að líkja eftir honum. Í rauninni þarf að gefa tvennu gaum þegar kennsla er annars vegar: Eiginleikum kennarans og því hvernig hann kennir. Við skulum sjá hvernig það var hjá Jesú og hvað við getum lært af fordæmi hans.

Kennarinn . . .

6. Hverju í kennslu Jesú er þýðingarmikið að líkja eftir? Hvers vegna?

6 Einu sinni sagði Jesús: „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.“ (Jóhannes 7:16) Öðru sinni sagði hann: „Ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóhannes 8:28) Jesús beindi þannig athyglinni að sínum himneska föður. Þótt hann væri Messías var það tilgangur hans að upphefja nafn Jehóva, ekki sitt eigið. (Matteus 6:9; Jóhannes 17:26) Þessi auðmýkt átti sinn þátt í að gera Jesú einstakan kennara. Kristnir kennarar nú á dögum ættu að hafa sams konar auðmýkt. Tilgangur þeirra er að upphefja, ekki sjálfa sig, kennarana, heldur Jehóva, höfund þess sem þeir kenna. Þannig verða nemendur þeirra þjónar Guðs, ekki lærisveinar einhvers manns. — Samanber Postulasöguna 20:30.

7, 8. (a) Hvaða góð viðhorf til sannleikans hafði Jesús? (Sálmur 119:97) (b) Hvernig munu sams konar viðhorf bæta kennsluhæfni okkar?

7 Hafðu síðan í huga að Jesús kom til að ‚bera sannleikanum vitni‘ og að hann var að kenna. (Jóhannes 17:17; 18:37) Jafnvel 12 ára að aldri hafði hann mikinn áhuga á biblíulegum málum. (Lúkas 2:46, 47) Greinilega elskaði Jesús sannleikann. (Sálmur 40:9) Djuptækur skilningur Jesú og ást á sannleikanum sannfærði hann um að aðrir þyrftu að heyra boðskap hans, og hann var staðráðinn í að kenna hann með eins árangursríkum hætti og unnt væri. — Jóhannes 1:14  12:49, 50.

8 Hvað um okkur? Sennilega þekkjum við sannleikann býsna vel, en elskum við hann? Eyðum við tíma í nám til að verða hæfari í að beita honum? Höfum við yndi af að tala um hann við aðra? Þegar þekking okkar á sannleikanum eykst vex kærleikur okkar til hans, svo og ákafi að segja öðrum frá honum. Sálmaritarinn lýsti sælan þann mann sem „hefir yndi af lögmáli [Jehóva] og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.“ Um slíkan mann segir Biblían: „Allt er hann gjörir lánast honum,“ og það nær einnig til kennslunnar. — Sálmur 1:1-3.

9. Hvaða annar eiginleiki Jesú stuðlaði að góðum kennsluhæfileikum hans?

9 Ekki er þó sjálfgefið að við séum afburðakennarar þótt við þekkjum vel það sem kenna á. Þú kannast ef til vill við það frá því að þú varst í skóla að kennari gæti kunnað námsefnið vel en verið slakur kennari. Af hvaða orsökum? Vera má að hann hafi skort eiginleika sem Jesús hafði til að bera í ríkum mæli: Djúpan kærleika til annarra og umhyggju fyrir þeim. Frásagan segir okkur frá þessu atviki: „Er [Jesús] sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því að þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Hann var aldrei of þreyttur eða annars hugar til að hjálpa öðrum. (Jóhannes 4:6-26) Hann var vingjarnlegur, mildur og þolinmóður þegar veikleikar þeirra voru annars vegar. Hann langaði til að hjálpa. (Lúkas 5:12, 13) Kristinn kennari þarf að vera gæddur þessum sömu eiginleikum ef hann á að ná árangri.

10. Hvers vegna er gott fordæmi nauðsynlegur þáttur góðrar kennslu?

10 Gefum gaum að því fjórða sem einkenndi kennarann Jesú. „Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.“ (1. Pétursbréf 2:22) Hann gerði ekkert sem gæti dregið úr áhrifamætti kennslunnar. Er það einnig svo um okkur? Páll skrifaði Rómverjum: ‚Kennir þú öðrum að ekki skuli stela en stelur þó sjálfur?‘ (Rómverjabréfið 2:21) Á líkan hátt má spyrja hvort öldungur, sem kennir söfnuðinum mikilvægi þjónustunnar á akrinum, sé sjálfur athafnasamur í henni? Sá sem flytur ræðu og hvetur til biblíulestrar, les hann Biblíuna sjálfur? Í sumum tilvikum getur breytnin ein saman ‚unnið‘ andstæðing orðalaust. (1. Pétursbréf 3:1) Verk geta talað hærra en orð. Og víst er að stangist breytni okkar á við orðin mun nemandinn fljótt taka eftir því og líklegt er að kennsla okkar verði til einskis.

11. Hvaða önnur hlið kennlsu er rædd hér?

11 Löngun kennarans til að lofa Jehóva, skilningur hans og ást til sannleikans, góðvild og umhyggja fyrir öðrum og gott fordæmi eru allt mikilvægir kostir góðs kennara. Slíkir eiginleikar hafa áhrif á einlæga nemendur, jafnvel þótt kennarinn sé ekki sérstaklega leikinn í kennslutækni og -stíl. Engu að síður er kennsla list og kennarahæfileikar okkar geta aukist ef við gefum kennslutækni og kennslustíl gaum. Skoðaðu nokkrar af kennslutækniaðferðum Jesú og athugaðu hvort þær geti hjálpað þér að verða betri kennari.

. . . og kennsla hans

12. (a) Hvað í kennslu Jesú sker sig úr í Matteusi 5:3-12? (b) Hvernig gætir þú líkt eftir því til að bæta kennsluhæfileika þína?

12 Til að skynja blæinn á kennslu Jesú skalt þú lesa fyrstu versin í fjallræðu hans. (Matteus 5:3-12) Hvað vekur strax athygli þína? Nú, Jesús vandaði orðaval sitt. Röð stuttra málsgreina, sem byrja á orðunum „sælir eru . . .“, eru eftirminnilegur inngangur. En taktu eftir öðru: Hann notar ekki flókin, háfleyg orð eða setningar. Sannindin, sem þar koma fram, eru djúpvitur en einfalt orðuð. Þetta er lykillinn að áhrifaríkri kennslu: EINFALDLEIKI. Lestu í gegnum ræðu Jesú alla og taktu eftir fleiri djúpvitrum sannindum sem sögð eru stuttort og gagnort. (Matteus 5:23, 24, 31, 32; 6:14; 7:12) Hugleiddu síðan hvernig þú gætir útskýrt á einfaldan hátt ýmis undirstöðusannindi svo sem til dæmis heiðingjatímana eða þá hvers vegna Biblían býður upp á bæði himneska von og jarðneska.

13, 14. Hvernig lifguðu dæmisögur og líkingar orð Jesú?

13 Lestu nú Matteus 5:14-16. Jesús hvetur sína auðmjúku áheyrendur til að útbreiða sannleikann með sínum góðu orðum og verkum. Kannski varð þeim bylt við að heyra þetta. Á þeim dögum var litið á hina skriftlærðu og faríseana sem kennara Gyðingaþjóðarinnar. En Jesús lét þetta atriði skera sig úr, þó þannig að það virtist eðlilegt og sjálfsagt. Hvernig? Með því að nota snjalla samlíkingu. Hér kemur fram þýðingarmikil kennsluaðferð sem Jesús notaði oft: SAMLÍKINGAR og DÆMISÖGUR.

14 Hvers vegna að nota samlíkingar og dæmisögur? Vegna þess að hugurinn hugsar best í myndum. Og með því að líkja andlegum atriðum við hluti og fyrirbæri úr daglega lífinu geta þau orðið auðskildari. Jesús líkti því Jehóva, honum sem heyrir bænir, við föður sem gefur börnum sínum góðar gjafir. Hinum erfiða vegi til lífsins var líkt við þröngt hlið og mjóan veg. Falsspámönnum var líkt við úlfa í sauðagærum eða tré sem bera vonda ávexti. (Matteus 7:7-11, 13-21) Þessar líkingar úr daglega lífinu gæddu orð Jesú lífi og krafti. Kennsla hans var eftirminnileg, ógleymanleg.

15. Nefnið dæmi um hvernig kristnir menn nú á dögum geta notað líkingar og dæmisögur til að bæta kennslu sína?

15 Kristnir kennarar nú á dögum nota líka líkingar og dæmisögur til að gera öðrum nýjar hugmyndir auðskildari og meðtækilegri. Sumir hafa lýst því hversu óskynsamleg kenningin um elda helvítis sé, með því að spyrja áheyrandann hvað honum fyndist um foreldri sem refsaði ólýðnu barni með því að halda hendi þess í eldi. Þeim sannleika að tiltölulega fáir menn fari til himna en flestir hafi von um eilíft líf á jörðinni, má líkja við þjóð með fámennri ríkisstjórn en fjölmörgum þegnum. Samlíking og dæmisaga ætti þó venjulega að byggjast á því sem áheyrandinn þekkir vel. Ekki ætti að þurfa langt mál til að útskýra hana, og hún ætti ekki að vera svo löng að kjarni kennslunnar hverfi í skuggann af sögunni.

16. Hvers konar líkingar eru sérstaklega áhrifaríkar?

16 Gleymdu ekki að samlíkingar og dæmi geta líka verið myndræn. Þegar Jesús var spurður hvort rétt væri að greiða keisaranum skatta bað hann um mynt, denar, og notaði hann sem dæmi til að rökstyðja svarið. (Matteus 22:17-22) Þegar hann lagði áherslu á nauðsyn auðmýktar lýsti hann því með því að kalla til sín lítið barn. (Matteus 18:1-6) Og þegar hann talaði um algera hollustu benti hann á ekkju sem gaf allt sem hún átti — tvo smápeninga — í fjárhirslu musterisins. (Markús 12:41-44) Sumir ræðumenn á kristnum samkomum í Ríkissalnum nota á svipaðan hátt töflur, myndir, kort og litskyggnur sem mjög góð hjálpargögn, en myndir í bókum og ritum eða annað þegar þeir stýra biblíunámi á heimili. Slík hjálpargögn segja miklu meira en orðin tóm.

17. Nefnið aðra kennsluaðferð sem Jesús notaði mjög oft.

17 Lestu að lokum hvernig Jesús tók á faríseunum eins og frá er skýrt í Matteusi 12:10-12. Taktu eftir af hvílíkri leikni hann svaraði mjög vandasamri spurningu. Já, hann notaði dæmisögu, en tókstu eftir hvernig hann orðaði hana? Sem spurningu. Þannig leiðbeindi hann áheyrendum sínum um að skoða hvíldardaginn af meira jafnvægi. SPURNINGAR eru því enn ein mikilvæg kennsluaðgerð sem Jesús beitti. Taktu eftir hvernig Jesús beitti spurningum til að fá áheyrendur sína til að staldra við og hugsa, og til að neyða andstæðinga til að endurmeta stöðu sína. — Matteus 17:24-27; 21:23-27; 22:41-46.

18. Nefnið dæmi um hvernig kristnir menn núna geta beitt spurningum þegar þeir ræða kenningaleg atriði.

18 Kristnir menn nú á tímum geta notað spurningar á svipaðan hátt. Þegar til dæmis einhver sem trúir á þrenningarkenninguna notar Matteus 28:18 til að sanna að Jesús sé almáttugur og því jafn Guði, hefur reyndum kennurum reynst gott að beita spurningum til að hjálpa honum að hugsa rökrétt. Við gætum kannski spurt: ‚Ef allt vald var gefið Jesú, eins og versið segir, hver gaf honum það þá? Og hver var staða Jesú áður en honum var gefið það? Þrenningarkenningarmanninum er þannig hjálpað að skoða ritningarstaðinn í nýju ljósi. Eins gæti sá sem trúir á tilvist helvítis notað dæmisöguna um ríka manninn og Lasarus til að reyna að sanna að brennandi vítislogar séu til. (Lúkas 16:19-31) Spurningar eins og þessar gætu hjálpað honum: Hvert fór fátæki maðurinn þegar hann dó? Ef hann fór til himna, þýðir það að allir á himnum hvíli í faðmi Abrahams? Og hvað var Abraham að gera þar úr því að Jesús sagði að fram að þeim tíma hefði enginn maður stigið upp til himna? (Jóhannes 3:13) Slíkar spurningar geta reynst hjálp til að sýna fram á að ástand fátæka mannsins eftir dauðann, eins og því er lýst í dæmisögunni, hljóti að vera táknrænt. Þess vegna hlýtur ástand ríka mannsins, eftir að hann „dó,“ líka að vera táknrænt og það ber ekki að skilja bókstaflega — einkanlega í ljósi þess sem aðrar ritningargreinar segja um helvíti. — Prédikarinn 9:10.a

19. Hvers vegna eru spurningar svona mikilvægar við alla kennslu?

19 Spurningar gera nemandann þátttakanda í kennslunni. Jafvel spurningar, sem ræðumaður varpar fram án þess að búast við svari frá áheyrendum, koma þeim til að hugsa. Skoðaðu hvernig Jesús beitti slíkum spurningum í Matteusi 11:7-11. Spurningar koma líka að gagni á annan veg. Oft þurfum við að vita hvað býr í huga manns áður en við getum hjálpað honum. Þar eð við getum ekki lesið hjörtu manna, eins og Jesús, er aðeins ein leið til að fá fram þær upplýsingar: með því að spyrja vel valinna spurninga. — Orðskviðirnir 18:13; 20:5.

20. Hver eru launin fyrir að ‚hafa stöðugt gát á sjálfum okkur og kennslunni‘? (1. Tímóteusarbréf 4:16)

20 Já, kennsla er list. Til að rækta hana þarf kennari að þroska með sér vissa eiginleika og leggja sig fram um að læra hvernig eigi að kenna. Það er ekki auðvelt, en hægt er að þroska það. Að vera kristinn maður er að vera kennari. Svo margar kristnar skyldur eru í því fólgnar að kenna. Þess vegna er hyggilegt að fara að ráði Páls: „Hafið gát á sjálfum þér og fræðslunni.“ Að sjálfsögðu hafa sumir fengið þennan eiginleika í vöggugjöf í ríkari mæli en aðrir. Allir geta þó verið góðir kennarar ef þeir leggja sig fram og reiða sig á hjálp Jehóva. Ef þeir gera það fellur þeim óviðjafnanleg umbun í skaut. Páll hélt áfram: „Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

[Neðanmáls]

a Sjá New World Translation, tilvísanabiblíuna, neðanmálsathugasemd; einnig viðauka 4B

Getur þú útskýrt?

◻ Hvaða eiginleikar hjálpuðu Jesú að vara góður kennari?

◻ Hvernig munu þessir eiginleikar hjálpa okkur?

◻ Hvers vegna er einfaldleiki nauðsynlegur hjá góðum kennara?

◻ Hvers vegna auðga líkingar og spurningar kennslu okkar?

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jesús kenndi öðruvísi en trúarleiðtogarnir.

[Myndir á blaðsíðu 22]

Eins og Jesús nota kristnir nútímamenn öll tækifæri til að kenna.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila