Framgöngum í trú!
„Við erum . . . ávallt hughraustir og vitum að við, meðan við eigum okkur heimili í líkamanum, erum að heiman frá Drottni, því að við framgöngum eftir því sem við trúum, ekki því sem við sjáum.“ — 2. Korintubréf 5:6, 7, NW.
1. Á hvaða vegu er augað okkur blessun?
EITT af undrum mannslíkamans er augað. Með þessum undraverða ljósmyndabúnaði tekst okkur bæði að forðast hindranir á vegi okkar og taka við miklu magni upplýsinga sem margar hafa áhrif á samband okkar við aðra. Ljóst er að hönnuður augans ætlaðist ekki til að við fálmuðum okkur áfram í myrkri um heimili okkar, jörðina. Sú var einnig ætlun hans að við gætum séð og notið hinna stórfenglegu sköpunarverka hans — manna og dýra, fjalla og fljóta, vatna og hafa, blóma og annarra jurta, himinsins og hinna mörgu litbrigða sólsetursins. Þeir sem horfa á allt þetta geta tekið undir upphrópun sálmaritarans: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ — Sálmur 104:24.
2. Hvers vegna er ekki nóg að framganga eftir því sem við sjáum og hvað sagði Páll í því sambandi?
2 Þótt sjónin sé dásamleg er þó mikil hætta því samfara að ganga eftir henni einni saman. Ef við viljum njóta hylli Guðs verðum við að fram ganga í trú á hönnuð mannsaugans. Við verðum að leita leiðsagnar hans til að geta iðkað það sem er gott. Í bréfi til smurðra, kristinna meðbræðra sinna sagði Páll postuli: „Vér erum . . . ávallt hughraustir, þótt vér vitum, að meðan vér eigum heima í líkamanum erum vér að heiman frá Drottni, því að vér lifum í trú, en sjáum ekki [við framgöngum eftir því sem við trúum, ekki því sem við sjáum, NW]. Já, vér erum hughraustir og langar öllu fremur að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni [með því að deyja og hljóta upprisu til lífs á himnum]. Þess vegna kostum vér kapps um, hvort sem vér erum heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegir. Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.“ — 2. Korintubréf 5:6-10.
3. Hver ætti að vera löngun allra vígðra þjóna Jehóva og hvaða spurningar verðskulda athugun okkar?
3 Allir vígðir þjónar Jehóva — hvort sem þeir eru af hinum smurðu leifum eða hinum vaxandi ‚mikla múgi‘ sem á sér jarðneska von — vilja ástunda það sem er gott. (Opinberunarbókin 7:9) En hvers vegna má segja að það sé svona hættulegt að ‚framganga eftir því sem við sjáum‘? Og hvað er fólgið í því að ‚framganga í trú‘?
Hættan af því að ‚framganga eftir því sem við sjáum‘
4. (a) Hvers vegna megum við ekki dæma allt eftir ytra útliti? (b) Hvernig lítur skapari augans á hlutina?
4 Ef við tökum alla hluti fyrirvaralaust góða og gilda og reiðum okkur á ytra útlit eingöngu er sú hætta fyrir hendi að við látum blekkjast og verðum fyrir tjóni. Til dæmis gæti maður verið á göngu um sanda og skyndilega sokkið í kviksand. Eða þá að einhver slakaði á verði sínum vegna vingjarnlegs útlits manns sem síðar reyndist vera ‚úlfur í sauðaklæðum.‘ (Matteus 7:15) Við þurfum því að vera árvökul. Skapari augans lætur ekki aðeins ytra útlit leiðbeina sér. Hann sagði spámanninum Samúel: „Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en [Jehóva] lítur á hjartað.“ (1. Samúelsbók 16:7) Hann sem myndaði augað greinir okkar innstu hugsanir og áform, og mat hans á einhverjum eða einhverju er alltaf nákvæmt. (Samanber Hebreabréfið 4:12.) Þegar höfð er í huga fullkomin sjón og innsæi hans er hann svo sannarlega alsjáandi.
5. Hvers vegna er mikilvægt að við séum vöruð við hættunni af að ‚ganga eftir því sem við sjáum‘?
5 Við mennirnir getum hins vegar ekki séð greinilega hvað býr í hjarta annars manns. Jafnvel þótt okkur séu gefnir margir hæfileikar af Guði erum við ófullkomnir og oft er hægt að blekkja okkur. Meira að segja getur okkar eigið hjarta blekkt okkur því að það er ‚svikult framar öllu öðru og spillt.‘ (Jeremía 17:9) Því er sérstaklega mikilvægt að við séum fyrirfram vöruð við því hversu hættulegt er að ‚framganga eftir því sem við sjáum.‘ Hefur Jehóva fullnægt þessari brýnu þörf? Svo sannarlega! Okkur til leiðbeiningar lét hann skrá heimildir um ýmsa sérstaka atburði sem sýna hversu hættulegt er að framganga aðeins eftir því sem við sjáum. — Rómverjabréfið 15:4.
6. Hvaða áhrif hafði það á Ísraelsmenn að ‚ganga eftir því sem þeir sáu‘?
6 Reynsla hinnar fornu þjóðar Guðs, Ísraelsmanna, er mjög gott dæmi. Jafnvel þótt óbrigðul handleiðsla Jehóva stæði þessari útvöldu þjóð til boða gekk hinn trúlausi fjöldi þverúðugur „eftir eigin geðþótta.“ (Sálmur 81:13) Með því að ‚framganga eftir því sem þeir sáu‘ fóru þeir að dýrka skurðgoð eða guði sem voru sýnilegir hinu náttúrlega auga. Með því að láta ytra útlit hafa áhrif á sig hræddust þeir óvinina sem voru langtum fjölmennari en þeir. Og vegna þess að Ísraelsmenn ‚framgengu eftir því sem þeir sáu, ekki í trú,‘ risu þeir gegn forystu Móse, sem var skipaður af Guði, og kvörtuðu undan hlutskipti sínu. (Samanber Júdasarbréfið 16.) Já, margir þeirra virðast hafa horft öfundarauga á það sem sýndist vera frelsi og velmegun þjóðanna umhverfis, og létust ekki sjá það að þessar þjóðir voru djúpt sokknar í spillingu og undir áhrifum illra anda. — 3. Mósebók 18:1-3, 30.
7. Hvernig fór fyrir Ísraelsmönnunum sem höfnuðu handleiðslu Guðs?
7 Hvernig fór fyrir Ísraelsmönnunum sem kröfðust þess að fá að fara sínar eigin leiðir og höfnuðu handleiðslu Guðs? Þeir kölluðu yfir sig vanþóknun Jehóva og hann dró til baka vernd sína svo að óvinir þeirra yfirbuguðu þá! Jafnvel í fyrirheitna landinu urðu Ísraelsmenn oft þrælar sinna miskunnarlausu óvina. (Dómarabókin 2:17-23) Ólíkt Móse, sem ekki vildi njóta hinna veraldlegu þæginda valdastéttarinnar í Egyptalandi, kusu Ísraelsmenn að „njóta skammvinns unaðar af syndinni“ og héldu ekki áfram að ganga ‚eins og þeir sæju hinn ósýnilega.‘ Þá skorti trú. Og mundu að „án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði].“ — Hebreabréfið 3:16-19; 11:6, 24-27.
8. Hvers vegna ættu þjónar Jehóva nú á tímum að láta það sem henti Forn-Ísraelsmenn vera sér til varnaðar?
8 Þjónar Jehóva nú á tímum geta látið þessa atburði fortíðarinnar vera sér til varnaðar. Við eigum líka á hættu að verða veikir í trúnni eða jafnvel að glata trú okkar. Er það ekki staðreynd að við getum orðið fyrir of miklum áhrifum af ytra útliti hlutanna og farið aftur að ‚ganga eftir því sem við sjáum‘? Jú, og þess vegna hefur Jehóva í gæsku sinni gefið þeim leiðbeiningar sem vilja þjóna honum í trú. Hann notaði Ísraelsmenn og samskipti sín við þá sem áþreifanlegt dæmi síðari kynslóðum, þeirra á meðal okkar eigin. (1. Korintubréf 10:11) Við eflum því varnir okkar með nákvæmri þekkingu, sterkri von og þolgæði.
9. Hvaða augum gætum við litið ákveðnar athafnir og guðgræðislegar ráðstafanir ef við ‚framgengjum eftir því sem við sjáum‘?
9 Án þessarar öruggu leiðsagnar frá okkar ástríka skapar ættum við á hættu að rísa gegn hinum meiri Móse, Jesú Kristi, og gleyma að Guð og Kristur stjórna og leiðbeina sannkristnum mönnum nú á dögum. (Samanber 1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:24.) Við gætum farið að líta þannig á skipulag votta Jehóva að það væri aðeins af mannlegum toga spunnið, og fundist við vera frjáls til a gera hvað sem virðist rétt í okkar eigin augum. (Samanber Dómarabókina 21:25) Auk þess gætum við farið út í sömu villu og sumir sem virðast halda að svo lengi sem einhver breytni truflar ekki samvisku þeirra sé hún í lagi. Aðrir gætu farið að hugsa með sér að guðræðisskipulagið eigi að vera þeim til þægðar og þæginda og að gera ætti allar kröfur þess léttar og auðveldar, þannig að þær krefðust engrar fórnfýsi af þeim. Önnur hætta gæti verið sú hugmynd að skipulagið ætti að samræmast okkar vilja í stað vilja Guðs. Samt sem áður gerði fyrirmynd okkar, Jesús Kristur, alltaf vilja síns himneska föður með fögnuði. — Sálmur 40:9; Hebraebréfið 10:5-10.
10. Hvernig gæti það haft áhrif á viðhorf okkar til boðunarstarfsins og annarrar guðræðislegar starfsemi ef við létum okkur yfirsjást handleiðslu Guðs eða gerðum lítið úr henni?
10 Ef menn láta sér yfirsjást handleiðslu Guðs eða gera lítið úr henni gætu sumir látið sér finnast að það ætti að stytta samkomur okkar, mótsstaðirnir ættu ekki að vera svona langt í burtu og námsefnið ætti alltaf að vera einfalt, aldrei ‚föst fæða.‘ (Hebreabréfið 5:12) Í löndum þar sem kristnir menn njóta friðar og rósemi getur sumum hætt til að líta á blessun Guðsríkis sem sjálfsagðan hlut og láti sér finnast að þeir ættu ekkert að reyna á sig í hinni heilögu þjónustu. Ef við létum slík viðhorf þróast með okkur gætum við farið að ‚elska munaðarlífið meira en Guð‘ og hugsanlega farið að nota næstum hverja einustu helgi til afþreyingar í stað þess að nota slíkan tíma til þjónustu á akrinum og annarrar guðræðislegrar starfsemi sem ber vott um djúpa hollustu við Jehóva. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 4) Ef það gerðist, gætum við þá í hreinskilni sagt að við ‚framgengjum eftir því sem við trúum, ekki því sem við sjáum‘?
11. Hvaða áhrif gæti það haft ef við værum of góð við sjálfa okkur? Hvað þurfum við að gera?
11 Einnig er hætta á að verða of eftirlát við sjálfa okkur. Það er auðvelt að telja sér trú um að örlítill höfuðverkur eða eitthvað áþekkt sé langtum verra en það í rauninni er. Okkar ófullkomna hold getur komið okkur til að nota slíkt sem afsökun fyrir því að gegna ekki skyldum okkar, svo sem að flytja ræðu í Guðveldisskólanum. En er hugsanlegt að okkur myndi aldrei detta í huga að láta þennan sama lasleika koma í veg fyrir þátttöku í einhvers konar afþreyingu? Að sjálfsögðu ættum við að vera heilbrigð í hugsun og gera ekki lítið úr alvarlegum sjúkdómseinkennum. Samt sem áður þurfum við að leggja okkur kappsamlega fram. (Lúkas 13:24) Og trú ætti vissulega að gegna stóru hlutverki í ákvörðunum okkar svo að við göngum ekki einungis eftir „því sem við sjáum,“ samkvæmt því sem við sjálf teljum best og réttast. — Rómverjabréfið 12:1-3.
12. Hvers konar baráttu eigum við í og hvaða viðhorf þurfum við þess vegna að hafa?
12 Gleymum aldrei að við eigum í baráttu gegn illum andaverum. (Efesusbréfið 6:11-18) Erkióvinur okkar, Satan djöfullinn, getur beitt okkur gífurlegum þvingunum með því að munda vopn sín sem gerð eru til að eyðileggja trú okkar á Jehóva. Satan mun höfða til hverrar einustu eigingjörnu tilhneigingar manna og hann mun einskis láta ófreistað til að hafa áhrif á hugsun okkar. Ef við höfum samfélag við þá sem eftir eru af ‚afkomendum konu Guðs‘ hins himneska skipulags, eigum við í stríði. Við fáum ekkert hlé frá þeim bardaga fyrr en Jehóva, sem styrkir okkur til að standast árásir Satans, leggur allt kerfi djöfulsins í rúst. (Opinberunarbókin 12:16, 17; 1. Pétursbréf 5:6-11) Ættum við þá núna að vera hugrökk og láta okkur finnast brýnt að leysa verk okkar af hendi? Svo sannarlega! — Sálmur 31:25.
Hvað það merkir að ‚framganga í trú‘
13. Hvað merkir það að ‚framganga í trú‘?
13 ‚Að framganga í trú‘ merkir að halda áfram við erfið skilyrði í trú á Guð, á hæfni hans til að stýra skrefum okkar og fúsleika hans til að koma okkur á öruggan stað. (Sálmur 22:4-6; Hebreabréfið 11:6) Það merkir að láta ekki ytra útlit eitt saman eða mannleg rök leiðbeina okkur. Trú mun koma okkur til að ganga þá braut sem Jehóva bendir á, óháð því hversu erfið hún kann að vera. Ef við ‚framgöngum í trú‘ munum við vera eins og Davíð sem sagði um Guð: „Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.“ (Sálmur 16:11) Ef við leyfum Jehóva að stýra skrefum okkar mun hann enn fremur veita okkur hugarfrið og hjálpa okkur að vinna sigur, óháð því hversu litlar líkur virðast á að við getum það. (Jóhannes 16:33; Filippíbréfið 4:6, 7) Að ‚framganga eftir því sem við trúum‘ mun meðal annars láta okkur hafa reglulegt samfélag við andlega bræður okkar og systur til sameiginlegs biblíunáms og bænagerðar. — Hebreabréfið 10:24, 25.
14, 15. (a) Hvaða augum leit Jesús auðæfi, virðingu og þátttöku í stjórnmálum? (b) Hvernig leit Jesús á handleiðslu Guðs eins og fram kemur í Biblíunni?
14 Að ‚framganga í trú‘ gerir okkur í reynd einnig félaga hinna trúföstu þjóna Jehóva í fortíðinni. Sá fremsti þeirra var Jesús Kristur, ‚höfundur og fullkomnari trúar okkar.‘ Hvert er hlutskipti okkar þegar við ‚fetum í hans fótspor‘? — Hebreabréfið 12:1-3; 1. Pétursbréf 2:21.
15 Jesús forðaðist þátttöku í veraldlegum stjórnmálum og leitaði aldrei þeirra auðæfa og virðingar sem margir kepptu eftir. Þess í stað benti hann á að sitt ríki væri „ekki af þessum heimi“ og hann var enginn efnishyggjumaður því að hann ‚átti hvergi höfði sínu að að halla.‘ (Jóhannes 6:14, 15; 18:36; Lúkas 9:57, 58) Þótt hugur Jesú væri fullkominn fór hann aldrei sínar eigin leiðir heldur leitaði hann leiðsagnar hjá sínum himneska föður. — Jóhannes 8:28, 29.
16. Hvað má segja um viðhorf votta Jehóva með tilliti til fordæmi Jesú?
16 Hvað má segja um votta Jehóva nú á tímum með fordæmi Jesú í huga? Sem stuðningsmenn hins himneska ríkis Guð virðum við stjórnvöld, ‚yfirvöldin,‘ en gætum hlutleysis í stjórnmálum. (Rómverjabréfið 13:1-7; Matteus 6:9, 10; Jóhannes 17:16) Í stað þess að leita auðs og virðingar í þessum heimi ‚leitum við fyrst Guðsríkis‘ í trausti þess að Jehóva muni veita okkur nauðsynjar lífsins. (Matteus 6:24-34; Sálmur 37:25) Og eins og Jesús ‚reiðum við okkur ekki á eigið hyggjuvit‘ heldur þiggjum full þakklætis handleiðslu okkar ástríka Guðs. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Allt þetta hjálpar okkur sannarlega að ‚framganga eftir því sem við trúum.‘
Prófraunir og blessanir
17. Hvað verða þjónar Jehóva að þola þegar þeir ‚framganga í trú‘? Lýsið með dæmi.
17 Í mörgum löndum verða trúbræður okkar, vottar Jehóva, að þola óvenjuleg óþægindi og þrengingar, jafnvel grimmilegar ofsóknir fyrir það að ‚framganga í trú.‘ Að sjálfsögðu birtast prófraunir trúarinnar á marga vegu. Tökum sem dæmi erfiðleika og trúfasta þjónustu aldraðs bróður í Ecuador. Hann kynntist sannleikanum þegar hann var áttræður og lærði þá að lesa og skrifa. Hann lét skírast tveim árum síðar. Þar eð hann bjó í frumskóginum þurfti hann að leggja á sig þriggja klukkustunda göngu til að komast í Ríkissalinn. Kona hans, sem var trú hans andvíg, faldi fötin hans og peninga til að reyna að koma í veg fyrir að hann sækti kristnar samkomur. En þessi vandamál buguðu ekki þennan trúfasta bróður. Hann þjónaði sem aðstoðarbrautryðjandi hvern einasta mánuð í tíu ár og prédikaði í fjölmörgum þorpum, og sætti oft illri meðferð þorpsbúa. Þegar brautryðjendur og trúboðar báru síðar vitni á þeim slóðum leitaði hins vegar margt fólk til þeirra og bað um biblíunám. Ötult starf þessa kostgæfa bróður skilaði því góðum árangri. Hann dó úr krabbameini 92 ára að aldri en varði 40 stundum til þjónustunnar sama mánuðinn og hann dó.
18. (a) Hvað verðum við að gera til að njóta hylli Guðs? (b) Hvaða laun hljótum við ef við ‚framgöngum eftir því sem við trúum, ekki því sem við sjáum‘?
18 Við verðum líka að vera þolgóð þrátt fyrir vandamál og erfiðleika. (Matteus 24:13) Ef við eigum að njóta hylli Guðs er brýnt að við fylgjum heilræðum Guðs, reiðum okkur á hann og höldum okkur aðgreindum frá heiminum, viðhorfum hans og vegum. (Sálmur 37:5; 1. Korintubréf 2:12; Jakobsbréfið 1:27) Við skulum því kosta kapps að líkja eftir fyrirmynd okkar, Jesú Kristi. Verum fórnfús og viljug að leggja okkur fram í hinni dýrlegu þjónustu Jehóva. Þegar við gerum það getum við með trúartrausti horft fram til þess að hin dýrlegu fyrirheit okkar himneska föður við drottinholla dýrkendur sína rætist. Og hversu stórkostlega blessun mun það ekki veita í hinni fyrirheitnu nýju skipan hans! Það að ‚framganga eftir því sem við trúum, ekki eftir því sem við sjáum,‘ mun framar öllu öðru veita okkur þau laun að eiga hlut í að upphefja drottinvald Jehóva yfir alheimi.
Manst þú?
◻ Hvaða hættur eru því samfara að ‚framganga eftir því sem við sjáum‘?
◻ Hvaða aðvörun er Ísraelsþjóðin þjónum Jehóva nú á dögum?
◻ Hvað þurfum við að gera í stað þess að ofdekra sjálfa okkur?
◻ Hvers krefst það af okkur að ‚framganga í trú‘?
[Myndir á blaðsíðu 23]
Notar þú og fjölskylda þín oft tíma til afþreyingar þegar aðrir boðberar eru uppteknir af guðræðislegu starfi?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Jesús Kristur er okkur afbragðs fyrirmynd. ‚Framgengur þú í trú‘ eins og hans?