Framgöngum í trúatrausti á forystu Jehóva
„Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að [Jehóva] Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ — 5. Mósebók 31:6.
1. Hvernig sýndi Jehóva sig vera óviðjafnanlegan leiðtoga Ísraelsmanna?
JEHÓVA reyndist óviðjafnanlegur leiðtogi þegar hann leiddi Ísraelsmenn út úr þrælkuninni í Egyptalandi. Hann leiddi þá ekki aðeins í gegnum eyðimörkina heldur sá þeim auk þess fyrir mat og drykk og gaf þeim fullkomin fyrirmæli. Því gátu levítarnir á dögum Nehemía sagt: „Þá yfirgafst þú [Jehóva Guð] þá ekki á eyðimörkinni vegna þinnar miklu miskunnar. Skýstólpinn veik ekki frá þeim um daga, til þess að leiða þá á veginum, né eldstólpinn um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara. Og þú gafst þeim þinn góða anda til þess að fræða þá, þú hélst ekki manna þínu frá munni þeirra og gafst þeim vatn við þorsta þeirra. Fjörutíu ár ólst þú önn fyrir þeim á eyðimörkinni, svo að þá skorti ekkert. Föt þeirra slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki.“ — Nehemía 9:9-21.
2. Hvers vegna gat Móse hvatt Ísraelsmenn til að vera „hughraustir og öruggir“?
2 Með því að aga Ísraelsmenn af föðurlegri góðvild kenndi hinn guðlegi kennari þeim hvað það þýddi að vera réttlátur og réttvís. Allt sem hann gerði var þeim sjálfum fyrir bestu. Jafnvel þegar þeir mögluðu og gerðu uppreisn var hann langlyndur og yfirgaf þá ekki. Einkum þegar þeir stóðu frammi fyrir yfirþyrmandi óvinaher sýndi Jehóva snilli sína sem leiðtogi og olli ringulreið og manntjóni meðal árásarsveitanna. Móse fór með satt mál þegar hann hvatti Ísraelsmenn með þessum orðum: „Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að [Jehóva] Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (5. Mósebók 31:1, 6) Guð myndi ‚fara með þeim‘ ef þeir iðkuðu trú. Hvílík hvatning fyrir okkur til að framganga í trúartrausti á forystu Jehóva!
Aðvaranir úr fortíðinni
3. Hvernig sýndu Ísraelsmenn vanþakklæti og skort á trúartrausti til Jehóva skömmu eftir að þeir voru frelsaðir úr þrælkuninni í Egyptalandi?
3 Það sem henti Ísraelsmennina er okkur samt sem áður aðvörun. Þótt skammt væri liðið síðan þeir voru frelsaðir úr fjötrum í Egyptalandi syndguðu þeir margsinnis gegn sínum ósýnilega leiðtoga. Meðan Móse var á Sínaífjallinu til að taka við lögmálinu sýndu þeir vanþakklæti sitt fyrir allt sem Guð hafði gert fyrir þá. Þeir töldu Aron á að gera gullkálf og dýrkuðu hann á því sem Aron kallaði ‚hátíð Jehóva.‘ (2. Mósebók 32:1-6) Tíu af hinum 12 njósnamönnum, sem sendir voru til að kanna Kanaanland, skorti trú; einungis Jósúa og Kaleb hvöttu fólkið til að fara inn í landið og taka það. En Ísraelsmenn létu ekki trú á Guð ráða gerðum sínum og þess vegna úrskurðaði hann að allir karlmenn „frá tvítugs aldri og þaðan af eldri,“ að undanskilinni ættkvísl Leví og hinum trúföstu Kaleb og Jósúa, skyldu deyja innan 40 ára í eyðimörkinni. (4. Mósebók 13:1-14:38; 5. Mósebók 1:19-40) Vissulega ætti þetta að vera okkur viðvörun gegn sams konar vanþakklæti og vöntun á trúartrausti til forystu Jehóva!
4. Hvað í sögu Ísraels réttlætir ógæfuna sem kom yfir Júda, Jerúsalem og musterið árið 607 f.o.t.?
4 Þótt Ísraelsmenn reikuðu í eyðimörkinni í 40 ár yfirgaf Jehóva þá ekki. Hann hélt áfram að berjast fyrir þá. Eftir dauða Móse og Jósúa vakti Guð upp dómara til að frelsa þjóð sína undan óvinum sem kúguðu þá. En á þeim tíma gerðu Ísraelsmenn það sem hverjum manni sýndist best og löglaust ofbeldi, siðleysi og skurðgoðadýrkun breiddist út. (Dómarabókin 17:6-19:30) Síðar, þegar þeir vildu fá mennskan konung til að vera eins og þjóðirnar umhverfis, veitti Jehóva þeim það en varaði þá við afleiðingunum. (1. Samúelsbók 8:10-18) En jafnvel konungdómur í ætt Davíðs nægði fólkinu ekki og tíu ættkvíslir gerðu uppreisn á dögum Rehabeams. (1. Konungabók 11:26-12:19) Í vitund flestra fölnaði sú hugmynd meira og meira að láta Guð vera leiðtoga sinn. Eyðing Jerúsalem og musterisins, svo og fall Júdaríkisins fyrir Babýloníumönnum árið 607 f.o.t., var verðskuldaður dómur yfir þjóð sem ekki hafði framgengið í trúartrausti á forystu Jehóva. Hvílík aðvörun fyrir okkur!
Jehóva leiðir nýja þjóð
5. Hverju sá Jehóva fyrir með Jesú og hvað átti Jesús að gera?
5 Eins og Ísraelsmenn til forna hafa þjónar Jehóva síðar á tímum gengið í gegnum margbreytilegar kringumstæður en forysta hans hefur aldrei brugðist. Þegar Jesús frá Nasaret bauð sig fram til skírnar í vatni árið 29 leiddi Guð fram spámann og leiðtoga meiri en Móse. Sem Messías skyldi hann leiða fólk út úr þessum illa heimi sem var á valdi Satans. (Matteus 3:13-17; Daníel 9:25; 5. Mósebók 18:18, 19; Postulasagan 3:19-23; 1. Jóhannesarbréf 5:19) En hvaða fólk? Nú, þá Gyðinga og aðra sem myndu iðka trú á þann Messías sem hinn mikli himneski leiðtogi, Jehóva Guð, hafði leitt fram!
6. (a) Hvers vegna gátu fylgjendur Jesú prédikað og annast vaxandi skipulag? (b) Hvers vegna leit síðar út fyrir að ljós sannleikans frá Biblíunni hefði verið slökkt?
6 Jesús kenndi fylgjendum sínum hin dýrlegu sannindi Guðs og gaf þeim nauðsynleg fyrirmæli um þjónustuna. (Lúkas 10:1-16) Þegar því Kristur lauk þjónustu sinni og bauð sig fram sem fórn í þágu syndugs mannkyns lét hann eftir sig fylgjendur sem höfðu hlotið þjálfun til að halda áfram prédikunarstarfinu og stýra málefnum hins vaxandi skipulags þeirra sem trúðu á hann. Á postulatímanum voru grimmilegar ofsóknir en hönd Jehóva var með þjónum hans og á móti þrengingum þeirra kom mikil aukning í fjölda trúaðra. (Postulasagan 5:41, 42; 8:4-8; 11:19-21) Eftir að postular Jesú og nánustu samstarfsmenn þeirra dóu komust þeir sem játuðu sig fylgjendur Krists undir yfirráð grimmra og hrokafullra klerka og konunga. (Postulasagan 20:28-30) Þar eð það ástand hélst í um það bil fimmtán aldir leit út fyrir að sannleiksljós Biblíunnar hefði verið slökkt.
7. Hvenær og hvernig lét Jehóva aftur til sín taka og hvað opinberaði hann nútímaþjónum sínum?
7 En þá, eins og ‚rödd hrópaði í eyðimörkinni,‘ var gert kunnugt: ‚Guðsríki er í nánd!‘ (Samanber Jesaja 40:3-5; Lúkas 3:3-6; Matteus 10:7.) Á síðari hluta 19. aldar lét Jehóva aftur til sín taka og byrjaði að kalla sanna dýrkendur sína út úr þessum illa heimi og babýlonskum trúarstofnunum hans. (Opinberunarbókin 18:1-5) Með hjálp síns ritaða orðs og heilags anda opinberaði Guð nútímaþjónum sínum að árið 1914 markaði endalok óslitinnar stjórnar heiðinna þjóða, og einnig að hinn dýrlega gerði Jesús Kristur, konungurinn sem Guð hefur valið til að stjórna öllu mannkyninu, settist í hásæti á himnum. — Lúkas 21:24; sjá 1975 Yearbook of Jehovah’s Witnesses, bls. 34-37.
8. (a) Hvað var síðan skipulagt? (b) Hverjir hafa slegist í lið með smurðum fylgjendum Jesú og hvernig hefur forysta Guðs og Krists birst?
8 Síðan var skipulögð ný þjóð mynduð af leifum hins andlega Ísraels, og hún var upplýst enn frekar um fyrirætlanir Guðs og þjálfuð rækilega fyrir þjónustuna. Síðar slóst í lið með þessum smurðu fylgjendum Krists mikill múgur trúaðra manna með jarðneska von. Núna boða allir þessir vottar Jehóva sameiginlega og fagnandi nafn hans og ríki til endimarka jarðarinnar. (Jesaja 66:7, 8; Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 7:4, 9, 10) Í hinu skipulega starfi vottanna hefur forysta Jehóva og hins konunglega sonar hans verið augljós, einkum á þann hátt að milljónir hjartahreinna manna hafa gerst tryggir stuðningsmenn Guðsríkis. Ert þú hluti af þessum hamingjusama hópi sem gengur fram í trú á forystu Jehóva? — Míka 4:1, 2, 5.
9. Hvaða heimssamfélag er orðið til og hvaða viðhorf hefur það til forystu Guðs og guðræðisstjórnar?
9 Með tíð og tíma áttu fylgjendur Jesú að vera vottar hans „allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:6-8; Markús 13:10) Í samræmi við það boða vottar Jehóva nú fagnaðarerindið um Guðsríki út um allan hnöttinn og ‚þeir sem vilja eignast eilíft líf‘ taka við sannleikanum með glöðu hjarta. Þeir verða hluti af heimssamfélagi andlegra bræðra og systra sem hafa fúslega viðurkennt forystu Guðs og beygt sig undir guðræðislega stjórn. (Postulasagan 13:48, Lifandi orð; 1. Pétursbréf 2:17) Hefur þú, eins og þeir, óhagganlegt trúartraust til þess að Jehóva Guð og sonur hans, konungurinn Jesús Kristur, stjórni þessu skipulagi boðbera Guðsríkis.
Varastu að glata trúartraustinu
10. Hvaða aðvörun ætti að koma sérhverjum kristnum manni til að skoða sjálfan sig mjög vandlega?
10 Geta þeir sem njóta allrar þeirrar blessunar sem er samfara forystu Jehóva glatað trú sinni og trausti til hans? Já, því að við fáum þessa aðvörun: „Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði. Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir ‚í dag,‘ til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.“ (Hebreabréfið 3:12, 13) Sérhver kristinn maður ætti því að skoða sjálfan sig mjög vandlega.
11. (a) Á hvaða vegu getur samviska manns forherst? (b) Hvernig fór fyrir sumum á fyrstu öld okkar tímatals?
11 Samviska manns getur forherst svo að hann sjái ekkert rangt við breytni sem brýtur í bága við anda kristninnar og ber vott um skort á trú og trausti til Jehóva. Sumir gætu til dæmis fallið í þá gildru að leggja eftirsókn í efnisleg gæði eða holdlegan unað að jöfnu við þjónustu sína við Guð, eða þá að taka slíkt fram yfir hana. Aðrir gætu snúist til siðleysis eða talað með lítilsvirðingu um þá sem gegna ábyrgð í söfnuðinum. Á fyrstu öld okkar tímatals höfðu læðst „óguðlegir menn“ inn í söfnuðinn sem ‚saurguðu líkamann, mátu að engu drottinvald og lastmæltu tignum‘ sem öxluðu ábyrgðina innan safnaðarins. (Júdasarbréfið 4-8, 16) Þessir falskristnu menn höfðu glatað trú sinni á Jehóva og forystu hans. Megi það aldrei henda okkur!
12. (a) Hvað yfirsést þeim sem eru með anda sjálfstæðis og uppreisnar? (b) Hvað var ólíkt með Kóra og Davíð?
12 Slíkri ‚óvirðingu fyrir drottinvaldi‘ er oft tengdur andi sjálfstæðis og uppreisnar sem virðir að vettugi þá staðreynd að Jehóva stýrir skipulagi sínu. Þessi andi hafði óttalegar afleiðingar fyrir Kóra og aðra sem risu gegn þeim yfirráðum sem Guð hafði falið Móse og Aroni. (4. Mósebók 16:1-35) Davíð var sannarlega ólíkur þeim! Hann gerði sig ánægðan með að bíða þess að Guð leiðrétti það sem í ólagi var, og vildi ekki drepa sinn illa óvin, Sál konung, því að hann var ‚smurður konungur Jehóva.‘ (1. Samúelsbók 24:2-7) Já, Jehóva skipaði Móse, Aron, Sál, Davíð, Jesú Krist og fleiri til forystu. Eins er það í skipulagi Guðs núna að menn eru skipaðir til ábyrgðarstarfa undir handleiðslu heilags anda Jehóva, í samræmi við þær kröfur sem Ritningin gerir. — 1. Tímóteusarbréf 3:1-13; Títusarbréfið 1:5-9; Postulasagan 20:28.
13. (a) Hvers vegna ættum við að vera þakklát fyrir forystu Jehóva? (b) Líkt hverjum ættum við að ganga fram og með hvaða hugarfari?
13 Þar eð ‚það tilheyrir ekki gangandi manni að stýra skrefum sínum‘ ættum við að vera þakklát fyrir forystu Jehóva. (Jeremía 10:23) Abraham og hin trygga kona hans Sara hlýddu Guði og gengu fram í trú. Bóas og Rut fóru eftir ráðstöfunum Guðs. Og margir aðrir trúfastir menn og konur tóku með gleði á móti leiðsögn Jehóva. (Hebreabréfið 11:4-38; Rutarbók 3:1-4:17) Við ættum því, eins og þjónar Guðs fyrr á tímum, að forðast anda sjálfstæðis, vinna fúsir og glaðir með guðræðisskipulagi Jehóva og ganga fram í fullu trausti á forystu hans.
„Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva]“ í trúartrausti
14. Hvað getur hjálpað okkur að varast anda uppreisnar?
14 Hvað getur hjálpað okkur, drottinhollum vottum Jehóva, að varast uppreisnarhug? Í fyrsta lagi verðum við að viðurkenna að það er rangt að vera uppreisnargjarn og láta ofdirfskufullur leiðbeiningar Guðs sem vind um eyru þjóta. (Nehemía 9:16, 28-31; Orðskviðirnir 11:2) Við getum beðið til okkar himneska föður eins og Davíð: „Varðveittu og þinn þjón frá drambsemi, að hún ekki drottni yfir mér, þá verð ég falslaus og frí frá stórum yfirtroðslum.“ (Sálmur 19:14, Ísl. bi. 1859) Það mun einnig vera okkur hjálplegt að muna eftir hversu mikinn kærleika Jehóva hefur sýnt okkur. Það ætti að auka kærleika okkar til hans og hvetja okkur til að viðurkenna forystu hans á öllum tímum. — Jóhannes 3:16; Lúkas 10:27.
15. Hvað á bróðir að gera sem heldur að hann hafi ekki verið útnefndur safnaðarþjón eða umsjónarmaður vegna þess að öldungarnir hafi eitthvað á móti honum?
15 Við megum ekki missa sjónar á þeirri staðreynd að Guð stýrir skipulagi sínu, þótt það sé kannski ekki alltaf auðvelt að ganga fram í trúartrausti á forystu Jehóva. Tökum dæmi: Gerum ráð fyrir að bróðir haldi að öldungarnir hafi eitthvað á móti honum og því hafi hann ekki verið útnefndur safnaðarþjónn eða umsjónarmaður. Í stað þess að bregðast þannig við að hann trufli frið safnaðarins ætti hann að muna eftir að Jehóva stýrir guðræðisskipulagi sínu. Þess vegna getur bróðirinn spurt um ástæðuna í anda hógværðar og friðar. (Hebreabréfið 12:14) Þá mun það vera viturlegt af honum að viðurkenna sérhvern veikleika, sem honum kann að vera bent á, leitast við að bæta sig og leggja málið fyrir Jehóva í bæn! Síðan getur hann látið málið vera í höndum Jehóva í samræmi við orðin: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva].“ (Sálmur 55:23) Með tímanum og þegar við erum til þess hæf andlega mun Jehóva örugglega fá okkur næg verkefni í þjónustu sinni. — Samanber 1. Korintubréf 15:58.
16. Hvað ættum við ekki að gera jafnvel þótt einhver í söfnuðinum hafi komið illa fram við okkur? Hvers vegna?
16 Jafnvel þótt bróðir eða systir hafi komið illa fram við okkur, væri það tilefni til að hætta að koma saman með söfnuðinum? Værum við þá réttlætt í því að hætta að veita Jehóva heilaga þjónustu? Nei, því að slík stefna myndi bera vott um ótrúmennsku við Guð og vanþakklæti vegna forystu hans. Það myndi líka gefa til kynna að við elskuðum ekki okkar drottinhollu trúbræður um alla jörðina. (Matteus 22:36-40; 1. Jóhannesarbréf 4:7, 8) Ef við létum af ráðvendni okkar við Jehóva myndi það auk þess gefa Satan tilefni til að smána Guð — og við myndum ekki vilja verða þess valdandi! — Orðskviðirnir 27:11.
17. (a) Hvað ætti að hjálpa okkur að viðhalda trausti okkar til forystu Jehóva í skipulagi sínu? (b) Hver verður reynsla þeirra sem halda áfram að ganga fram í trausti og trú á forystu Jehóva?
17 Við skulum því ‚lofa Jehóva og gleyma eigi neinum velgjörðum hans sem krýnir okkur náð og miskunn.‘ (Sálmur 103:2-4) Ef við munum alltaf eftir okkar kærleiksríka Guði og breytum í samræmi við orð hans munum við varðveita sterka trú og traust á óbrigðula forystu hans. (Orðskviðirnir 22:19) Að snúa baki við Jehóva og skipulagi hans, að hafna með fyrirlitningu leiðbeiningum ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ og treysta einvörðungu á eigin lestur og túlkun Biblíunnar er líkt og að verða eins og einmana tré á skrælnuðu landi. Sá sem trúir og treystir okkar mikla leiðtoga, Jehóva, er á hinn bóginn eins og „tré, sem gróðursett er við vatn og teygir rætur sína út að læknum, — sem hræðist ekki, þótt hitinn komi og er með sígrænu laufi, sem jafnvel í þurrka-ári er áhyggjulaust og lætur ekki af að bera ávöxt“ til dýrðar Guði. (Matteus 24:45-47; Jeresmía 17:8) Sú blessun getur fallið þér í skaut ef þú heldur einbeittur áfram að ganga fram í trú og trausti á forystu Jehóva.
Getur þú svarað?
◻ Hvernig sýndi Jehóva sig vera óviðjafnanlegan leiðtoga Ísraelsmanna?
◻ Hvaða aðvörun er Forn-Ísrael okkur í sambandi við forystu Guðs?
◻ Leiðtogi hverra er Jehóva núna?
◻ Hvað getur hjálpað okkur að varast það að glata trausti okkar á forystu Jehóva?
◻ Hvaða viðhorf ættum við alltaf að hafa til forystu Jehóva, jafnvel þótt einhver í söfnuðinum komi illa fram við okkur?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Árið 607 f.o.t. kom ógæfan yfir þá sem gengu ekki fram í trú á forystu Jehóva. Það er viturlegt að láta það vera sér til varnaðar!
[Mynd á blaðsíðu 30]
Abraham, Sara, Davíð, Jesús og fleiri gengu fram í trú og trausti á forystu Jehóva. Gerir þú það einnig?