Algengur misskilningur í sambandi við Biblíuna
YFIR 8.000.000 sterlingspunda! Það er næstum ótrúlegt verð fyrir eina bók! En þegar uppboðshaldarinn sló hamrinum í borðið á uppboðinu í London í desember árið 1983, þá var kaupandanum, sem var fulltrúi þýska sambandslýðveldisins, slegin bókin fyrir það verð. Hvaða bók gat hugsanlega verið svona mikils virði? Það var hluti af Biblíunni, nánar tiltekið myndskreytt bók frá tólftu öld með guðspjöllunum.
Hver svo sem var ástæðan fyrir því að greiða þessa gríðarlegu fjárhæð fyrir þetta handrit er athyglisvert að slíkt verð skuli hafa verið greitt fyrir hluta af Biblíunni. Það endurspeglar þá skoðun margra að Biblían verði ekki metin til verðs. Aðrir horfa hins vegar til Biblíunnar með tortryggni, jafnvel fjandskap. Hvers vegna?
Algengur misskilningur
Margir, einkum í löndum þar sem mótmælendatrú er ríkjandi, fullyrða að Biblían sé eins og gömul fiðla sem hægt sé að leika á mörg mismunandi lög. Þeim finnst að hægt sé að nota Biblíuna til að sanna margar andstæðar kenningar. Þeir segja: ‚Það er hægt að túlka hana á svo marga vegu.‘ Er þetta rétt?
Að vísu er hægt að vitna í Biblíuna í þeim tilgangi að styðja ólíkar skoðanir. En séu orð tekin úr samhengi, má þá ekki láta líta út fyrir að verk hvers einasta höfundar sé í mótsögn við sjálft sig? En væri það heiðarlega að verki staðið? Vottar Jehóva halda því fram að heiðarlegur lestur í Biblíunni gefi ekki rúm fyrir ólíka túlkun undirstöðukenninga.
Biblían segir sjálf: „Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér.“ (2. Pétursbréf 1:20) Með öðrum orðum, aflið á bak við ritun hinnar spádómlegu Ritningar var ekki eitthvert eðlislægt afl í manninnum heldur heilagur andi Guðs eða starfskraftur. Guð er fyrstur allra til að bera fram spádóma og hann innblés alla sanna biblíuspádóma með sínum ósýnilega starfskrafti.
Annar algengur misskilningur er sá að Guð hinna innblásnu kristnu Grísku ritninga sé góður og elskuríkur, en Guð hinna innblásnu Hebresku ritninga sé grimmur og hefnigjarn. Franski ritgerðasmiðurinn Stendhal skrifaði að Guð væri „harðstjóri, og sem slíkur fullur af hefndarhugmyndum. Biblía hans talar aðeins um hræðilega refsingu.“ Þessi skoðun er ekkert undarleg ef haft er í huga að hún kemur frá manni sem er þekktur sem trúlaus frjálshyggjumaður. Því miður eru margir, sem kalla sig kristna, sömu skoðunar, þeirra á meðal sumir klerkar.
Staðreyndin er sú að í báðum þeim hlutum Ritningarinnar, sem upphaflega voru skrifaðir annar á hebresku og hinn á grísku, er sagt afdráttarlaust að aðeins sé til „einn Guð.“ (1. Korintubréf 8:6; 5. Mósebók 6:4) Báðir hlutar Ritningarinnar lýsa Guði sem miskunnsömum, réttlátum, elskuríkum og ákveðnum. (2. Mósebók 34:6, 7; Sálmur 103:6-8; 1. Jóhannesarbréf 4:8; Hebreabréfið 12:28, 29) Einhverjar fegurstu og ástúðlegustu greinar Ritningarinnar er að finna í hinum hebresku hluta Biblíunnar, svo sem Sálmunum. „Nýjatestamentið“ hefur aftur á móti geyma harðorðar lýsingar á þungum dómi sem óguðlegir skuli hljóta. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9; Opinberunarbókin 18. og 19. kafli) Allt frá upphafi til enda bendir Biblían á unaðslega von til handa réttlátum. (1. Mósebók 22:17, 18; Sálmur 37:10, 11, 29; Opinberunarbókin 21:3, 4) Biblían er því í samræmi við sjálfa sig frá upphafi til enda.
„Bók mótmælenda“?
Það er útbreiddur misskilningur meðal hinna hundruð milljóna kaþólskra manna í heiminum að Biblían sé „bók mótmælenda.“ Ekki er við einlæga kaþólska menn að sakast fyrir þessa skoðun. Um aldaraðir bannaði rómversk-kaþólska kirkjan að Biblían væri lesin á nokkru öðru tungumáli en latínu. Þar með var Ritningin utan seilingar flestra kaþólskra leikmanna. Að vísu hafa kaþólskir menn haft rétt til að lesa Biblíuna á öðrum tungumálum, sem hljóta samþykki Rómar, frá árinu 1897, og þó sér í lagi frá öðru Vatíkanþinginu (1962-1965), en fornir siðir eru lífseigir. Í löndum þar sem kaþólskir menn eru í meirihluta er biblíulestur því enn settur í samband við mótmælendatrú.
Margt kaþólskra manna, sem á síðari árum hafa eignast biblíu, geta samt sem áður ekki opnað hana án þess að hafa nokkurn beyg af því. Hvers vegna? Vegna þess að kirkjan þeirra kennir enn þá að biblíulestur geti verið hættulegur. Hvers vegna? Vegna þess að rómversk-kaþólska kirkjan segir að Biblían hafi ekki að geyma fullnaðaropinberun hins kristna sannleika og að bæta þurfi við hana „erfikenningum.“ Í bók sinni La Parole de Dieu (Orð Guðs) segir Georges Auzou sem er kaþólskur prófessor í Heilagri ritningu: „Erfikenning stendur ofar, umlýkur, fylgir og gengur lengra en Ritningin. . . . [Það] hjálpar okkur að skilja hvers vegna kirkjan hefur aldrei gert biblíulestur eða biblíunám að strangri skyldukvöð eða algerri nauðsyn.
Hvers vegna að lesa Biblíuna?
Þrátt fyrir það eru margir einlægir kaþólskir menn víða um heim að verða sér úti um biblíu og leita hjálpar til að skilja hana. Svo er einnig um marga vonsvikna mótmælendur og jafnvel suma sem höfðu bundið vonir sínar við kommúnisma, sósíalisma eða vísindi.
Í umræðu um ástæðurnar fyrir þessum nýkviknaða áhuga fyrir andlegum málum sagði Alain Woodrow, sem skrifar um trúmál, í Parísarblaðinu Le Monde: „Þetta eru í fyrsta lagi eðlileg viðbrögð við vonbrigðum sem stafa af því að hin miklu hugmynda-, hugmyndafræði-, stjórnmála- og vísindakerfi hafa brugðist.“ Sem frekari ástæður nefndi hann „vonbrigði með kirkjustofnanirnar vegna þess að þær hafa látið undan stjórnmála- og fjármálaöflun þessa heims“ og að síðustu nefndi hann „óttan við heimsslit.“
Vera kann að þú sért einn þeirra sem er farinn að lesa Biblíuna. Ef svo er þarft þú að vita hvernig þú getur haft árangur af biblíulestri þínum.