„Látið þá ekki taka af yður hnossið“
„Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmykt sinni og . . . hrokast upp af engu í hyggju holds síns.“ — Kólossubréfið 2:18.
1, 2. Hvernig hafa margir unnið gegn eilífum hagsmunum annarra manna? Getur þú nefnt fleiri dæmi um þetta úr Biblíunni?
FYRSTI mennski syndarinn, Eva, lét slóttuga, ofurmannlega andaveru leiða sig í dauðann. Annar syndarinn, Adam, var tældur af eiginkonu sinni — lítilmótlegri mannveru. — 1. Tímóteusarbréf 2:14; 1. Mósebók 3:17.
2 Eva var sú fyrsta í langri halarófu einstaklinga sem gátu unnið gegn eilífri velferð annarra manna ef þeir hlýddu því sem þeir voru hvattir til. Hlustaðu á slík hvatningarorð enduróma út í gegnum Biblíuna! Kona Pótífars sagði við Jósef: „Leggstu með mér!“ (1. Mósebók 39:7) Eiginkona Jobs sagði: „Formæltu Guði og farðu að deyja!“ (Jobsbók 2:9) Ísraelsmenn sögðu við Aron: „Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari.“ (2. Mósebók 32:1) Pétur sagði við Jesú Krist: „Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma!“ — Matteus 16:22.
3. Hvaða aðvörun gaf Páll í Kólossubréfinu 2:18 og hvaða spurningar vekur hún?
3 Allt of oft hafa slíkar hvatningar orðið einhverjum þjóna Jehóva að falli. Þótt kristnir menn ‚eigi í baráttu við andaverur vonskunnar‘ eru það oft aðrir menn sem okkur stafar beinust hætta af. (Efesusbréfið 6:12) Páll postuli aðvaraði því: „Látið þá [aðra menn] ekki taka af yður hnossið.“ (Kólossubréfið 2:18) Hvað er þetta hnoss? Hvers vegna hafa sumir misst það með því að láta undan áhrifum ófullkominna manna? Til svars við því skulum við skoða nánar þær kringumstæður í Kólossu sem urðu kveikjan að þessari aðvörun Páls.
4, 5. (a) Hvernig var hið trúarlega andrúmsloft í Kólossu? (b) Hvað var gnostisismi og hvaða hættuleg áhrif gat hann haft?
4 Kólossa var trúarlegur bræðslupottur. Hinir innfæddu Frýgíumenn voru tilfinninganæmt fólk djúpt sokkið í spíritisma og hjátrú tengda skurðgoðadýrkun. Auk þess bjó þar fjöldi Gyðinga sem enn voru fjötraðir gyðingdóminum. Stöðugur ferðamannastraumur var um Kólossu þar eð hún lá nálægt fjölfarinni verslunarleið. Líklegt er að þessir ferðamenn hafi gjarnan viljað eyða tíma sínum í að segja frá eða hlusta á eitthvað nýtt. (Samanber Postulasöguna 17:21.) Þetta leiddi til þess að nýjar heimspekihugmyndir breiddust út og meðal þeirra þróaðist gnostisisminn hægt og sígandi. Fræðimaðurinn R. E. O. White segir: „Gnostisisminn var hugmyndastefna sem var jafnútbreidd og þróunarkenningin er núna. Hún var sennilega orðin áberandi á fyrstu öld eða fyrr og náði hástigi sínu á annarri öld. Gnostisisminn sameinaði heimspekilegar vangaveltur, hjátrú, hálfdulræna helgisiði og stundum ofstækiskennda og jafnvel klámfengna trúardýrkun.“
5 Í slíku umhverfi virðast trúarbrögð í Kólossu hafa verið eins konar óslitin tilraunastarfsemi — hrærigrautur gyðingdóms, grískrar heimpeki og heiðinnar dulspeki. Yrði kristninni líka kastað í sama bræðslupottinn?
‚Rændir sigurlaununum‘ — hvernig?
6. (a) Hvernig hljóta orð Páls að hafa unnið gegn áhrifum gyðingdómsins og heiðinnar heimspeki? (b) Hvers vegna þurftu kristnir menn að ‚gæta að sér‘?
6 Hið kjarnmikla bréf Páls til Kólossumanna hlýtur að hafa unnið gegn áhrifum nokkurs manns sem kynni að hafa viljað bræða kristnina saman við gyðingdóm og heiðna heimspeki. Aftur og aftur vakti hann athygli á Kristi. Hann skrifaði: „En í honum [Kristi, ekki talsmanni gyðingdóms eða heiðnum heimspekingi] eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“ Kólossumenn voru hvattir til að ‚lifa í honum [Kristi], rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni.‘ Að öðrum kosti kynnu þeir að leiðast á villigötur. Páll aðvaraði því: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum [eptir stafrófi heimsins, Ísl. bi. 1859], en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:3, 6-8.
7. (a) Hvers vegna kunna kenningar gyðingdómsins og heiðinnar heimspeki að hafa höfðað til sumra kristinna manna? (b) Hvers vegna voru slíkar kenningar í rauninni ‚hégómavilla‘?
7 Kannski söknuðu sumir hinna nýju fylgjenda Jesú Krists hinnar óttablöndnu lotningar dulspekinnar eða örvunar heimspekinnar. Sumir kristnir Gyðingar höfðu kannski enn nokkurt dálæti á hinum úreltu hefðum gyðingdómsins. Kenningar heiðinna heimspekinga og talsmanna gyðingdómsins höfðuðu því kannski dálítið til slíkra manna. En hversu sannfærandi eða málsnjállir sem þessir fölsku kennarar voru buðu þeir ekki upp á neitt annað en „hégómavillu.“ Í stað þess að útlista hið hreina orð Guðs voru þeir einungis að þylja upp ‚stafróf heimsins‘ — einskisnýta heimspeki, lífsreglur og trúarskoðanir. Það hefði í för með sér hörmuleg endalok fyrir kristinn mann að snúast á sveif með þessum villuhugmyndum. Þess vegna sagði Páll: „Látið þá ekki taka af yður hnossið.“ — Kólossibréfið 2:18.
8. (a) Hvert var „hnossið“ og á hvaða ritningargreinum byggir þú svar þitt? (b) Hvernig var hægt að taka „hnossið“ frá smurðum kristnum mönnum?
8 „Hnossið“ eða „sigurlaunin“ (NW) var ódauðlegt líf á himnum. Þeim var líkt við þau verðlaun sem voru gefin sigursælum hlaupagarpi eftir erfiða keppni. (1. Korintubréf 9:24-27; Filippíbréfið 3:14; 2. Tímóteusarbréf 4:7, 8; Opinberunarbókin 2:7) Endanlega getur aðeins Jehóva Guð fyrir milligöngu Jesú Krists gert mann óhæfan til þátttöku í kapphlauppinu um lífið. (Jóhannes 5:22, 23) En ef kristinn maður gerðist nemandi falskennara gæti afleiðingin orðið sú að sigurlaunin yrðu tekin frá honum. Hinn villuráfandi gæti orðið svo fjarlægur sannleikanum að hann gæti ekki lokið hlaupinu!
Persónuleiki falskra kennara
9. Nefnið fjögur einkenni falskra kennara í Kólossu?
9 Var þá einhver leið til að þekkja þann mann sem ætlaði sér að ‚taka hnossið af kristnum manni‘? Já, því að Páll gaf gagnorða mannlýsingu á hinum fölsku kennurum í Kólossu. Slíkir menn (1) „þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun,“ (2) „státa af sýnum sínum,“ (3) „hrokast upp af engu í hyggju holds síns“ en (4) „halda sér ekki við hann, sem er höfuðið,“ Jesú Krist. — Kólossubréfið 2:18, 19.
10. Hvernig kom það fram að falskennararnir höfðu yndi af því að ‚þykjast auðmjúkir‘?
10 Hvílíkir klækir! Hinir fölsku kennarar virtu að vettugi fordæmingu Jesú á föstuhaldi til að sýnast fyrir öðrum og gerðu sér upp yfirvarp auðmýktar. (Matteus 6:16) Falskennarinn hafði yndi af því að sýnast fyrir öðrum með föstuhaldi og annarri trúarlegri sjálfsafneitun. (Kólossubréfið 2:20-23) Angurvær svipur hans var þaulhugsaður í því skyni að láta í ljós falska guðrækni. Svo sannarlega var falskennarinn að ‚iðka réttlæti sitt fyrir mönnunum, þeim til sýnis.‘ (Matteus 6:1) En allt voru þetta látalæti, uppgerðarauðmýkt. The Expositor’s Bible orðar það svona: „Maður, sem veit að hann er auðmjúkur, og er sjálfumglaður út af því, gengur um niðurlútur og gýtur út undan sér augunum í hvern þann spegil sem hann getur séð sig í, er alls ekki auðmjúkur.“ — Leturbreyting okkar.
11. (a) Hvað var engladýrkun? (b) Hvað bendir til að engladýrkun hafi verið stunduð lengi í Kólossu?
11 Þessi uppgerðarauðmýkt gerði samt sem áður trúverðuglega iðkun sem annars var fáránleg — „engladýrkun.“ Páll skýrir ekki nákvæmlega í hverju þessi dýrkun var fólgin, en allt bendir til að hún hafi verið viss tegund hjáguðadýrkunar sem var útbreidd á Kólossusvæðinu um aldaraðir. Á fjórðu öld taldi kirkjuþing, haldið í grannborginni Laódíkeu, nauðsynlegt að lýsa yfir: „Kristnir menn ættu ekki að yfirgefa kirkju Guðs og . . . ákalla nöfn engla. . . . Ef því einhver er staðinn að því að iðka þessa skurðgoðadýrkun í laumi skal hann bölvaður.“ Guðfræðingurinn og vísindamaðurinn Þeódóret, sem var uppi á fimmtu öld, lætur í ljós að „þessi löstur,“ engladýrkunin, hafi enn verið tíðkuð þegar hann var uppi. Enn þann dag í dag hvetur kaþólska kirkjan „hina trúuðu til að elska, virða og ákalla englana“ og „halda messur og guðsþjónustur til heiðurs verndarenglum.“ — New Catholic Encyclopedia, 1. bindi, bls. 515.
12. Hvernig kunna falskennararnir að hafa ályktað að engladýrkun væri viðeigandi?
12 Falskennararnir hafa kannski borið fram svipuð rök og hinir kaþólsku guðfræðingar: ‚Hvílík sérréttindi eru það ekki sem englarnir njóta! Var ekki Móselögmálið gefið fyrir þeirra milligöngu? Halda þeir sig ekki nálægt Guði á himnum? Auðvitað ættum við að veita þessum voldugu verum tilhlýðilega virðingu! Bæri það ekki vott um sanna auðmýkt af okkur? Þegar allt kemur til alls er Guð svo hár og við mennirnir svo smáir! Englarnir geta því verið milliliðir milli okkar og Guðs.‘
13. (a) Er engladýrkun viðeigandi? (b) Í hvaða skilningi ‚státaði falskennarinn af sýnum sínum‘?
13 Engladýrkun í einhverri mynd er samt sem áður röng. (1. Tímóteusarbréf 2:5; Opinberunarbókin 19:10; 22:8, 9) Falskennararnir reyndu vafalaust að víkja þeirri mótbáru til hliðar með því að „státa af syni sínum.“ Samkvæmt uppsláttarritinu The Vocabulary of the Greek Testament er notað hér orðfæri úr „dultrúarbrögðunum sem táknar hápunkt vígslunnar þegar hinn nývígði ‚stígur fæti‘ inn í hina nýju tilveru sem hann nú deilir með guðinum.“ Með því að nota þetta heiðna orðfæri gerði Páll gys að því hvernig falskennarinn stærði sig af því að búa yfir sérstöku innsæi — fullyrti kannski jafnvel að hann sæi yfirnáttúrlegar sýnir.
14. Hverngi ‚hrokuðust falskennarar upp í hyggju holds síns‘?
14 Þótt falskennarinn fullyrti að hann væri andlega sinnaður var hann í reyndinni uppblásinn án tilefnis vegna síns holdlega hugarfars. Hið synduga hold litaði viðhorf hans og hvatir. Hann ‚hrokaðist upp‘ og hugur hans var upptekinn af „vondum verkum.“ (Kólossubréfið 1:21) Hið versta var að hann hélt sér ekki fast við höfuðið, Krist, því að hann lét vangaveltur veraldlegra manna vera þyngri á metunum en kenningar Jesú.
Er enn hætta á ferðum?
15. (a) Hvaða viðhorfa verður vart meðal sumra kristinna manna núna? (b) Hvaðan koma slík viðhorf og hvernig samrýmast þau heilræðum Biblíunnar?
15 Sigurlaunin — eilíft líf á himnum eða í paradís á jörð — blasa enn þá við þjónum Jehóva. Gnostíkar og talsmenn gyðingdómsins eru löngu horfnir en samt eru til menn sem reynt gætu að hindra kristinn mann í að hreppa sigurlaunin. Ekki er víst að þeir geri það af ásettu ráði, en sökum þess að þeir hafa látið „heimspeki og hégómavillu“ þessa heims hafa of mikil áhrif á sig geta þeir átt til að segja svona:
‚Ég reyni að vera heiðarlegur en það er erfitt þegar menn stunda viðskipti eða rekstur. Í þessum heimi verður hver að bjarga sér sem best hann getur og stundum er hreinlega óhjákvæmilegt að fara einhvern milliveg.‘ (Berið þetta sjónarmið saman við Orðskviðina 11:1 og Hebreabréfið 13:18.)
‚Áttu við að þú sért enn bara húsmóðir? Tímarnir eru breyttir núna! Af hverju ferðu ekki út að vinna og lætur eitthvað verða úr lífi þínu!‘ (Samanber Orðskviðina 31:10-31.)
‚Ég veit að vinna mín rekst talsvert á við samkomur og þjónustu á akrinum, en það þarf nú talsvert fé til að lifa eins og við gerum. Og hvað er rangt við að eiga ýmislegt skemmtilegt og fallegt?‘ (Berið þessa röksemdafærslu saman við Lúkas 21:34, 35 og 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.)
‚Mér leiðist svo að heyra öldungana tala í sífellu um boðunarstarfið! Ég vinn úti alla vikuna og á skilið að slaka á um helgar.‘ (Sjá Lúkas 13:24 og Markús 12:30)
‚Brautryðjandastarfið er ekki fyrir hvern sem er. Auk þess er efnahagsástandið þannig að háskólamenntun er nauðsynleg til að spjara sig.‘ (Berið saman við Matteus 6:33; 1. Korintubréf 1:19, 20 og 1. Tímóteusarbréf 6:9-11.)
Efnishyggja og holdlegt hugarfar er kjarninn í „stafrófi heimsins“ — lífs- og trúarskoðunum veraldlega menna! Ef við látum það hafa áhrif á okkur getur það valdið okkur óbætanlegu andlegu tjóni.
16. Hvernig gætu sumir gert sig að hræsnisfullum dómurum?
16 Önnur hætta stafar af sjálfskipuðum dómurum og kennurum. Eins og slíkir menn í Kólossu eiga þeir til að gera stór mál úr persónulegum atriðum. Þeir einkennast oft af ‚uppgerðarauðmýkt.‘ (Kólossubréfið 2:16-18) Það viðhorf þeirra að þeir séu betri en aðrir ber vott um rangar hvatir — löngun til að upphefja sig yfir aðra. Þeir eru oft ‚of réttlátir,‘ fljótir til að ganga lengra en hinn ‚trúi þjónn‘ hefur sagt eða birt. Þeir kveikja því stundum deilur út af atriðum svo sem afþreyingu, heilsuvernd, klæðaburði og klippingu eða notkun áfengra drykkja. (Prédikarinn 7:16; Matteus 24:45-47) Athyglinni er þannig beint frá andlgum málum að holdlegum löngunum. — Samanber 1. Tímóteusarbréf 6:3-5.
17, 18. (a) Hvernig hafa sumir ‚státað af‘ persónulegum skoðunum og hvers vegna er það hættulegt? (b) Hvað verður rætt í greininni sem fylgir?
17 Sumir ganga jafnvel svo langt á okkar tímum að „státa af“ sínum eigin skoðunum á Ritningunni, eða þá fullyrða að þeir búi yfir sérstöku innsæi. Kona ein, sem hafði verið skírð í aðeins eitt ár, fullyrti að hún tilheyrði hinum smurðu og hélt að það gæfi skoðunum hennar meira vægi. Þannig lét hún í ljós sterka löngun til að „kenna og hvetja aðra“ í gegnum einhverja opinbera stöðu í söfnuðinum. (Sjá til samanburðar 1. Tímóteusarbréf 2:12.) Þar eð Jehóva hatar „drambsemi og ofdramb“ ættu kristnir menn að vera hógværir þegar þeirra eigin skoðanir eiga í hlut. (Orðskviðirnir 8:13) Þeir forðast þá snöru að „hrokast upp af engu í hyggju hold síns.“ (Kólossubréfið 2:18) Hver sem reynir að koma á framfæri sínum eigin hugmyndum og varpa skugga á heilræði hins ‚trúa þjóns,‘ sem Kristur hefur skipað, heldur sér ekki fast við höfuð safnaðarins. Drottinhollir vottar Jehóva ættu því sannarlega að varast óguðleg áhrif sem gætu rænt þá sigurlaununum, lífinu.
18 Satan beitir enn mönnum til að koma í veg fyrir að aðrir menn öðlist lífið. Á hvaða aðra vegu birtast þessi vélabrögð djöfulsins? Hvað getur vottur Jehóva gert til að láta ekki taka af sér sigurlaunin? Það er efni næstu greinar.
Manst þú?
◻ Hvaða trúarleg áhrif ógnuðu kristnum mönnum í Kólossu til forna?
◻ Hver voru helstu einkenni þeirra sem vildu taka „hnossið“ af kristnum mönnum?
◻ Hvernig getur það sýnt sig núna ef kristinn maður hefur leyft „stafrófi heimsins“ að hafa áhrif á sig?
◻ Hvernig geta falskir kennarar beint kristnum manni á ranga braut?
[Mynd á blaðsíðu 10]
„Engladýrkun“ ógnaði kristna söfnuðinum í Kólossu. Sams konar skurðgoðadýrkun er stunduð meðal margra sem játa sig kristna núna.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Varaðu þig á þeim sem reyna að hafa áhrif á þig með hugsanagangi heimsins!