‚Hlaupið þannig að þið hljótið sigurlaunin‘
„Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.“ — 1. Korintubréf 9:24.
1, 2. (a) Hvað yrði mjög sorglegt fyrir kristinn mann? (b) Hvaða ráð gaf Páll í 1. Korintubréfi 9:24 og hvernig átti það við kristna menn í Korintu?
ÞETTA hefði átt að vera hátindur tólf ára strangrar þjálfunar. En kapphlaupið var aðeins hálfnað þegar íþróttakonan unga féll til jarðar — og þar með voru brostnir draumar hennar um gullverðlaun á Ólympíuleikunum. Fjölmiðlarnir kölluðu þetta „harmleik.“
2 Það væri þó miklu meiri harmleikur ef vottur Jehóva lyki ekki kapphlaupinu um lífið, einkum ef haft er í huga hversu nálæg hin nýja skipan er! (2. Pétursbréf 3:13) Orð Páls eiga því vel við: „Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau.“ (1. Korintubréf 9:24) Sumir Korintumenn til forna áttu á hættu að tapa vegna þess að þeir gerðu í eigingirni það sem þeim sjálfum þóknaðist, jafnvel þótt það kostaði að ‚særa samvisku‘ annarra. (1. Korintubréf 8:1-4, 10-12) Eins og orð Páls bera með sér þyrfti þó að færa fórnir til að sigra í kapphlaupinu: „Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. . . . Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.“ — 1. Korintubréf 9:25-27.
3. (a) Hvernig var ástatt í Kólossu sem hefði getað komið í veg fyrir að kristnir menn lykju kapphlaupinu? (b) Var ráðlegt af kristnum mönnum í Kólossu að kynna sér heimspeki og dulspeki?
3 Þegar Páll síðar skrifaði Kólossumönnum varaði hann þá við annarri hættu — mönnum sem gátu ‚tekið af þeim hnossið,‘ lífið. (Kólossubréfið 2:18) Hvernig átti þá kristinn maður að ‚hlaupa til að hljóta launin‘? Mælti postulinn með því að hann næmi heimspeki og dulspeki til að geta sigrað í rökræðum við falskennara? Nei, því að kristnir menn höfðu ‚dáið gagnvart stafrófi heimsins‘ og átti ekki að langa til að koma nálægt heimspeki hans og erfikenningum. — Kólossubréfið 2:20, Ísl. bi. 1859.
4. Hvernig gat nákvæm þekking hjálpað kristnum mönnum í Kólossu?
4 Páll hvatti því trúbræður sína til að einbeita kröftum sínum að því að „fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans.“ Já, nákvæm þekking — ekki innantóm heilabrot — gátu hjálpað þeim að ‚hegða sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar.‘ (Kólossubréfið 1:9, 10; sjá einnig Kólossubréfið 3:10) Að vísu gátu flestir kristnir menn í Kólossu sennilega þulið upp undirstöðukenningar Ritningarinnar, en með námi og hugleiðingu þurftu þeir að tileinka sér dýpri sannindi og verða „grundvallaðir og fastir fyrir“ í trúnni á Krist. (Kólossubréfið 1:23; 1. Korintubréf 3:11) Eftir að þeir hefðu náð slíkri dýpt í þekkingunni gæti ‚enginn tælt þá með áróðurstali.‘ (Kólossubréfið 2:4) Ef þeir beittu orði Guðs af leikni gætu þeir auðveldlega hrakið fullyrðingar engladýrkenda eða talsmanna gyðingdómsins. — 5. Mósebók 6:13; Jeremía 31:31-34.
5. (a) Nefnið dæmi um hin djúpu sannindi sem þroskaður kristinn maður ætti að þekkja og skilja. (b) Hvernig sýnir reynsla systur einnar hversu hættulegt er að afla sér ekki nákvæmrar þekkingar?
5 Hvernig er ástatt með þig? Hefur þú sleppt „byrjunar-kenningunum“ og farið að rýna í „djúp Guðs“? (Hebreabréfið 6:1; 1. Korintubréf 2:10) Getur þú til dæmis útskýrt hvað dýrin í Opinberunarbókinni tákna eða hvað hið andlega musteri er? (Opinberunarbókin 13. kafli; Hebreabréfið 9:11) Getur þú gert grein fyrir biblíulegum grunni nútímaskipulags votta Jehóva? Ert þú vel að þér í kennisetningum Biblíunnar? Kristin systir átti í erfiðleikum með að verja trú sína þegar hún var að ræða þrenningarkenninguna við aðra konu. Síðar gaf þessi kona systur okkar rit sem hallmæltu skipulagi Jehóva. „Ég varð mjög niðurbeygð andlega,“ segir þessi systir. Til allrar hamingju gat öldungur afhjúpað rangar fullyrðingar andstæðinganna og hjálpað systur okkar að varðveita trúna. (Júdasarbréfið 22, 23) „Nú skil ég,“ segir hún, „hvers vegna Félagið segir að við eigum að biðja, nema og hugleiða.“
„Ótti við menn“
6. (a) Hvað hefur orðið sumum þjónum Guðs að fótakefli? Nefnið nokkur dæmi úr Biblíunni? (b) Hver er oft orsök ótta við menn?
6 „Ótti við menn leiðir í snöru,“ aðvaraði spekingurinn. (Orðskviðirnir 29:25) Og stundum hefur ‚ótti við dauðann‘ eða óhófleg löngun í viðurkenningu annarra látið menn festast í þessari snöru. (Hebreabréfið 2:14, 15) Elía hafði til dæmis staðið óttalaus gegn Baalsdýrkendum. En þegar Jesebel drottning fyrirskipaði líflát hans „varð hann hræddur . . . og hélt af stað til þess að forða lífi sínu. Hann kom til Beerseba.“ (1. Konungabók 19:1-3) Nóttina sem Jesús var handtekinn lét Pétur postuli líka undan ótta við menn. Þótt Pétur hafi sagt kokhraustur: „Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða“ fór á annan veg þegar hann var sakaður um að vera einn af lærisveinum Krists. „Hann sór og sárt við lagði, að hann þekkti ekki manninn.“ — Lúkas 22:33; Matteus 26:74.
7. (a) Hver var líklega ástæðan fyrir því að sumir í Kólossu vildu blanda saman kristni og gyðingdómi? (b) Hverjum virðist nú á dögum ganga eitthvað svipað til?
7 Óttablandin löngun í viðurkenningu kann að hafa verið frumorsökin fyrir því að sumir vildu blanda saman kristni og gyðingdómi. Þegar hvatamenn gyðingdómsins risu upp í Galatíu afhjúpaði Páll hræsni þeirra og sagði: „Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, það eru þeir, sem eru að þröngva yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir verði eigi ofsóttir.“ (Galatabréfið 6:12) Getur hugsast að svipuð löngun í viðurkenningu annarra hafi ráðið gerðum sumra sem hafa nýverið yfirgefið skipulag Jehóva?
8, 9. (a) Hvernig getur ótti við menn sýnt sig hjá kristnum mönnum núna? (b) Hvernig er hægt að sigrast á ótta við menn?
8 Kristnir menn verða að vinna gegn slíkum ótta. Ef þú ert tregur til að prédika í grennd við heimili þitt, eða veigrar þér við að bera vitni fyrir ættingjum, samstarfsmönnum eða skólafélögum skaltu muna eftir spurningunni sem Jehóva spyr í Jesaja 51:12: „Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið?“ (Samanber Matteus 10:28.) Minntu sjálfan þig á að „þeim er borgið, sem treystir [Jehóva].“ (Orðskviðirnir 29:25) Pétur sigraðist á ótta sínum við menn og dó að síðustu píslarvættisdauða. (Jóhannes 21:18, 19) Margir bræður á okkar tímum sýna sams konar hugrekki.
9 Trúboði í landi, þar sem prédikunarstarfið var bannað, sagði: „Það krefst trúar að fara á samkomu eða í starfið vitandi að hætta er á handtöku.“ En bræðurnir þar sögðu eins og sálmaritarinn: „[Jehóva] er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?“ (Sálmur 118:6) Og starfið í þessu landi blómgaðist og nýlega hlutu vottar Jehóva lagalega viðurkenningu þar. Regluleg þátttaka í þjónustunni á akrinum mun örugglega hjálpa þér að þroska með þér sama trúartraust til Jehóva.
Fjölskyldubönd
10. (a) Hvaða tilfinningaleg þörf er öllum sameiginleg og hvernig er henni venjulega fullnægt? (b) Nefnið dæmi úr Biblíunni um menn sem elskuðu konur sínar heitar en Jehóva.
10 Í bók sem nefnist The Individual, Marriage, and the Family (Einstaklingurinn, hjónabandið og fjölskyldan) segir: „Sú þörf er sameiginleg einstaklingum í öllum þjóðfélögum og öllum stéttum þjóðfélags að finna sig ‚tilheyra‘ öðrum og að vera nátengdur annarri mikilvægri persónu sem ‚tilheyrir‘ honum.“ Þessari þörf er venjulega fullnægt í gegnum fjölskylduna sem er fyrirkomulag Jehóva. (Efesusbréfið 3:14, 15) Satan færir sér hins vegar oft í nyt væntumþykju okkar í garð annarra í fjölskyldunni. Sterkar tilfinningar Adams til konu sinnar komu honum greinilega til að láta skeika að sköpuðu um afleiðingarnar og fylgja henni í uppreisninni. (1. Tímóteusarbréf 2:14) Og hvað um Salómon? „Er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart [Jehóva], Guði hans, . . . Salómon gjörði það sem illt var í augum Guðs.“ Og þetta gerðist þrátt fyrir að Salómon var nafntogaður fyrir visku sína! — 1. Konungabók 11:4-6.
11. Hvernig heiðraði Elí syni sína meira en Jehóva?
11 Mannst þú eftir hinum aldurhnigna Elí, æðsta presti Ísraels? Synir hans, Hofní og Pínehas, voru „hrakmenni“ sem „skeyttu ekki um [Jehóva].“ Þeir sýndu óskammfeilna fyrirlitningu á fórnunum, sem Jehóva voru færðar, og höfðu siðlaus mök við ‚konur þær, sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.‘ Samt sem áður hreyfði Elí aðeins mildilegum mótbárum („Hvers vegna hegðið þið ykkur svo?“) og lyfti ekki fingri til að svipta þá sérréttindastöðu sinni. Í reyndinni ‚mat hann syni sína meira en Jehóva‘ og það hafði í för með sér dauða bæði fyrir hann og þá! — 1. Samúelsbók 2:12-17, 22, 23 29-34; 4:18.
12. (a) Hvaða aðvörun gaf Jehóva í sambandi við fjölskyldubönd? (b) Hvaða veraldlegri röksæmdafærslu gætu sumir fylgt þegar ættingjar eiga í hlut, en er það biblíulega rétt?
12 Misráðin hollusta gæti því verið okkur fjötur um fót í kapphlaupinu um lífið. Jesús sagði lærisveinum sínum: „Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður.“ (Matteus 10:37; Lúkas 14:26) En segjum að ástvinur yfirgefi sannleikann eða væri gerður rækur. Myndir þú fylgja þeim veraldlega hugsunarhætti að ‚blóð sé þykkara en vatn‘ og fylgja ættingjanum út í tortímingu, eða myndir þú treysta orðunum í Sálmi 27:10: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér“?
13. Hvernig sönnuðu synir Kóra hollustu sína við Jehóva og hvaða blessun hlutu þeir fyrir?
13 Synir Kóra báru slíkt traust til Jehóva. Faðir þeirra gekkst fyrir uppreisn gegn yfirvaldi Móse og Arons. Með því að taka Kóra og alla aðra samsærismenn af lífi sannaði Jehóva með stórfenglegum hætti að hann styddi við bakið á Móse og Aroni. „En synir Kóra fórust þó ekki.“ (4. Mósebók 16:1-3, 28-32; 26:9-11) Augljóst er að þeir neituðu að fylgja föður sínum í uppreisninni og Jehóva blessaði hollustu þeirra með því að láta þá lifa. Afkomendur þeirra höfðu síðar þau sérréttindi að skrifa hluta af Biblíunni! — Sjá yfirskrift að Sálmi 42, 44-49, 84, 85, 87, 88.
14. Hvaða reynsla sýnir glöggt þá blessun sem hlýst af því að taka hollustu við Jehóva fram yfir hollustu við ættingja?
14 Hollusta er einnig til blessunar nú á dögum. Ungur vottur man eftir þeirri afstöðu sem hann og bræður hans tóku þegar móður þeirra, sem hafði lengi verið óvirk í hinni kristilegu þjónustu, gekk í hjónaband þótt hún hefði ekki biblíulegt frelsi til. „Við skyrðum öldungunum frá því,“ segir hann, „og þar sem við bjuggum ekki undir sama þaki ákváðum við að takmarka samskipti okkar við hana þar til öldungarnir gætu tekið á málinu. Það var það erfiðasta sem við höfum nokkurn tíma þurft að gera.“ Móðirin mótmælti: „Er eilíft líf ykkar þýðingarmeira fyrir ykkur en ég?“ Þeir svöruðu: „Samband okkar við Jehóva er þýðingarmeira en allt annað.“ Þetta var konunni reiðarslag og kom henni til að láta í ljós einlæga iðrun. Hún endurheimti andlega heilsu sína og er nú aftur virkur boðberi fagnaðarerindisins.
15. (a) Hvernig hafa sumir foreldrar leyft börnunum sínum að verða sér að fótakefli? (b) Hvernig geta foreldrar hjálpað bæði sjálfum sér og börnum sínum til að hljóta lífið?
15 Sumir hafa leyft börnunum sínum að verða sér að fótakefli og látið sér yfirsjást að „fíflska situr föst í hjarta“ barna og unglinga, leyft þeim að hafa náinn félagskap við veraldleg börn, sækja vafasamar skemmtanir og samkvæmi og jafnvel ‚vera með‘ einhverjum af hinu kyninu löngu áður en þau voru komin á giftingaraldur. (Orðskviðirnir 22:15) Slík undanlátsemi hefur oft hörmulegar afleiðingar — andlegt skipbrot. (1. Tímóteusarbréf 1:19) Sumir foreldrar gera sig jafnvel meðseka með því að reyna að breiða yfir ranga breytni barna sinna! (Orðskviðirnir 3:32; 28:13) Með því að fylgja drottinhollir meginreglum Biblíunnar hjálpa foreldrar bæði sér og börnum sínum að hljóta sigurlaun lífsins. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.
Vinir þínir — ‚vitrir‘ eða ‚heimskir‘?
16. (a) Hvernig geta vinir okkar haft sterk áhrif? (b) Hverjir eru sérstaklega veikir fyrir áhrifum vina og hvers vegna?
16 Bókin Sociology: Human Society (Félagsfræði: mannfélagið) segir: „Þráin eftir virðingu náinna vina er eins og sterk þvingun til þess að fara eftir þeirra hegðunarmynstri.“ Bókin Adolescence (Gelgjuskeiðið) sýnir fram á að ungt fólk er sérstaklega veikt fyrir slíkum þrystingi. Þar segir: „[Þetta stafar af] þeim breytingum sem þeir finna fyrir í líkama sínum, skilningi þeirra á sjálfum sér og sambandi við fjölskyldu sína. Þar af leiðandi fara unglingar á gelgjuskeiði að eyða meiri tíma með vinum sínum og minni með fjölskyldum sínum.“
17. (a) Sýnið með dæmi fram á sannleiksgildi orðanna í Orðskviðunum 13:20. (b) Hvers konar vinir geta talist ‚vitrir‘? (c) Hvernig getur ungt fólk fylgt fordæmi Samúels?
17 Ekki má gleyma því sem segir í Orðskviðunum 13:20: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Kristin stúlka játaði: „Allur slæmi félagsskapurinn í skólanum er farinn að hafa áhrif á mig. Ég stóð mig að því að blóta í skólanum í dag . . . orðið var alveg komið fram á varir mér en mér tókst að stöðva það.“ Því miður hafa svokallaðir vinir leitt suma kristna unglinga út í mjög alvarlega rangsleitni. Ef þú ert ungur og þráir að hljóta sigurlaunin skalt þú velja þér vitra vinir — þá sem eru andlega sinnaðir, ráðvandir í breytni og uppbyggjandi í tali. Mundu að hinn ungi Samúel hafði ekki samneyti við hina slæmu syni Elís. Hann hélt sér uppteknum af þjónustu Jehóva og varð því ekki fyrir áhrifum af spillingu þeirra. — 1. Samúelsbók 3:1.
Höndlaðu sigurlaunin!
18. (a) Hvernig gætu bræur, jafnvel án þess að ætla sér, verið okkur hindrun í kapphlaupinu um lífið? (b) Hvað getur verndað okkur gegn slíkum óheilnæmum áhrifum?
18 Okkur ber því að varast hvern sem gæti rænt okkur sigurlaununum. Það þýðir auðvitað ekki að okkur beri að tortryggja bræður okkar. Stundum geta bræður okkar þó sagt eitthvað sem letur okkur. (‚Hvers vegna pínir þú þig svona áfram? Heldur þú kannski að þú sért sá eini sem hlýtur eilíft líf?‘) Kannski dæma þeir jafnvel hart einlæga viðleitni þína. (‚Ég skil hreinlega ekki hvernig þú getur verið brautryðjandi fyrst þú ert fjölskyldumaður. Það er ekki sanngjarnt gagnvart börnunum.‘) En mundu að Jesús vísaði á bug hvatningu Péturs um að ‚taka lífinu með ró.‘ (Matteus 16:22, 23) Eyru okkar ættu að vera þjálfuð af Biblíunni til að ‚prófa orðin‘ og verða ekki fyrir áhrifum af þeim sem hljóma ekki sönn. (Jobsbók 12:11) Mundu að Páll sagði: „Sá sem keppir í íþrottum færi ekki sigrusveiginn, nema hann keppi löglega.“ (1. Tímóteusarbréf 2:5) Já, ‚lög‘ Guðs — ekki óbiblíulegar skoðanir — verða að leiða hugsun okkar. — Samanber 1. Korintubréf 4:3, 4.
19, 20. (a) Hvernig reyndu bræður Jósefs að vinna honum tjón og hvernig brást Jósef við vonsku þeirra? (b) Hvernig getum við forðast að hnjóta um ófullkomna menn? (c) Hvað ættum við að einsetja okkur að gera í sambandi við sigurlaunin og hvers vegna?
19 Af og til getur þó kristinn bróðir eða systir ‚stungið‘ þig með einhverju sem hann segir í hugsunarleysi. (Orðskviðirnir 12:18) Láttu það ekki koma þér til að hætta í kapphlaupinu um lífið! Mundu eftir Jósef. Hans eigin bræður hugsuðu sér að myrða hann, og þótt þeir létu ekki verða af því, seldu þeir hann í grimmilega þrælkun. Jósef lét þetta samt sem áður ekki gera sig beiskan eða koma sér til að ‚illskast við Jehóva.‘ (Orðskviðirnir 19:3) Í stað þess að koma fram hefndum gaf hann þeim síðar tækifæri til að láta í ljós breytt hugarfar. Og þegar hann sá hversu þeir iðruðust ‚minntist hann við alla bræður sína, faðmaði þá og grét.‘ Eins og Jakob sagði síðar: „Bogmenn [öfundsjúkir bræður Jósefs] veittust að honum, skutu að honum og ofsóttu hann.“ Samt sem áður endurgalt Jósef hatur þeirra með góðvild. Hann lét ekki þessa lífsreynslu veikja sig á nokkurn hátt. — 1. Mósebók 37:18-28; 44:15-45:15; 49:23, 24.
20 Í stað þess að hnjóta um ófullkomna menn skaltu ‚hlaupa þannig að þú hljótir‘ sigurlaunin! Eins og Jósef skalt þú láta árekstra við aðra styrkja þig en ekki veikja. (Samanber Jakobsbréfið 1:2, 3) Láttu kærleika þinn til Guðs vera svo sterkan að enginn maður geti verið þér fjötur um fót. (Sálmur 119:165) Mundu alltaf að Jehóva býður okkur sigurlaunin sem eru eilíft líf — sigurlaun sem eru meiri en við fáum nokkru sinni lýst með orðum eða skynjað til fulls. Láttu engan mann ræna þig þeim!
Manst þú?
◻ Hvers vegna er nákvæm þekking svo verðmæt fyrir kristna menn?
◻ Hvernig er hægt að yfirstíga ótta við menn sem hefur hindrað suma í að eignast lífið?
◻ Hvernig gæti fjölskylda manns verið honum að fótakefli?
◻ Hvernig ætti kristinn maður að bregðast við letjandi eða jafnvel særandi orðum frá trúbróður sínum?
[Myndir á blaðsíðu 14]
Ef við fyllum hugi okkar og hjörtu nákvæmri þekkingu erum við í stakk búin til að hrekja rangar hugmyndir.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Pétur afneitaði Jesú vegna ótta við menn. Síðar sigraðist postulinn á slíkum ótta. Það verða allir sannkristnir menn að gera.