Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.12. bls. 29-31
  • Varðveitum kristna einingu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Varðveitum kristna einingu
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Nærst við sama borð
  • Ófullkomleiki og öfgafull viðhorf
  • ‚Hann hneykslaði mig‘
  • Eining merkir ekki að allir séu eins
  • Jehóva safnar fjölskyldu sinni saman
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Eining kristinna manna er Guði til vegsemdar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Varðveitum einingu núna á síðustu dögum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Sönn eining í kristna söfnuðinum
    Ríkisþjónusta okkar – 2003
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.12. bls. 29-31

Varðveitum kristna einingu

„ÍMYNDAÐU þér að einhver ávarpaði þig bróður eða systur,“ skrifaði kaþólskur rithöfundur að nafni Domenico Mosso, „og að þessi einhver væri ekki presturinn heldur miðaldra herramaður sem stendur við hliðina á þér eða ljóshærð ung kona sem er nýkomin þér á hægri hönd. ‚Hvað segirðu?‘ ‚Ég sagði góðan dag, bróðir.‘ ‚Hvernig vogarðu þér . . . Ég þekki þig ekkert; hvers vegna ertu svona kumpánlegur? Við erum nú í kirkjunni.‘“

Sanna bróðurtilfinningu vantar greinilega innan kirkna kristna heimsins. Það endurspeglar skort þeirra á kristinni einingu. Um votta Jehóva gegnir allt öðru máli. Líkt og fyrstu fylgjendur Jesú köllum við hvern annan fúslega bræður og systur. (2. Pétursbréf 3:15) Hvar sem við erum á ferð í heiminum fáum við hlýlegar, bróðurlegar móttökur í næsta ríkissal. Einingin birtist einnig í því að allir söfnuðirnir fylgja sams konar fræðslumynstri og að allir vottar taka þátt í prédikun ‚fagnaðarerindisins um ríkið.‘ — Matteus 24:14.

Nóttina áður en Jesús dó bað hann: „Ég bið . . . fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér.“ (Jóhannes 17:20, 21) Frásaga Biblíunnar sýnir fram á að Jehóva Guð svaraði bæn Jesú. Djúpstæður fjandskapur milli Gyðinga og heiðingja hvarf meðal kristinna manna vegna þess einingarafls sem kenning Krists bjó yfir. — Galatabréfið 3:28.

Það var þó ekki áreynslulaust að varðveita þessa einingu. Páll postuli hvatti samverkamenn sína til að ‚hegða sér svo sem samboðið er hinni himnesku köllun . . . og kappkosta að varðveita einingu andans í bandi friðarins.‘ Þeir áttu ekki að sundrast í ýmsa sértrúarflokka. Nei, „einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra.“ Söfnuðinum var séð fyrir postulum, hirðum og kennurum til að hjálpa öllum að verða „einhuga í trúnni.“ — Efesusbréfið 4:1-6, 11-14.

Nútímavottum Jehóva hefur tekist vel að varðveita þennan ‚einhug.‘ Ýmislegt getur þó ógnað ‚einhug okkar í trúnni,‘ svo sem sjálfstæðisandi, ólíkur uppruni og kynþáttur eða ýmsir gallar og ófullkomleikar meðal kristinna bræðra. Hvernig er hægt að varðveita ‚einingu‘ okkar?

Nærst við sama borð

Jehóva upplýsir ekki sérhvern kristinn mann út af fyrir sig. Þess í stað hefur Kristur skipað ‚trúan og hygginn þjón,‘ hóp manna sem útbýtir biblíulegu námsefni og tímabærum ráðum til kristinna manna út um víða veröld. (Matteus 24:45-47) Varðturninn er þannig gefinn út á 103 tungumálum til að fullnægja þessari þörf.

Það að nærast við sama andlega borðið hefur átt ríkan þátt í að stuðla að og viðhalda einingu í trúnni. Stundum virðast þó sumar ráðleggingar kannski ekki eiga við í vissum löndum. Ættum við þá að láta okkur finnast við ekki þurfa á þeim að halda? Tæpast. Sumar af aðvörunum Páls til kristinna manna, sem lifðu í hinni siðlausu Korintuborg þar sem skurðgoðadýrkun var mikil, hafa kannski ekki virst eiga fyllilega við kristna menn sem bjuggu í sveitum. (1. Korintubréf 6:15, 16; 10:14) Samt sem áður litu kristnir menn alls staðar á rit Páls sem hluta ‚ritningarinnar.‘ — 2. Pétursbréf 3:16.

Eins er það núna að vissar greinar virðast kannski ekki eiga jafnmikið við staðbundnar aðstæður og aðrar. Við ættum eigi að síður að taka þakklát á móti slíkum aðvörunum sem okkur eru gefnar fyrirfram, vitandi að á tímum skjótra samgangna geta óheilbrigð viðhorf, sem hefjast í einu heimshorni, breiðst ört út!

Ófullkomleiki og öfgafull viðhorf

Lærisveinninn Jakob sagði: „Allir hrösum vér margvíslega.“ (Jakobsbréfið 3:2) Sökum ófullkomleikans hafa menn líka tilhneigingu til að fara út í öfgar. Þetta virðist kannski ekki vandamál þegar sjónarmið fara saman. Til dæmis getur tveim afar vandlátum einstaklingum komið ágætlega saman. En ef annar er hirðulaus en hinn vandlátur gætu verið linnulausar deilur!

Vottar Jehóva eru komnir „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 7:9) Af því leiðir að einstaklingar okkar á meðal geta haft gerólíkar hugmyndir um mál svo sem mataræði, klæðaburð, heilsugæslu og jafnvel mannasiði. Ólík viðhorf á þessum sviðum þurfa ekki að reka fleyg á milli okkar. Biblían varar við öfgum og hvetur okkur til að keppa eftir jafnvægi og sanngirni. „Sú speki, sem að ofan er, hún er . . . friðsöm, ljúfleg,“ segir Biblían. — Jakobsbréfið 3:17.

Að vísu fordæmir Biblían tæpitungulaust ýmsar athafnir. En oft hvetur hún okkur einfaldlega til að fara meðalveginn milli tvennra öfga. Íhugaðu það sem Biblían segir um eftirfarandi málefni:

Veraldleg vinna: „Letin svæfir þungum svefni, og iðjulaus maður mun hungur þola.“ (Orðskviðirnir 19:15) „Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ — Matteus 6:24.

Tal: „Sá breytir hyggilega, sem hefur taum á tungu sinni.“ (Orðskviðirnir 10:19) „Sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. . . . Að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma.“ — Prédikarinn 3:1, 7.

Umgengni við aðra: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) „Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns, svo að hann verði ekki leiður á þér og hati þig.“ — Orðskviðirnir 25:17.

Barnauppeldi: „Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“ (Orðskviðirnir 13:24) „Verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ — Kólossubréfið 3:21.

Því nær sem viðhorf okkar eru því að vera hófsöm en öfgafull, þeim mun minni árekstrar verða milli okkar og annarra kristinna manna. En hvað skal gera ef eitthvert missætti verður eigi að síður vegna ófullkomleikans? Mundu eftir orðum Páls í Kólossubréfinu 3:13: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“

‚Hann hneykslaði mig‘

Sumum í söfnuðinum hættir kannski til að vera viðkvæmir úr hófi fram og lesa illar hvatir út úr saklausum orðum og látbragði. Stundum getur það stafað af uppruna þeirra og uppeldi. Hver sem orsökin er, þá er það sorglegt þegar þeir sem eru óhóflega viðkvæmir móðgast út af smáatriðum eða, það sem verra er, valda öðrum óróa út af þeim með því að sá um sig óeiningu!

Að vísu fordæmir Biblían hegðun sem gæti hneykslað aðra lærisveina Krists. (Lúkas 17:1, 2) Og þroskaðir kristnir menn ættu að vera næmir fyrir tilfinningum bræðra sinna. Biblían vara okkur þó eindregið við því að vera óhóflega viðkvæm og mikla í huga okkar móðganir annarra. (Prédikarinn 7:9) Enn fremur er það að breiða út óánægju meðal bræðra okkar með því að bera á torg galla einhvers annars eitt af því sem ‚Jehóva hatar.‘ — Orðskviðirnir 6:16-19.

Andi Guðs getur hjálpað okkur að sigrast á slíkri viðkvæmni. Í stað þess að láta hugann dvelja við galla bróður okkar getum við með hjálp andans verið með jákvæðum, uppbyggjandi huga. (Filippíbréfið 4:8) Það stuðlar að einingu.

Eining merkir ekki að allir séu eins

Eining um allan heim felur þó ekki í sér að bæla þurfi niður einstaklingseðli eða framtakssemi. Þegar meginreglur Biblíunnar hafa eitthvað til málanna að leggja erum við meira en fús til að leggja til hliðar hugsunarhátt þessa heims og viðurkenna leiðsögn anda Jehóva. Í því starfi okkar að prédika Guðsríki er þó heilmikið rúm fyrir einstaklingseðli og frjótt ímyndunarafl. Bræður okkar sýna oft mikla hugkvæmni í að aðlaga prédikunaraðferðir sínar staðbundnum aðstæðum.

Mannleg samskipti spanna breitt svið þar sem meginreglur Biblíunnar eiga óbeint hlut að máli. Má þar nefna ýmsa siði sem eru breytilegir frá einum stað til annars. Á meginlandi Evrópu heilsar fólk og kveður mjög oft með handabandi. Sums staðar í Austurlöndum fjær hneigja menn sig. Hvort tveggja er boðlegt fyrir kristna menn. Þá má líta á klæðnað og hársnyrtingu sem dæmi. Biblían gefur einungis meginleiðbeiningar um háttvísi og öfgaleysi. Innan þess ramma getum við látið eigin smekk og heilbrigt hugarfar ráða. — 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.

Öldungar ættu því að gæta þess að byggja ráð sín alltaf á traustum meginreglum Biblíunnar en ekki eigin smekk. Þegar andleg mál eiga í hlut munu þeir að sjálfsögðu vera fremstir í flokki við að efla sanna einingu. Við getum líka lagt okkar af mörkum. Við getum ‚reynt okkur sjálfa hvort við séum í trúnni‘ með reglulegu námi í Biblíunni og ritum ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (2. Korintubréf 13:5) Við getum varðveitt einingu okkar í verkum með því að játa trú okkar djarflega. — Hebreabréfið 13:15.

Þegar við gerum það erum við að fylgja þessu innblásna heilræði: „Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — 1. Korintubréf 1:10.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila