Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.3. bls. 13-17
  • Kristin fjölskylda gerir hlutina saman

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kristin fjölskylda gerir hlutina saman
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna að gera hlutina saman?
  • Samheldni í fjölskyldunáminu
  • Samheldni í boðunarstarfinu
  • Samheldni í því að leysa vandamál
  • Samheldni í afþreyingu
  • Blessunin sem fylgir samheldni
  • Fjölskyldan — manninum nauðsynleg
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Býr leyndardómur að baki farsælu fjölskyldulífi?
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
  • Fjölskyldur, nemið orð Guðs reglulega saman
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Aðstoð fyrir fjölskylduna
    Ríkisþjónusta okkar – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.3. bls. 13-17

Kristin fjölskylda gerir hlutina saman

„En ég áminni yður, bræður, . . . að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — 1. KORINTUBRÉF 1:10.

1. Hvernig er ástatt með einingu í mörgum fjölskyldum?

ER FJÖLSKYLDA þín samheldin eða virðist hver fara sína leið? Gerið þið hlutina saman eða eruð þið sjaldan öll á sama stað á sama tíma? Orðið „fjölskylda“ gefur í skyn sameinað heimili.a En ekki eru allar fjölskyldur sameinaðar. Breskur fyrirlesari gekk svo langt að segja: „Í stað þess að vera undirstaða góðs þjóðfélags er fjölskyldan . . . uppspretta allrar óánægju okkar.“ Á það við um þína fjölskyldu? Ef svo er, þarf það að vera þannig?

2. Hvaða biblíupersónur bera þess merki að hafa verið úr góðum fjölskyldum?

2 Eining eða óeining fjölskyldu er yfirleitt komin undir forystu hennar, hvort heldur beggja foreldra eða einstæðs foreldris. Á biblíutímanum nutu samheldnar fjölskyldur, sem tilbáðu saman, blessunar Jehóva. Þannig var það í Forn-Ísrael þar sem dóttir Jefta, Samson og Samúel báru, hvert á sinn hátt, vitni um að vera af guðræknu fólki komin. (Dómarabókin 11:30-40; 13:2-25; 1. Samúelsbók 1:21-23; 2:18-21) Á tímum frumkristninnar var Tímóteus, trúfastur félagi Páls á sumum af trúboðsferðum hans, alinn upp í þekkingu á Hebresku ritningunum hjá Lóis ömmu sinni og Evníke móður sinni. Hann varð framúrskarandi lærisveinn og trúboði. — Postulasagan 16:1, 2; 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15; sjá einnig Postulasöguna 21:8, 9.

Hvers vegna að gera hlutina saman?

3, 4. (a) Hvaða eiginleikar ættu að vera greinilegir í sameinaðri fjölskyldu? (b) Hvernig getur heimilið verið meira en bústaður?

3 Hvers vegna er það gagnlegt fyrir fjölskyldur að gera hlutina saman? Vegna þess að það byggir upp gagnkvæman skilning og virðingu. Í stað þess að halda okkur hvert frá öðru höldum við nánu sambandi og styðjum hvert annað. Nýleg grein í tímaritinu Family Relations sagði: „Tiltölulega skýr mynd hefur komið fram af eiginleikum ‚sterkra fjölskyldna.‘ Meðal annars finnst fjölskyldumeðlimum þeir skuldbundnir hver öðrum, meta hver annan að verðleikum, eru samhentir og ræða vel saman, eru færir um að leysa vandamál sem upp koma og gefa andlegum málum verulegt rúm í lífi sínu.“

4 Þegar þessir eiginleikar eru fyrir hendi í fjölskyldu er heimilið ekki eins og bensínstöð þar sem komið er við til að fylla geyminn. Það er meira en aðeins bústaður. Það er aðlaðandi staður þangað sem fjölskyldumeðlimina langar til að koma. Það er athvarf hlýju og ástúðar, umhyggju og skilnings. (Orðskviðirnir 4:3, 4) Það er hreiður þar sem ríkir eining, ekki sporðdrekabæli ósamlyndis og sundrungar. En hvernig er hægt að gera heimilið að slíkum stað?

Samheldni í fjölskyldunáminu

5. Hvað verðum við að nota til að læra sanna guðsdýrkun?

5 Sönn tilbeiðsla á Jehóva lærist með því að nota rökhugsunina, hæfnina til að dæma hvað sé rétt. (Rómverjabréfið 12:1) Hegðun okkar ætti ekki að stjórnast af augnablikstilfinningu eins og þeirri sem málsnjallir ræðumenn og tunguliprir sjónvarpsprédikarar vekja. Nei, það sem knýr okkur til athafna er reglulegt nám okkar og hugleiðing á Biblíunni og biblíunámsritum frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni.‘ (Matteus 24:45) Kristileg breytni okkar er afleiðing af því að við tileinkum okkur huga Krists við hverjar aðstæður eða freistingar sem upp kunna að koma. Í því tilliti er Jehóva hinn mikli fræðari okkar. — Sálmur 25:9; Jesaja 54:13; 1. Korintubréf 2:16.

6. Nefndu dæmi um fjölskyldunám á heimsmælikvarða.

6 Fjölskyldubiblíunámið gegnir mikilvægu hlutverki í andlegu hugarfari sérhverrar kristinnar fjölskyldu. Hvenær hafið þið fjölskyldunám ykkar? Ef það er látið ráðast af tilviljun eða er skyndiákvörðun hverju sinni er námið líklega í besta lagi stopult. Samheldni um fjölskyldunámið útheimtir reglufasta, ákveðna áætlun. Þá vita allir á hvaða degi og hvaða tíma ætlast er til að þeir séu tiltækir til að njóta andlegra samvista sem fjölskylda. Hinir ríflega 13.800 meðlimir Betelfjölskyldunnar um heim allan vita að fjölskyldunám þeirra er á mánudagskvöldum. Það er hrífandi fyrir þessa Betelsjálfboðaliða að muna að þeir taka allir þátt í sama náminu í lok dags, á eyjum Kyrrahafsins og Nýja-Sjálandi, síðan í Ástralíu, Japan, Taívan, Hong Kong, því næst eftir endilangri Asíu, Afríku og Evrópu og loks í Ameríku. Enda þótt þúsundir kílómetra og fjölmörg tungumál skilji í milli vekur þetta fjölskyldunám samkennd með meðlimum Betelfjölskyldunnar. Þú getur ræktað sömu tilfinningu með fjölskyldunámi þínu, þótt í smærri mæli sé. — 1. Pétursbréf 2:17; 5:9.

7. Hvernig ættum við að líta á orð sannleikans, að sögn Péturs?

7 Pétur postuli ráðleggur okkur: „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis, enda ‚hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður.‘“ (1. Pétursbréf 2:2, 3) Pétur laðar fram fagra mynd með þessum orðum! Hann notar grísku sögnina epipoþeʹsate sem er, samkvæmt Linguistic Key to the Greek New Testament, komin af orði sem merkir „að þrá, langa í, þyrsta í.“ Hún gefur í skyn brennandi löngun. Hefur þú tekið eftir hvernig ungi leitar ákaft að spena móður sinnar og hve ánægt barn er þegar það nærist af brjósti móður sinnar? Við ættum að hafa sömu löngunina í orð sannleikans. Grískufræðingurinn William Barclay sagði: „Fyrir einlægan kristinn mann er nám í orði Guðs ekki erfiði heldur ánægja, því að hann veit að þar finnur hjarta hans þá næringu sem það þráir.“

8. Hvaða áskorun er það fyrir höfuð fjölskyldunnar að stjórna fjölskyldunáminu?

8 Fjölskyldunámið leggur mikla ábyrgð á herðar fjölskylduföðurnum. Hann verður að gæta þess að námið sé áhugavert fyrir alla og að allir geti tekið þátt í því. Börnum ætti ekki að finnast að námið sé eiginlega bara fyrir fullorðna. Gæði námsins skipta meira máli en hversu mikið efni er farið yfir. Gerðu Biblíuna lifandi. Eftir því sem við á ætti að hjálpa börnunum að sjá fyrir sér staðhætti og landslag Palestínu þar sem atburðir, sem verið er að tala um, áttu sér stað. Allir skulu hvattir til að leita sjálfir upplýsinga og segja hinum í fjölskyldunni frá. Þannig geta börnin líka ‚vaxið upp hjá Jehóva.‘ — 1. Samúelsbók 2:20, 21.

Samheldni í boðunarstarfinu

9. Hvernig er hægt að gera prédikunarstarfið að ánægjulegri reynslu fyrir fjölskylduna?

9 Jesús sagði: „En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Þessi orð setja öllum samviskusömum kristnum mönnum fyrir verkefni — að boða trúna, deila fagnaðarerindinu um Guðsríki með öðrum. Það getur verið hvetjandi og ánægjuleg reynsla að vinna saman að því sem fjölskylda. Mæður og feður eru stolt af því að sjá börn sín kynna fagnaðarerindið. Hjón með þrjá syni frá 15 til 21 árs segja að þau hafi alltaf haft fyrir sið að fara með sonum sínum út í prédikunarstarfið á hverjum miðvikudegi eftir skóla og á hverjum laugardagsmorgni. Faðirinn segir: „Við kennum þeim eitthvað í hvert sinn. Og við gætum þess að það sé ánægjuleg og hvetjandi reynsla.“

10. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum í boðunarstarfinu?

10 Það getur borið mjög góðan ávöxt að vinna saman sem fjölskylda við að prédika og kenna. Stundum bregst fólk betur við einfaldri en einlægri kynningu barns en fullorðins. Og svo standa mamma eða pabbi hjá þeim reiðubúin að hjálpa ef þörf krefur. Foreldrar geta gætt þess að börn þeirra fái markvissa þjálfun og verði þannig þjónar orðsins ‚sem ekki þurfa að skammast sín og fara rétt með orð sannleikans.‘ Það að prédika saman á þennan hátt gefur foreldrum tækifæri til að fylgjast með viðhorfum barna sinna, árangri og góðum mannasiðum í þjónustunni. Með regluföstu boðunarstarfi fylgjast þeir með framförum barnsins og veita stefnufasta þjálfun og hvatningu til að styrkja trú þess. Samtímis sjá börnin að foreldar þeirra eru gott fordæmi í þjónustunni. Á þessum örðugu og ofbeldisfullu tímum getur það að vinna saman sem sameinuð, umhyggjusöm fjölskylda jafnvel veitt vissa vernd í hverfum þar sem afbrot eru tíð. — 2. Tímóteusarbréf 2:15; Filippíbréfið 3:16.

11. Hvað getur hæglega dregið úr kostgæfni barns gagnvart sannleikanum?

11 Börn eru glögg á tvöfalt siðgæði hjá fullorðnum. Ef foreldrar sýna ekki raunverulegan kærleika til sannleikans og þjónustunnar hús úr húsi er varla hægt að búast við að börnin verði kostgæf. Þannig gæti heilsuhraust foreldri, sem sinnir ekki boðunarstarfinu að öðru leyti en því að hafa vikulegt biblíunám með börnunum, þurft að gjalda þess dýru verði þegar þau stækka. — Orðskviðirnir 22:6; Efesusbréfið 6:4.

12. Hvernig geta sumar fjölskyldur hlotið sérstaka blessun frá Jehóva?

12 Einn kostur þess að vera „fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun“ er sá að fjölskyldan getur kannski lagst á eitt þannig að minnst einn meðlimur geti þjónað sem brautryðjandi í fullu starfi í söfnuðinum. Margar fjölskyldur um heim allan gera það og allir í fjölskyldunni njóta góðs af reynslu og aukinni skilvirkni brautryðjandans síns. — 2. Korintubréf 13:11; Filippíbréfið 2:1-4.

Samheldni í því að leysa vandamál

13, 14. (a) Hvaða aðstæður geta haft áhrif á eindrægni fjölskyldu? (b) Hvernig er hægt að forðast mörg vandamál í fjölskyldunni?

13 Þessum erfiðu tímum fylgir ýmis ‚streita‘ og ‚hætta‘ sem veldur álagi fyrir okkur öll. (2. Tímóteusarbréf 3:1, Revised Standard Version; Phillips) Það koma upp vandamál á vinnustað, í skólanum, á götunum og jafnvel innan veggja heimilisins. Sumir þjást vegna bágrar heilsu eða langvinnra tilfinningavandamála sem stundum leiða til spennu og misskilnings í fjölskyldunni. Hvernig er hægt að taka á slíkum aðstæðum? Með því að hver og einn dragi sig inn í skel? Með því að einangra okkur þótt við búum undir sama þaki? Nei, við þurfum þess í stað að láta áhyggjur okkar í ljós og biðja um hjálp. Og er nokkur betri vettvangur til þess en ástrík fjölskylda? — 1. Korintubréf 16:14; 1. Pétursbréf 4:8.

14 Betra er heilt en vel gróið eins og allir læknar vita. Það gildir einnig um vandamál í fjölskyldunni. Opnar og hreinskilnislegar umræður geta oft hindrað að vandamál verði alvarleg. Jafnvel þótt alvarleg vandamál komi upp er hægt að taka á þeim og jafnvel leysa þau ef fjölskyldan íhugar í sameiningu viðkomandi meginreglur Biblíunnar. Oft má eyða ósamlyndi eða jafna ágreining með því að fara eftir orðum Páls í Kólossubréfinu 3:12-14: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. . . . En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“

Samheldni í afþreyingu

15, 16. (a) Hvaða eiginleiki ætti að einkenna kristnar fjölskyldur? (b) Hvernig gera sum trúarbrögð fólk og hvers vegna?

15 Jehóva er glaður Guð og sannleikurinn er gleðiboðskapur — vonarboðskapur handa mannkyninu. Enn fremur er gleði einn af ávöxtum andans. Þessi gleði er gerólík stundarfagnaði íþróttamanns sem sigrar í keppni. Hún er djúpstæð, varanleg fullnægjukennd sem streymir fram í hjartanu og er komin til af því að ræktað hefur verið innilegt samband við Jehóva. Þetta er gleði byggð á andlegum gildum og uppbyggjandi tengslum við aðra. — Galatabréfið 5:22; 1. Tímóteusarbréf 1:11.

16 Þess vegna höfum við, kristnir vottar Jehóva, enga ástæðu til að vera daufir í dálkinn eða gersneyddir gamansemi. Sum trúarbrögð gera fólk þannig af því að trú þess leggur áherslu á neikvæð atriði. Kenningar þeirra leiða af sér þungbúna, gleðisnauða tilbeiðslu sem er hvorki biblíuleg né í jafnvægi. Þau skapa ekki hamingjusamar fjölskyldur í þjónustu Guðs. Jesús sá þörfina á því að slaka á og gera sér dagamun. Einu sinni bauð hann lærisveinum sínum til dæmis að koma ‚einir saman á óbyggðan stað og hvílast um stund.‘ — Markús 6:30-32; Sálmur 126:1-3; Jeremía 30:18, 19.

17, 18. Á hvaða viðeigandi vegu geta kristnar fjölskyldur slakað á?

17 Fjölskyldur þurfa á sama hátt tíma til að slaka á. Foreldri sagði um börnin sín: „Við gerum margt skemmtilegt saman — förum á ströndina, förum í boltaleik í almenningsgarðinum eða skipuleggjum útivistarferð upp til fjalla. Annað veifið höfum við ‚brautryðjandadag‘ saman í starfinu; síðan höldum við upp á það með sérstakri máltíð og það kemur fyrir að við gefum jafnvel hvert öðru gjafir.“

18 Önnur tillaga, sem foreldrar gætu íhugað, er að fjölskyldan fari saman í dýragarð, skemmtigarð, söfn og á aðra áhugaverða staði. Gönguferðir úti í náttúrunni fuglaskoðun og garðrækt eru viðfangsefni sem allir geta í sameiningu haft ánægju af. Foreldrar geta líka hvatt börn sín til að læra að leika á hljóðfæri eða leggja fyrir sig eitthvert hagnýtt tómstundagaman. Foreldrar, sem hafa jafnvægi á hlutunum, skapa sér vissulega tíma til að leika sér við börnin sín. Ef fjölskyldumeðlimir skemmta sér saman eru meiri líkur á að þeir haldi saman.

19. Hvaða nútímatilhneiging getur skaðað fjölskyldu?

19 Það er útbreidd tilhneiging meðal unglinga nú á tímum að vilja skilja sig frá fjölskyldunni og fara eigin leiðir þegar afþreying er annars vegar. Enda þótt það skaði ekki að unglingur eigi sér tómstundagaman eða uppáhaldsdægrastyttingu væri ekki skynsamlegt að láta slík áhugamál valda varanlegum viðskilnaði við aðra í fjölskyldunni. Þess í stað viljum við fylgja meginreglunni sem Páll kom fram með: „Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.“ — Filippíbréfið 2:4.

20. Hvernig geta mótin verið ánægjulegir viðburðir?

20 Það er mikið gleðiefni fyrir okkur öll að sjá fjölskyldur sitja saman á mótunum! Þannig geta stálpuð börn oft hjálpað við að gæta hinna yngri. Slíkt fyrirkomulag stemmir líka stigu við þeirri tilhneigingu sumra unglinga að hópa sig saman og sitja á öftustu bekkjunum og gefa lítinn gaum að mótsdagskránni. Jafnvel ferðalög til og frá mótsstað geta verið ánægjuleg þegar fjölskyldan fær að hafa hönd í bagga með því hvaða leið er farin, hvaða staðir skuli skoðaðir á leiðinni og hvar skuli gist. Hugsaðu þér hve spennandi það hlýtur að hafa verið fyrir fjölskyldur á dögum Jesú að ferðast saman upp til Jerúsalem! — Lúkas 2:41, 42.

Blessunin sem fylgir samheldni

21. (a) Hvernig getum við keppt að farsæld í hjónabandi? (b) Nefndu fjórar góðar tillögur um hvernig megi gera hjónabandið varanlegt.

21 Það hefur aldrei verið auðvelt að gera hjónabandið farsælt eða fjölskylduna sameinaða og slík fjölskylda verður ekki til af sjálfu sér. Sumum virðist finnast það auðveldara að gefast upp, slíta hjónabandinu með skilnaði og reyna að byrja upp á nýtt. En sömu vandamálin koma oft upp í öðru eða þriðja hjónabandi. Það er miklu betra að nota hina kristnu aðferð og leggja sig fram um að ná góðum árangri með því að beita meginreglum Biblíunnar um kærleika og virðingu. Til þess að fjölskyldan sé sameinuð þarf maður að vera óeigingjarn, fús bæði til að gefa og þiggja. Hjónabandsráðgjafi kom fram með einfalda formúlu fyrir varanlegu hjónabandi. Hann skrifaði: „Fjögur úrslitaatriði nálega allra góðra hjónabanda eru viljinn til að hlusta, hæfnin til að biðjast afsökunar, getan til að veita stefnufastan, tilfinningalegan stuðning og löngunin til að snerta blíðlega.“ Þessi atriði geta sannarlega stuðlað að því að gera hjónabandið varanlegt vegna þess að þau eru byggð á traustum meginreglum Biblíunnar. — 1. Korintubréf 13:1-8; Efesusbréfið 5:33; Jakobsbréfið 1:19.

22. Nefndu nokkra kosti þess að fjölskyldan sé sameinuð.

22 Ef við fylgjum ráðleggingum Biblíunnar höfum við traustan grundvöll að sameinaðri fjölskyldu, og sameinaðar fjölskyldur eru undirstaða sameinaðs og andlega sterks safnaðar. Þegar við lofsyngjum Jehóva saman í vaxandi mæli hljótum við ríkulega blessun frá honum.

[Neðanmáls]

a „Fjölskylda . . . ‚foreldrar og börn þeirra, skyldulið; mikill barnafjöldi.‘“ (Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon) Á latínu var notað orðið familia sem er að finna lítið breytt í mörgum nútímatungumálum. Það merkti upphaflega „þjónar og þrælar á stóru heimili, síðan heimilið sjálft með húsbónda, húsmóður, börnum — og starfsliði.“ — Origins — A Short Etymological Dictionary of Modern English eftir Eric Partridge.

Manst þú?

◻ Hvers vegna er gagnlegt fyrir fjölskyldur að gera hlutina saman?

◻ Hvers vegna er reglulegt fjölskyldubiblíunám nauðsynlegt?

◻ Hvers vegna er gott að foreldrar taki þátt í þjónustunni á akrinum með börnum sínum?

◻ Hvers vegna er gagnlegt að ræða vandamál innan fjölskyldunnar?

◻ Hvers vegna ættu kristnar fjölskyldur ekki að vera daufar í dálkinn og gleðilausar?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Borðar fjölskylda þín saman að minnsta kosti einu sinni á dag?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Skemmtiferðir fjölskyldunnar ættu að vera afslappandi og ánægjulegar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila