Dómur Jehóva gegn falskennurum
„En hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi: Þeir drýgja hór og fara með lygar . . . Þeir eru allir orðnir mér eins og Sódóma og íbúar hennar eins og Gómorra. — JEREMÍA 23:14.
1. Hvers vegna tekur hver sá sem vinnur að kennslu Guðs á sig mjög alvarlega ábyrgð?
HVER sá sem vinnur að kennslu Guðs tekur á sig mjög alvarlega ábyrgð. Jakobsbréfið 3:1 varar við: „Verðið eigi margir kennarar, bræður mínir. Þér vitið, að vér munum fá þyngri dóm.“ Já, á þeim sem kenna orð Guðs hvílir alvarlegri ábyrgð að skila af sér á fullnægjandi hátt en á kristnum mönnum almennt. Hvað þýðir það fyrir þá sem reynast falskennarar? Við skulum kynna okkur ástandið eins og það var á dögum Jeremía. Við munum sjá hvernig það var fyrirmynd þess sem er að gerast nú á tímum.
2, 3. Hvaða dóm kvað Jehóva upp fyrir munn Jeremía gegn falskennurum Jerúsalem?
2 Árið 647 f.o.t., á 13. stjórnarári Jósía konungs, var Jeremía skipaður spámaður Jehóva. Jehóva hafði mál að kæra gegn Júdamönnum þannig að hann sendi Jeremía til að flytja það. Falsspámenn eða kennarar Jerúsalem voru að fremja „hryllilegt athæfi“ í augum Guðs. Illska þeirra var svo mikil að Guð líkti Jerúsalem og Júda við Sódómu og Gómorru. Tuttugasta og þriðji kafli Jeremía fræðir okkur um það. Vers 14 segir:
3 „Hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi: Þeir drýgja hór og fara með lygar og veita illgjörðarmönnum liðveislu, svo að enginn þeirra snýr sér frá illsku sinni. Þeir eru allir orðnir mér eins og Sódóma og íbúar hennar eins og Gómorra.“
4. Hvaða hliðstæðu við slæmt siðferðisfordæmi kennara Jerúsalem er að finna í kristna heiminum nú á tímum?
4 Já, þessir spámenn eða kennarar settu sjálfir afar slæmt siðferðilegt fordæmi og hvöttu nánast fólk til að gera það líka. Líttu á ástandið í kristna heiminum nú á dögum. Er það ekki alveg eins og var á dögum Jeremía? Nú á dögum leyfir klerkastéttin hórkörlum og kynvillingum að halda hempunni og jafnvel stjórna guðsþjónustum. Er það nokkur furða að svona margir skráðir kirkjumeðlimir séu líka siðlausir?
5. Hvers vegna nær siðlaust ástand kristna heimsins enn lengra en var í Sódómu og Gómorru?
5 Jehóva líkti Jerúsalembúum við Sódómu- og Gómorrubúa. En siðlaust ástand kristna heimsins nær enn lengra en var í Sódómu og Gómorru. Já, kristni heimurinn er enn ámælisverðari í augum Jehóva. Kennarar hans virða siðferðislög Guðs að vettugi. Og það skapar andrúmsloft þar sem siðferði er komið niður á auvirðilegt stig og reynt er með alls konar lævísum hætti að lokka menn til að gera það sem illt er. Svo útbreitt er þetta ástand í siðferðismálum að nú á tímum er illskan álitin eðlileg.
„Fara með lygar“
6. Hvað sagði Jeremía um illsku spámanna Jerúsalem?
6 Tökum nú eftir því sem vers 14 segir um spámenn Jerúsalem. Þeir ‚fóru með lygar.‘ Og síðari hluti 15. versins segir: „Frá spámönnum Jerúsalem hefir guðleysi [„fráhvarf,“ NW] breiðst út um allt landið.“ Síðan segir áfram í 16. versi: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Hlýðið ekki á orð spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, en ekki fengið frá [Jehóva].“
7, 8. Hvers vegna eru klerkar kristna heimsins eins og falsspámenn Jerúsalem og hvernig hefur það haft áhrif á sóknarbörnin?
7 Líkt og falsspámenn Jerúsalem fara klerkar kristna heimsins einnig með lygar, útbreiða fráhvarfskenningar, kenningar sem er ekki að finna í orði Guðs. Hvaða falskenningar eru það? Meðal annars kenningar um ódauðleika sálarinnar, þrenningu, hreinsunareld og helvítiseld til að kvelja fólk að eilífu. Þeir kitla líka eyru áheyrenda sinna með því að prédika það sem fólk langar til að heyra. Þeir söngla að engin ógæfa bíði kristna heimsins af því að hann njóti friðar Guðs. En klerkarnir eru að flytja „vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp.“ Þær eru falskar. Þeim sem trúa slíkum lygum er byrlað andlegt eitur. Þeir eru afvegaleiddir sér til tortímingar!
8 Lítum á það sem Jehóva segir um þessa falskennara í 21. versi: „Ég hefi ekki sent spámennina, og þó hlupu þeir. Ég hefi eigi talað til þeirra, og þó spáðu þeir.“ Eins er það núna að klerkarnir eru hvorki sendir af Guði né kenna sannleika hans. Og afleiðingin? Hrikalegt ólæsi á Biblíuna meðal sóknarbarnanna af því að prestar þeirra hafa nært þau á veraldlegri heimspeki.
9, 10. (a) Hvers konar drauma dreymdi falskennara Jerúsalem? (b) Hvernig hafa klerkar kristna heimsins á sama hátt kennt „lygadrauma“?
9 Enn fremur útbreiða klerkar falskar vonir nú á tímum. Taktu eftir versi 25: „Ég heyri hvað spámennirnir segja, þeir sem boða lygar í mínu nafni. Þeir segja: ‚Mig dreymdi, mig dreymdi!‘“ Hvers konar draumar eru það? Vers 32 segir okkur: „Ég skal finna spámennina, sem kunngjöra lygadrauma — segir [Jehóva] — og segja frá þeim og leiða þjóð mína afvega með lygum sínum og gorti, og þó hefi ég ekki sent þá og ekkert umboð gefið þeim, og þeir gjöra þessari þjóð alls ekkert gagn — segir [Jehóva].“
10 Hvaða falsdrauma eða falsvonir hafa klerkarnir kennt? Nú, þær að eina von mannsins um frið og öryggi nú á tímum sé Sameinuðu þjóðirnar. Á síðari árum hafa þeir kallað Sameinuðu þjóðirnar „síðustu von friðar og sameiningar,“ „æðsta dómsvettvang friðar og réttvísi“ og „helstu stundlegu vonina um heimsfrið.“ Hvílíkir hugarórar! Eina von mannkynsins er Guðsríki. En klerkarnir prédika ekki og kenna ekki sannleikann um þá himnesku stjórn sem var þungamiðjan í prédikun Jesú.
11. (a) Hvaða slæmu áhrif höfðu falskennarar Jerúsalem haft á sjálft nafn Guðs? (b) Hvað hafa falstrúarkennarar nútímans, gagnstætt Jeremíahópnum, gert í tengslum við nafn Guðs?
11 Vers 27 segir okkur meira. „Hvort hyggjast þeir að koma þjóð minni til að gleyma nafni mínu, með draumum sínum, er þeir segja hver öðrum, eins og feður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals?“ Falsspámenn Jerúsalem komu fólki til að gleyma nafni Guðs. Hafa falstrúarkennarar nútímans ekki gert það líka? Það sem verra er, þeir fela nafn Guðs, Jehóva. Þeir kenna að það sé ekki nauðsynlegt að nota það og þeir fjarlægja það úr biblíuþýðingum sínum. Og þeir snúast öndverðir gegn því að nokkur kenni fólki að nafn Guðs sé Jehóva. En Jeremíahópurinn, leifar andasmurðra kristinna manna, ásamt félögum sínum, hafa gert alveg eins og Jesús gerði. Þeir hafa kennt milljónum manna nafn Guðs. — Jóhannes 17:6.
Sannað að þeir séu ámælisverðir
12. (a) Hvers vegna hvílir mikil blóðskuld á falstrúarkennurunum? (b) Hvert hefur verið hlutverk klerkanna í tveimur heimsstyrjöldum?
12 Jeremíahópurinn hefur aftur og aftur afhjúpað klerkana sem falskennara er leiða hjarðir sínar eftir breiða veginum til glötunar. Já, leifarnar hafa sýnt skýrt og skorinort hvers vegna þessir draumamenn verðskulda óhagstæðan dóm af hendi Jehóva. Til dæmis hafa þjónar Jehóva oft vitnað í Opinberunarbókina 18:24 sem segir að í Babýlon hinni miklu hafi fundist blóð „allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.“ Hugsaðu um allar þær styrjaldir sem háðar hafa verið út af trúarlegum ágreiningi. Hversu mikil er ekki blóðskuldin sem hvílir á falstrúarkennurunum! Kenningar þeirra hafa valdið sundrung og ýtt undir hatur manna af ólíkri trú og þjóðerni. Um fyrri heimsstyrjöldina segir bókin Preachers Present Arms: „Kennimenn gáfu stríðinu sína ástríðufullu andlegu merkingu og hvöt. . . . Kirkjan varð þannig sveifarás stríðsvélarinnar.“ Hið sama má segja um síðari heimsstyrjöldina. Klerkar studdu hinar stríðandi þjóðir að fullu og blessuðu hersveitir þeirra. Tvær heimsstyrjaldir hófust í kristna heiminum þar sem menn sömu trúar drápu hver annan. Veraldlegir og trúarlegir klofningshópar innan kristna heimsins halda áfram að valda blóðsúthellingum allt fram á þennan dag. Falskenningar hans hafa sannarlega hræðilegar afleiðingar!
13. Hvernig sannar Jeremía 23:22 að klerkar kristna heimsins hafa ekkert samband við Jehóva?
13 Taktu eftir því sem Jeremía 23. kafli, 22. vers segir: „Hefðu þeir staðið í mínu ráði, þá mundu þeir kunngjöra þjóð minni mín orð og snúa þeim frá þeirra vonda vegi og frá þeirra vondu verkum.“ Ef trúarlegir spámenn kristna heimsins stæðu í ráði Jehóva, í nánu sambandi við hann rétt eins og trúr og hygginn þjónn, þá lifðu þeir líka eftir stöðlum Guðs. Þeir hefðu líka látið íbúa kristna heimsins heyra orðin frá Guði sjálfum. Þess í stað hafa falskennarar nútímans gert fylgjendur sína að blinduðum þjónum óvinar Guðs, Satans djöfulsins.
14. Hvernig var klerkastétt kristna heimsins afhjúpuð svo um munaði árið 1958?
14 Jeremíahópurinn hefur afhjúpað klerkastéttina kröftuglega. Til dæmis sagði varaforseti Varðturnsfélagsins á alþjóðamóti votta Jehóva í New York árið 1958 sem nefndist „Vilji Guðs“: „Tæpitungulaust og hiklaust lýsum við yfir að þessi undirrót allra glæpa, afbrota, haturs, átaka, fordóma . . . og vitfirringslegrar ringulreiðar sé ósönn trúarbrögð, fölsk trúarbrögð; að baki hennar er ósýnilegur óvinur mannsins, Satan djöfullinn. Þeir menn, sem mesta ábyrgð bera á ástandinu í heiminum, eru trúarfræðararnir og trúarleiðtogarnir; og af þeim eru klerkar kristna heimsins ámælisverðastir. . . . Eftir öll þau ár, sem liðin eru frá fyrri heimsstyrjöldinni, er samband kristna heimsins við Guð áþekkt sambandi Ísraels við hann á dögum Jeremía. Já, kristni heimurinn á yfir höfði sér tortímingu sem er langtum óttalegri og meiri en sú sem Jeremía sá koma yfir Jerúsalem.“
Falskennarar dæmdir
15. Hvaða friðarspádóma hafa klerkarnir borið fram? Munu þeir uppfyllast?
15 Hvernig hafa klerkarnir hegðað sér þrátt fyrir þessa viðvörun? Eins og 17. versið skýrir frá: „Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði [Jehóva]: ‚Yður mun heill hlotnast!‘ Og við alla sem fara eftir þverúð hjarta síns, segja þeir: ‚Engin ógæfa mun yfir yður koma!‘“ Er þetta satt? Nei! Jehóva mun fletta ofan af þeim lygum sem þessir spádómar klerkanna eru. Hann lætur það ekki rætast sem þeir segja í hans nafni. En það er mjög auðvelt að láta blekkjast þegar klerkarnir fullvissa menn ranglega um frið við Guð!
16. (a) Hvernig er andrúmsloft heimsins í siðferðismálum og hverjir bera að hluta til ábyrgð á því? (b) Hvernig lætur Jeremíahópurinn auvirðileg siðferðissjónarmið heimsins til sín taka?
16 Hugsar þú með þér: ‚Ha? Að ég láti blekkjast af falskenningum klerkanna? Aldrei!‘ En vertu nú ekki of viss um það! Mundu að falskenningar klerkanna hafa stuðlað að lævísu og hræðilegu andrúmslofti í siðferðismálum. Undanlátsamar kenningar þeirra réttlæta nánast hvað sem er, hversu siðlaust sem það er. Og þetta úrkynjaða andrúmsloft í siðferðismálum gagnsýrir allar tegundir skemmtunar, kvikmyndir, sjónvarp, tímarit og tónlist. Við verðum þar af leiðandi að fara með mikilli gát til að verða ekki fyrir áhrifum þessa úrkynjaða en lævíslega aðlaðandi andrúmslofts í siðferðismálum. Ungt fólk getur orðið hugfangið af auvirðilegum myndböndum og tónlist. Munum að það viðhorf manna nú á tímum að allt sé leyfilegt er bein afleiðing af falskenningum klerkanna og hversu þeir hafa vanrækt að halda uppi réttlátum stöðlum Guðs. Jeremíahópurinn berst gegn þessum siðlausu sjónarmiðum og hjálpar þjónum Jehóva að hafna illskunni sem er að gleypa kristna heiminn.
17. (a) Hvaða dómur átti að koma yfir hina guðlausu Jerúsalem samkvæmt orðum Jeremía? (b) Hvað mun bráðlega koma fyrir kristna heiminn?
17 Hvaða dóm fá falskennarar kristna heimsins frá Jehóva, dómaranum mikla? Vers 19, 20, 39 og 40 svara: „Sjá, stormur [Jehóva] brýst fram — reiði og hvirfilbylur — hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu. Reiði [Jehóva] léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. . . . Fyrir því vil ég hefja yður upp og varpa yður og borginni, sem ég gaf yður og feðrum yðar, burt frá mínu augliti. Og ég legg á yður eilífa smán og eilífa skömm, sem aldrei mun gleymast.“ Allt þetta kom yfir hina óguðlegu Jerúsalem og musteri hennar! Og núna kemur áþekk ógæfa bráðlega yfir hinn óguðlega kristna heim.
Boða „byrði Jehóva“
18, 19. Hvaða „byrði [Jehóva]“ kunngerði Jeremía Júda og hvað fólst í því?
18 Hver er þá ábyrgð Jeremíahópsins og félaga hans? Vers 33 segir okkur: „Þegar þessi lýður spyr þig, eða einhver spámaðurinn eða einhver presturinn, og segir: ‚Hver er byrði [Jehóva]?‘ þá skalt þú segja við þá: Þér eruð byrðin, og ég mun varpa yður af mér — segir [Jehóva].“
19 Hebreska orðið, sem þýtt er „byrði,“ hefur tvíþætta merkingu. Það getur átt við yfirlýsingu frá Guði sem er þung á metunum eða eitthvað sem íþyngir eða þreytir. Orðin ‚byrði Jehóva‘ eiga hér við þungvægan spádóm — yfirlýsinguna um að Jerúsalem væri dæmd til tortímingar. En geðjaðist fólkinu að því að heyra slíka þunga spádóma sem Jeremía flutti því aftur og aftur frá Jehóva? Nei, fólkið hæddist að Jeremía: ‚Hvaða spádóm (byrði) hefurðu núna? Spádómur þinn verður áreiðanlega enn ein þreytandi byrði!‘ En hvað sagði Jehóva þeim? Þetta: „Þér eruð byrðin, og ég mun varpa yður af mér.“ Já, þetta fólk var Jehóva til byrði og hann ætlaði að varpa því af sér svo að það íþyngdi honum ekki framar.
20. Hver er „byrði [Jehóva]“ nú á tímum?
20 Hver er ‚byrði Jehóva‘ nú á dögum? Hún er hinn þungvægi spádómsboðskapur frá orði Guðs. Hann er þungur vegna þess að hann segir frá ömurlegum endalokum, kunngerir yfirvofandi eyðingu kristna heimsins. Sem fólk Jehóva höfum við þá þungu ábyrgð að kunngera þessa ‚byrði Jehóva.‘ Er endirinn nálgast verðum við að segja öllum að hið afvegaleidda fólk kristna heimsins sé „byrði,“ já, hvílík byrði fyrir Jehóva Guð, og að hann ætli bráðlega að losa sig við þessa „byrði“ með því að ofurselja kristna heiminn ógæfu.
21. (a) Hvers vegna var Jerúsalem lögð í eyði árið 607 f.o.t.? (b) Hvað kom fyrir falsspámennina og sannan spámann Jehóva eftir eyðingu Jerúsalem og hvaða fullvissu gefur það okkur nú á dögum?
21 Dómi Jehóva var fullnægt á dögum Jeremía þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem árið 607 f.o.t. Eins og spáð hafði verið var það skammarleg auðmýking fyrir þessa þrjósku, ótrúu Ísraelsmenn. (Jeremía 23:39, 40) Það sýndi þeim að Jehóva, sem þeir höfðu oftsinnis óvirt, hafði loksins ofurselt þá afleiðingum illsku sinnar. Munnar hinna óskammfeilnu falsspámanna þeirra þögnuðu loksins. En munnur Jeremía hélt áfram að spá. Jehóva yfirgaf hann ekki. Í samræmi við þá fyrirmynd mun Jehóva ekki yfirgefa Jeremíahópinn þegar hinn þungi úrskurður hans kremur klerka kristna heimsins og þá sem trúa lygum þeirra, til bana.
22. Hvað leiðir dómur Jehóva af sér fyrir kristna heiminn?
22 Já, Jerúsalem var eydd og óbyggð eftir árið 607 f.o.t. og nákvæmlega þannig verður kristni heimurinn eftir að hann verður sviptur auði sínum og afhjúpaður með smán. Þetta er sá dómur sem hann verðskuldar og Jehóva hefur fellt yfir falskennurum. Þessi dómur bregst ekki. Alveg eins og allir innblásnir viðvörunarspádómar Jeremía rættust forðum daga, eins munu þeir rætast í nútímauppfyllingu sinni. Verum því eins og Jeremía. Boðum fólki óttalaust hina spádómlegu byrði Jehóva svo að það fái að vita hvers vegna hinn réttláti dómur hans kemur af fullum þunga yfir alla falstrúarkennara!
Til upprifjunar
◻ Hversu slæm var Jerúsalem til forna frá sjónarhóli Jehóva?
◻ Á hvaða hátt hefur kristni heimurinn ‚farið með lygar‘?
◻ Hvernig hefur verið flett ofan af því hversu ámælisverð klerkastétt nútímans er?
◻ Hvaða „byrði [Jehóva]“ er núna verið að kunngera?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Spámenn Jerúsalem frömdu „hryllilegt athæfi.“
[Mynd á blaðsíðu 21]
„Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp.“
[Mynd á blaðsíðu 23]
Eftir að Jerúsalem var eytt er hún dæmi um endanleg örlög kristna heimsins.