Ávöxtur — góður og slæmur
„[Jehóva] lét mig sjá: Tvær karfir fullar af fíkjum . . . Í annarri körfinni voru mjög góðar fíkjur, líkar árfíkjum, en í hinni körfinni voru mjög vondar fíkjur, sem voru svo vondar, að þær voru óætar.“ — JEREMÍA 24:1, 2.
1. Hvernig sýndi Jehóva að hann vildi þyrma þjóð sinni Ísrael, en hvernig brást hún við?
ÞETTA var árið 617 f.o.t., aðeins tíu árum áður en verðskulduðum dómi Jehóva var fullnægt á Jerúsalem og íbúum hennar. Jeremía var þegar búinn að prédika af krafti í 30 ár. Hlustaðu á lifandi lýsingu Esra á ástandinu eins og hana er að finna í 2. Kroníkubók 36:15: „Og [Jehóva], Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum.“ Og hver var árangur allrar þessarar viðleitni? Það er dapurlegt sem Esra heldur áfram að greina frá í 16. versi: „En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði [Jehóva] við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.“
2, 3. Lýstu hinni áhrifaríku sýn sem Jehóva lét Jeremía sjá.
2 Þýddi þetta þá að Júdamenn yrðu algerlega afmáðir? Til að fá svar við því skulum við skoða þýðingarmikla sýn sem Jeremía fékk nú að sjá og skráð er í 24. kafla bókarinnar er ber nafn hans. Guð notaði tvær fíkjukörfur í þessari sýn til að tákna þróunina meðal sáttmálaþjóðar sinnar. Þær áttu að tákna tvenns konar ólíkan ávöxt, góðan og slæman.
3 Tuttugasti og fjórði kafli Jeremíabókar, 1. og 2. vers, lýsir því sem spámaður Guðs sá: „[Jehóva] lét mig sjá: Tvær karfir fullar af fíkjum voru settar fyrir framan musteri [Jehóva], eftir að Nebúkadresar Babelkonungur hafði herleitt Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og höfðingjana í Júda og trésmiðina og járnsmiðina burt frá Jerúsalem og flutt þá til Babýlon. Í annarri körfinni voru mjög góðar fíkjur, líkar árfíkjum, en í hinni körfinni voru mjög vondar fíkjur, sem voru svo vondar, að þær voru óætar.“
Góðu fíkjurnar í sýninni
4. Hvaða hughreystandi boðskapur fyrir trúfasta Ísraelsmenn fólst í sýninni um fíkurnar?
4 Eftir að hafa spurt Jeremía hvað hann hafi séð hélt Jehóva áfram í 5. til 7. versi: „Eins og á þessar góðu fíkjur, svo lít ég á hina herleiddu úr Júda, sem ég hefi sent héðan til Kaldealands, þeim til heilla. Ég beini augum mínum á þá þeim til heilla og flyt þá aftur inn í þetta land, svo að ég megi byggja þá upp og ekki rífa þá niður aftur og gróðursetja þá og ekki uppræta þá aftur. Og ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er [Jehóva], og þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, þegar þeir snúa sér til mín af öllu hjarta.“
5, 6. (a) Hvernig voru sumir Ísraelsmanna ‚sendir til Kaldealands þeim til heilla‘? (b) Hvernig ‚beindi Jehóva augum sínum á‘ trúfasta Ísraelsmenn í útlegð ‚þeim til heilla‘?
5 Af því sem Jehóva sagði hérna virðist sem betri tímar væru framundan, að Júdamenn yrðu ekki algerlega afmáðir. En hvaða þýðingu hefur þessi karfa með góðu fíkjunum?
6 Jekonja eða Jójakín hafði verið konungur í Júda í aðeins þrjá mánuði og tíu daga þegar hann gafst fúslega upp og lét Jerúsalem í hendur Nebúkadnesar konungi. Meðal bandingjanna, sem herleiddir voru með honum, voru Daníel og hebreskir félagar hans þrír, þeir Hananja, Mísael og Asarja, og auk þeirra Esekíel. Konungur Babýlonar þyrmdi lífi þessara bandingja og þannig mátti segja að Jehóva hafi litið svo á að hann hefði ‚sent þá til Kaldealands, þeim til heilla.‘ Tókstu eftir að Jehóva lofaði líka að ‚beina augum sínum á þá þeim til heilla‘? Hvernig rættist það? Áttatíu árum síðar, árið 537 f.o.t., lét Jehóva Kýrus konung gefa út tilskipun um að leifar afkomenda þeirra mættu snúa heim til Júda. Þessir trúföstu Gyðingar endurbyggðu Jerúsalemborg; þeir reistu nýtt musteri til tilbeiðslu á Guði sínum, Jehóva, og þeir sneru sér að honum af öllu hjarta. Í öllu þessu voru þessir bandingar og afkomendur þeirra eins og mjög góðar árfíkjur í augum Jehóva.
7. Hvenær og hvernig beindi Jehóva augum sínum á Jeremíahópinn nú á tímum ‚honum til heilla‘?
7 Þú manst kannski að í greininni hér á undan um spádómsorð Jeremía sáum við að þau hafa þýðingu núna á 20. öldinni. Og 24. kaflinn er engin undantekning. Á hinum myrku árum fyrri heimsstyrjaldarinnar lentu vígðir þjónar Jehóva undir áhrifum Babýlonar hinnar miklu á einn eða annan hátt. En vökulum augum Jehóva ‚var beint á þá þeim til heilla.‘ Og þannig var það að fyrir milligöngu hins meiri Kýrusar, Krists Jesú, braut Jehóva á bak aftur vald Babýlonar hinnar miklu yfir þeim og leiddi þá smám saman inn í andlega paradís. Þessir andlegu Ísraelsmenn brugðust jákvætt við og sneru sér til Jehóva af öllu hjarta. Þá, árið 1931, tóku þeir með fögnuði við nafninu vottar Jehóva. Nú mátti með sanni segja að þeir hafi orðið eins og karfa af mjög góðum fíkjum í augum Jehóva.
8. Á hvaða hátt hafa vottar Jehóva boðað út um allt fíkjusætleik boðskaparins um Guðsríki?
8 Og vottar Jehóva hafa ekki látið tilganginn með óverðskuldaðri góðvild Jehóva með því að frelsa þá frá Babýlon hinni miklu, fram hjá sér fara. Þeir hafa ekki haldið fíkjusætleik gleðiboðskaparins um Guðsríki fyrir sig heldur boðað hann út um allt í samræmi við orð Jesú í Matteusi 24:14: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ Og árangurinn? Yfir 4.700.000 sauðumlíkir menn, sem eru ekki andlegir Ísraelsmenn, hafa brotist úr fjötrum Babýlonar hinnar miklu!
Vondu fíkjurnar í sýninni
9. Hverja táknuðu vondu fíkjurnar og hvað átti að koma fyrir þá?
9 En hvað um körfuna með vondu fíkjunum í sýn Jeremía? Jehóva rígheldur nú athygli Jeremía með því að segja eins og við lesum í 24. kafla hjá Jeremía, 8. til 10. versi: „Og eins og vondu fíkjurnar, sem eru svo vondar, að þær eru óætar — já, svo segir [Jehóva] —, þannig vil ég fara með Sedekía konung í Júda og höfðingja hans og leifarnar af Jerúsalem, þá sem eftir eru í þessu landi og þá sem sest hafa að í Egyptalandi. Ég mun gjöra þá að grýlu, að andstyggð öllum konungsríkjum jarðar, að háðung, orðskvið, spotti og formæling á öllum þeim stöðum, þangað sem ég rek þá. Og ég sendi sverð, hungur og drepsótt í móti þeim, þar til er þeir eru gjöreyddir úr landinu, sem ég gaf þeim og feðrum þeirra.“
10. Hvers vegna leit Jehóva á Sedekía sem ‚vonda fíkju‘?
10 Sedekía reyndist svo sannarlega vera ‚vond fíkja‘ í augum Jehóva. Hann gerði ekki aðeins uppreisn gegn Nebúkadnesar konungi með því að brjóta hollustueiðinn, sem hann hafði unnið konunginum í nafni Jehóva, heldur hafnaði hann auk þess algerlega miskunn Jehóva við sig sem honum bauðst fyrir milligöngu Jeremía. Hann gekk meira að segja svo langt að láta setja Jeremía í varðhald! Það er engin furða að Esra skuli lýsa viðhorfum konungsins þannig í hnotskurn í 2. Kroníkubók 36:12: „Hann gjörði það, sem illt var í augum [Jehóva], Guðs síns, hann auðmýkti sig eigi.“ Í augum Jehóva var Sedekía og þeir sem eftir voru í Jerúsalem eins og karfa með vondum, rotnum fíkjum!
Rotnar, tákrænar fíkjur á okkar tímum
11, 12. Hverjir reynast vera vondar fíkjur nú á tímum og hvað mun koma fyrir þá?
11 Líttu nú í kringum þig á heiminn eins og hann er. Heldur þú að við getum fundið táknræna körfu með vondum fíkjum? Athugum staðreyndirnar með því að bera okkar daga saman við daga Jeremía. Á 20. öldinni hefur Jehóva notað Jeremíahópinn, hinar smurðu leifar, til að vara þjóðirnar stöðuglega við hinni komandi reiði hans í þrengingunni miklu. Hann hefur hvatt þjóðirnar til að gefa honum þá dýrð sem nafni hans ber, að tilbiðja hann í anda og sannleika og að viðurkenna ríkjandi son hans, Krist Jesú, sem réttmætan stjórnanda jarðar. Hver hafa viðbrögðin verið? Alveg þau sömu og á dögum Jeremía. Þjóðirnar halda áfram að gera það sem er illt í augum Jehóva.
12 En hverjir eru það sem kynda undir þessum uppreisnarviðhorfum? Hverjir halda áfram að gera gys að sendiboðum Guðs, sem líkjast Jeremía, með því að véfengja vald þeirra til að vera þjónar Guðs? Hverjir fyrirlíta orð Guðs? Hverjir standa nú á dögum að baki öllum þessum ofsóknum á hendur vottum Jehóva? Svarið er öllum augljóst — það er kristni heimurinn, einkum klerkastéttin! Og líttu bara á allan hinn rotna, vonda ávöxt kristna heimsins sem greinin hér að framan fjallaði um. Ó, já, það er svo sannarlega táknræn karfa með vondum fíkjum á jörðinni nú á dögum! Jehóva segir meira að segja að þær séu ‚svo vondar að þær séu óætar.‘ Orð Jehóva fyrir munn Jeremía enduróma allt fram til okkar daga: ‚Þeir verða gjöreyddir‘! Reiði Jehóva gegn kristna heiminum verður ekki sefuð.
Lexía okkur til viðvörunar
13. Hvernig ættum við að skilja sýnina um fíkjukörfurnar tvær í ljósi orða Páls í 1. Korintubréfi 10:11?
13 Þegar við rannsökum hvað felst í innblásnum viðvörunarboðskap Jeremía óma orð Páls postula í 1. Korintubréfi 10:11 í eyrum okkar: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ Höfum við persónulega tekið til okkar þá viðvörun sem þessi sýn með fíkjukörfunum tveim felur í sér fyrir okkur? Það sem við höfum verið að ræða er mjög þýðingarmikill þáttur þess er kom yfir Ísrael sem fordæmi okkur til viðvörunar.
14. Hvernig brást Ísrael við ástúðlegri umhyggju Jehóva?
14 Rifjum að lokum upp orð Jehóva við Davíð konung um Ísrael sem er að finna í 2. Samúelsbók 7:10: „[Ég mun] fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar.“ Jehóva lét sér mjög annt um þjóð sína Ísrael á alla vegu. Ísraelsmenn höfðu fullt tilefni til að bera góðan ávöxt í lífi sínu. Þeir þurftu aðeins að hlusta á kennslu Jehóva og halda boðorð hans. En aðeins fáeinir þeirra gerðu það. Meirihlutinn var svo þrjóskur og ódæll að hann bar einungis vondan, rotinn ávöxt.
15. Hvernig hefur hinn andlegi Ísrael nú á tímum og saumumlíkir félagar hans brugðist við umhyggju Jehóva?
15 En hvað þá um okkar daga? Jehóva hefur sýnt leifum hins andlega Ísraels og sauðumlíkum félögum hans mikla umhyggju. Augum hans hefur stöðugt verið beint á þá síðan þeir fengu andlegt frelsi árið 1919. Eins og hann sagði fyrir munn Jesaja fá þeir daglega kennslu frá mesta kennara alheimsins, Jehóva Guði. (Jesaja 54:13) Þessi kennsla Guðs, sem berst þeim gegnum ástkæran son hans, Jesú Krist, hefur haft í för með sér ríkulegan frið á meðal þeirra og leitt þá stöðugt til nánara sambands við Jehóva. Þetta skapar okkur öllum dásamlegt, andlegt umhverfi til að þekkja Jehóva, hlýða á hann og halda síðan áfram að bera góðan ávöxt í lífi okkar — ávöxt sem er Jehóva til lofs! Það hefur líf í för með sér fyrir okkur!
16. Hvernig getum við hvert og eitt tekið til okkar sýnina um fíkjukörfurnar tvær?
16 En þrátt fyrir alla hina óverðskulduðu góðvild Guðs verða samt sumir uppreisnargjarnir og harðir í hjarta sér, eins og margir urðu á dögum Júda til forna, menn sem bera vondan, rotinn ávöxt í lífi sínu. Það er sorglegt! Megi enginn okkar missa sjónar á þeirri viðvörun sem þessar tvær fíkjukörfur með ávexti sínum — góðum og slæmum — eru fyrir okkur. Megum við, þegar verðskuldaður dómur Jehóva yfir hinum fráhverfa kristna heimi nálgast óðfluga, taka til okkar áminningu Páls: „Hegðið yður eins og [Jehóva] er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki.“ — Kólossubréfið 1:10.
Upprifjun „Ávöxtur — góður og slæmur“ og greinar 1-4 í „Deila Jehóva við þjóðirnar“
◻ Hvað táknar karfan með góðu fíkjunum?
◻ Hvernig hefur karfan með góðu fíkjunum, sem sást í sýninni, komið greinilega í ljós?
◻ Hvaða lexíu til viðvörunar veitir boðskapur Jehóva okkur?
◻ Hvað var þýðingarmikið í sambandi við árið 607 f.o.t. og árið 1914?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Líkt og góðar fíkjur hefur fólk Guðs borið sæta ávexti Guðsríkis.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Kristni heimurinn hefur reynst vera eins og karfa með vondum fíkjum.