Styddu til fulls opinberu samkomuna í söfnuði þínum
1 Fyrir nokkrum árum fann ungur maður boðsmiða þar sem samkomur safnaðarins á staðnum voru auglýstar. Hann var að leita sannleikans og ákvað því að sækja opinberu samkomuna strax næsta sunnudag. Hann var mættur í salinn þó nokkru áður en samkoman hófst. Boðberi bauð hann innilega velkominn, ræddi við hann og bauð biblíunám en hann afþakkaði það. Hinn vel undirbúni opinberi fyrirlestur hreif hann hins vegar svo mjög að hann skipti um skoðun og þáði að lokinni samkomunni boðið um biblíunám. Þessi ungi maður tók skjótum framförum og var skírður nokkrum mánuðum síðar. Við getum lært að minnsta kosti þrjár nytsamar lexíur af þessari reynslu unga mannsins.
2 Í fyrsta lagi var opinbera samkoman auglýst. Notar þú prentaða boðsmiða? Þegar kynnirinn tilkynnir titil fyrirlestrarins í næstu viku skaltu hugleiða hverjir á starfssvæðinu þínu kynnu að hafa sérstakan áhuga á efninu, hvort sem þeir hafa nýlega þegið hjá þér rit eða ekki. Sumir eru ekkert gefnir fyrir lestur eða eiga erfitt með hann, en þeir eru ef til vill fúsir til að hlusta á ræðu um biblíulegt efni.
3 Í öðru lagi var gesturinn boðinn innilega velkominn. Ef þú gerir þér far um að koma eins tímanlega og hægt er á samkomurnar getur þú heilsað bræðrum þínum og systrum, svo og öðru áhugasömu fólki sem þangað kemur. (Hebr. 10:24) Sá sem kemur til ríkissalarins í fyrsta sinn veit ef til vill ekki við hverju hann má búast. Bentu honum á að samkomurnar okkar hefjist með söng og bæn og segðu honum hvernig við ljúkum þeim. Ef við á getur þú boðið honum að sitja hjá þér til þess að hann geti fylgst með í biblíunni þinni og söngbók. Bjóddu honum að bera upp við þig hverjar þær spurningar sem kunna að vera komnar upp í huga hans þegar samkomunni er lokið.
4 Í þriðja lagi var ræðan vel undirbúin. Þeir sem fá þau sérréttindi að flytja opinbera fyrirlestra fyrir hönd safnaðarins nota marga klukkutíma til undirbúnings og æfingar til þess að hvetja áheyrendurna til aukins kærleika og góðra verka. Við erum öll undir álagi nú á tímum og hin hressandi sannindi frá orði Guðs eru einmitt sú hjálp sem við þurfum til að halda út. Að sjálfsögðu mun opinberi fyrirlesturinn, hversu fræðandi sem hann er, koma okkur að litlu gagni ef við hlustum ekki vandlega. Áttu af og til erfitt með að einbeita huganum að ræðunni? Það getur verið gagnlegt að skrifa hjá sér stutt minnisatriði, eins og við gerum oft á mótunum okkar. Láttu ekki hjá líða að fylgjast með í Biblíunni þegar ritningarstaðir eru lesnir og útskýrðir.
5 Félagið hefur séð fyrir opinberum fyrirlestrum um fjölbreytilegt efni sem varðar Biblíuna. Öldungaráðið skipuleggur dagskrá hinnar opinberu samkomu safnaðarins og gerir það fyrir milligöngu umsjónarmannsins í forsæti eða bróður sem hann tilnefnir. Valin eru ræðuefni, sem Félagið lætur í té sem uppköst, til að mæta þeim þörfum sem fyrir hendi eru þá stundina. Misstu ekki af neinu af þessum mikilvægu upplýsingum og styddu til fulls hina opinberu samkomu safnaðarins.