Blessun sem fylgir því að starfa með öðrum
1 Finnst þér á einhvern hátt gagnlegt að starfa með öðrum þegar farið er í boðunarstarfið? Jesú fannst það. Þótt uppskeran væri mikil og verkamennirnir fáir sendi hann 70 lærisveina út á akurinn, „tvo og tvo.“ Sá tími var sannarlega umbunarríkur sem þeir notuðu til að prédika í ‚hverri þeirri borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til.‘ — Lúk. 10:1, 17; Matt. 9:37.
2 Það er hvetjandi að starfa með öðrum. Sum okkar eru feimin og finnst erfitt að taka ókunna tali. Ef við höfum einhvern við hlið okkar kann það að stappa í okkur stálinu til að tala orð Guðs af djörfung. Þegar við höfum einhvern með okkur reynist okkur ef til vill auðveldara að framkvæma starfið á þann hátt sem við höfum fengið þjálfun til. (Orðskv. 27:17) Spekingurinn sagði: „Betri eru tveir en einn.“ — Préd. 4:9.
3 Það er gott að starfa með mismunandi boðberum og brautryðjendum. Meðal starfsfélaga Páls postula voru þeir Barnabas, Sílas, Tímóteus og Jóhannes Markús, og þeir nutu margra blessana þegar þeir störfuðu saman. Svo getur einnig verið nú á tímum. Hefur þú starfað með einhverjum sem hefur verið lengi í sannleikanum? Með því að fylgjast með leikni hans í að bera vitni hefur þú líklega fengið nokkrar góðar hugmyndir sem hafa hjálpað þér að bæta starf þitt. Hefur þú farið með boðberum sem eru tiltölulega nýir? Þá gastu kannski deilt með þeim sumu af því sem þú hefur lært og þar með hjálpað þeim að vera færari í boðunarstarfinu og hafa af því meiri ánægju.
4 Stjórnar þú biblíunámi? Sé svo, hví þá ekki að bjóða einum öldunganna eða farandhirðinum að koma með þér? Það er gagnlegt fyrir biblíunemendur okkar að kynnast umsjónarmönnunum. Ef þú ert hikandi við að stjórna náminu í viðurvist öldungs væri hann ef til vill fús til að stjórna því og láta þig fylgjast með. Á eftir skaltu óhikað biðja hann um tillögur um hvernig þú getir hjálpað nemandanum að taka skjótari framförum.
5 Vertu uppörvandi félagi þegar þú starfar með öðrum. Talaðu jákvætt um starfssvæðið. Þú skalt aldrei slúðra um aðra eða kvarta um ráðstafanir sem söfnuðurinn gerir. Láttu huga þinn beinast fyrst og fremst að þjónustunni og þeim blessunum sem Jehóva veitir. Ef þú gerir það snúa bæði þú og starfsfélagi þinn aftur heim andlega uppörvaðir.
6 Aðstæður þínar kunna að gera þér erfitt að starfa reglulega með öðrum bræðrum og systrum. Væri samt ekki ráð, ef mögulegt er, að koma málum þannig fyrir að þú hafir einhvern tíma til að starfa með öðrum boðbera? Það verður ykkur báðum til blessunar. — Rómv. 1:11, 12.