Hvers konar anda sýnir þú?
1 Páll lauk bréfi sínu til safnaðarins í Filippí með þessari hvatningu: „Náðin Drottins Jesú Krists sé með anda yðar.“ (Fil. 4:23) Hann hrósaði þeim fyrir ósvikinn áhuga þeirra á að prédika fagnaðarerindið, svo og fyrir hlýlega og ástríka umhyggju þeirra fyrir vellíðan hvers annars. — Fil. 1:3-5; 4:15, 16.
2 Okkur ætti að langa til að endurspegla þennan sama anda í söfnuði okkar. Þegar allir eru ötulir, vingjarnlegir og gestrisnir skapar það anda sem aðrir verða greinilega varir við. Jákvæður og kærleiksríkur andi leiðir til einingar og andlegra framfara. (1. Kor. 1:10) Neikvæður andi gefur af sér kjarkleysi og hálfvelgju. — Opinb. 3:15, 16.
3 Öldungar taki forystuna: Á öldungunum hvílir sú ábyrgð að varðveita góðan, jákvæðan anda sín á milli og innan safnaðarins. Hvers vegna? Vegna þess að viðhorf þeirra og hegðun getur haft áhrif á söfnuðinn. Við metum mikils að hafa öldunga sem sýna kostgæfni í boðunarstarfinu, heilsa okkur með hlýlegu brosi og vingjarnlegum orðum og eru jákvæðir og uppbyggjandi þegar þeir gefa ráðleggingar, hvort sem það er einslega eða frá ræðupallinum. — Hebr. 13:7.
4 Að sjálfsögðu ættum við öll að leggja okkar af mörkum til að gera söfnuðinn vingjarnlegan, gestrisinn, ötulan og andlega sinnaðan. Við getum hvert og eitt sýnt hlýju og kærleika í samskiptum við aðra. (1. Kor. 16:14) Innan okkar raða ætti ekki að vera nein aðgreining eftir aldri, kynþætti, menntun eða fjárhag. (Samanber Efesusbréfið 2:21.) Vegna vonar okkar getum við endurspeglað gleðianda, örláta gestrisni og kostgæfni í boðunarstarfinu. — Rómv. 12:13; Kól. 3:22, 23.
5 Við ættum að láta alla þá sem hafa tengsl við söfnuðinn, þeirra á meðal hina nýju, finna að þeir séu velkomnir og láta þá skynja kærleikann, sem ríkir innan bræðrafélagsins, og hve mjög það helgar sig því verkefni sem Jehóva hefur falið því. Með þjónustu okkar og með því að sýna góða, kristna eiginleika berum við þess vitni að söfnuðurinn sé „stólpi og grundvöllur sannleikans.“ (1. Tím. 3:15) Við finnum einnig fyrir andlegu öryggi vegna ‚friðar Guðs‘ sem varðveitir hjörtu okkar og hugsanir. (Fil. 4:6, 7) Megum við öll af dugnaði leitast við að sýna þess konar anda sem tryggir að við fáum notið náðar Jehóva fyrir milligöngu Drottins Jesú Krists. — 2. Tím. 4:22.