Gleðifréttir fyrir auðmjúka menn
1 Við lifum á tímum yfirvofandi dóms. (Esek. 9:5, 6) Það er mjög áríðandi að upplýsa auðmjúka menn alls staðar svo að þeir geti búið sig undir það sem kemur innan skamms. Af gæsku sinni hefur Jehóva falið fólki sínu að „flytja nauðstöddum [„auðmjúkum,“ NW] gleðilegan boðskap.“ (Jes. 61:1, 2) Blöðin okkar hjálpa okkur að kunngera þessi gleðitíðindi vítt og breitt.
2 Varðturninn og Vaknið! koma með fasta, andlega fæðu sem styrkir okkur og örvar. Varðturninn hughreystir auðmjúka menn með þeim fagnaðartíðindum að Guðsríki muni brátt umbreyta jörðinni í paradís. Vaknið! byggir upp trúartraust til fyrirheits skaparans um friðsælan og öruggan nýjan heim. Umfangsmikil útbreiðsla þessara blaða er ein fljótvirkasta leiðin til að færa auðmjúku fólki fagnaðarerindið. Hvaða efni í nýjustu blöðunum getum við notað sem umræðugrundvöll?
3 Þú gætir kynnt maítölublað „Varðturnsins“ á þann hátt að benda á forsíðuna og segja:
◼ „Menn meta lífið mjög misjafnlega. Flestum finnst það dýrmætt en aðrir sýna því lítilsvirðingu. Í 1. Tímóteusarbréfi hvetur Biblían okkur að ‚höndla hið sanna líf.‘ Hvað skyldi hún eiga við? [Gefðu kost á svari.] Nokkrum versum fyrr í þessu sama bréfi segir: . . . [Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:12.] Hið sanna líf er þess vegna eilíft líf í réttlátum heimi sem Guð mun koma á. Til þess að öðlast slíkt líf verðum við að meta mikils okkar núverandi líf og nota það á réttan hátt. Þessi grein vekur athygli á hvernig við getum meðal annars gert það.“
4 Ef þú kýst að nota greinina „Varpaðu allri áhyggju þinni á Jehóva“ í sama tölublaði „Varðturnsins“ gætir þú sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Mjög algengt er að menn séu áhyggjufullir. Þeir hafa áhyggjur af afkomu sinni, heilsu, börnum og mörgu öðru. Samt sagði Jesús í fjallræðunni: ‚Verið ekki áhyggjufullir.‘ Veistu af hverju hann sagði það?“ Gefðu kost á svari og notaðu síðan efnið í tölugrein 2 sem umræðugrundvöll. Undirstrikaðu mikilvægi þess að við látum ekki áhyggjurnar svæfa okkur andlega heldur leitum hjálpar í orði Guðs.
5 Ef þú kýst að nota greinarnar í „Vaknið!“ um erfið börn gætir þú reynt þetta:
◼ „Vaxandi fjöldi barna á við alvarleg hegðunarvandamál að stríða, svo sem ofvirkni eða eftirtektarleysi. Þessi börn verða oft erfið, bæði í skóla og heima fyrir, og foreldrarnir vita oft ekki hvernig þeir geta brugðist við þeim vanda. Þessar greinar segja frá reynslu nokkurra foreldra og hvaða aðferðir hafa gefist vel til að hjálpa svona börnum.“
6 Ef þú ert að starfa fyrir 14. maí með blöðin skaltu hafa Fréttir um Guðsríki með þér og bjóða þær öllum sem ekki hafa enn þá fengið eintak. Munum, þegar húsráðandi þiggur blöð, að honum er velkomið að leggja lítils háttar af mörkum til starfs okkar ef hann vill. Verum alltaf reiðubúin að deila út ritum okkar, minnug þess að aðrir á heimilinu, svo og gestir, kunna að lesa þau. (1. Tím. 6:18) Gleðifréttirnar, sem við færum auðmjúkum mönnum, kunna að bjarga lífi þeirra. — 1. Tím. 4:16.