Fylgdu öllum áhuga eftir öðrum til gagns
1 Hvaða lykilatriði hjálpar okkur að ákvarða hvort við ættum að skilja rit eftir hjá einhverjum? Áhugi hans! Sama gildir um endurheimsóknir. Hvenær sem einhver sýnir jafnvel hinn minnsta áhuga á boðskapnum um Guðsríki viljum við gera hvað sem hægt er honum til gagns. Við förum þess vegna í endurheimsókn í því skyni að efla áhuga hans og hefja með honum heimabiblíunám. Þetta er markmið okkar, jafnvel þótt við höfum ekki skilið eftir rit. Hvernig er hægt að gera þetta?
2 Ef fyrri samræður ykkar voru um hversu tíð hjúskaparvandamál eru orðin og viðmælandi þinn þáði “Lifað að eilífu“ bókina gætir þú hafið samræðurnar á þessa leið:
◼ „Þegar ég kom hingað síðast ræddum við um hjónabandið og raunhæfar ráðleggingar Biblíunnar sem geta hjálpað okkur að verða hamingjusamari. Er ekki með réttu hægt að segja að jafnvel í bestu fjölskyldum komi upp vandamál af og til? [Gefðu kost á svari.] Biblían gefur okkur frábærar ráðleggingar sem geta hjálpað okkur að leysa samskiptavandamál innan fjölskyldunnar. Það getur orðið fjölskyldu til blessunar að nema saman Biblíuna.“ Flettu upp á blaðsíðu 246 og ræddu um grein 23. Lestu Jóhannes 17:3 og segðu að þú viljir gjarnan hjálpa fjölskyldunni að komast í gang með að nema Biblíuna heima.
3 Ef þú talaðir um börn og þörf þeirra á ögun gætir þú haldið umræðunum áfram á þennan hátt:
◼ „Um daginn töluðum við um það andlega uppeldi sem börn þarfnast og hvernig foreldrarnir geti hjálpað þeim. Flestir foreldrar, sem ég hef rætt við, hafa áhyggjur af auknu misferli meðal unglinga síðustu árin. Hvað finnst þér um . . . ? [Nefndu dæmi um slíkt misferli sem algengt hefur verið í fréttum. Gefðu kost á svari.] Leyfðu mér að sýna þér nokkrar af þeim raunhæfu ráðleggingum sem Biblían gefur.“ Flettu upp á grein 22 á blaðsíðu 246 í Lifað að eilífu bókinni, ræddu um aðalatriðin og lestu Efesusbréfið 6:4. Bentu á að flest börn vilja í rauninni fá aga og leiðsögn. Þegar foreldrar eru iðnir við að veita hann eru börnin ánægðari og hegða sér af meiri kurteisi. Útskýrðu hvernig við nemum Biblíuna með börnum okkar.
4 Ef umræðuefnið var paradís á jörð gætir þú sagt þetta:
◼ „Við litum á nokkrar myndir í þessari bók sem gefa okkur hugmynd um hvernig jörðin mun líta út þegar Guð breytir henni í paradís. Hún hefði þó litla þýðingu fyrir okkur ef við fengjum ekki að búa þar með ástvinum okkar. Ert þú ekki á sama máli?“ Gefðu kost á svari. Flettu síðan upp á blaðsíðu 162 í Lifað að eilífu bókinni. Lestu Opinberunarbókina 21:3, 4 og bentu á hvernig ástvinir okkar geta alltaf verið hjá okkur. Ef viðbrögðin eru góð skaltu lesa Jóhannes 5:28, 29 til að sýna að dauðir muni lifna á ný. Bentu á kápu bókarinnar og segðu: „Það er í raun og veru satt — við getum lifað að eilífu í paradís á jörð!“ Segðu að þú viljir koma aftur til að ræða um hvernig við vitum að jörðin verði innan tíðar að paradís.
5 Megintilgangurinn með endurheimsókn er að hjálpa hinum áhugasama að hafa gagn af boðskapnum um Guðsríki. Flestir þurfa einhverja örvun til að hjá þeim vakni löngun í andlegt efni. Beindu athygli þeirra að sérstöku og hagnýtu efni í ritunum og leggðu áherslu á hvernig það geti hjálpað þeim að skilja Biblíuna betur. Endurheimsóknir, sem ná þessu markmiði, munu hjálpa öðrum að gera það sem kemur þeim að sem mestu gagni.