Hjálpum öðrum að gera það sem þeim er gagnlegt
1 Jehóva hefur lofað að kenna okkur það sem við þurfum að vita. Hann fullvissar okkur í Sálmi 32:8: „Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér.“ Þessi fullvissa er okkur mjög gagnleg. Ósérdræg viljum við sýna öðrum hvaða hagur er í því að fylgja viturlegum ráðum Biblíunnar. (Jes. 48:17) Í september getum við gert það með því að bjóða Lifað að eilífu bókina. Í kynningarorðum okkar getum við sýnt fram á hagnýtt gildi Biblíunnar.
2 Í ljósi þess hve hjúskaparvandamál eru tíð kannt þú að vilja vekja máls á eftirfarandi efni í „Lifað að eilífu“ bókinni:
◼ „Flestum sem ég hef talað við finnst ástæða til að hafa áhyggjur af aukningu hjúskaparvandamála og skilnaða. Hvað finnst þér um þau vandamál? [Gefðu kost á svari.] Margir hafa ekki komið auga á ástæðurnar sem að baki búa. Ef hjón leggja sig af einlægni fram geta þau ekki aðeins bjargað hjónabandi sínu heldur líka fundið sanna hamingju. Leiðin til árangurs er að fara eftir þeim ráðleggingum sem finna má í Biblíunni.“ Lestu Efesusbréfið 5:28, 29, 33. Flettu upp á blaðsíðu 243, ræddu um greinar 16 og 17 og bjóddu bókina.
3 Börn þurfa að fá „gæðatíma“ og gott uppeldi hjá foreldrum sínum. Þegar þú kynnir „Lifað að eilífu“ bókina gætir þú sagt:
◼ „Framtíðarheill barna okkar skiptir okkur öll miklu máli. Hver er að þínu áliti besta leiðin fyrir foreldra til að hjálpa börnum sínum að eignast örugga framtíð? [Gefðu kost á svari.] Hlustaðu á þennan biblíuorðskvið sem skrifaður er fyrir um 3000 árum. [Lestu Orðskviðina 22:6.] Þó að börnin okkar geti haft mikið gagn af fræðslunni sem þau fá í skóla hefur það uppeldi, sem þau fá heima hjá foreldrum sínum, langmesta gildið. Það krefst tíma, athygli og ástar en það er vel fyrirhafnarinnar virði.“ Flettu upp á blaðsíðu 245, ræddu um grein 20 og 21 og útskýrðu síðan hvernig fjölskyldan getur notað hana til að nema saman Biblíuna.
4 Þú vilt kannski bjóða „Lifað að eilífu“ bókina á þann hátt að benda á hvernig jörðin verður paradís:
◼ „Ég er viss um að þú hugleiðir stundum hvernig lífið verði í framtíðinni. Í faðirvorinu kenndi Jesús okkur að biðja um að vilji Guðs yrði gerður á jörðinni eins og á himni. Hvernig bústaður ætli jörðin verði þegar það gerist? [Gefðu kost á svari.] Hér hefur listamaður dregið upp mynd af paradís. [Bentu á myndina á blaðsíðu 12 og 13. Lestu síðan Jesaja 11:6-9 sem er vitnað í að hluta í grein 12.] Væri ekki dásamlegt að búa í slíkum heimi? Þessi bók sýnir þér hvernig þú og fjölskylda þín getið búið í paradís eins og hér er lýst.“
5 Það sem ræður hvað mestu um árangur er hvort þú undirbýrð kynningarorð þín fyrirfram. Áður en þú knýrð dyra skaltu vera viss um að hafa eitthvað ákveðið að segja um afmarkað, biblíulegt efni. Hafðu einnig í huga fáein orð um athyglisvert efni í blaði eða smáriti sem þú hyggst bjóða ef bókin er ekki þegin. Nýttu þér hvert tækifæri sem þér gefst til að sá sæði Guðsríkis í september. (Préd. 11:6) Þú munt þá hjálpa öðrum að uppskera blessun sem varir að eilífu.