Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 7.96 bls. 3-5
  • Landsmótið 1996 „Friðarboðberar Guðs“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Landsmótið 1996 „Friðarboðberar Guðs“
  • Ríkisþjónusta okkar – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Minnisatriði fyrir landsmótið
  • Umdæmismót Votta Jehóva 2009
    Ríkisþjónusta okkar – 2008
  • Umdæmismót Votta Jehóva 2008
    Ríkisþjónusta okkar – 2007
  • Brautryðjandastarf á unglingsárunum
    Ríkisþjónusta okkar – 2000
  • Ríkisþjónusta okkar fær nýtt útlit
    Ríkisþjónusta okkar – 1993
Ríkisþjónusta okkar – 1996
km 7.96 bls. 3-5

Landsmótið 1996 „Friðarboðberar Guðs“

1 Dagskrá landsmótsins í ár mun vissulega hjálpa okkur að varðveita þann frið sem Guð gefur og hún mun útskýra hlutverk okkar í að hjálpa öðrum að finna slíkan frið. Stef mótsins er „Friðarboðberar Guðs.“ Hefur þú komið málum þínum þannig fyrir að þú missir ekki af nokkrum dagskrárlið?

2 Þriggja daga mót: Við vitum að þú munt hafa mikla ánægju af mótinu á þessu ári og snúa heim með endurnýjuðum þrótti. (2. Kron. 7:10) Þetta árið höfum við aftur þriggja daga mót. Hefur þú þegar gert ráðstafanir til að fá frí úr vinnu til að geta sótt alla dagskrána? Dagskráin hefst alla dagana þrjá klukkan 9:30 og lýkur á sunnudeginum klukkan um það bil 16:00.

3 Verður þú brýndur? Eftir að hafa vitnað í Orðskviðina 27:17, „Járn brýnir járn, og maður brýnir mann,“ sagði í Varðturninum (á ensku), 15. ágúst 1993: „Við erum eins og verkfæri sem þarf að brýna reglulega. Það er ekki háttur heimsins að sýna kærleika til Jehóva og byggja ákvarðanir sínar á trúnni á hann og þess vegna verðum við sífellt að skera okkur úr, ryðja okkur, ef svo má segja, aðra leið en fjöldinn.“ Hvernig getum við fylgt þessum ráðum?

4 Við erum ólík heiminum og verðum að halda áfram að vera það. Við verðum án afláts að leggja það á okkur sem slík aðgreining krefst ef við eigum að vera kostgæfin til góðra verka. (Tít. 2:14) Þess vegna sagði áfram í greininni í Varðturninum sem vitnað var í hér að ofan: „Þegar við erum með öðrum sem elska Jehóva brýnum við hver annan — við hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka.“ Landsmótið er ein þeirra ráðstafana frá Jehóva sem hjálpar okkur að vera vel brýnd andlega. Við höfum ekki efni á að missa af nokkrum dagskrárlið.

5 Vitur maður hlustar: Að hlusta er list sem þarf að þroska með sér. Sagt hefur verið að meðalmaðurinn muni aðeins um helminginn af því sem hann hefur heyrt — alveg sama hversu vandlega hann telur sig hafa hlustað. Þar sem svo margt dreifir athygli okkar nú á tímum kann okkur stundum að reynast erfitt að einbeita okkur langa stund í einu. Getum við reynt að lengja þann tíma sem við höldum athygli okkar óskiptri við eitt efni, einkum þegar við sitjum í stórum áheyrendahópi og hlustum á ræðumann? Ef þú værir, þegar þú ert kominn heim eftir hvern mótsdag, beðinn um að draga saman í fáein orð það sem kom fram á dagskránni þann dag, gætir þú þá gert það? Hvernig getum við öll bætt hæfni okkar til að hlusta og taka vandlega eftir því sem fram kemur í sérhverjum dagskrárlið mótsins?

6 Minnið, sem Guð hefur gefið okkur, virkar ekki sem skyldi nema við höfum brennandi áhuga á efninu sem við viljum muna. Því meiri áhuga sem maður hefur á ákveðnu efni þeim mun auðveldara er að muna eftir meginatriðunum í ræðu eða mótsatriði um það. Samt er mikið undir því komið að við gefum því alveg sérstakan gaum sem við fáum að heyra á landsmótum. Brennandi áhugi okkar á sérhverjum dagskrárlið mótsins og sá gaumur sem við gefum honum snertir andlegt ástand okkar núna, svo og framtíðarhorfur okkar. Á mótunum lærum við um vegu Jehóva og fáum leiðbeiningar um hvernig við skulum framkvæma starf sem getur bjargað fólki. (1. Tím. 4:16) Líttu á þig sem skip í stórsjó. Fyrirheit Jehóva eru hið trausta akkeri vonarinnar. Ef einhver tekur illa eftir á kristnum samkomum og lætur hugann reika má vera að lífsnauðsynlegar ráðleggingar og leiðbeiningar, sem gætu forðað honum frá andlegu skipbroti, fari fram hjá honum. — Hebr. 2:1; 6:19.

7 Víða um heim leggja bræður okkar á sig mikið líkamlegt erfiði til að sækja samkomur. Það er stórkostlegt að sjá hversu athygli þeirra er rígbundin við það sem fram fer á mótunum. En á sumum stöðum hafa einstaklingar truflað aðra með því að rápa um mótsstaðinn meðan dagskráin stendur yfir. Aðrir koma seint. Á sumum mótum hefur verið erfitt að heyra hvað sagt er á sviðinu fyrstu mínúturnar eftir að dagskráin er hafin vegna þess að svo margir hafa enn verið á ferð um ganga og ekki fengið sér sæti. Aðrir rísa úr sætum sínum í miðri dagskrá, að því er virðist aðeins til að ráfa um. Þetta eru yfirleitt ekki bræður sem þurfa að sinna sérstökum þjónustustörfum á mótsstaðnum eða mæður að sinna smábörnum. Ónæðið kemur að mestu leyti frá fólki sem er aðeins að spjalla saman. Þetta árið munu umsjónarmenn á mótsstaðnum taka þetta vandamál fastari tökum og vonandi verðum við öll búin að fá okkur sæti þegar fundarstjórinn býður okkur að gera það. Góð samvinna ykkar í þessum málum er mikils metin.

8 Hvaða hagnýtar tillögur hjálpa okkur að halda athygli okkar betur bundinni við mótsdagskrána og muna meira af því sem borið er fram? Rétt er að endurtaka það sem sagt hefur verið á undanförnum árum: (a) Misstu ekki sjónar á aðalástæðunni fyrir því að þú ert kominn á mótið. Það er ekki til að taka þátt í skemmtun heldur til að hlýða á og læra. (5. Mós. 31:12) Reyndu að fá nægilegan svefn hverja nótt. Ef þú kemur mjög þreyttur til mótsins gengur þér illa að einbeita þér. (b) Gefðu þér góðan tíma til að leggja bílnum og koma þér í sæti þitt áður en dagskráin hefst. Ef þú ert að flýta þér til sætis á síðustu mínútu verður það yfirleitt til þess að þú missir af einhverju sem fram kemur í fyrsta dagskrárliðnum. (c) Skrifaðu hjá þér fáeina minnispunkta um lykilatriðin. Ef þú skrifar of mikið getur það gert þér erfitt fyrir að hlusta vel. Gættu þess að vera ekki svo upptekinn við að skrifa eitthvað hjá þér að þú missir af öðru. (d) Þegar nýr dagskrárliður er kynntur skaltu fyllast eftirvæntingu. Spyrðu sjálfan þig: ‚Hvað get ég lært af þessum dagskrárlið sem mun láta mig meta og elska Jehóva enn meir? Hvernig geta upplýsingarnar hjálpað mér að sýna hinn nýja persónuleika í enn ríkari mæli? Hvernig hjálpar þetta mér að taka framförum í boðunarstarfinu?

9 Hegðun sem er þjónustu okkar til prýði: Páll hvatti Títus til að sýna sjálfan sig „sem fyrirmynd í góðum verkum.“ Með því að vera grandvar í fræðslu sinni myndi Títus hjálpa öðrum að ‚prýða kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum.‘ (Tít. 2:7, 10) Ár hvert fáum við vingjarnlegar áminningar um hvers vegna hegðun, sem endurspeglar guðhræðslu, er svo mikilvæg þegar við erum á leið að eða frá mótsstaðnum og á mótinu sjálfu. Víða hefur fólk farið lofsorðum um hegðun votta Jehóva í tengslum við mótshald þeirra. Í langflestum tilfellum vinna þeir sér gott orð, bæði á gististöðum og á mótsstöðunum sjálfum.

10 Þó er þörf á að gera betur á nokkrum sviðum. Tekið hefur verið eftir að sum barnanna hlaupa um á mótsstaðnum í dagskrárhléum eða eru með ólæti þar sem fjölskyldan gistir meðan á mótinu stendur. Við þurfum að hjálpa börnum okkar að skilja að kristin hegðun stjórnast ekki af klukkunni. Við hættum ekki að hegða okkur eins og kristið fólk þegar dagskránni er lokið eða við komin í burt frá mótsstaðnum. Við erum kristin allan sólarhringinn. Hegðun okkar á gististöðum, veitingarstöðum og á strætum úti ætti að vera eins heiðvirð og þegar við sitjum með bræðrum okkar og hlýðum á mótsdagskrána og fáum fræðslu frá Jehóva. — Jes. 54:13; 1. Pét. 2:12.

11 Þó að ekki sé lengur afgreiddur matur á mótum okkar þarf enn að standa undir verulegum kostnaði í tengslum við leigu á mótsstað og stundum stólum og tækjabúnaði eða öðru sem til fellur. Frjálsu framlögin okkar standa undir slíkum útgjöldum. Systir með börn á unglingsaldri kom til mótsins með takmörkuð auraráð. Engu að síður lagði hún og börn hennar sitt af mörkum með lítils háttar framlagi. Það er mál hvers og eins hvað hann ákveður að gera í þessu sambandi en það er samt við hæfi að minnast á þetta hér. — Post. 20:35; 2. Kor. 9:7.

12 Við þekkjumst af klæðaburði okkar: Klæðaburður okkar segir mikið um okkur sjálf og um tilfinningar okkar til annarra. Flestir unglingar og margir hinna fullorðnu sjá allt í kringum sig í skólanum og á vinnustað drusluleg tískuuppátæki í klæðaburði. Fatastíll margra verður öfgafyllri með hverju árinu sem líður og er á köflum hneykslanlegur. Ef við erum ekki á varðbergi gætum við auðveldlega farið að klæðast eins og veraldlegir skóla- eða vinnufélagar okkar. Margur klæðastíll er ekki viðeigandi á samkomum þar sem menn eru komnir til að tilbiðja Guð. Í bréfi, sem barst eftir eitt af umdæmismótunum í fyrra, var lýst hrifningu með dagskrána en bætt við: „Ég var reglulega undrandi að sjá hve margar ungar stúlkur voru stuttklæddar, eða með háar klaufar í pilsunum og í flegnum bolum.“ Vissulega viljum við öll vera klædd á þann hátt sem hæfir kristnum þjónum orðsins, bæði á mótinu og þegar við blöndum saman geði að dagskrá lokinni. Okkur er það alltaf til gagns að hugleiða ráðleggingar Páls postula til kristinna manna um að ‚skrýða sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti.‘ — 1. Tím. 2:9.

13 Hver á að ákveða hvað sé „sæmandi“ búningur? Hvorki Félagið né öldungarnir eiga að setja reglur um klæðaburð eða snyrtimennsku. En ætti það ekki engu að síður að vera kristnum manni augljóst hvers konar stíll í klæðaburði sýni einfaldlega hvorki „blygð“ né „hóglæti,“ sé hvorki sómasamlegur né viðeigandi? (Samanber Filippíbréfið 1:10.) Klæðaburður okkar og snyrting ætti ekki að draga til sín ótilhlýðilega athygli. Útlit okkar þarf að vera viðfeldið, ekki veraldlegt eða óþægilegt fyrir aðra, til dæmis vegna skorts á hreinlæti. Ef klæðaburður okkar og snyrtimennska, á meðan við sækjum mótið, hæfir þjónum fagnaðarerindisins mun það heiðra Jehóva og gefa góða mynd af skipulagi hans. Foreldrar munu þar af leiðandi ganga á undan með góðu fordæmi og gæta þess að klæðaburður barna þeirra sé við hæfi. Öldungar munu vilja vera til fyrirmyndar og reiðubúnir til að koma með vingjarnlegar leiðbeiningar ef þörf krefur.

14 Myndavélar og upptökutæki: Leyfilegt er að nota myndavélar og önnur upptökutæki svo framarlega sem við sýnum öðrum fulla tillitssemi. Ef við erum á ferðinni á meðan á dagskránni stendur til að taka myndir truflum við ekki aðeins aðra sem eru að reyna að hlusta heldur missum við líka sjálf af hluta dagskrárinnar. Við höfum yfirleitt meira gagn af mótunum með því að hlusta vandlega á ræðumennina og skrifa hjá okkur fáein minnisatriði. Við erum ef til vill að taka upp dagskrána fyrir bróður eða systur sem ekki á heimangengt; fyrir okkar eigin not kunnum við hins vegar að komast að raun um þegar heim er komið að okkur gefst ekki tími til að hlusta nema á lítið brot af þeirri margra klukkustunda dagskrá sem við tókum upp á segulband.

15 Sæti: Undanfarin ár hefur verið lögð á það áhersla að við tökum ekki frá sæti nema fyrir nánustu ættingja og þá sem eru okkur samferða til mótsstaðarins. Þau tilmæli eru enn í fullu gildi. Vert er líka að taka fullt tillit til þeirra sem eru heyrnarskertir, bundnir við hjólastóla eða eiga við sérstök heilsufarsvandamál að stríða. Það yljar okkur um hjartaræturnar að sjá slíka bræður og systur með okkur á mótsstaðnum, staðráðin í að fara ekki í neinu á mis við hina andlegu fæðu.

16 Matarþarfir okkar á mótinu: Mörg jákvæð orð hafa heyrst um þá nýbreytni að afgreiða engan mat á mótunum og verður sá háttur hafður áfram á. Þú gætir gefið þér fáeinar mínútur til að líta yfir greinina á blaðsíðu 3-4 í Ríkisþjónustu okkar fyrir júní 1995, en þar er meðal annars að finna tillögur um hvers konar mat er hentugt að taka með sér á mótið. Mundu vinsamlega eftir að taka ekki með þér glerílát eða áfenga drykki inn á mótsstaðinn. Hafðu í huga að við neytum ekkert frekar matar meðan á mótsdagskránni stendur en að okkur detti í huga að gera slíkt á samkomum í ríkissalnum. Með því móti sýnum við virðingu fyrir þeirri ráðstöfun til tilbeiðslu sem mótið er og andlegu fæðunni sem þar er fram borin.

17 Landsmótið „Friðarboðberar Guðs“ hefst innan skamms. Hefur þú lokið því sem þú þarft að gera til að geta verið viðstaddur landsmótið? Ertu núna tilbúinn til að njóta þriggja daga ánægjulegs félagsskapar og andlegra góðgerða? Það er innileg bæn okkar að Jehóva blessi einlæga viðleitni þína til að sækja landsmótið í sumar.

Minnisatriði fyrir landsmótið

Barnavagnar: Ákveðinn staður í salnum verður afmarkaður fyrir barnavagna og barnakerrur. Fara skyldi mjög varlega við akstur slíkra tækja um mótsstaðinn. Einkum skyldi komið í veg fyrir gáleysislegan kerruakstur barna.

Einkennismerki mótsins: Vinsamlega hafið mótsmerkið uppi á mótinu sjálfu og á ferðum til og frá mótsstað. Oft er hægt að gefa góðan vitnisburð með þeim hætti, einkum þegar við erum á ferðinni til og frá mótsstaðnum. Mótsmerki og hulstur um þau verða ekki fáanleg á mótsstaðnum og ætti því hver og einn að útvega sér þau í heimasöfnuði sínum með góðum fyrirvara. Munið að bera á ykkur blóðkortið.

Gisting: Ef þú þarft á gistingu að halda skaltu hafa samband tímanlega við umsjónarmann í forsæti í þínum söfnuði.

Sjálfboðaþjónusta: Þó að ekki sé lengur boðið upp á veitingar á mótsstaðnum þarf mörgu að sinna, einkum fyrir og eftir mótið. Getur þú lagt fram hjálparhönd? Þjónusta við bræður okkar, þótt ekki sé nema fáeinar klukkustundir, getur komið að miklu gagni og veitt okkur verulega ánægju. Þú getur skráð þig á lista sem liggja mun frammi í söfnuði þínum, eða á lista hjá bókadeildinni á mótsstaðnum. Börn yngri en 16 ára þurfa að vinna með foreldrum sínum eða öðrum fullorðnum boðbera.

Skírn: Skírnþegar ættu að vera komnir í sæti sín fremst í salnum áður en dagskráin hefst á laugardagsmorgni. Hver sá sem ætlar að láta skírast skyldi taka með sér látlaus sundföt og handklæði. Að lokinni skírnarræðunni og bæn fá skírnþegar stuttar leiðbeiningar og síðan er sunginn söngur. Þegar honum lýkur fara skírnþegar til skírnarstaðarins.

Varnaðarorð: Göngum vel frá híbýlum okkar og bifreiðum og skiljum ekki verðmæti eftir í sjónmáli í bifreiðinni. Skiljið alls ekki verðmæti eða skilríki eftir í yfirhöfnum í fatahengi. Við getum ekki verið viss um að allir sem koma til mótsins séu kristnir einstaklingar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila